Ferill 179. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 179 . mál.


Ed.

202. Frumvarp til laga



um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)



1. gr.

    Sjávarútvegsráðherra veitir leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar fyrir sjávarafla. Við veitingu leyfa skal ráðherra m.a. meta hvort skilyrði frjálsrar verðmyndunar á uppboðsmarkaði séu fyrir hendi með hliðsjón af líklegu fiskframboði, fjölda fiskvinnslustöðva á markaðssvæði og starfsemi annarra uppboðsmarkaða.
    Leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar skal veitt til eins árs í senn. Ráðherra er heimilt að svipta aðila leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar fullnægi hann ekki skilyrðum settum í lögum þessum eða reglum um starfsemi markaðarins, sbr. 4. gr.

2. gr.

    Leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar má einungis veita aðilum sem fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
a.    Hafi íslenskan ríkisborgararétt og haft fasta búsetu á Íslandi sl. tvö ár.
b.    Séu fjárráða.
c.    Hafi forræði á búi sínu.
    Enn fremur má veita hlutafélögum leyfi til reksturs, enda sé allt hlutaféð í eign íslenskra ríkisborgara, sbr. 11. gr. laga nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi.

3. gr.


    Lög nr. 53 30. maí 1984, um Ríkismat sjávarafurða, og reglur settar með stoð í þeim lögum, gilda um húsnæði og búnað uppboðsmarkaðar og meðferð afla eftir því sem við getur átt.

4. gr.

    Áður en rekstur uppboðsmarkaðar hefst skal leyfishafi leita samþykkis ráðherra á reglum um starfsemi markaðarins. Aðeins er heimilt að breyta reglum um starfsemi uppboðsmarkaðar með samþykki ráðherra.

5. gr.

    Þeim aðilum, sem leyfi hafa til reksturs uppboðsmarkaðar, er skylt að láta liggja frammi yfirlit yfir selt aflamagn hvers dags, kaupendur þess og verð. Skulu þeir daglega senda Fiskifélagi Íslands afrit af þessu yfirliti.
    Þá er skylt að senda opinberum aðilum, sem þess óska, skýrslu um seljendur afla, aflamagn, kaupendur og verð.

6. gr.

    Leyfishafar skulu standa skil á uppboðsandvirði hins selda afla til seljenda og sjá um skil á greiðslum samkvæmt ákvæðum II. kafla laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.
    Leyfishafi skal krefjast greiðslutrygginga af kaupanda sé ekki um staðgreiðslu að ræða.
    Við skiptingu greiðslna samkvæmt þessari grein skal miða við uppboðsandvirði að frádregnum beinum kostnaði af uppboðinu.

7. gr.

    Um sjávarafla, sem seldur er á uppboðsmarkaði, gilda ekki ákvæði um lágmarksverð samkvæmt lögum nr. 43/1985, um Verðlagsráð sjávarútvegsins.

8. gr.

    Leyfishafi skal hafa í þjónustu sinni a.m.k. einn starfsmann sem sér um framkvæmd uppboðs og skal hann hafa löggildingu til starfans.
    Sjávarútvegsráðherra veitir löggildingu.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í marsmánuði 1987 voru samþykkt á Alþingi lög um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla. Var hér um tilraun að ræða í því skyni að fá úr því skorið hvort unnt væri að starfrækja á Íslandi fiskmarkaði þar sem verðlagning væri frjáls. Var gildistími laganna ákveðinn til loka árs 1989 og mundi Alþingi taka þau til endurskoðunar þegar reynsla væri fengin af þessu nýja fyrirkomulagi við verðlagningu sjávarafla.
    Á undanförnum árum hefur grundvöllur hins fasta verðkerfis fyrir sjávarafla verið að breytast. Bættar samgöngur á landi hafa í auknum mæli gert flutning á afla milli byggðarlaga mögulegan. Þróun í flutningatækni og geymslu sjávarafla hafa einnig auðveldað seljendum aðgang að mörkuðum, bæði innan lands og erlendis. Þá hefur bætt upplýsingatækni aukið möguleika á miðlun upplýsinga milli seljenda og kaupanda. Þessi atriði, er lúta að breyttum ytri skilyrðum í viðskiptum með sjávarafla ásamt breytingum á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins á árinu 1985 og afnámi sjóðakerfisins vorið 1986, gáfu aukna möguleika á að gera tilraun með uppboðsmarkað fyrir sjávarafla.
    Með stofnun uppboðsmarkaða var þess vænst að starfsemi þeirra leiddi til aukinnar sérhæfingar og nýjunga í framleiðslu jafnframt því sem það mundi stuðla að auknum gæðum hráefnis. Fullvíst má telja að forsendur fyrir að ná árangri varðandi þessi atriði hafi verið skapaðar með stofnun markaðanna, enda þótt ekki liggi fyrir úttekt á því í hve miklum mæli raunin hafi orðið sú.
    Frá því lögin voru samþykkt hafa alls fimm markaðir tekið til starfa. Þrír þeirra voru stofnaðir á suðvesturhorni landsins og eru þeir allir starfandi nú, en markaðir, sem komið var á fót á Akureyri og í Vestmannaeyjum, hættu fljótlega starfsemi.
    Ýmsir höfðu áhyggjur af að of margir uppboðsmarkaðir yrðu stofnaðir áður en nægjanleg reynsla fengist af starfsemi þeirra og að stofnun þeirra gæti haft óheppileg áhrif á uppbyggingu og skipulag fiskvinnslunnar. Víst er að fiskverkendum hefur fjölgað á þeim tíma sem fiskmarkaðarnir hafa verið starfandi, en erfitt er að meta hvort það er beinlínis afleiðing af tilkomu markaðanna.
    Hér að neðan eru upplýsingar, sem sýna hvernig botnfiskafli og verðmæti hans skiptist á árinu 1988, en það ár var fyrsta heila starfsár fiskmarkaðanna.

