Ferill 336. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 336 . mál.


Sþ.

716. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn frá Júlíusi Sólnes um afgreiðslu á húsnæðislánaumsóknum.

1. Hve margar umsóknir um húsnæðislán bíða afgreiðslu hjá Húsnæðisstofnun ríkisins?
    Frá 1. september 1986, þegar lög nr. 54/1986 tóku gildi, til febrúarloka 1989 bárust um 18.000 umsóknir til stofnunarinnar. Þar af eru um 17.000 umsóknir um lán til nýbygginga og kaupa á eldri íbúðum.
    Um sl. áramót biðu um 10.300 umsækjendur eftir afgreiðslu á lánum, þar af hafa 7.300 umsækjendur ekki fengið tilkynningu um afgreiðslu lánanna, þ.e. hafa ekki fengið tilkynningu um hversu há lánin verða og hvenær þau koma til útborgunar. Þessir umsækjendur fá ekki lán á árinu 1989.
    Gera má ráð fyrir að um 3000 umsækjendur fái fyrrihlutalán útborguð á árinu 1989. Í janúar og febrúar 1989 bárust um 700 umsóknir um lán til nýbygginga og kaupa á eldri íbúðum. Ef um 330 umsóknir berast í hverjum mánuði að meðaltali verða umsóknir á tímabilinu mars–desember 1989 um 3300. Þá væru óafgreiddar um næstu áramót samtals um 10.600 umsóknir.

2. Hversu stór hluti umsókna um húsnæðislán er „virkur“, þ.e. ef umsóknir, sem eru ógildar eða af öðrum orsökum ekki teknar til greina, eru dregnar frá? Hver eru afföllin?
    Á milli 3–5% umsókna falla úr gildi vegna þess að umsækjendur senda ekki kaupsamninga eða fokheldisvottorð til stofnunarinnar, en þeim vottorðum þarf ekki að skila fyrr en þremur mánuðum fyrir útborgunardag láns, og alltaf eru einhverjir umsækjendur sem uppfylla ekki skilyrði um iðgjaldagreiðslur.
    Í áætlunum sínum reiknar stofnunin með að þegar lánin koma til greiðslu séu þau samtals 15–25% lægri en lánsloforðin gerðu ráð fyrir. Ástæða þess er að 3–5% falla úr gildi vegna fyrrgreindra ástæðna, einhver hluti umsækjenda á aðeins rétt á skertu láni þar sem maki á ekki lánsrétt, en stærsti þátturinn er að áhvílandi lán frá stofnuninni á íbúð sem keypt er eru dregin frá lánsrétti umsækjanda. Ef ekki væri reiknað með þessum afföllum afgreiddi stofnunin því þeim mun færri umsóknir.

3. Hvernig hefur þróunin verið síðustu mánuðina? Hve margarumsóknir berast og hversu mörg lánsloforð eru afgreidd á hverjum mánuði?
    Eins og fram hefur komið bárust í janúar og febrúar um 700 umsóknir, eða að meðaltali um 350 umsóknir í hvorum mánuði. Að meðaltali bárust um 380 umsóknir á mánuði á árinu 1988. Ef gert er ráð fyrir að 330 umsóknir berist mánaðarlega næstu 10 mánuði verða þær á öllu árinu 1989 samtals 4000.
    Fram hefur komið að stofnunin gefur út um 3000 lánsloforð til greiðslu á árinu 1989, þ.e. 250 á mánuði að meðaltali. Umsóknir, sem berast umfram það sem afgreitt er, bætast við biðröðina.
    Stofnunin ætti að vera byrjuð að gefa út lánsloforð til þeirra sem eiga að fá sín lán á fyrstu mánuðum ársins 1990 þar sem lögin gera ráð fyrir að þau séu send umsækjendum 12 mánuðum áður en þau koma til greiðslu. Verið er að vinna að áætlun fyrir árið 1990, en hún verður að liggja fyrir áður en útgáfa lánsloforða til greiðslu á því ári hefst.

