Ferill 407. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 407 . mál.


Nd.

767. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 58 4. júní 1981, um lagmetisiðnað og Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins, með áorðnum

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 10. gr. laganna komi ný málsgrein svohljóðandi:
    Heimilt er stjórn sjóðsins að leggja fram úr Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins hlutafé vegna stofnunar nýrra framleiðslu- eða markaðsfyrirtækja á sviði lagmetis eða taka þátt í hlutafjáraukningu í starfandi fyrirtækjum í lagmetisiðnaði í því skyni að auka vöruþróun, framleiðni eða markaðsstarfsemi þeirra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins verði veitt heimild til að eignast hlutabréf í starfandi hlutafélögum eða eiga aðild að stofnun nýrra hlutafélaga í því skyni að efla framleiðni, vöruþróun og markaðsstarfsemi í lagmetisiðnaði. Frumvarpið er flutt m.a. í ljósi þeirra erfiðleika sem eru í lagmetisiðnaði, en stjórn sjóðsins og sölusamtök lagmetis hafa mælst til að slík heimild verði veitt. Minnt skal á að lögum um Iðnlánasjóð, Iðnþróunarsjóð og Iðntæknistofnun Íslands hefur verið breytt á liðnum árum og þessum aðilum hafa verið veittar áþekkar heimildir og hér er lagt til varðandi Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins.
    Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins var stofnaður samkvæmt lögum nr. 48 26. maí 1972 og starfar nú eftir endurnýjuðum lögum nr. 58/1981 og reglugerð nr. 175/1984. Hlutverk hans er að efla lagmetisiðnaðinn, m.a. með því að stuðla að tæknilegri uppbyggingu, þróun vinnsluaðferða og markaðsöflun erlendis með lánum og styrkjum.
    Þróunarsjóður hefur sérstaka stjórn undir yfirstjórn iðnaðarráðherra sem skipar formann án tilnefningar og fjóra samkvæmt tilnefningu eftirtalinna aðila: Sölusamtaka lagmetis, Iðntæknistofnunar Íslands, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og sjávarútvegsráðherra með hliðsjón af ábendingu SÍF. Sjóðurinn er varðveittur í Iðnaðarbanka Íslands.
    Helstu niðurstöður úr rekstri Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins á árunum 1986 og 1987 eru sem hér segir (í þús. kr.):

     1987 1986
Tekjur ..............................................     35.94023.988
Rekstrargjöld/styrkir ...............................     (13.403)(13.370)
Hagnaður ............................................     22.53710.617
Eignir ..............................................     71.59946.559
Skuldir .............................................     (17)(3)
Eigið fé ............................................     71.58246.556

    Staða sjóðsins er sterk og því þykir eðlilegt að auka möguleika sjóðsins til að rækja hlutverk sitt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að stjórn sjóðsins verði veitt heimild til að leggja fram hlutafé vegna stofnunar nýrra framleiðslu- eða markaðsfyrirtækja á sviði lagmetisiðnaðar eða taka þátt í hlutafjáraukningu í starfandi fyrirtækjum í því skyni að auka vöruþróun, framleiðni eða markaðsstarfsemi. Ekki er lagt til að sérstök takmörkun verði á þessari heimild, en ljóst er að slík hlutafjárframlög verða að helgast af markmiðum sjóðsins eins og þau eru ákveðin í lögunum.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.