Ferill 224. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 224 . mál.


Nd.

884. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, sbr. l. nr. 8/1985.

Frá minni hl. menntamálanefndar.



    Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, felur í sér breytingu á þeim reglum sem gilt hafa um ráðningar við Háskóla Íslands. Nauðsynlegt er að þær reglur séu skýrar, séu líklegar til að hindra ágreining og að tryggt sé að umsækjendur um störf við Háskóla Íslands fái réttláta meðferð. Draga verður í efa að frumvarp þetta tryggi þessi markmið. Nokkur fljótaskrift virðist vera á þessu frumvarpi, enda hefur efri deild séð ástæðu til að flytja við það breytingartillögur og menntamálaráðherra hefur haft frumkvæði að því í efri deild að kveðið verði á um það með skýrum hætti að ráðherra hafi algjört neitunarvald ef honum falla ekki í geð tillögur Háskóla Íslands um einstakar ráðningar.
    Minni hl. getur ekki fallist á frumvarpið eins og það liggur fyrir og flytur breytingartillögu á sérstöku þingskjali. Meiri hluti nefndarinnar hefur tekið upp fyrri breytingartillögu Halldórs Blöndals á þskj. 639 í efri deild. Hér er hins vegar flutt á sérstöku þingskjali síðari breytingartillaga Halldórs Blöndals í efri deild. Tillagan felur í sér þá breytingu að ráðherra sé skylt að fylgja tillögu Háskóla Íslands ef 2 / 3 viðstaddra á deildarfundi mæla með ákveðnum umsækjanda, enda hafi dómnefnd dæmt hann hæfan. Á hinn bóginn er þá fellt niður neitunarvald ráðherra. Mörg dæmi eru þess að eitt eða tvö atkvæði skilji að umsækjendur í atkvæðagreiðslum á deildarfundum. Virðist þá oft tilviljun ráða hver verður ofan á. Ófært er að hendur ráðherra séu bundnar í slíkum tilvikum. Eðlilegt er að þá sé matið lagt í hans hendur. Þess vegna er lagt til að aukinn meiri hluti þurfi að vera fyrir hendi, þ.e. að niðurstaða deildarfundar sé ótvíræð til að hendur ráðherra séu bundnar.
    Ef breytingartillaga þessi nær ekki fram að ganga treystir minni hl. sér ekki til að samþykkja þetta frumvarp.

Alþingi, 18. apríl 1989.



Birgir Ísl. Gunnarsson,


fundaskr.