4. Benda niðurstöður síðustu mánaða til þess að jöfnuður milli umsókna og afgreiðslu lánsloforða sé að komast á?
    Umsækjendur, sem fengið hafa lánsloforð, þurfa ekki að senda fokheldisvottorð eða kaupsamning fyrr en þremur mánuðum fyrir útborgunardag láns, eftir það er gefinn þriggja mánaða frestur til viðbótar. Þetta þýðir að umsókn getur legið hjá stofnuninni mánuðum eða jafnvel árum saman án þess að vitað sé hvort af framkvæmdum verði hjá umsækjanda. Hins vegar hafa enn sem komið er aðeins 3–5% umsókna fallið úr gildi.
    Gert er ráð fyrir að gefa út 3000 lánsloforð til greiðslu á árinu 1989 eða að meðaltali um 250 á mánuði. Hins vegar er reiknað með að um 4000 umsóknir berist á árinu 1989 eða að meðaltali um 330 á mánuði. Það þýðir að um 10.600 umsóknir verði óafgreiddar um næstkomandi áramót en voru um 10.300 um síðastliðin áramót.
    Á árinu 1989 fá eftirgreindir umsækjendur fyrri hluta láns:
a.     Þeir sem eru að eignast sína fyrstu íbúð (forgangshópur): Umsóknir inn komnar frá 13. mars 1987 til 16. október 1987.
b.     Þeir sem eiga íbúð fyrir (víkjandi hópur): Umsóknir inn komnar frá 13. mars 1987 til 6. júlí 1987.
    Umsækjendur sem fá fyrri hluta fyrir 1. júlí 1989 fá einnig seinni hluta á því ári, en sex mánuðir eru á milli lánshlutanna. Með forgangshópi eru taldir þeir sem búa við þröngbýli samkvæmt reglugerð þar um. Milli þessara tveggja hópa eru sex mánuðir, þ.e. sá sem á íbúð fyrir fær sinn fyrri hluta sex mánuðum á eftir hinum sem enga íbúð á. Þetta þýðir að forgangshópur, sem fær fyrri hluta í desember 1989, bíður rúmlega 25 mánuði eftir láni til
útborgunar. Víkjandi hópur, sem fær fyrri hluta í desember 1989, bíður um 29 mánuði eftir láninu.
    Eins og áður hefur komið fram hafa engin lánsloforð enn verið gefin út til greiðslu á árinu 1990. Áætlanir, sem kynntar hafa verið fyrir húsnæðismálastjórn þar sem gert er ráð fyrir sex mánuðum milli hópanna, sýna að á fyrri hluta árs 1990 verða aðeins afgreidd fyrrihlutalán til víkjandi hópsins sem lagði inn umsóknir á tímabilinu 7. júlí 1987 til 16. október 1987. Á þessum tíma hefur stofnunin ekki fjármagn fyrir forgangshópinn þar sem sex mánuðir eiga að vera milli hópanna. Það má því segja að nokkurs konar skil verði um 16. október 1987. Forgangshópur, sem sækir um 17. október 1987, fær sinn fyrri hluta samkvæmt þessari áætlun í júní 1990, bíður því um 31 mánuð eftir láni. Víkjandi hópur, sem lagði inn umsókn sama dag, fær sinn fyrri hluta í desember 1990, bíður því um 37 mánuði eftir láni.

5. Hvernig er háttað afgreiðslu á umsóknum frá svokölluðum víkjandi hópum í samanburði við umsóknir frá forgangshópum?
    Nálægt 50% þeirra sem senda inn umsóknir eiga íbúðir fyrir. Um 10% umsækjenda eiga rétt á að komast í forgangshóp vegna þröngbýlis, þ.e. í hóp þeirra sem eru að eignast sína fyrstu íbúð hvað snertir afgreiðslutíma á umsókninni, en lánsréttur er eins og hjá víkjandi hópi, þ.e. þeim sem eiga íbúð fyrir. Við útgáfu þeirra lánsloforða, sem þegar hafa verið send umsækjendum, er gert ráð fyrir að umsækjandi, sem er í víkjandi hópi, fái sitt lán útborgað sex mánuðum á eftir forgangshópi.

6. Hvernig hafa skerðingarheimildir til að takmarka afgreiðslu lána til eignamanna verið notaðar?
    Samþykkt voru á Alþingi hinn 19. desember 1987 lög sem m.a. lúta að skerðingu eða synjun á láni til eignamanna. Þeir einir falla undir þessi ákvæði laganna sem eiga tvær eða fleiri íbúðir eða eiga íbúð sem er stærri en 180 fermetrar (brúttó), skuldlausa eða skuldlitla. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að þessi ákvæði væru þrengri, en í meðförum þingsins voru þau rýmkuð. Þessi ákvæði voru því ekki afturvirk og náðu því ekki til umsækjenda í biðröðinni heldur einungis til þeirra sem sóttu um lán 1. janúar 1988 og síðar. Ákvæði þessi voru kynnt vel á sínum tíma og heyrir það því til undantekninga að stofnunin fái nú slíkar umsóknir.