Ferill 374. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 374 . mál.


Nd.

705. Frumvarp til laga



um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Myndaður skal sjóður sem varið skal til að standa straum af kostnaði við endurbætur á húsakosti menningarstofnana, stuðla að verndun gamalla bygginga í eigu ríkisins og bygginga sem vernda þarf að mati Þjóðminjasafnsins og samkvæmt tillögum þess. Þá skal verja sjóðnum í upphafi til þess að ljúka byggingu Þjóðarbókhlöðunnar. Sjóðurinn er í vörslu menntamálaráðuneytisins.

2. gr.

    Tekjur sjóðsins eru:
1.     Sérstakur eignarskattur, sbr. 3.–6. gr.
2.     Framlag úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
3.     Vextir af inneignum sjóðsins á bankareikningum.
4.     Gjafir.
    Tekjur sjóðsins skulu jafnharðan og þær innheimtast færðar honum til tekna.
    Sjóðnum er heimilt að taka lán til starfsemi sinnar samkvæmt ákvæðum í fjárlögum og lánsfjárlögum hverju sinni.

3. gr.

    Sérstakur eignarskattur, er rennur til sjóðsins, sbr. 2. gr., skal frá og með gjaldárinu 1990 lagður á eignarskattsstofn, sbr. lög nr. 75/1981, um
tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og skal hann vera þannig:
a.     0,25% á þann eignarskattsstofn manna, sbr. 80.–82. gr. laga nr. 75/1981, sem er umfram 4.250.000. kr. Skattskylt mark til sérstaks eignarskatts skal breytast samkvæmt skattvísitölu, sbr. 121. gr. greindra laga, í fyrsta sinn á gjaldárinu 1990 samkvæmt skattvísitölu gjaldársins 1990. Þó skal ekki leggja sérstakan eignarskatt á eignir manna sem orðnir eru 67 ára eða eldri fyrir upphaf hlutaðeigandi gjaldárs.
b.     0,25% á eignarskattsstofn lögaðila, sbr. 2. gr. laga nr. 75/1981, og þeirra aðila sem takmarkaða skattskyldu bera, sbr. 3. gr. sömu laga, ákvarðaðan samkvæmt ákvæðum 80.–82. gr. greindra laga.

4. gr.

    Ákvæði VIII.–XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skulu gilda um álagningu og innheimtu þessa sérstaka eignarskatts eftir því sem við á.

5. gr.

    Sérstakan eignarskatt samkvæmt lögum þessum er ekki heimilt að draga frá tekjum við ákvörðun tekjuskattsstofns og útsvarsskyldra tekna og við álagningu tekjuskatts, útsvars og annarra skatta og gjalda sem miðast við greinda gjaldstofna. Um frádrátt þessa sérstaka eignarskatts til frádráttar eignum við ákvörðun eignarskattsstofns fer eftir lokaákvæðum 1. mgr. 76. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum.

6. gr.

    Með sérstakan eignarskatt samkvæmt lögum þessum skal fara á sama hátt og eignarskatt varðandi ráðstöfun ónýtts persónuafsláttar skv. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 75/1981.

7. gr.

    Menntamálaráðherra skipar stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn. Stjórnin er þannig skipuð: Einn fulltrúi samkvæmt tilnefningu kirkjumálaráðuneytis, formaður fjárveitinganefndar Alþingis, tveir fulltrúar skipaðir af menntamálaráðuneytinu og skal annar hafa sérþekkingu á sviði þjóðminjaverndar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Menntamálaráðherra skipar formann nefndarinnar.

8. gr.

    Sjóðsstjórn ákveður framlög úr sjóðnum í byrjun hvers árs þegar fjárlög hafa verið samþykkt. Ákvörðun um framlög skal lögð fyrir menntamálaráðherra til staðfestingar.
    Stjórnin lætur vinna áætlun um verkefni sjóðsins til fimm ára og endurskoðar hana árlega. Skal slík áætlun kynnt Alþingi ár hvert við undirbúning fjárlaga.

9. gr.

    Um framkvæmdir, sem kostaðar eru af sjóðnum, skal fara samkvæmt lögum um skipan opinberra framkvæmda, eftir því sem við getur átt.

10. gr.

    Kostnaður við rekstur sjóðsins, þar á meðal þóknun stjórnarmanna samkvæmt ákvörðun menntamálaráðherra, greiðist af fé sjóðsins.
    Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir í Stjórnartíðindum.

