Ferill 438. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 438 . mál.


Nd.

798. Frumvarp til laga



um leigubifreiðar.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



I. KAFLI

Leiguakstur.

1. gr.

    Lög þessi taka til fólksbifreiða, vörubifreiða og sendibifreiða sem notaðar eru til leiguaksturs. Fólksbifreiðar, sem taka fleiri en átta farþega, falla þó ekki undir lög þessi.
    Leiguakstur fólksbifreiða telst það þegar fólksbifreið er seld á leigu ásamt ökumanni fyrir tiltekið gjald til flutnings á farþegum og farangri þeirra.
    Leiguakstur vörubifreiða og sendibifreiða telst það þegar slík bifreið er seld á leigu ásamt ökumanni til flutnings á vörum fyrir tiltekið gjald þar sem ökumaður eða eigandi bifreiðarinnar er hvorki eigandi, seljandi né kaupandi vörunnar sem flutt er.
    Heimilt er með reglugerð að kveða nánar á um mörkin milli atvinnusviðs fólksbifreiða, vörubifreiða og sendibifreiða sem notaðar eru til leiguaksturs. Rísi ágreiningur um þessi mörk sker samgönguráðuneytið úr.
    Leigubifreiðar skulu auðkenndar.

II. KAFLI

Bifreiðastöðvar.

2. gr.

    Bæjarstjórn er heimilt, að fengnum tillögum hlutaðeigandi stéttarfélags bifreiðastjóra, að ákveða að allar leigubifreiðar í kaupstaðnum í hverjum flokki fyrir sig, þ.e. fólksbifreiðar, vörubifreiðar og sendibifreiðar, skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð sem fengið hefur viðurkenningu bæjarstjórnar.
    Á félagssvæðum, þar sem viðurkenndar bifreiðastöðvar eru starfandi, er öllum, sem aka utan þessara stöðva, bannað að taka að sér eða stunda leiguakstur á viðkomandi sviði.

3. gr.

    Bifreiðastöðvar fyrir leigubifreiðar skulu, í samráði við stéttarfélög leigubifreiðastjóra, skipuleggja starfsemi sína með þeim hætti að almenningi verði veitt góð og örugg þjónusta. Hver bifreiðastöð skal fylgjast með því að ökumenn, sem þar hafa afgreiðslu, fari eftir fyrirmælum laga og reglugerða um leigubifreiðar.

III. KAFLI

Takmörkun.

4. gr.

    Samgönguráðuneytinu er heimilt eftir beiðni hlutaðeigandi stéttarfélags bifreiðastjóra, hvort heldur um er að ræða félag fólksbifreiðastjóra, vörubifreiðastjóra eða sendibifreiðastjóra, að takmarka fjölda leigubifreiða á félagssvæðinu, enda komi til meðmæli þeirra bæjarstjórna og héraðsnefnda er félagssvæðið fellur undir. Verði bæjarstjórnir og héraðsnefndir, sem félagssvæði stéttarfélags bifreiðastjóra fellur undir, eigi sammála um hvort mæla skuli með takmörkun eða ekki eða þær greini á um við hvaða bifreiðafjölda takmörkun skuli miða skal samgönguráðuneytið skera úr.
    Þar sem takmörkun er heimiluð skal hún ákveðin af ráðuneytinu með reglugerð. Takmörkun á fjölda vörubifreiða og sendibifreiða, sem miðast við ákveðna hámarkstölu, framkvæma félögin sjálf. Takmörkun á fjölda fólksbifreiða, sem miðast við ákveðna hámarkstölu eða viðmiðun við íbúafjölda, ber að framkvæma með útgáfu atvinnuleyfa sem umsjónarnefnd fólksbifreiða annast.

5. gr.

    Á félagssvæði, þar sem takmörkun er í gildi, skulu bifreiðastjórar í sömu grein vera í sama stéttarfélagi.
    Á þeim félagssvæðum stéttarfélaga vörubifreiðastjóra og sendibifreiðastjóra, þar sem takmörkun er í gildi, er öllum utanfélagsmönnum bannað að taka að sér eða stunda leiguakstur á vörum.
    Á þeim félagssvæðum stéttarfélaga fólksbifreiðastjóra, þar sem takmörkun er í gildi, er öllum, sem eigi hafa atvinnuleyfi, bannað að taka að sér eða stunda leiguakstur á fólki.

