Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 135 . mál.


Nd.

238. Nefndarálit



um frv. til l. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði var upphaflega lagður á árið 1979 sem tímabundin tekjuöflun, en hefur þó verið framlengdur árlega síðan um eitt ár í senn. Álagningarhlutfall var í fyrstu 1,4% en hefur frá árinu 1984 verið 1,1% af fasteignamatsverði verslunar- og skrifstofuhúsnæðis.
    Núverandi ríkisstjórn hyggst nú tvöfalda skatthlutfallið í 2,2% sem jafngildir 140% hækkun þegar tekið hefur verið tillit til hækkunar fasteignamats milli áranna 1988 og 1989. Þannig mun aðili, sem í ár greiddi 100 þús. kr. í þennan skatt, þurfa að inna af hendi 240 þús. kr. á næsta ári.
    Slík hækkun á einum skatti milli ára á sér fá ef nokkur fordæmi og er að dómi undirritaðra algerlega óréttlætanleg, ekki síst þegar þess er gætt að gjaldþol greiðenda þessa skatts fer nú í mörgum tilvikum minnkandi með samdrætti í atvinnulífinu.
    Raunar stefna eignarskattshækkanir núverandi ríkisstjórnar í áður óþekktar stærðir, því að af skrifstofu- og verslunarhúsnæði í Reykjavík, sem er yfir 6 millj. kr. að fasteignamati, verður á næsta ári að greiða 6,4% í eignarskatta og fasteignagjöld nái stefna ríkisstjórnarinnar fram að ganga. Þar af rynnu 5,15% til ríkisins í stað 2,3% í ár, en 1,25% til borgarinnar.
    Hækkun núverandi ríkisstjórnar nemur því 2,85% af fasteignamati nái þessi áform fram að ganga. Slík stökkbreyting í skattlagningu er ekki aðeins gífurleg íþynging gagnvart þeim gjaldendum sem í hlut eiga heldur einnig efnahagsleg fásinna.
    Eign sem ber 6,4% skatt verður að skila eiganda 6,4% raunávöxtun til þess eins að unnt sé að greiða skattinn. Eignarskatturinn jafngildir í því tilviki 100% tekjuskatti af eignatekjunum. Til þess að skattur á þessar eignatekjur væri sambærilegur við hinn almenna tekjuskatt einstaklinga, eins og ríkisstjórnin ráðgerir að breyta honum, þ.e. 37,2%, þyrfti raunávöxtun eignarinnar að vera 17,2%. Stingur slík ávöxtunarkrafa mjög í stúf við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að ná niður vaxtastiginu í landinu. Jafnframt hlýtur að verða að ætla að slík skattheimta útiloki frekari áform um skattlagningu fjármagnstekna sem þessara.
    Fulltrúi Borgaraflokksins í nefndinni leggur til að frumvarpið verði fellt.
    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins mun vegna slæmrar stöðu ríkissjóðs flytja breytingartillögu þess efnis að álagningarhlutfall þessa skatts verði óbreytt frá því sem verið hefur, 1,1%. Verði sú breytingartillaga felld leggur hann til að frumvarpið verði fellt.

Alþingi, 14. des. 1988.



Geir H. Haarde,

Ingi Björn Albertsson,


frsm.

fundaskr.