11. gr.

    Menntamálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Lögin falla úr gildi 31. desember 1999.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þar til byggingu Þjóðarbókhlöðu er lokið skal sérstakur eignarskattur samkvæmt lögum þessum renna til þeirrar framkvæmdar eftir því sem þörf krefur.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp það sem hér er lagt fram hefur tvíþættan tilgang: Annars vegar að tryggja að fylgt verði eftir ítrekuðum áformum um að ljúka smíði Þjóðarbókhlöðu án frekari tafa, hins vegar að skapa fjárhagsgrundvöll fyrir aðkallandi framkvæmdir við endurbætur og viðhald á húsakosti ýmissa helstu
menningarstofnana þjóðarinnar og á gömlum byggingum sem brýnt er að varðveita vegna menningarsögulegs gildis þeirra.
    Byggingarsaga Þjóðarbókhlöðunnar, sem hýsa á tvö undirstöðubókasöfn þjóðarinnar sameinuð, Landsbókasafn og Háskólabókasafn, er orðin raunalega löng. Munu þó fáar byggingarframkvæmdir hafa notið jafneindreginna heitstrenginga og viljayfirlýsinga af hálfu Alþingis og ríkisstjórna allt frá því að samþykkt var vorið 1970 þingsályktun um að hús þetta skyldi reist í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974. Alþingi samþykkti 22. apríl 1986 lög um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, nr. 49/1986. Kváðu þau á um álagningu sérstaks eignarskatts í þrjú ár, 1987–1989, sem gera átti kleift að ljúka byggingunni, miðað við þá kostnaðaráætlun sem fyrir lá á þeim tíma. Hvort tveggja er að árlegar fjárveitingar í fjárlögum hafa skorið framkvæmdunum miklu þrengri stakk en hinn lögákveðni tekjustofn hefur gefið tilefni til og kostnaður við að fullgera bókhlöðuna með nauðsynlegum búnaði, þar á meðal vegna tölvuvæðingar, mun reynast talsvert meiri en áætlanir við setningu þjóðarátakslaganna gerðu ráð fyrir. Er því sýnt að átakið þarf að standa lengur en sú lagasetning miðaðist við.
    Samkvæmt framkvæmda- og fjármagnsáætlun frá hönnuðum Þjóðarbókhlöðu í desember 1988 (miðaðri við byggingarvísitölu 400) var kostnaður við óloknar framkvæmdir, að meðtöldum búnaði, þá áætlaður 824 millj. kr. Innheimtur eignarskattsauki, en ógreiddur í byggingarsjóð bókhlöðunnar, vegna áranna 1987–1988, nam um síðastliðin áramót um 157 millj. kr. og skatttekjur árið 1989 voru áætlaðar 240 millj. kr. Framlenging skattstofnsins árið 1990 er talin mundu gefa um 239 millj. kr. og árið 1991 um 245 millj. kr. Samkvæmt þessum áætlunum ætti því eignarskattsaukinn þessi tvö viðbótarár miðað við lögin frá 1986 að gera nokkru betur en duga til að fjármagna smíðina til loka.
    Í stefnuyfirlýsingu þeirri, sem birt var við myndun núverandi ríkisstjórnar í september 1988, segir: „Þjóðarbókhlaðan verður fullgerð innan fjögurra ára.“ Sú fjármögnunaráætlun sem rakin var hér að framan á að gera þetta kleift, þ.e. að húsið verði fullgert á árinu 1992.
    Sjóði þeim, sem stofnað er til samkvæmt þessu frumvarpi, er ekki ætlað að standa undir kostnaði við nýbyggingar þegar Þjóðarbókhlöðu sleppir. Hins vegar kalla nú að mörg mjög viðamikil og brýn verkefni við endurbætur og viðhald á byggingum sem hýsa sumar mikilvægustu menningarstofnanir þjóðarinnar og á sviði verndunar gamalla húsa. Dæmi um verkefni af þessu tagi eru endurreisn Þjóðleikhússins, viðgerðir og umbætur á húsi Þjóðminjasafns Íslands og umbætur og innrétting á húsnæði því sem keypt var til að hýsa Þjóðskjalasafn Íslands. Allt eru þetta kostnaðarsöm stórverkefni sem þola litla bið, en mundu
fyrirsjáanlega sækjast seint með venjubundnum stofnkostnaðar- og viðhaldsfjárveitingum í fjárlögum. Minna má einnig á nauðsynlegar viðgerðir á Bessastaðastofu. Það er alkunna að mikið hefur skort á að Þjóðminjasafn Íslands hafi haft nægilegt ráðstöfunarfé til að sinna þeim verkefnum sem því eru ætluð við varðveislu húsa. Víðs vegar um landið eru gamlar byggingar, bæði kirkjur og húsakynnni af öðru tagi, sem almenn samstaða er um að varðveita beri en eru margar hverjar í hættu vegna þess að fjármuni vantar til nauðsynlegra verndunaraðgerða. Á fylgiskjali með frumvarpi þessu er bráðabirgðaskrá sem Hjörleifur Stefánsson arkitekt hefur tekið saman „um helstu viðfangsefni Þjóðminjasafns Íslands á sviði varðveislu húsa“ (dags. 30. des. 1988). Sýnir hún glöggt hversu fjölbreytileg verkefni hér er um að ræða.
    Með sjóðsstofnun þeirri sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir er stefnt að því, að næsta áratug verði unnt að vinna samfellt og með markvissum hætti að þeim viðamiklu og brýnu framkvæmdarverkefnum sem vikið hefur verið að hér að framan. Leggja ber áherslu á að sjóðnum er ekki ætlað að standa undir venjulegu, árlegu viðhaldi húsa í eigu ríkisins, heldur að stuðla að viðráðanlegri lausn tímabundinna verkefna sem krefjast sérstaks átaks.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er markað verksvið sjóðsins sem frumvarpið kveður á um. Starfsemi hans að því er varðar verndun gamalla húsa er ekki einskorðuð við byggingar í eigu ríkisins, en gert er ráð fyrir að í því efni komi til mat og tillögur Þjóðminjasafnsins. Um framlög úr sjóðnum til Þjóðarbókhlöðunnar skal einnig vísað í ákvæði til bráðabirgða.