6. gr.

    Þegar heimild til takmörkunar á fjölda leigubifreiða er veitt er óheimilt
að skerða atvinnuréttindi þeirra manna sem á lögmætan hátt stunda leigubifreiðaakstur og eru fullgildir félagar í hlutaðeigandi stéttarfélagi þá er takmörkun hefst.

IV. KAFLI

Atvinnuleyfi.

7. gr.

    Í því skyni að framkvæma takmörkun á fjölda fólksbifreiða til leiguaksturs á þeim félagssvæðum, þar sem samgönguráðuneytið hefur veitt heimild til takmörkunar, skal gefa út sérstök atvinnuleyfi. Grundvöllur atvinnuleyfanna er að sérhver leyfishafi eigi fólksbifreið og hafi það að aðalatvinnu að aka henni sjálfur. Fjöldi atvinnuleyfa á hverju félagssvæði miðast við þann fjölda fólksbifreiða sem takmörkunarreglugerð heimilar. Engum má veita meira en eitt atvinnuleyfi.
    Atvinnuleyfi er bundið við nafn. Leyfishafa er óheimilt að selja atvinnuleyfi, leigja það út eða ráðstafa því á annan hátt. Atvinnuleyfishafi er háður ákvæðum laga og reglugerða um leigubifreiðar svo sem þau eru á hverjum tíma.

8. gr.

    Þeir einir, sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum, geta öðlast atvinnuleyfi:
1.     hafa fullnægjandi ökuréttindi samkvæmt umferðarlögum,
2.     eru 20–67 ára að aldri,
3.     hafa eigi gerst sekir um alvarlegt refsilagabrot,
4.     hafa fullnægjandi heilbrigðisvottorð,
5.     hafa starfsreynslu við akstur á fólki,
6.     eru félagsmenn í hlutaðeigandi stéttarfélagi fólksbifreiðastjóra eða sækja um inngöngu í það.
    Þessum skilyrðum verður atvinnuleyfishafi einnig að fullnægja eftir að leyfi er fengið, sbr. þó 1. mgr. 9. gr.
    Heimilt er að halda námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi og má þá gera prófárangur að skilyrði fyrir því að leyfi verði veitt.

9. gr.

    Atvinnuleyfi fellur úr gildi við 70 ára aldur leyfishafa. Heimilt er með reglugerð að hækka þetta aldursmark í allt að 75 ár.
    Atvinnuleyfi fellur úr gildi við andlát leyfishafa. Þó má dánarbú hans eða eftirlifandi maki nýta leyfið í eitt ár þar á eftir.
    Heimilt er að svipta leyfishafa atvinnuleyfi tímabundið ef hann brýtur gegn ákvæðum laga og reglugerða um leigubifreiðar, en fyrir fullt og allt ef um alvarleg eða ítrekuð brot er að ræða.
    Veita má leyfishafa tímabundnar undanþágur frá akstri eigin bifreiðar vegna:
a.     orlofs, veikinda eða annarra forfalla,
b.     vaktaskipta á álagstímum,
c.     viðgerðar eða endurnýjunar á bifreið.
    Stéttarfélag fólksbifreiðastjóra annast þessar undanþáguveitingar eftir nánari fyrirmælum í reglugerð.
    Um atvinnuleyfi, úthlutun þeirra, nýtingu og brottfall skal setja nánari ákvæði í reglugerð.

V. KAFLI

Umsjónarnefnd fólksbifreiða.

10. gr.

    Á öllum félagssvæðum, þar sem takmörkun fólksbifreiða til leiguaksturs hefur verið ákveðin, sbr. 4. gr., skal starfa umsjónarnefnd fólksbifreiða. Samgönguráðherra skipar umsjónarnefndir fólksbifreiða. Hver nefnd skal skipuð þremur mönnum. Hlutaðeigandi stéttarfélag fólksbifreiðastjóra tilnefnir einn nefndarmanna, annan tilnefnir Samband íslenskra sveitarfélaga og hinn þriðja skipar ráðherra án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar. Sömu aðilar velja hver um sig einn varamann.
    Umsjónarnefnd fólksbifreiða hefur með höndum umsjón og eftirlit með framkvæmd laga og reglugerða um leigubifreiðar á félagssvæðinu, úthlutun atvinnuleyfa og afturköllun þeirra, svo og eftirlit með þjónustu fólksbifreiðastöðva. Að öðru leyti verður starfssvið umsjónarnefnda ákveðið í reglugerð.
    Samgönguráðherra ákveður laun nefndarmanna. Laun þeirra og annan kostnað af störfum umsjónarnefnda greiðir ríkissjóður.

