Ferill 371. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 371 . mál.


Ed.

694. Frumvarp til laga



um brottfall ýmissa laga á sviði menntamála.


(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Lög nr. 23 26. apríl 1963, um Kennaraskóla Íslands, falli úr gildi.

2. gr.

    Lög nr. 14 23. júní 1932, um opinbera greinargerð starfsmanna ríkisins, falli úr gildi.

3. gr.

    Lög nr. 32 7. maí 1928, um sundhöll í Reykjavík, falli úr gildi.

4. gr.

    Lög nr. 23. 2. nóvember 1914, um friðun héra, falli úr gildi.

5. gr.

    Lög nr. 39 27. júní 1925, um heimild fyrir sýslu- og bæjarfélög til að skylda unglinga til sundnáms, falli úr gildi.

6. gr.

    Lög nr. 28 1. febrúar 1936, um heimild fyrir sýslu- og bæjarfélög að starfrækja lýðskóla með skylduvinnu nemenda gegn skólaréttindum, falli úr gildi.

7. gr.

    Lög nr. 76 4. júlí 1942, um styrk til Íslendinga vestan hafs til náms í íslenskum fræðum í Háskóla Íslands, falli úr gildi.

8. gr.

    Lög nr. 19 14. apríl 1967, um afnám heimildar til einkasölu á viðtækjum, falli úr gildi.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta hefur verið samið í menntamálaráðuneytinu í því skyni að afnema ýmis lög sem hafa ekki lengur neinu hlutverki að gegna. Með þessu er stuðlað að nauðsynlegri lagahreinsun í Lagasafni Íslands en útgáfa þess er nú í undirb°ningi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lög þessi eiga ekki lengur við þar sem sett hafa verið ný lög um Kennaraháskóla Íslands, nú nr. 29 18. maí 1988.

Um 2. gr.


    Lögin skylduðu á sínum tíma embættismenn og sýslunarmenn til flutnings eins eða tveggja erinda árlega í útvarp um starf sitt eða stofnun. Lögin hafa ekki verið framkvæmd og mega falla niður eðli málsins samkvæmt.

Um 3. gr.


    Lögin voru sett til að heimila landsstjórninni að leggja fram fé á móti jafnmiklu framlagi úr bæjarsjóði Reykjavíkur til byggingar sundhallar í Reykjavík. Lögin hafa því runnið sitt skeið.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Lög þessi heimiluðu bæjar- og sveitarstjórnum að skylda unglinga til sundnáms. Heimildin var notuð í Vestmannaeyjum, Svalbarðsstrandarhreppi, Austur-Eyjafjallahreppi og Reykjavík. Almenn ákvæði um sundskyldu eru nú í lögum nr. 49 7. apríl 1956.

Um 6. gr.


    Lög þessi um þegnskylduvinnu nemenda gegn skólaréttindum voru sett á kreppuárunum í ljósi þess ástands er þá ríkti og eiga ekki lengur við.

Um 7. gr.


    Menntamálaráðuneytið hefur um langt skeið veitt styrki handa erlendum námsmönnum til náms í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands samkvæmt árlegri fjárveitingu í fjárlögum. Þar á meðal hefur mörg undanfarin ár verið veittur styrkur handa námsmanni af íslenskum ættum í Vesturheimi. Sérstök heimildarlög um slíkan styrk eru því orðin óþörf fyrir löngu.

Um 8. gr.


    Lögin hafa þegar gegnt hlutverki sínu og hafa ekki þýðingu lengur.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.