    —————————————————————————
    
Botnfiskur
     Brúttóverðmæti
    Löndun 1988
Magn (tonn)
% Millj. kr. %
    —————————————————————————
    Innan lands (utan markaða)
440.777 63,2 11.394 48,0
    Fiskmarkaðir
56.800 8,1 1.668 7,0
    Selt óunnið erlendis
113.461 16,3 6.352 26,7
    Sjófryst
83.985 12,0 4.267 18,0
    Annað
2.542 0,4 74 0,3
    —————————————————————————
(Heimild: Útvegur 1988.)

    Rúm 8% af heildarbotnfiskafla ársins 1988 fór því um innlenda fiskmarkaði og nam heildarvelta þeirra tæplega 1,7 milljörðum króna. Verðmyndun á mörkuðum hefur ráðist talsvert af því hversu ójafnt framboðið hefur verið.
    Sjávarútvegsráðuneytið hefur við undirbúning að samningu frumvarpsins átt viðræður við ýmsa aðila er tengjast veiðum, vinnslu og starfsemi fiskmarkaða. Voru þeir flestir á einu máli um að tilkoma uppboðsmarkaða fyrir sjávarafla hefði gefið góða raun og að sú tilraun, sem hófst í mars árið 1987, hafi sannað gildi sitt.
    Í frumvarpi þessu felast aðeins óverulegar breytingar sem einkum tengjast því að gert er ráð fyrir því að lögin verði ótímabundin.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í gildandi lögum segir: „Leyfi til reksturs skal bundið við ákveðin landsvæði, m.a. með hliðsjón af samgöngum, fjarlægðum milli verstöðva og fjölda fiskvinnslufyrirtækja.“ Leyfi til reksturs uppboðsmarkaða hafa ekki verið bundin við ákveðin svæði í þeirri merkingu að aðeins megi flytja á þann markað afla sem veiddur er af skipum frá ákveðnum svæðum. Í leyfum hefur aðeins verið tilgreint hvar markaðarnir skuli staðsettir og eru ekki neinar takmarkanir á löndun afla hjá þeim markaði. Við ákvörðun um veitingu leyfis til reksturs uppboðsmarkaðar þarf að vega og meta ýmis atriði sem erfitt er að tilgreina nákvæmlega í lagatexta og er því lagt til að orðalagi verði breytt þannig að ráðherra meti fyrst og fremst hvort grundvöllur sé fyrir frjálsri verðmyndun miðað við aðstæður á viðkomandi svæði. Atriði eins og fjarlægðir milli verstöðva og markaða og samgöngur hljóta eftir sem áður að vega þungt þegar ákvörðun er tekin um hvort veita eigi leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar á ákveðnu svæði.
    Í 2. mgr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar séu veitt til eins árs í senn eins og í gildandi lögum. Með þessu móti gefst tækifæri til að endurskoða og meta árlega þróunina í starfsemi einstakra markaða sem er nauðsynlegt, t.d. ef taka á afstöðu til nýrra umsókna um leyfi til reksturs markaða. Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að fellt verði niður ákvæði þess efnis að leyfishafa skuli skylt að reka uppboðsmarkað allt leyfistímabilið, enda vandséð hvernig leyfishafi verði knúinn til þess ef aðstæður til reksturs eru ekki fyrir hendi.
    Í 2. mgr. frumvarpsins er tekið fram að heimilt sé að svipta aðila leyfi til reksturs uppboðsmarkaðar fullnægi hann eða markaðarnir ekki lengur ákvæðum laganna eða starfsreglum markaðarins staðfestum af ráðherra.

Um 2.–8. gr.


    Samhljóða 2.–8. gr. gildandi laga.

Um 9. gr.


    Hér er lagt til að lögin verði ótímabundin og vísast í þessu sambandi til almennrar greinargerðar.