Um 2. gr.


    Megintekjustofnar sjóðsins eru annars vegar sérstakur eignarskattur, hliðstæður þeim sem ákveðinn var með lögum nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, en hins vegar árlegt framlag úr ríkissjóði sem gert er ráð fyrir að ákveðið verði á fjárlögum hverju sinni. Eins og tekið er fram í almennum athugasemdum hér að framan er hér um að ræða framlag umfram það sem felst í venjulegu viðhaldsfé til ríkisstofnana samkvæmt fjárlögum. Auk þess er gert ráð fyrir að sjóðurinn geti tekið við gjafaframlögum og tekið lán eftir því sem heimilað kann að vera í fjárlögum og lánsfjárlögum hverju sinni.

Um 3. gr.


    Í þessari grein felst framlenging á álagninu sérstaks eignarskatts sem kveðið var á um í lögum nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, en þau lög taka aðeins til áranna 1987–1989. Hundraðshluti skattsins er óbreyttur, en skattskyldumörk eru færð til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa á skattalögum. Greinin svarar til 2. gr. laga nr. 49/1986.

Um 4. gr.


    Svarar til 3. gr. laga nr. 49/1986.

Um 5. gr.


    Svarar til 4. gr. laga nr. 49/1986.

Um 6. gr.


    Svarar, að breyttu breytanda, til 5. gr. laga nr. 49/1986.

Um 7. gr.


    Hér eru ákvæði um stjórn sjóðsins sem menntamálaráðherra skipar. Gert er ráð fyrir að formaður fjárveitinganefndar Alþingis eigi þar sæti samkvæmt stöðu sinni. Jafnframt er gert ráð fyrir sérstökum fulltrúa kirkjumálaráðuneytisins, enda lagfæringar kirkjubygginga fyrirferðamikið viðfangsefni í sambandi við gömul hús á verksviði sjóðsins.

Um 8. gr.


    Sjóðsstjórn er falið á hendur að ákveða framlög úr sjóðnum, en leggja skal þó úthlutun fyrir menntamálaráðherra til staðfestingar.
    Í 2. mgr. felst atriði sem er ein af forsendum þess að lagasetningin nái tilgangi sínum, þ.e. að úthlutun fjár úr sjóðnum sé reist á skipulegri áætlun um forgangsröð verkefna. Gert er ráð fyrir að slík áætlun liggi jafnan fyrir til fimm ára, endurskoðuð ár hvert með hliðsjón af framvindu verka. Til að tryggja sjálfsagða yfirsýn Alþingis um ráðstöfun framkvæmdafjár er gert ráð fyrir að áætlunin sé kynnt þinginu við árlega fjárlagagerð.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 10. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.

