1945 nr. 7 12. janúar/ Lög um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum
Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 119. Uppfært til 1. október 1995.
Lög um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum
1945 nr. 7 12. janúar
I.Um jarðræktarsamþykktir.
1. gr. Búnaðarsamböndum er heimilt að setja sér samþykkt um, að sambandið taki að sér ákveðnar jarðræktarframkvæmdir á sambandssvæðinu, til þess að greiða fyrir eflingu jarðræktarinnar og koma til leiðar, að öll heyöflun bænda fari fram á véltæku landi. Jarðræktarframkvæmdir þær, sem hér um ræðir eru:
- 1.
- Framræsla.
- 2.
- Túnasléttun.
- 3.
- Nýrækt.
- 4.
- Sléttun engja.
2. gr. Nú ákveður búnaðarsambandsfundur að koma á jarðræktarsamþykkt fyrir sambandssvæðið, og skal þá stjórn sambandsins semja frumvarp að jarðræktarsamþykkt og senda það formönnum allra hreppabúnaðarfélaga innan sambandsins með tilmælum um, að það verði tekið fyrir á almennum fundi í félaginu, — enn fremur tilkynningu um, að frumvarpið verði tekið til fullnaðarafgreiðslu á næsta aðalfundi sambandsins.
Þegar frumvarp að samþykkt hefur fengið áðurgreindan undirbúning og hlotið samþykki meiri hluta hreppabúnaðarfélaga á sambandssvæðinu, skal það lagt fyrir aðalfund sambandsins.
Samþykki löglegur aðalfundur frumvarp með að minnsta kosti 3/5 atkvæða atkvæðisbærra fundarmanna, skal stjórn sambandsins senda samþykktina Búnaðarfélagi Íslands, er leitar á henni staðfestingar landbúnaðarráðherra.
3. gr. Nú hefur búnaðarsamband neitað að gera jarðræktarsamþykkt samkvæmt lögum þessum eða það hefur dregist eitt ár, eftir að tillaga hefur komið fram um það á sambandsfundi, og skal þá stjórn sambandsins skylt að gera tillögur um skiptingu sambandsins í samþykktarsvæði, enda liggi fyrir kröfur um það frá einu eða fleiri hreppabúnaðarfélögum innan sambandsins.
Við skiptinguna skal að því stefnt, þegar um búnaðarsambönd er að ræða, er ná yfir tvö eða fleiri sýslufélög, að hvert sýslufélag geti orðið samþykktarsvæði fyrir sig, eftir því sem unnt er og staðhættir leyfa. Jafnframt skal þess gætt, að ekkert byggðarlag á sambandssvæðinu verði útilokað frá þátttöku í ræktunarsamþykkt, sbr. þó 7. lið 5. gr. Lágmarksstærð samþykktarsvæðisins skal miða við, að nægileg verkefni séu fyrir hendi að dómi Búnaðarfélags Íslands fyrir eina vélasamstæðu um langt árabil og tryggt þyki, að vélarnar verði árlega starfræktar að fullu.
Nú hefur sambandsstjórn gert tillögur um skiptingu sambandsins í samþykktarsvæði eða ræktunarfélög, og skal hún þá leita um þær álits og tillagna Búnaðarfélags Íslands og hlutaðeigandi búnaðarfélaga. Stjórn sambandsins leggur því næst tillögur sínar ásamt umsögn Búnaðarfélags Íslands fyrir aðalfund sambandsins, sem tekur ákvörðun um skiptinguna. Ályktun sambandsfundar skal send Búnaðarfélagi Íslands til staðfestingar.
Nú telur Búnaðarfélag Íslands, að skiptin brjóti í bága við ákvæði laga þessara, og skal það þá synja um staðfestingu á þeim, þar til er bót hefur verið á því ráðin.
Þegar skiptin hafa hlotið staðfestingu, getur hvert samþykktarsvæði innan þess sambands, er skiptin ná til, sett sér ræktunarsamþykkt að eigin frumkvæði.
Öllum undirbúningi undir þessar samþykktir svo og starfsemi þeirri, sem til er stofnað með þeim, skal haga eftir því, sem við getur átt, svo sem fyrir er mælt í lögum þessum um samþykktir og starfsemi búnaðarsambanda.
Ræktunarfélög þau, er hér um ræðir, skulu velja sérstaka framkvæmdastjórn og starfa undir eftirliti hlutaðeigandi sambands og Búnaðarfélags Íslands.
4. gr. Í samþykktum skal kveða á um:
- 1.
- Verkefni, sem sambandið eða ræktunarfélagið tekur að sér.
- 2.
- Skipun og valdsvið framkvæmdastjórnar.
