Ferill 76. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 76 . mál.


Nd.

77. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 14/1965, um launaskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verði á 3. gr. laganna:
a.    1. mgr. 3. gr., sbr. 7. gr. laga nr. 3/1986, orðist svo:
         Hver almanaksmánuður er uppgjörstímabil launaskatts. Gjalddagi launaskatts er 1. dagur næsta mánaðar á eftir uppgjörsmánuði, vegna launa í uppgjörsmánuði, og eindagi 14 dögum síðar. Beri eindaga upp á helgidag eða almennan frídag færist eindagi á næsta virkan dag á eftir. Launagreiðandi skal ótilkvaddur greiða skattinn innheimtumanni ríkissjóðs, í Reykjavík tollstjóra. Greiðslunni skal fylgja greinargerð launagreiðanda um launagreiðslur hans í uppgjörsmánuðinum. Greinargerðin skal vera í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
b.    Orðin „mánuðina nóvember og“ í 2. málsl. 3. mgr. 3. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 5/1982, falli niður.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990 og koma til framkvæmda í fyrsta sinn vegna launaskatts sem greiða ber af launum er greidd eru fyrir janúarmánuð 1990.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt núgildandi lögum um launaskatt, nr. 14/1965, með síðari breytingum, er launaskattur innheimtur á tveggja mánaða fresti og þá fyrir tvo mánuði í senn. Samkvæmt þessu eru gjalddagar launaskatts sex á hverju ári. Gjalddagi vegna launa, sem greidd eru fyrir mánuðina janúar og febrúar, er 15. mars, fyrir mánuðina mars og apríl 15. maí, fyrir mánuðina maí og júní 15. júlí, fyrir mánuðina júlí og ágúst 15. september, fyrir mánuðina september og október 15. nóvember og fyrir mánuðina nóvember og desember 15. janúar. Eindagi er mánuði eftir gjalddaga.
    Samkvæmt þessu frumvarpi er gerð tillaga um að launaskattur verði framvegis innheimtur í hverjum mánuði líkt og gildir um staðgreiðsluskatt af launum, enda er skattstofninn svo að segja sá sami. Með þessu móti yrðu gjalddagar launaskatts tólf á hverju ári í stað sex. Þessi breyting á innheimtu launaskatts mun gera hana mun virkari og eftirlit jafnframt auðveldara. Einnig fylgir þessu ótvírætt bókhaldslegt hagræði fyrir fyrirtækin, enda þótt mörg þeirra kynnu að sakna þess að hafa skattinn ekki lengur í veltunni. Hins vegar má benda á að það þjónar ekki hagsmunum hins almenna skattborgara að geyma féð frekar hjá fyrirtækjunum en ríkissjóði. Gera má ráð fyrir því að við þessa breytingu batni greiðslustaða ríkissjóðs á næsta ári um 200 milljónir króna. Jafnframt má benda á að þessi breyting er mikilvægt skref í þá átt að samræma stofn og innheimtukerfi launaskatts við stofn og innheimtukerfi staðgreiðslu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt þessari grein er gerð tillaga um að gjalddögum launaskatts verði fjölgað frá því sem nú er. Gert er ráð fyrir því að launaskatti verði skilað mánaðarlega í stað þess að honum verði skilað á tveggja mánaða fresti. Jafnframt er gerð tillaga um að gjalddagi launaskatts verði 1. dagur næsta mánaðar eftir uppgjörsmánuð og eindagi skattsins 14 dögum síðar.

Um 2. gr.


    Samkvæmt þessari grein er gert ráð fyrir því að breyting á gjalddögum launaskatts gildi frá og með janúarmánuði 1990. Samkvæmt þessu verða launaskattsskyldir aðilar að greiða launaskatt vegna launa sem greidd eru fyrir janúarmánuð 1990, eigi síðar en 15. febrúar 1990.