Um 11. gr.


    Eðlilegt er að gera ráð fyrir að sett verði reglugerð er kveði nánar á um einstök atriði laganna, m.a. undirbúning og framkvæmd úthlutunar úr sjóðnum.

Um 12. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin gildi í áratug eða til 31. desember 1999. Samkvæmt 2. gr. kemur álagning sérstaks eignarskatts eftir lögunum til framkvæmda frá og með árinu 1990, þ.e. þegar lokið er því tímabili, sem lög nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, miðast við.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Markmið þessa ákvæðis er að tryggja að ekki leiði til óvissu að nýju um fjármögnun Þjóðarbókhlöðunnar þegar lýkur gildistíma laganna frá 1986 um álagninu sérstaks eignarskatts vegna þeirrar framkvæmdar.



Fylgiskjal.


Bráðabirgðaskrá um helstu viðfangsefni Þjóðminjasafns Íslands


á sviði varðveislu húsa, 30. desember 1988.




Gullbringu- og Kjósarsýsla:
Krýsuvíkurkirkja, timburkirkja frá 19. öld.
Bessastaðir, stofa og kirkja frá 18. öld.

Mýra- og Borgarfjarðarsýsla:
Sveinatunga, fyrsta steinsteypta íbúðarhúsið á Íslandi, reist 1895.
Reykholtskirkja, stór timburkirkja frá 1887.
Gömul hús í Borgarnesi, fyrsta íbúðarhús og verslunarhús staðarins frá 1877.
Byggðasafnið í Görðum á Akranesi. Gamla prestshúsið í Görðum frá 1886 og skemma frá aldamótum.

Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla:
Frúarhús, Narfeyrarhús og Sjávarpakkhús í Stykkishólmi.
Flatey, skóli og gamalt íbúðarhús frá því um aldamótin.

Dalasýsla:
Hjarðarholtskirkja, timburkirkja Rögnvaldar Ólafssonar frá 1904.
Kjallaksstaðir, torfbær frá fyrri hluta þessarar aldar.
Ólafsdalur, skólahús það sem Torfi Bjarnason byggði.

Barðastrandarsýsla:
Brjánslækur, steinsteypt íbúðarhús frá fyrsta tug aldarinnar.
Staður á Reykjanesi, timburkirkja frá 1858.
Sauðlauksdalskirkja, timburkirkja frá 1863.

Ísafjarðarsýslur:
Ísafjörður:
Tjöruhúsið í Neðstakaupstað, elsta hús landsins frá 1736.
Hæstakaupstaðarhúsið, timburhús frá 1788.
Ísafjarðarkirkja, frá 1863.
Bíldudalur:
Gömul rafstöð, barnaskóli frá því rétt eftir 1900 og smiðja frá fyrri hluta þessarar aldar.
Ögur, íbúðarhús og hjallur frá síðustu öld og rafstöð frá þriðja tug þessarar aldar.
Unaðsdalur, timburkirkja frá 1897.

Strandasýsla:
Borðeyri, kaupmannshús frá 1854.
Kaldrananes, timburkirkja frá 1851.

Húnavatnssýslur:
Sandar í Miðfirði, bæjarhús úr timbri frá því snemma á þessari öld.
Stóri-Ós í Miðfirði, timburhús frá 1907.
Kirkjuhvammskirkja, timburkirkja frá 1882.
Klömbrur, hlaðið steinhús frá seinni hluta síðustu aldar, aðeins veggir eru heilir.
Kornsá, timburhús sem Lárus Blöndal sýslumaður reisti árið 1878.
Geithamrar í Svínadal, torfbær frá 1925.
Hofskirkja á Skaga, timburkirkja frá 1876.
Hafnir á Skaga, bær úr timbri frá 1868.

