1985 nr. 28 4. júní/ Lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum
Prenta í tveimur dálkum. Útgáfa 119. Uppfært til 1. október 1995.
Lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum
1985 nr. 28 4. júní
1. gr. Vinna skal að vörnum gegn tjóni og slysum af völdum snjóflóða og skriðufalla svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.
Samheitið ofanflóð er hér eftir notað um snjóflóð og skriðuföll.
2. gr. Meta skal hættu á ofanflóðum í þeim sveitarfélögum þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku.
Hættumat skal ná til byggðra svæða, svo og annarra svæða sem skipuleggja skal.
Taka skal fullt tillit til hættumats við skipulagningu nýrra svæða og skal matið lagt fram sem fylgiskjal með skipulagstillögu.
3. gr. Almannavarnir ríkisins skulu annast hættumat, setja reglur1) um forsendur og aðferðir við gerð þess, um flokkun hættusvæða og nýtingu þeirra, svo og gerð varnarvirkja.
Reglur þessar skulu staðfestar af félagsmálaráðherra.
Almannavarnir ríkisins skulu einnig annast gerð neyðaráætlana og sjá um leiðbeiningar og almenningsfræðslu um hættu af ofanflóðum.
1)Rg. 376/1995
.
4. gr. Sérstök nefnd, ofanflóðanefnd, skal vera Almannavörnum ríkisins til ráðuneytis um þessi mál.
Almannavarnir ríkisins, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Skipulagsstjórn ríkisins, Veðurstofa Íslands og Viðlagatrygging Íslands tilnefna sinn manninn hver í nefndina. Fulltrúi Almannavarna ríkisins skal vera formaður.
Verkefni ofanflóðanefndar er að fjalla um tillögur sem berast og gera endanlegar tillögur til Almannavarna ríkisins um allt sem varðar varnir gegn ofanflóðum.
5. gr. Veðurstofa Íslands skal annast öflun gagna um snjóflóð og snjóflóðahættu og úrvinnslu úr þeim. Hún skal annast mælingar á snjóalögum og rannsóknir á þeim með sérstöku tilliti til snjóflóðahættu og gefa út viðvaranir um hana.
6. gr. [Lögreglustjórar skulu ráða starfsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af snjóflóðum og/eða skriðuföllum í þeim umdæmum þar sem þörf er á slíkum athugunum að mati Almannavarna ríkisins. Lögreglustjórar skulu hafa samráð við sveitarstjórnir og almannavarnanefndir í umdæmi sínu, svo og Veðurstofu Íslands, við ráðningu þessara starfsmanna.
Starfsmenn, sem ráðnir eru skv. 1. mgr., skulu starfa undir stjórn viðkomandi lögreglustjóra, en athuganir þeirra skulu gerðar í samræmi við vinnureglur og önnur fyrirmæli Veðurstofu Íslands. Við athuganir sínar skulu starfsmennirnir hafa samráð við viðkomandi sveitarstjórnir eftir því sem frekast er unnt. Veðurstofan skal annast þjálfun starfsmannanna.]1)
1)L. 50/1995, 1. gr.
7. gr. Sveitarstjórn lætur gera tillögu að varnarvirkjum fyrir hættusvæði sem byggð eru eða byggð verða samkvæmt aðalskipulagi.
[Sé hagkvæmara talið, til að tryggja öryggi íbúa gagnvart ofanflóðum, er sveitarstjórn heimilt að gera tillögu um að kaupa húseignir í stað annarra varnaraðgerða sem ofanflóðasjóður fjármagnar að hluta eða öllu leyti samkvæmt þessum lögum. Um greiðslur til sveitarfélags vegna slíkra kaupa fer skv. 4. tölul. 1. mgr. 11. gr. Náist ekki samkomulag um kaup á húseign er sveitarstjórn heimilt að taka eignina eignarnámi.]1)
Ekki má hefja byggingar á óbyggðum hættusvæðum né þétta þá byggð, sem fyrir er á hættusvæðum, fyrr en tilskildum varnarvirkjum hefur verið komið upp.
1)L. 50/1995, 2. gr.
8. gr. Tillögur sveitarstjórnar ásamt framkvæmda- og kostnaðaráætlun skulu lagðar fyrir Almannavarnir ríkisins og öðlast gildi að fengnu samþykki þeirra og staðfestingu félagsmálaráðherra.
9. gr. Sveitarstjórnir skulu annast framkvæmdir hver í sínu umdæmi í samræmi við samþykktar áætlanir. Framkvæmdir skulu unnar á grundvelli útboða þar sem því verður við komið. Áður en framkvæmdir hefjast skal liggja fyrir staðfesting ráðherra, sbr. 8. gr.
[Sveitarstjórn ber ábyrgð á viðhaldi varnarvirkja.]1)
1)L. 50/1995, 3. gr.
10. gr. Stofna skal sérstakan sjóð, ofanflóðasjóð, er sé í vörslu Viðlagatryggingar Íslands. Tekjur sjóðsins skulu vera:
- 1.
- [5% af árlegum heildariðgjaldatekjum Viðlagatryggingar Íslands. Á árunum 1995–99, eða vegna fimm næstu iðgjaldaára, verða þær þó 10% aukaálag á iðgjöld viðlagatrygginga samkvæmt lögum nr. 36/1995 og á árunum 1995–2000, eða vegna sex næstu iðgjaldaára, 38% af heildariðgjaldatekjum Viðlagatryggingar Íslands.]1)
- 2.
- Árlegt framlag á fjárlögum í samræmi við framkvæmdaáætlun sem lögð skal fram við gerð fjárlaga hverju sinni.
- 3.
- Aðrar tekjur.
1)L. 102/1995, 1. gr.
11. gr. [Fé ofanflóðasjóðs, sbr. 10. gr., skal notað til að greiða kostnað við varnir gegn ofanflóðum sem hér segir:
- 1.
- Greiða skal allan kostnað vegna athugana skv. 6. gr. í samræmi við nánari reglur sem félagsmálaráðherra setur.
- 2.
- Greiða skal allan kostnað við gerð hættumats.
- 3.
- Greiða má allt að 100% af kostnaði við kaup og uppsetningu á tækjum og búnaði sem sérstaklega er aflað til rannsókna og eftirlits með ofanflóðahættu. Sama gildir um kostnað við rannsóknir sem miða að því að bæta hönnun og auka nýtingu varnarmannvirkja.
- 4.
- Greiða má allt að 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki. Kostnaður við kaup á löndum, lóðum og húseignum auk kostnaðar við flutning þeirra vegna varna telst með framkvæmdakostnaði.
- 5.
- Greiða má allt að 60% af kostnaði við viðhald varnarvirkja.
Félagsmálaráðherra ákveður úthlutun úr ofanflóðasjóði að fengnum tillögum Almannavarna ríkisins. Ráðherra er heimilt að veita sveitarfélögum lán úr ofanflóðasjóði sem nemur kostnaðarhlut þeirra skv. 4. tölul. 1. mgr., enda sé viðkomandi sveitarfélagi fjárhagslega ofviða að leggja fram sinn kostnaðarhlut. Um lánskjör fer eftir nánari ákvörðun ráðherra.]1)
1)L. 50/1995, 4. gr.
12. gr. Fella skal niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og sölugjald af efni og tækjum sem flutt eru sérstaklega til landsins til varna gegn ofanflóðum.
13. gr. Kostnaður vegna ofanflóðanefndar, sbr. 4. gr., greiðist úr ríkissjóði.
14. gr. Félagsmálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
15. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.