- 3.
- Hvernig framkvæmdum skuli hagað, þar á meðal, að þeir, er minnst véltækt land hafa, sitji fyrir vinnu, eftir því sem við verður komið, sbr. þó 7. lið 5. gr.
- 4.
- Að búnaðarsambandið eða ræktunarfélagið taki þær greiðslur fyrir ræktunarstörfin, að allur kostnaður fáist að fullu greiddur.
- 5.
- Fjáröflun og tryggingar fyrir fjárreiðum sambandsins eða ræktunarfélagsins.
- 6.
- Reikningshald og endurskoðun.
- 7.
- Hvernig samþykkt skuli breytt.
- 8.
- Hvernig samþykkt verði felld úr gildi.
Nú telur Búnaðarfélag Íslands, að samþykkt brjóti í bága við lög eða reglugerð eða hún fari í bága við tilgang laga þessara, og skal það þá endursenda hana með áritaðri athugasemd og fresta að leggja hana fyrir ráðherra, uns leiðrétting er fengin.
Þegar ráðherra hefur staðfest samþykktina, gildir hún upp frá því fyrir alla félagsmenn hreppabúnaðarfélaga á samþykktarsvæðinu, sbr. þó 7. lið 5. gr.
Ráðherra skipar fyrir um birtingu samþykktarinnar og tiltekur, hvenær hún öðlist gildi.
5. gr. Stjórn sambandsins annast með aðstoð Búnaðarfélags Íslands um eftirgreindar mælingar og athuganir á hverju samþykktarsvæði:
- 1.
- Stærð túna.
- 2.
- Stærð túnþýfis að flatarmáli á hverri jörð, sbr. bráðabirgðaákvæði jarðræktarlaganna frá 4. júlí 1942.1)
- 3.
- Ræktunarástand túnanna.
- 4.
- Skilyrði til nýræktar.
- 5.
- Framræslu á landi jarðarinnar og hvernig hún skuli unnin (vegna túnanna, fyrirhugaðrar nýræktar, engjaræktar og til hagabóta, ef þess er sérstaklega óskað).
- 6.
- Skilyrði til að gera engi véltæk eða auka þau.
- 7.
- Hvort einhverjar jarðir og þá hverjar falli undir ákvæði II. kafla jarðræktarlaga, nr. 54 4. júlí 1942, um búferlaflutning.1)
Kostnaður við athuganir og mælingar þær, er hér um ræðir, ásamt nauðsynlegri kortagerð greiðist að helmingi úr ríkissjóði, en hinn hlutinn greiðist að jöfnu af Búnaðarfélagi Íslands og hlutaðeigandi búnaðarsambandi.
1)Nú l. 56/1987.
6. gr. Ræktunarframkvæmdir, sem gerðar eru samkvæmt lögum þessum, skulu framkvæmdar eftir fyrirsögn trúnaðarmanns, er Búnaðarfélag Íslands samþykkir.
Ef jarðeigandi eða ábúandi, sé jörðin í leiguábúð, vill ekki hlíta ákvörðun trúnaðarmanns, getur hann skotið þeim til umsagnar Búnaðarfélags Íslands, sem fellir fullnaðarúrskurð um tilhögun verksins.
7. gr. Þegar jörð er í leiguábúð, skal stjórn sambandsins gefa leiguliða kost á að gerast þátttakandi í ræktunarstarfinu samkvæmt ákvæðum samþykktarinnar að jarðeiganda frágengnum, og fer þá um rétt ábúanda gagnvart jarðeiganda samkvæmt ákvæðum ábúðarlaganna.
8. gr. Nú hefur ræktunarsamþykkt verið sett samkvæmt lögum þessum, og skal þá [vélanefnd]1) ríkisins vera stjórn sambandsins eða framkvæmdastjórn samþykktarsvæðis til aðstoðar og leiðbeiningar um kaup og val nauðsynlegra jarðvinnsluvéla og verkfæra vegna hinna fyrirhuguðu framkvæmda.
[Vélanefnd]1) ákveður í samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands, hve margar vélar af hverri tegund njóti styrks úr framkvæmdasjóði ríkisins á hverju sambands- eða samþykktarsvæði, miðað við eðlilega þörf sambandsins, stærð þess, vélakost og vinnuafköst vélanna.
1)L. 62/1950, 1. gr.