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

11. gr.

    Gjaldmælar skulu vera í öllum fólksbifreiðum og sendibifreiðum sem notaðar eru til leiguaksturs. Um gjaldmæla, gerð þeirra og notkun, skal setja ákvæði í reglugerð.
    Lögreglustjórar, hver í sínu umdæmi, hafa eftirlit með notkun og meðferð gjaldmæla.

12. gr.

    Samgönguráðuneytið setur tvær reglugerðir um nánari framkvæmd laga þessara, annars vegar um takmörkun á fjölda fólksbifreiða sem notaðar eru til leiguaksturs, en hins vegar reglugerð um takmörkun á fjölda vörubifreiða og sendibifreiða sem notaðar eru til leiguaksturs.

13. gr.

    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum og skal farið með mál út af brotum á lögum þessum að hætti opinberra mála.

14. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1989. Jafnframt falla úr gildi lög um leigubifreiðar, nr. 36/1970, lög nr. 47/1988 og 66. gr. laga nr. 108/1988, um breytingu á þeim lögum.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga þessara er heimilt að láta aðra skipan mála haldast til bráðabirgða á tilteknu svæði eftir nánari fyrirmælum í reglugerð.
    Við gildistöku laga þessara haldast viðurkenningar á bifreiðastöðvum samkvæmt eldri lögum þar til öðruvísi verður ákveðið af réttum aðilum.
    Þeir, sem hafa atvinnuleyfi eða njóta takmörkunar við gildistöku laga þessara, eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum samgönguráðuneytisins í samráði við hagsmunaaðila. Gildandi lög um leigubifreiðar nr. 36/1970 hafa staðið óbreytt í 19 ár að undanskilinni minni háttar breytingu á lögunum sem gerð var með lögum nr. 47/1988 og 66. gr. laga nr. 108/1988. Athugun á réttarstöðu leigubifreiðastjóra leiddi í ljós að heildarendurskoðun á lögunum var orðin tímabær. Vandamálin hafa verið leyst með sífelldum breytingum á reglugerðum um leigubifreiðar vegna þess að lögin hafa eigi verið nægjanlega fastmótuð og víðtæk. Það er árangur þessarar heildarendurskoðunar sem birtist í þessu frumvarpi. Markmið frumvarpsins er eins og markmið laganna frá 1970 að koma
góðri skipan á málefni leigubifreiðastjóra og að gæta hagsmuna almennings sem nýtur þjónustu leigubifreiða.
    Meginefni laga nr. 36/1970 svo og fyrri laga um sama efni eru heimildir til að takmarka fjölda leigubifreiða á viðkomandi svæðum, en þetta á við um fólksbifreiðar, vörubifreiðar og sendibifreiðar. Þróun mála hefur orðið misjöfn eftir því um hvaða flokk bifreiða er að ræða. Sendibifreiðar hafa í mjög fáum tilvikum notið takmörkunar þar sem stéttarfélög sendibifreiðastjóra hafa yfirleitt ekki óskað eftir takmörkun. Um vörubifreiðar gegnir öðru máli. Víðast hvar á landinu eru í gildi takmörkunarreglugerðir fyrir vörubifreiðar. Takmarkanir á fjölda sendibifreiða og vörubifreiða eru framkvæmdar með þeim hætti að taka ekki fleiri menn inn í félögin en reglugerð segir til um. Það er að segja félögin ráða því sjálf hverjir bætast við í stéttina og öðlast rétt til að stunda leiguakstur á þessu sviði. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel hjá vörubifreiðastjórum, en minni reynsla hefur fengist af því hjá sendibifreiðastjórum.
    Framvinda mála hjá fólksbifreiðastjórum hefur orðið með öðrum hætti. Þar eru takmörkunarreglugerðir í gildi hjá félögum sem eru í nokkrum hinna stærri kaupstaða, þar á meðal ein reglugerð fyrir höfuðborgarsvæðið í heild. Á hinn bóginn er takmörkun á fjölda fólksbifreiða til leiguaksturs ekki framkvæmd af stéttarfélögum fólksbifreiðastjóra heldur með útgáfu atvinnuleyfa sem opinberar nefndir annast á hverju félagssvæði. Þetta atvinnuleyfakerfi hefur tíðkast hjá fólksbifreiðastjórum allar götur síðan 1956 þegar takmörkunarreglur voru upp teknar, sbr. lög nr. 25/1955. Þetta kerfi er nú orðið mjög fast í sessi og um það gilda ítarleg ákvæði í takmörkunarreglugerðum sem sífellt gerast flóknari.
    Í gildandi lögum um leigubifreiðar nr. 36/1970 segir ákaflega lítið um það hvernig takmörkun á fjölda leigubifreiða skuli hrundið í framkvæmd, þ.e. hvort félögin eigi að gera það sjálf eða að opinberar nefndir eigi að gera það með útgáfu atvinnuleyfa. Í lögunum segir aðeins að með reglugerð skuli kveðið á um ráðstöfun atvinnuleyfa, enda verði fyrir það girt að leyfin geti orðið verslunarvara. Að þessu leyti eru lögin ófullkomin og í reynd á eftir tímanum. Lögin hafa þó ætíð verið skilin á þann veg að þau útiloki ekki takmörkun á fjölda leigubifreiða án atvinnuleyfa svo sem tíðkast hefur með vörubifreiðar og sendibifreiðar.
