Ferill 244. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 244 . mál.


Nd.

930. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 87/1985, um sparisjóði.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Hluti þessa frumvarps er í raun og veru ekki annað en nauðsynleg breyting á lögunum um sparisjóði vegna þess að sýslunefndir hafa verið lagðar niður. Um þau mál er vitaskuld ekki ágreiningur.
    Að öðru leyti er í frumvarpinu breyting sem ekki verður talin til bóta á lögunum. Þrátt fyrir vel rökstuddar athugasemdir Sambands íslenskra sparisjóða kýs meiri hl. nefndarinnar að líta fram hjá þeim og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt eins og það kemur frá efri deild.
    Hér verður í stuttu máli gerð grein fyrir þeim athugasemdum sem 1. minni hl. nefndarinnar gerir við frumvarpið.
1.     Við 1. mgr. 28. gr. laganna er gert ráð fyrir breytingu sem greinilega skerðir um of almenn eignarréttindi og rýrir sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga í þjóðfélaginu. Hún er væntanlega sett inn til þess að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur, en hefur sem slík ekki mikinn tilgang. Vel hefði mátt ná því markmiði sem yfirlýst er með öðrum hætti og án þeirrar eignarréttarlegu skerðingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
2.     Ekki er nauðsynlegt að láta endurskoða reglur um lánveitingar og ábyrgðir sparisjóða á eins árs fresti eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Nægilegt er að slík endurskoðun fari fram á tveggja ára fresti. Árleg endurskoðun er óþörf, kallar á pappírsflóð og eykur kostnað. Flestir telja fremur ástæðu til að draga úr kostnaði í bankakerfinu en að auka hann að óþörfu.
3.     3. mgr. 38. gr. er breytt í því skyni að girða fyrir hugsanlegan hagsmunaárekstur. Augljóslega er nauðsynlegt að slíkar reglur séu skýrar og nákvæmar. Þó má ætla að sú orðanna hljóðan sem hér er viðhöfð reynist örðug í minnstu sparisjóðunum, á starfssvæðum þar sem íbúar eru fáir. Er því ljóst að mjög mun velta á framkvæmdinni hvernig ákvæðið verður túlkað.
4.     Við 1. mgr. 71. gr. sparisjóðalaganna er ætlunin að bætist málsliður til þess að samræma þau lögum um viðskiptabanka og eyða ágreiningi um það hvernig skilja beri samsvarandi grein í lögunum. Er þetta í sjálfu sér góðra gjalda vert. Vandinn við þetta er hins vegar sá að ekki er tekið tillit til þeirrar sérstöðu sem ríkir í fámennustu héruðum landsins þar sem sparisjóðirnir eru minnstir. Um það segir í umsögn Sambands íslenskra sparisjóða:
.      „Hitt er ljóst að fjölmargar peningastofnanir uppfylla ekki ákvæðið í dag, en hafa gert áætlanir um að koma því í lag fyrir árslok 1990 þegar aðlögunartími rennur út. Hins vegar er ljóst að almennar fjárfestingar í búnaði og tækjum eru sífellt nauðsynlegar vegna breyttra aðstæðna og tækniþróunar. Túlkað eins og ákvæðið er sett fram meinar það öll tækjakaup þeirra innlánsstofnana sem ekki uppfylla 65% markið og er því óraunhæft og jafnvel til skaða.“
    Af þessu má ljóst vera að þetta frumvarp tekur alls ekki með viðhlítandi hætti á sérstökum vanda innlánsstofnana í hinu litla og dreifða samfélagi á Íslandi og er því sjálfsagt að fella þau ákvæði.

Alþingi, 25. apríl 1989.



Ingi Björn Albertsson,

Einar Kr. Guðfinnson.


fundaskr., frsm.