9. gr. [Verja skal úr ríkissjóði á næstu 6 árum samtals allt að 6 millj. kr. til greiðslu helmings af kostnaðarverði þeirra véla og verkfæra, kominna á ákvörðunarstað, er vélanefnd telur þörf á til ræktunarframkvæmda samkvæmt lögum þessum. Þau ræktunarsambönd og félög skulu sitja fyrir um vélakaup, sem enn hafa ekkert fé fengið úr framkvæmdasjóði til kaupa á nauðsynlegum vélum og verkfærum, og enn fremur þau ræktunarsambönd og félög, er hafa keypt vélar, er reyndust lítt nothæfar fyrir íslenska staðhætti. Styrkurinn veitist aðeins til kaupa á nýjum og vönduðum vélum og greiðist jafnóðum og vélarnar eru keyptar.]1)
1)L. 26/1955, 1. gr.
10. gr. [Að fengnum tillögum framkvæmdastjórnar samþykktarsvæðis ákveður vélanefnd árlega fyrir hvert samþykktarsvæði gjald fyrir notkun véla og verkfæra, sem keypt eru og notuð samkvæmt lögum þessum. Ber að ákveða gjaldið þannig, að það nægi fyrir öllum venjulegum rekstrarkostnaði, og sé þar með talið hæfilegt viðhalds- og fyrningargjald, er miðist við, að það nægi til að endurnýja vélar og verkfæri, jafnóðum og þau verða ónothæf. Nú reynist gjaldið of lágt til að standa undir rekstrarkostnaði eitthvert ár, og ber vélanefnd þá að ákveða viðbótargjald fyrir vélanot það ár. Vélanefnd ákveður hvað sé hæfilegt að leggja til hliðar fyrir viðhaldskostnaði, og enn fremur ákveður hún fyrningargjaldið. Nú er vél ekki notuð einhvern tíma eða minna en meðalnotkun slíkrar vélar nemur, og er vélanefnd þá heimilt að lækka fyrningargjaldið hlutfallslega.
Búnaðarfélag Íslands skal innheimta fyrningargjaldið í lok hvers reikningsárs og leggja það í sérstakan fyrningarsjóð, er verði í vörslu þess.
Búnaðarfélag Íslands annast reikningshald sjóðsins og ávísar úr honum eftir tillögum vélanefndar ríkisins. Hvert samband heldur séreign sinni í sjóðnum. Fyrningarsjóðinn skal ávaxta í Búnaðarbanka Íslands. Þó er heimilt að ávaxta séreignir einstakra ræktunarsambanda í sparisjóðum eða bönkum, er starfandi eru á svæði hlutaðeigandi búnaðarsambands. Hvert ræktunarsamband skal í lok hvers reikningsárs senda Búnaðarfélagi Íslands reikning ræktunarsambandsins og skýrslu um starfsemi þess á árinu, ásamt skilagrein fyrir fyrningargjaldinu.
Óheimilt er Búnaðarfélagi Íslands að greiða jarðræktarframlag einstaklingum eða félögum innan ræktunarsambands, meðan það eða þau hafa ekki gert full reikningsskil að dómi stjórnar Búnaðarfélags Íslands (sbr. jarðræktarlög). Nú hafa reikningar og skilagrein ekki borist stjórn Búnaðarfélags Íslands fyrir byrjun júnímánaðar næst eftir lok reikningsárs ræktunarsambands eða félags, og er stjórn Búnaðarfélags Íslands þá heimilt að kveða svo á, að stjórn eða framkvæmdastjóri hlutaðeigandi ræktunarsambands eða félags greiði dagsektir, sem hún ákveður, allt að 100,00 kr., þar til úr þessu er bætt að dómi stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Sektirnar renna í vélasjóð.
Heimilt er ræktunarsamböndum og félögum með samþykki Búnaðarfélags Íslands að hafa allt að helmingi fyrningargjaldsins í rekstri sínum gegn sýsluábyrgð og sömu vöxtum og innlánsvextir í Búnaðarbankanum eru.]1)
1)L. 26/1955, 2. gr.
11. gr. [Vélanefnd ríkisins skal í samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands hafa eftirlit með]1) vélum þeim og verkfærum, sem keypt eru og notuð samkvæmt ákvæðum laga þessara, viðgerð þeirra og viðhaldi svo og, ef þess er óskað, öðrum vélknúnum tækjum, sem notuð eru í sambandi við jarðræktarframkvæmdir í sveitum. Skal hún hafa í þjónustu sinni nægilega marga vélfróða menn til að annast eftirlit þetta. Vanræki búnaðarsamband eða ræktunarfélag viðhald véla þessara, [að dómi vélanefndar ]1) eða neiti að hlíta fyrirmælum hennar þar að lútandi, skal það varða sektum eða endurgreiðslu styrksins, ef um miklar sakir er að ræða.
1)L. 62/1950, 4. gr.