    Nauðsynlegt er að lögfesta skýr ákvæði um þær takmörkunaraðferðir, sem þróast hafa, og ekki er ástæða til að bregða út af í meginatriðum. Á það ber einnig að líta að atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða eru mjög
eftirsótt og leyfishafar líta á þau sem mikilvæg persónuleg réttindi. Því er mjög æskilegt að setja í lög glöggar grundvallarreglur um atvinnuleyfin, en láta þar eigi reglugerðarákvæðin ein nægja. Þannig má líka forðast deilur um hvort reglugerðarákvæði um atvinnuleyfi eigi næga stoð í lögum en deilur um þetta efni hafa nokkrum sinnum orðið tilefni dómsmála. Umboðsmaður Alþingis, sem hefur af gefnu tilefni gert nokkra athugun á atvinnuleyfamálum fólksbifreiðastjóra, segir í bréfi til samgönguráðherra dags. 13. október 1988:
    "Af því tilefni tek ég ennfremur fram að ég tel ástæðu til að lög um leigubifreiðaakstur verði tekin til rækilegrar endurskoðunar í heild. Í þessari endurskoðun verði meðal annars fjallað um það hvaða skilyrðum menn þurfa að fullnægja til þess að geta fengið og haldið leyfum til leigubifreiðaaksturs, og um nýtingu slíkra atvinnuleyfa“.
    Ýmis fleiri atriði en hér að framan greinir kalla á endurskoðun laga um leigubifreiðar. Vísast um það efni til eftirfarandi upptalningar á þeim höfuðbreytingum frá gildandi lögum sem frumvarp þetta felur í sér.
1.     Leiguakstur fólksbifreiða, vörubifreiða og sendibifreiða er skilgreindur. Í gildandi lögum er aðeins skilgreindur leiguakstur vörubifreiða.
2.     Gerður er greinarmunur á framkvæmd takmörkunar eftir því hvort um er að tefla annars vegar vörubifreiðar og sendibifreiðar eða hins vegar fólksbifreiðar. Með þessu er venjubundin framkvæmd staðfest.
3.     Bifreiðastjórar, sem njóta þess að fjöldi leigubifreiða í atvinnugrein þeirra er takmarkaður, eru skyldaðir til að vera félagsmenn í einu og sama stéttarfélagi á viðkomandi svæði.
4.     Grundvallarreglur eru settar um atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða, en þær hefur alveg skort í gildandi lögum. Í því efni er tekið mið af tilmælum umboðsmanns Alþingis. Þá er skýrt fram tekið að þeim, sem ekki hafa atvinnuleyfi, sé bannað að taka að sér eða stunda leiguakstur með fólk. Þetta er nauðsynlegt til að veita leyfishöfum viðunandi réttarvernd.
5.     Veitt er heimild til að halda námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða til þess að auka hæfni umsækjenda og framkvæma síðan faglegt mat á hæfni þeirra með prófum.
6.     Sett eru ákvæði um skipan og hlutverk umsjónarnefnda sem áður voru eingöngu í reglugerð. Jafnframt eru gerðar nokkrar efnisbreytingar á þessum ákvæðum.
7.     Kveðið er á um skyldu til að hafa gjaldmæla í leigubifreiðum, þ.e. fólksbifreiðum og sendibifreiðum. Ákvæði um þetta efni voru nýlega felld brott úr umferðarlögum þar sem þau voru talin eiga heima í lögum um leigubifreiðar.
8.     Samgönguráðuneytinu ber að setja tvær reglugerðir um nánari framkvæmd laganna, aðra fyrir fólksbifreiðar en hina fyrir vörubifreiðar og sendibifreiðar. Er þá meiningin að hætta við útgáfu svæðisbundinna reglugerða sem hefur skort samræmi og reynst ófullnægjandi.
    Nýmælum þessa frumvarps eru gerð fyllri skil hér á eftir þar sem fjallað er um einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er í upphafi tekið fram hvaða bifreiðar falla undir lögin og er þar í reynd ekki um efnisbreytingu að ræða.
    Leiguakstur vörubifreiða er skilgreindur í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 36/1970, um leigubifreiðar. Þeirri skilgreiningu er haldið hér. Leiguakstur sendibifreiða er skilgreindur á sama hátt, en hann er óskilgreindur í gildandi lögum. Þá er hér tekin upp skilgreining á leiguakstri fólksbifreiða sem einnig er óskilgreindur í gildandi lögum.
    Stundum ber það við að ágreiningur rís um atvinnusvið hinna einstöku leigubifreiðastjórastétta. Einkum á þetta sér stað milli fólksbifreiðastjóra og sendibifreiðastjóra þegar fólk og varningur er flutt í sömu ferð. Nauðsynlegt er að samgönguráðuneytið hafi heimild til að skera úr slíkum ágreiningi, sbr. 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins, en að þessu ágreiningsefni er ekki vikið í gildandi lögum. Jafnframt er heimilað með reglugerð að draga gleggri mörk milli atvinnusviða hinna þriggja leigubifreiðastjórastétta.
    Skyldan til að auðkenna leigubifreiðar er tilkomin vegna hagsmuna almennings, sem þarf á þjónustu þeirra að halda, sbr. 5. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Um þetta efni þarf að setja fyllri ákvæði í reglugerð.

