Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 1 . mál.


Ed.

531. Frumvarp til laga



um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.

(Eftir 3. umr. í Nd., 21. febr.)



    Samhljóða þskj. 516 með þessum breytingum:

    2. gr. hljóðar svo:
    Þeir, sem lög þessi taka til og hafa atvinnu af viðskiptum með verðbréf, skulu afla glöggra upplýsinga um hverjir viðskiptamenn þeirra eru, þ.e. skrá nöfn þeirra, kennitölur og heimili á reikninga eða uppgjör vegna viðskiptanna. Einnig ber öllum, sem atvinnu hafa af viðskiptum með verðbréf, að geyma afrit eða ljósrit af öllum skjölum, sérgerðum vegna viðskiptanna. Um geymsluskyldu skal fara eftir almennum bókhaldsreglum.
    Sérhverjum þeim aðila, sem býr yfir trúnaðarupplýsingum um útgefanda markaðsverðbréfa eða um önnur atriði sem ekki hafa verið gerð opinber en líklegar eru til þess að hafa veruleg áhrif á markaðsverð bréfanna ef opinberar væru, er óheimilt að kaupa eða selja viðkomandi verðbréf fyrir eigin reikning eða reikning vandamanna sinna í þeim tilgangi að hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón. Hann má heldur ekki veita öðrum aðila vitneskju byggða á trúnaðarupplýsingum sem ætla verður látna í té í því skyni að sá aðili hagnist eða forðist fjárhagslegt tjón með kaupum eða sölu verðbréfanna. Ákvæði þetta tekur jafnt til einstaklinga sem lögaðila.

    15. gr. hljóðar svo:
    Almennt útboð markaðsverðbréfa annarra en ríkisskuldabréfa, skuldabréfa með ríkisábyrgð og ríkisvíxla skal fara fram með milligöngu verðbréfafyrirtækja. Þó er hlutafélögum, er hafa til þess heimild Verðbréfaþings Íslands, heimilt að annast sjálf útboð markaðsverðbréfa sinna. Markaðsútgáfu verðbréfa skal tilkynna til Seðlabanka Íslands eigi síðar en viku fyrir upphaf sölu ásamt upplýsingum um öll helstu einkenni útgáfunnar svo sem fjárhæð, fyrirhugað sölutímabil, sölustaði og sameiginleg einkenni
bréfanna. Seðlabanki Íslands getur sett nánari reglur um gerð útboðsgagna og hann getur sett reglur um fyrsta söludag einstakra verðbréfaflokka í því skyni að koma í veg fyrir sveiflur í framboði nýrra verðbréfa á verðbréfamarkaðnum.
    Við lok sölu eða í lok hvers ársfjórðungs, séu þau fyrr, skal verðbréfafyrirtæki tilkynna Seðlabankanum um heildarsölu bréfa í flokknum á nafnverði og markaðsverði samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum og í lok hvers árs skal enn fremur tilkynna um útistandandi eftirstöðvar í flokknum. Sama gildir um almennt útboð markaðsverðbréfa á vegum annarra aðila eftir því sem við á. Seðlabanki Íslands skal birta reglulega upplýsingar um markaðsverðbréf samkvæmt þessari grein.