12. gr. [Búnaðarfélag Íslands og vélanefnd ríkisins skulu halda námskeið fyrir þá menn, er eiga að vinna með vélknúnum jarðvinnslutækjum, enda hafa þeir menn einir rétt til að vinna með slíkum tækjum, sem eru viðurkenndir til þess hæfir af vélanefnd ríkisins. Kostnaður samkvæmt 11. og 12. gr. greiðist úr ríkissjóði.]1)
1)L. 62/1950, 5. gr.
13. gr. Heimilt er stjórn sambands eða samþykktarsvæðis, sem hefur sett sér jarðræktarsamþykkt, að láta ræsa fram bithaga, ef eigandi jarðarinnar óskar þess og trúnaðarmaður sá, er framkvæmdi mælingarnar á jörðinni, telur þessa jarðabót nauðsynlega vegna búrekstrar þar.
14. gr. [Nú hefur jarðræktarsamþykkt verið komið á og starfsemi hafin samkvæmt fyrirmælum hennar, og skal þá stjórn Búnaðarfélags Íslands senda hlutaðeigandi sambandi óskert jarðræktarframlag hvers samþykktarsvæðis, nema það hafi ekki lagt í fyrningarsjóð, svo sem lög og reglugerð mæla fyrir um, en þá er henni skylt að draga þá fjárhæð, sem vangreidd er, frá jarðræktarframlagi því, er greiða ber vegna jarðabóta, sem unnar eru að öllu eða einhverju leyti með vélum og verkfærum hlutaðeigandi ræktunarsambands og á félagssvæði þess. Ákvæði þetta kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1956 og verður aðeins beitt um fyrningarsjóðsgjald og jarðræktarframlög, er falla í gjalddaga í árslok 1955 og síðar.]1)
1)L. 26/1955, 3. gr.
II.Um húsagerðarsamþykktir.
15. gr. Búnaðarsamböndum er heimilt að setja sér samþykkt um, að þau taki að sér byggingu íbúðar- og útihúsa á sambandssvæðinu á þann hátt, að þau ráði til sín flokka byggingarmanna og leggi þeim til fullkomnar vélar og tæki við vinnuna. Með samþykktinni skal stefnt að því að hraða húsabótum og öðrum byggingarframkvæmdum í sveitum og að bændur fái með þessum hætti svo vönduð, hagkvæm, smekkleg og ódýr hús sem kostur er á. Við framkvæmdir þessar sé þess gætt, að þeir, er hafa mesta þörf fyrir nýbyggingar, sitji fyrir, eftir því sem unnt er.
Byggingarframkvæmdir þær, er hér um ræðir, eru:
- 1.
- Íbúðarhús.
- 2.
- Peningshús.
- 3.
- Hlöður og súrheystóftir.
- 4.
- Haughús, þvaggryfjur og safnþrær.
- 5.
- Geymsluhús.
Húsin afhendist fokheld, nema öðruvísi sé um samið.
Um sambönd, sem ná yfir tvö eða fleiri sýslufélög, gilda ákvæði 3. gr.
16. gr. Nú ákveður sambandsfundur að koma á húsagerðarsamþykkt, og skal þá undirbúningi og framkvæmdum hagað samkvæmt fyrirmælum 2. og 3. gr.
17. gr. Í húsagerðarsamþykktum skal tekið fram um:
- 1.
- Verkefni þau, sem sambandið tekur að sér, sbr. 15. gr.
- 2.
- Skipun og valdsvið framkvæmdastjórnar.
- 3.
- Hvernig framkvæmdum skuli hagað, þar á meðal, að nauðsynlegt byggingarefni sé ávallt fyrir hendi, er vinnan hefst.
- 4.
- Að búnaðarsambandið taki þær greiðslur fyrir byggingarstörfin, að allur kostnaður fáist að fullu greiddur.
- 5.
- Fjáröflun og tryggingar fyrir fjárreiðum sambandsins.
- 6.
- Reikningshald og endurskoðun.
- 7.
- Hvernig samþykkt skuli breytt.
- 8.
- Hvernig samþykkt verði felld úr gildi.
18. gr. Nú er samþykkt staðfest og undirbúningur hafinn til framkvæmda, og ber þá teiknistofu landbúnaðarins að láta byggingarfróða menn athuga og gera tillögur um, hvar og hvernig húsum verði best fyrir komið á þeim jörðum, þar sem óskað er aðstoðar sambandsins um húsagerð og annað, er að byggingu lýtur. Trúnaðarmenn þessir skulu jafnframt leita álits jarðeiganda eða leiguliða, ef um erfðaábúð er að ræða, og taka í tillögum sínum tillit til óska þeirra, eftir því sem fært þykir.