Um 2. gr.


    Hér er sameinað í einni grein meginefni 1. gr., 3. gr. og 5. gr. laga nr. 36/1970, um viðurkenningar bæjarstjórna og sýslunefnda á leigubifreiðastöðvum. Ákvæðin um sýslunefndir, sem héraðsnefndir hafa leyst af hólmi, eru þó felld brott þar sem kaupstöðunum hefur fjölgað mjög. Reynslan sýnir að bifreiðastöðvar eru nær eingöngu staðsettar í kaupstöðum þótt félagssvæði bifreiðastjórafélaga nái að jafnaði yfir mörg sveitarfélög.
    Réttarvernd sú, sem grein þessi veitir leigubifreiðastjórum, er aka frá viðurkenndum bifreiðastöðvum, er í rauninni óþörf fyrir alla þá bifreiðastjóra, sem njóta takmörkunarreglugerða. Á hinn bóginn eru til félög innan kaupstaða, sem ekki hafa óskað eftir takmörkun, en þar getur grein þessi haft raunhæft gildi.

Um 3. gr.


    Í gildandi lög hefur skort almennt ákvæði um bifreiðastöðvar og skyldur þeirra. Hér er úr þessu bætt. Ljóst er að bifreiðastöðvar fyrir leigubifreiðar hafa meðal annars hlutverki að gegna við framkvæmd takmörkunar á fjölda leigubifreiða. Á hinn bóginn gildir þessi grein um allar bifreiðastöðvar fyrir leigubifreiðar hvort sem takmörkun hefur átt sér stað eða ekki.

