Ferill 454. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 454 . mál.


Ed.

1155. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framhaldsskóla, nr. 57/1988, sbr. lög nr. 107/1988.

Frá 1. minni hl. menntamálanefndar.



    Frumvarp þetta felur í sér breytingar á lögum um framhaldsskóla sem tóku gildi 9. maí 1988.
    Það var þá þegar löngu tímabært að sett yrði rammalöggjöf um framhaldsskólastigið. Fulltrúar Kvennalistans höfðu þó ýmsar athugasemdir við það frumvarp sem varð að lögum síðastliðið vor og lögðu því fram töluvert margar breytingartillögur.
    Stærstu agnúana á frumvarpinu var að mati Kvennalistans að finna í stjórnunarkafla þess, þar sem pólitískt kjörnum fulltrúum voru færð óeðlilega mikil völd og áhrif um þróun skóla, innra starf, námsbrautir og rekstur.
    Breytingartillögur Kvennalistans varðandi stjórnunarþáttinn hnigu því í þá átt að tryggja að faglegra sjónarmiða skyldi gætt, m.a. með því að ætla fulltrúum kennara og nemenda, deildarstjórum og faggreinafélögum stærri hlut við mótun skólastarfsins. Aðrar breytingartillögur Kvennalistans lutu að ýmsum þáttum í innra starfi skólanna og aðbúnaði nemenda svo sem aukinni námsráðgjöf, sálfræðiþjónustu og stofnun mötuneyta við hvern framhaldsskóla.
    Veigamestu breytingarnar sem fram koma í þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar felast í því að skilgreina nánar og útvíkka verksvið samstarfsnefndar framhaldsskólastigsins, sbr. 3. gr., breytta skipan skólanefnda, sbr. 4. gr. og breytta útreikninga við rekstrarkostnað skólanna svo og gerð samninga milli hvers skóla og menntamálaráðuneytis um greiðslur til skólanna af fjárlagalið þeirra. Efni frumvarpsins í heild fer að nokkru leyti saman við hugmyndir og breytingartillögur Kvennalistans frá síðasta ári. Því hefði e.t.v. legið nokkuð beint við að styðja frumvarpið með nokkrum breytingartillögum eftir eðlilega umfjöllun.
    En eins og nú háttar til hlaut frumvarpið ekki þá faglegu umfjöllun sem nauðsynleg hefði verið vegna kjaradeilu kennara í Hinu íslenska kennarafélagi við fjármálaráðuneytið. Fyrsti minni hl. nefndarinnar leggur áherslu á nauðsyn þess að hafa samráð við og fá umsagnir frá þeim sem daglega er ætlað að starfa eftir lögunum og glæða þau lífi og anda.
    Fyrsti minni hl. telur það ekki málinu til framdráttar að hraða því í gegnum þingið við þær aðstæður sem nú ríkja.
    Allar greinar frumvarpsins snerta dagleg störf kennara í framhaldsskólum landsins og mikilvægt er að útfærsla þess og framkvæmd sé í fullu samráði við þá.
    Með tilvísan til þess telur 1. minni hl. sér ekki fært að taka þátt í afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. maí 1989.


Danfríður Skarphéðinsdóttir,


fundaskr.