Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 339 . mál.


Sþ.

704. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ragnari Óskarssyni um framkvæmd 76. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.

1.     Telur ráðherra að ákvæði 76. gr. sveitarstjórnarlaga,nr. 8/1986, hafi orðið til þess að auðvelda sveitarfélögum og ríkisvaldi áætlun um framgang verk a og fjármögnun til lengri tíma?
    Ákvæði þetta er nýmæli í íslenskri sveitarstjórnarlöggjöf sem á sér fyrirmynd í löggjöf annarra Norðurlanda. Tilgangur ákvæðisins er að bæta áætlanagerð sveitarfélaganna með því að horfa til lengri tíma en eins árs. Margar framkvæmdir sveitarfélaga standa yfir í fleiri en eitt ár og er því nauðsynlegt að gera áætlanir til lengri tíma um leið og tekið er tillit til annarra framkvæmda og reksturs.
    Fjármálakafli sveitarstjórnarlaganna tók ekki gildi fyrr en 1. janúar 1987 þannig að lítil reynsla er enn fengin af notkun þessa ákvæðis laganna.
    Félagsmálaráðherra telur þó að þegar liggi fyrir að þetta ákvæði hafi orðið til að auðvelda sveitarfélögum og ríkisvaldi áætlun um framgang verka og fjármögnun til lengri tíma.

2.     Með hvaða hætti hefur ríkisvaldið nýtt sér þær þriggja ára áætlanir sem sveitarfélögin hafa til þessa lagt fram?
    Ríkisvaldið nýtir sér þessar áætlanir einkum til að fá betri yfirsýn til lengri tíma yfir framkvæmdaáform einstakra sveitarfélaga og sveitarfélaganna í heild.
    Eins og bent er á í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar hefur ákvæðið verið í gildi svo skamman tíma að lítil reynsla er enn þá fengin af notkun þess.
    Félagsmálaráðherra telur þó auðsætt að þegar nauðsynleg festa hefur skapast í þessari áætlanagerð verði hún til að bæta mjög fjármálastjórn sveitarfélaga og auðvelda ríkisvaldinu skynsamlegar ákvarðanir í málefnum sem snerta sveitarfélögin.