Um 4. gr.


    Hér er í 1. mgr. sameinað meginefni 2. gr., 4. gr., 6. gr. og 7. gr. laga nr. 36/1970. Helstu breytingar eru þær að í stað sýslunefnda koma héraðsnefndir sbr. 66. gr. laga nr. 108/1988, og að fellt er niður að miða við ákveðinn lágmarksfjölda íbúa á svæðinu, þar sem sú viðmiðun hefur nú litla þýðingu. Einnig er felld niður, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1970, skylda til að leita álits vinnuveitendasamtaka sem eru samningsaðilar viðkomandi stéttarfélags vörubifreiðastjóra. Þetta er gert vegna þess að vinnuveitendur eru nú að mestu hættir að semja við stéttarfélög vörubifreiðastjóra.
    Í 2. mgr. þessarar greinar er mælt fyrir um það hvernig takmörkun skuli háttað. Miðað er við ákveðna hámarkstölu hjá vörubifreiðum og sendibifreiðum eins og tíðkast hefur. Að því er fólksbifreiðar varðar er hins vegar um að ræða val á milli hámarkstölu og viðmiðunartölu við íbúafjölda. Aðra valkosti má því ekki heimila með reglugerð.

Um 5. gr.


    Með 1. mgr. er því slegið föstu að allir bifreiðastjórar, sem njóta takmörkunar, skuli vera í sama stéttarfélagi á sínu svæði. Þetta á að sjálfsögðu við hverja stétt fyrir sig, þ.e. fólksbifreiðastjóra, vörubifreiðastjóra og sendibifreiðastjóra. Þetta kemur annars vegar í veg fyrir að sama stéttin klofni í tvö eða fleiri stéttarfélög á sama svæði og hins vegar að einstakir bifreiðastjórar, sem takmörkunar njóta, geti staðið utan félags. Stéttarfélag á frumkvæði að því að takmörkun verði komið á, atbeina þess þarf til að framkvæma hana, og félagið hefur á hendi nauðsynlegt
fyrirsvar fyrir stéttina gagnvart hinu opinbera. Því er óhjákvæmilegt að skylda alla bifreiðastjóra, sem njóta þessa skipulags, til að vera félagsmenn í einu og sama stéttarfélagi á viðkomandi svæði, enda er hagsmunum þeirra sjálfra best borgið með þessum hætti. Ljóst er af nýgengnum dómi Hæstaréttar að reglugerðarákvæði dugir ekki til að skylda bifreiðastjóra til félagsaðildar. Þar þarf lagaákvæði að koma til svo örugglega sé um hnútana búið.
    Í 2. mgr. og 3. mgr. er það nýmæli til verndar á rétti þeirra, er takmörkunar njóta, hvort heldur er með atvinnuleyfi eða án þess, að öllum öðrum er bannað að taka að sér eða stunda leiguakstur á viðkomandi sviði.

Um 6. gr.


    Þessi grein er sama efnis og 8. gr. laga nr. 36/1970.

Um 7. gr.


    Hér eru settar fram undirstöðureglur um gildi atvinnuleyfa. Þær eru í aðalatriðum hinar sömu og fram koma í reglugerð fyrir fólksbifreiðar á höfuðborgarsvæðinu nr. 293/1985. Nauðsynlegt er að lögfesta þessar mikilvægu reglur. Grundvöllur atvinnuleyfanna er eins og sagt er í greininni að sérhver leyfishafi eigi fólksbifreið og hafi það að aðalatvinnu að aka henni sjálfur.
    Með 2. mgr. er fyrir það girt að atvinnuleyfin geti orðið verslunarvara, sbr. 10. gr. laga nr. 36/1970. Þá er tekið fram í málsgreininni að atvinnuleyfishafi sé háður ákvæðum laga og reglugerða um leigubifreiðar svo sem þau eru á hverjum tíma. Þessi regla er sett til að taka af allan vafa í þessu efni.

Um 8. gr.


