Ferill 125. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 125 . mál.


Ed.

129. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um sakadóm í ávana- og fíkniefnamálum, nr. 29/1986.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Við 2. gr. bætist ný málsgrein, 3. mgr., svohljóðandi:
    Ef vafi þykir vera um mikilsverð sönnunar- eða lagaatriði getur dómarinn kvatt til setu í dómi með sér tvo dómendur. Sá sem kvaddur er til setu í dómi skal vera embættisdómari eða fullnægja skilyrðum 2. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og taka, eftir því sem við getur átt, til mála sem ákært hefur verið í og þingfest hafa verið fyrir gildistöku þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt lögum um sakadóm í ávana- og fíkniefnamálum, nr. 29/1986, skal fyrir þeim dómstóli reka og dæma opinber mál vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, og vegna brota á 173. gr. a almennra hegningarlaga.
    Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974, getur ríkissaksóknari kveðið svo á að rannsókn máls og meðferð, annað hvort eða hvort tveggja, skuli fara fram í Reykjavík eða annars staðar á landinu þar sem honum þykir best við eiga, enda þótt það skyldi annars sæta rannsókn og meðferð dómara í öðru lögsagnarumdæmi, ef mál er vandasamt eða umfangsmikið. Mál vegna meiri háttar skatta- og efnahagsbrota skulu að jafnaði sæta meðferð í Reykjavík. Í 3. mgr. sömu greinar segir að í Reykjavík geti þrír sakadómarar, annaðhvort eftir ákvörðun yfirsakadómara eða eftir boði dómsmálaráðherra, farið með mál eftir rannsókn þess og dæmt það í sameiningu, enda þyki vafi vera um mikilsverð sönnunar- eða lagaatriði.
    Á undanförnum missirum hafa komið til meðferðar sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum nokkur umfangsmikil fíkniefnamál þar sem um hefur verið að ræða innflutning og dreifingu á kókaíni, en við slíkum brotum liggja þung viðurlög. Til að fylgja eftir stefnu stjórnvalda um samfellda, hraða og vandaða málsmeðferð er í 1. gr. frumvarpsins lagt til að þegar vafi þykir vera um mikilsverð sönnunar- eða lagaatriði geti dómarinn ákveðið að slík mál séu dæmd af þriggja manna dómi, eins og heimilt er að gera séu slík mál rekin fyrir sakadómi Reykjavíkur.
    Samkvæmt gildandi lögum er ekki ótvírætt að heimilt sé að fleiri en einn dómari dæmi mál sem rekin eru fyrir sakadómi í ávana- og fíkniefnamálum og er því frumvarp þetta flutt.
    Í 2. málsl. 1. gr. er fjallað um hæfi þeirra sem kvaddir eru til setu í dómi. Þar er lagt til að annaðhvort sé um að ræða embættisdómara eða mann/menn sem uppfylla skilyrði 2. mgr. 2. gr. laganna, þ.e. til skipunar sem sakadómari í ávana- og fíkniefnamálum. Auk almennra skilyrða til skipunar í héraðsdómaraembætti skal viðkomandi hafa þekkingu á rannsókn og meðferð ávana- og fíkniefnamála.
    Í 2. gr. frumvarpsins er m.a. lagt til að umrædd lagabreyting taki til mála sem þegar eru til meðferðar hjá dóminum.