Skagafjarðarsýsla:
Glaumbær, stór torfbær frá síðasta hluta 19. aldar sem stöðugt þarfnast viðhalds.
Gilsstofa, timburhús upphaflega reist um miðja síðustu öld, en hefur oft verið flutt og endurbyggð. Nú er unnið að endurgerð hússins í Glaumbæ og verður þar húsnæði fyrir Byggðasafn Skagfirðinga.
Ás í Hegranesi, stórt timburhús frá 1889 sem ákveðið hefur verið að flytja að byggðasafninu í Glaumbæ og gera við það þar fyrir safnið.
Hofsós, stokkbyggt pakkhús frá 1772.
Hólar í Hjaltadal, torfbær frá því um 1854.
Stóru-Akrar, bæjarhús og stofa sem Skúli fógeti reisti um 1850.

Eyjafjarðarsýsla:
Bakkakirkja í Öxnadal, timburkirkja frá 1843 eftir Þorstein á Skipalóni.
Skipalón, íbúðarhús frá 1824 og pakkhús frá 1848.
Hólar í Eyjafirði, torfbær frá miðri 19. öld ásamt leifum miðaldakirkju.
Gamli barnaskólinn á Akureyri, skóli frá því 1901.

Þingeyjars ýslur:
Laufás, torfbær frá síðustu öld.
Grenjaðarstaður, torfbær frá síðustu öld.
Þverá í Laxárdal, torfbær frá síðari hluta 19. aldar.
Grænavatn í Mývatnssveit, blendingur timburhúss og torfbæjar frá aldamótum.
Sæluhúsið við Jökulsá á Fjöllum, steinhlaðið hús frá því um 1880.
Sauðanes á Langanesi, steinhlaðið prestssetur frá því um 1880.

Múlasýslur:
Kaupangur á Vopnafirði, stórt verslunarhús frá því 1882.
Framtíðin á Vopnafirði, pakkhús frá því um aldamótin.
Burstafell í Vopnafirði, stór torfbær frá því um 1880.
Rangá í Hróarstungu, steinsteypt íbúðarhús frá því 1907.
Galtastaðir í Hróarstungu, lítill torfbær frá lokum seinustu aldar.
Eiríksstaðakirkja á Jökuldal, steinsteypt kirkja frá 1913.
Seyðisfjörður, pakkhúsið Angró og Bryggjuhúsið, vörugeymsluhús byggt á staurum og Wathnehúsið, gamla símstöðin frá síðasta hluta 19. aldar.
Sómastaðir við Reyðarfjörð, steinhlaðið íbúðarhús frá 1875.
Wathnehús á Reyðarfirði, stórt íbúðarhús frá því um 1890.
Randulffs-sjóhús á Eskifirði, timburhús frá 1890, byggt að hluta til á staurum í sjó fram.
Jensenshús á Eskifirði, íbúðarhús úr timbri frá því 1837.
Hjallur á Helgustöðum við Reyðarfjörð.
Teigarhorn við Berufjörð, vandað íbúðarhús úr timbri frá 1884.
Langabúð á Djúpavogi, stórt pakkhús og sláturhús, að stofni til frá 18. öld.
Papey, bæjarhús og örsmá heimiliskirkja, timburhús frá því skömmu eftir aldamótin.

Skaftafellssýslur:
Samkomuhús í Lóni, steinsteypt samkomuhús og skólastofa frá því 1912.
Skaftafell, fjárhús, smíðahús og rafstöð, hluti af varðveislu húsakosts frá byrjun aldarinnar í þjóðgarðinum.
Núpsstaður, þyrping húsa. Elstu húsin frá 18. öld.
Hnausar í Meðallandi, torfbær frá fyrri hluta 19. aldar.

Rangárvallasýsla:
Keldur á Rangárvöllum, skáli frá síðari hluta miðalda, torfbær, útihús, íbúðarhús frá 1937.
Drangshlíð, hlaðið fjárhús og fjós undir Dranginum.
Byggðasafnið í Skógum, ýmis gömul hús á safnsvæðinu, bærinn frá Skál á Síðu, torfbær með fjósbaðstofu.

Árnessýsla:
Stóri-Núpur, íbúðarhús úr timbri frá 1896.
Tungufellskirkja, timburkirkja frá 1857.
Húsið á Eyrarbakka, timburhús frá 1765.
Assistentahúsið á Eyrarbakka, timburhús frá því á seinni hluta 19. aldar.
Meðalholt í Flóa, torfbær frá því snemma á þessari öld. Eini bær sinnar gerðar á Suðurlandi.