    Í greininni koma fram skilyrði fyrir því að geta öðlast atvinnuleyfi og haldið því. Þessi skilyrði eru nokkru víðtækari en tíðkast hafa í reglugerðum. Aldurshámark er miðað við 67 ára aldur. Þar sem að því er stefnt að menn njóti ekki atvinnuleyfa lengur en til 70 ára eða í hæsta lagi 75 ára aldurs, sbr. 9. gr. frumvarpsins, er óeðlilegt að veita eldri manni en 67 ára atvinnuleyfi, en þá er skammt eftir af starfsævi hans. Gerð er krafa um fullnægjandi heilbrigðisvottorð, en þessi krafa hefur eigi verið höfð uppi áður. Enn fremur er krafist starfsreynslu við akstur á fólki. Þar gætu bæði strætisvagnastjórar og rútubifreiðastjórar komið til álita þegar fram líða stundir, en ekki eingöngu þeir sem hafa stundað akstur allt að átta farþega leigubifreiða sem
launþegar eins og hefur verið gert ráð fyrir sem aðalreglu í reglugerðum. Þessi breyting þarf að sjálfsögðu sinn aðlögunartíma þannig að launþega-bifreiðastjórar, sem við gildistöku laganna hafa eins árs starfsreynslu að baki, verða að njóta forgangsréttar að vissu marki við næstu úthlutanir atvinnuleyfa.
    Það nýmæli er í 3. mgr. að heimilað er að halda námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi og gera prófárangur að skilyrði fyrir því að leyfi verði veitt. Með því að halda svona námskeið má tryggja réttlátari úthlutun leyfa og tryggja jafnframt almenningi hæfari leigubifreiðastjóra til aksturs á fólki.

Um 9. gr.


    Hér eru settar fram reglur um brottfall atvinnuleyfis, þ.e. við tiltekið aldurshámark, við andlát og við brot á reglum um atvinnuleyfi. Lagt er til að atvinnuleyfi falli úr gildi við 70 ára aldur leyfishafa, en heimilað að hækka þetta aldursmark í allt að 75 ár með reglugerð. Hafa verður í huga þann grundvöll atvinnuleyfanna, sbr. 7. gr. frumvarpsins, að leyfishafi eigi fólksbifreið og hafi það að aðalatvinnu að aka henni sjálfur. Menn sem komnir eru á áttræðisaldur eru yfirleitt lítt færir til þess að stunda leiguakstur og veita farþegum þá þjónustu sem þeir eiga kröfu til. Á hinn bóginn er ekki sanngjarnt að lækka aldursmarkið fyrirvaralaust og af þeim sökum er reglugerðarheimildin sett.
    Lengi vel voru engar reglur um aldurshámark í gildi, en með reglugerð fyrir höfuðborgarsvæðið, þ.e. félagssvæði Bifreiðastjórafélagsins Frama, nr. 293/1985 var sett ákvæði um 75 ára aldurshámark, en framkvæmd þessa ákvæðis hefur valdið deilum og þá einkum hvort reglugerðarákvæði dugi.
    Samkvæmt 4. mgr. má veita tímabundnar undanþágur frá akstri eigin bifreiðar svo sem tíðkast hefur. Stéttarfélagi fólksbifreiðastjóra er falið að hafa þessar undanþáguveitingar með höndum.

Um 10. gr.


    Hér eru settar fram reglur um skipan og meginhlutverk umsjónarnefnda fólksbifreiða. Ákvæði um þetta efni hafa áður verið í reglugerðum og sætt ýmsum breytingum í tímanna rás. Nú eru þessar nefndir skipaðar tveimur til fimm mönnum, en hér er lagt til að þær verði allar skipaðar þremur mönnum. Markmiðið er að gera nefndirnar virkari og skjótari til ákvarðana. Einn nefndarmanna, sem er formaður, skal skipaður af ráðherra án tilnefningar.
Hinir tveir eru tilnefndir af hlutaðeigandi stéttarfélagi og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar sem félagssvæði stéttarfélaga leigubifreiðastjóra taka yfirleitt til margra sveitarfélaga er miklu einfaldara að láta Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefna einn mann heldur en að blanda mörgum sveitarfélögum í málið.
    Ákvæðin um hlutverk umsjónarnefnda eru svipuð þeim sem staðið hafa í reglugerðum.
    Í 3. mgr. greinarinnar er sagt að samgönguráðherra ákveði laun nefndarmanna og að laun þeirra og annar kostnaður af störfum umsjónarnefnda greiðist úr ríkissjóði. Um þetta efni hafa hvorki verið ákvæði í lögum né reglugerðum þótt ríkissjóður hafi auðvitað borgað brúsann þrátt fyrir það.