Kostnaður við þessa athugun greiðist af teiknistofu landbúnaðarins.
19. gr. Byggingar, sem reistar eru samkvæmt ákvæðum laga þessara, skulu gerðar eftir teikningu og fyrirsögn teiknistofu landbúnaðarins eða trúnaðarmanna hennar. Nú er kostnaðarmaður byggingar óánægður með tillögur þær, er fyrir liggja, og getur hann þá skotið þeim til umsagnar Búnaðarfélags Íslands, er fellir um þær fullnaðarúrskurð.
20. gr. Nú hefur húsagerðarsamþykkt verið sett samkvæmt lögum þessum, og skal þá forstöðumaður teiknistofu landbúnaðarins vera stjórn sambandsins til aðstoðar um kaup og val hentugra veggjamóta ásamt vélum og verkfærum, sem nota þarf við hinar fyrirhuguðu byggingar. Forstöðumaður teiknistofunnar ákveður í samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands, hve mörg veggjamót og vélar skal kaupa, miðað við byggingarþörf hvers sambands og afköst vélanna.
Þar, sem rætt er um veggjamót í lögum þessum, er um að ræða mót af varanlegri gerð, sem auðvelt er að flytja milli vinnustaða.
21. gr. [Ríkissjóður greiðir styrk, 2/3 af kostnaðarverði þeirra veggjamóta, véla og verkfæra, kominna á ákvörðunarstað, er forstöðumaður teiknistofu landbúnaðarins og nýbýlastjórn telja samböndunum þörf á til byggingarstarfsemi þeirra. Styrkur veitist aðeins til kaupa á nýjum og vönduðum tækjum.]1)
1)L. 29/1948, 1. gr.
22. gr. Reikna skal sérstakt viðhalds- og fyrningargjald af veggjamótum, vélum og verkfærum, sem keypt hafa verið með styrk frá byggingarsjóði og nýbýlasjóði, á sama hátt og segir í 10. gr. Búnaðarfélag Íslands ávísar greiðslum úr fyrningarsjóðnum samkvæmt tillögum forstöðumanns teiknistofu landbúnaðarins. Að öðru leyti skal hlíta um þetta ákvæðum 10. gr., eftir því sem við á.
23. gr. Verkstjórar vinnuflokka þeirra, sem um ræðir í 15. gr., skulu ráðnir í samráði við forstöðumann teiknistofu landbúnaðarins, sem hefur eftirlit með störfum þeirra.
24. gr. Styrkir, sem greiddir eru af opinberu fé vegna bygginga í sveitum, skulu, þegar byggingarnar eru reistar samkvæmt samþykktum þeim, sem hér um ræðir, greiðast óskertir — að frádregnu fyrningargjaldi samkvæmt 28. gr. — til hlutaðeigandi sambandsstjórna, nema þær leggi annað fyrir.
25. gr. Nú hefur nýbýlasjóður heitið styrk til húsagerðar, er búnaðarsamband hefur tekið að sér samkvæmt lögum þessum, og á þá sambandið kröfu til, að sjóðurinn greiði styrkinn, þegar er verkið er hafið af vinnuflokkum þess, þó ekki hærri fjárhæð en svarar vinnulaunum við að gera húsið fokhelt.
III.Almenn ákvæði.
26. gr. Búnaðarsamböndum, sem taka að sér jarðræktar- eða húsagerðarframkvæmdir samkvæmt lögum þessum, ber að tryggja sér fulla greiðslu fyrir framkvæmdir sínar hjá kostnaðarmanni framkvæmdarinnar, áður en vinna hefst.
27. gr. Skuldir, sem myndast kunna við búnaðarsamband samkvæmt lögum þessum, eru forgangsskuldir, tryggðar með veði í jörð þeirri, er framkvæmdin hefur verið gerð á, næst á eftir þeim lánum, er á jörðinni hvíldu, er framkvæmdin hófst, og víkja aðeins fyrir opinberum gjöldum — og fylgifjárkröfu, ef um óðalsjarðir er að ræða.
Skuldir þessar má taka lögtaki.
28. gr. Um nánari framkvæmd laga þessara setur Búnaðarfélag Íslands reglugerð, er landbúnaðarráðherra staðfestir.1)
1)Rg. 36/1946
(um jarðræktarsamþ.), rg. 88/1947 (um húsagerðarsamþ.).
29. gr. Brot gegn lögum þessum og reglugerð varðar sektum til ríkissjóðs ...1) nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Mál út af brotum skulu sæta meðferð opinberra mála.
1)L. 10/1983, 37. gr.