Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi er háð eftirfarandi takmörkunum:
- 1.
- Íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eign íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt lögum nr. 33 19. júní 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi.1)
- 2.
- Íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi, en með vinnslu sjávarafurða er hér átt við frystingu, söltun, herslu, reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi telst hins vegar ekki umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.
- 3.
- Íslenska ríkið, sveitarfélög, íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu.
- 4.
- Samanlagður eignarhluti erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki, sem stundar flugrekstur hér á landi, má á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%.
- 5.
- Erlendir aðilar mega eiga 25% hlutafjár í íslenskum viðskiptabanka sem rekinn er af hlutafélagi.
Frá 1. janúar 1992 er erlendum hlutafélagsbönkum, sem eru skráðir erlendis og eiga þar varnarþing, heimilt að starfrækja rekstur útibúa hér á landi að fengnu leyfi viðskiptaráðherra.
- 6.
- Fjárfesting erlends ríkis eða fyrirtækis í eigu erlends ríkis í atvinnurekstri hér á landi er óheimil nema með sérstöku leyfi viðskiptaráðherra.
- 7.
- Fari heildarfjárfesting erlends aðila eða samanlögð fjárfesting fjárhagslega tengdra erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi fram úr 250 milljónum króna á einu almanaksári skal fjárfesting umfram fyrrgreind viðmiðunarmörk háð sérstöku leyfi viðskiptaráðherra. Viðmiðunarmörkin miðast við lánskjaravísitölu í júní 1990, 2887 stig, og breytist í samræmi við breytingar sem verða á henni til hækkunar eða lækkunar. Fjárfesting erlends aðila telst eiga sér stað í skilningi þessa töluliðar þegar tilkynningarskylda stofnast, sbr. 5. gr. Heildarfjárfesting erlendra aðila í hverri atvinnugrein fyrir sig má ekki fara yfir 25% nema til komi leyfi viðskiptaráðherra. Með heildarfjárfestingu í atvinnugrein er átt við áætlaða fjárfestingu í iðnaði, öðrum en orkufrekum iðnaði, verslun og þjónustu, samgöngurekstri og fiskeldi samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar.
- 8.
- Nú vill erlendur aðili reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni og skal þá svo með fara:
- a.
- Sé um að ræða einstakling sem búsettur er erlendis skal honum óheimilt að vinna sjálfstætt eða starfrækja eigið atvinnufyrirtæki eða taka þátt í fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð hér á landi, nema með sérstöku leyfi viðskiptaráðherra, enda sé lögheimili hér á landi ekki óundanþægt skilyrði samkvæmt lögum um viðkomandi atvinnugrein eða veiting undanþágu frá lögheimilisskilyrði falin öðrum. [Ríkisborgarar aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir ákvæðum þessa liðar.]2)
- b.
- Um rétt hlutafélags, sem á heimili erlendis, til að starfa hér á landi fer samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög.
- c.
- Viðskiptaráðherra getur veitt öðrum lögaðilum sem heimili eiga erlendis leyfi til að starfa hér á landi, enda sé þá að því er varðar slíka lögaðila og starfsemi þeirra hér á landi fullnægt sömu skilyrðum og fylgt sömu meginreglum og að því er varðar erlend hlutafélög, sbr. b-lið hér að framan. Útibú slíks lögaðila skal skráð í firmaskrá á heimilisvarnarþingi útibúsins. [Lögaðilar með heimili í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir ákvæðum þessa liðar.]3)
- 9.
- Erlendum aðila er heimilt að öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni samkvæmt ákvæðum laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.
Ef erlendur aðili sem veðhafi eignast fasteign hér á landi við útgáfu [afsals við nauðungarsölu]4) eða með samningum til lúkningar veðskuldar og veðhafinn hefur eigi eignarhaldsrétt samkvæmt lögum nr. 19/1966 skal hann selja eignina svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tólf mánuðum eftir að eignin komst í hans eigu. Sama gildir um erlendan veðhafa sem eignast á sama hátt eignarréttindi sem honum er óheimilt að eiga skv. 4. gr.
1)Nú l. 13/1992.2)L. 121/1993, 2. gr.3)L. 121/1993, 3. gr.4)L. 90/1991, 91. gr.