Um. 11. gr.


    Hér er tekið upp ákvæði um að gjaldmælar skuli vera í öllum fólksbifreiðum og sendibifreiðum, sem notaðar eru til leiguaksturs, og að lögreglustjórar hafi eftirlit með notkun og meðferð gjaldmæla.
    Í 86. gr. umferðarlaga, nr. 40/1968, segir:
    "Samgönguráðherra getur sett gjaldskrá, er ákveður fargjöld með leigubifreiðum til mannflutninga og flutningsgjöld sendibifreiða. Hann getur og ákveðið að gjaldmælir skuli vera í slíkum bifreiðum.“
    Á grundvelli þessa ákvæðis setti samgönguráðherra sérstaka reglugerð um notkun gjaldmæla í leigubifreiðum, sbr. nú reglugerð nr. 136/1986. Hins vegar hefur samgönguráðherra lítt notað heimild sína til að setja gjaldskrár fyrir fólksbifreiðar og sendibifreiðar, en það hafa verðlagsyfirvöld gert áratugum saman og er engin ástæða til að breyta því.
    Með nýju umferðarlögunum, nr. 50/1987, var framangreind 86. gr. umferðarlaganna frá 1968 felld niður. Var litið svo á að lagaákvæði um gjaldskrá og gjaldmæla leigubifreiða tengdust ekki umferðaröryggi og ættu því ekki heima í umferðarlögum. Því er nú svo komið að reglugerðin um gjaldmæla í leigubifreiðum svífur í lausu lofti án stoðar í lögum.
    Gjaldmælaskyldan er mikið öryggisatriði fyrir viðskiptavini þeirra sem stunda leiguakstur með fólksbifreiðum og sendibifreiðum. Því er nauðsynlegt að endurvekja lagaákvæði um gjaldmæla í þessum bifreiðum. Það er gert hér með þessari frumvarpsgrein, enda á það hvergi betur heima en í lögum um fólksbifreiðar og sendibifreiðar. Á hinn bóginn er ekki þörf á að veita samgönguráðherra á ný heimild til að setja gjaldskrá fyrir fólksbifreiðar og sendibifreiðar. Því hlutverki gegna verðlagsyfirvöld.
    Hjá því verður ekki komist að setja fyllri ákvæði um gjaldmælana í reglugerð sem samgönguráðuneytið á að setja skv. 12. gr. frumvarpsins.

Um. 12. gr.


    Á grundvelli gildandi laga hafa verið settar margar og ítarlegar, svæðisbundnar reglugerðir, en engin almenn reglugerð. Hér er áformað að breyta þessu þannig að einungis verði settar tvær reglugerðir, sem hvor fyrir sig nái til landsins alls, önnur fyrir fólksbifreiðar, sem hafa sérstöðu vegna atvinnuleyfakerfisins, en hin fyrir vörubifreiðar og sendibifreiðar. Í hvorri reglugerð fyrir sig yrðu þá talin upp öll félög og félagssvæði, sem takmörkunar njóta, ásamt heimiluðum fjölda leigubifreiða á hverju svæði.

Um 13. gr.


    Greinin kemur í stað 11. gr. laga nr. 36/1970. Hér eru úreltar fjárhæðir sekta felldar niður, en þar með er dómstólunum falið að meta sektarfjárhæðir hverju sinni.

Um 14. gr.


    Lagt er til að frumvarp þetta verði að lögum 1. júlí 1989. Lögin þurfa að taka gildi með fyrirvara þannig að svigrúm skapist til útgáfu nýrra reglugerða sem helst þurfa að vera tilbúnar á gildistökudegi laganna.
    Við gildistöku laganna þarf ekki að endurnýja viðurkenningar á bifreiðastöðvum og eigi heldur útgefin atvinnuleyfi. Hins vegar er það undirstrikað með 4. mgr. að atvinnuleyfishafar verða að sæta þeim breytingum, sem lagafrumvarpið hefur í för með sér, og geta því ekki skírskotað til þeirra reglna óbreyttra sem giltu þegar atvinnuleyfin voru veitt.