Ferill 100. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 100 . mál.


Sþ.

361. Nefndarálit



um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1989.

Frá meiri hl. fjárveitinganefndar.




    Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1989 hefur verið til meðferðar hjá fjárveitinganefnd Alþingis. Nefndin hefur nú fyrir sitt leyti lokið afgreiðslu málsins og gerir meiri hl. nefndarinnar ákveðnar tillögur um afgreiðslu þess á sérstöku þingskjali. Minni hl. nefndarinnar, þau Pálmi Jónsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Egill Jónsson og Friðjón Þórðarson, stendur ekki að þeim tillögum og mun skila sérstöku nefndaráliti. Hins vegar kom fram hjá fulltrúum minni hl. í fjárveitinganefnd að full samstaða er í nefndinni milli meiri og minni hl. um hvernig að afgreiðslu málsins skuli staðið en með þeirri afgreiðslu hefur nefndin gefið fordæmi um hvernig hún telur rétt að staðið sé að afgreiðslu fjáraukalagafrumvarpa þeirra sem flutt verða á komandi árum. Þá munu fulltrúar minni hl. einnig greiða atkvæði með sumum tillögum sem meiri hl. flytur og mun það koma fram bæði í nefndaráliti minni hl. og í ræðum fulltrúa minni hl. hvaða tillögur það eru. Til þess að einfalda vinnubrögð var hins vegar brugðið á það ráð að allar breytingartillögur við frumvarp til fjáraukalaga, sem ræddar hafa verið, undirbúnar og fluttar í fjárveitinganefnd, yrðu fluttar af meiri hl. einum og á einu þingskjali, þó svo að sumar þessara tillagna njóti stuðnings fulltrúa minni hl. í nefndinni.
    Sú afgreiðsla, sem fer nú fram, markar tímamót í umfjöllun um ríkisfjármál á Alþingi. Í fyrsta skipti hefur það gerst að fjármálaráðherra flytur frumvarp til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár. Er það ásetningur ráðherrans að sá háttur verði framvegis á hafður. Þessi nýbreytni bætir mjög aðstöðu Alþingis, þ.e. fjárveitingavaldsins, til áhrifa á fjárlagaákvarðanir sem teknar eru fyrir fjárlagaár það sem er að líða og einnig bætir þessi nýbreytni aðstöðu fjárveitinganefndar til að leggja raunhæft mat á fjárlagagerð fyrir næsta ár. Það skiptir því miklu máli hvernig tekist er á við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár, í fyrsta skipti sem slíkt fjáraukalagafrumvarp er lagt fyrir Alþingi. Fulltrúar í fjárveitinganefnd hafa átt góða samvinnu um hvernig að þeim afgreiðslum skuli staðið og eru nefndarmenn, eins og áður segir, sammála því hvernig afgreiðsla slíkra fjáraukalaga skuli fara fram og gefur sú afgreiðsla fordæmi fyrir þær afgreiðslur sem á eftir koma.
    Það verklag, sem fjárveitinganefnd hefur haft á afgreiðslu málsins, er í meginatriðum þetta:

1.     Leitað var nákvæmra upplýsinga um allar aukafjárveitingar sem átt hafa sér stað á árinu og sérstaklega gengið eftir því hvaða aukafjárveitingar hafa verið greiddar út og hvaða greiðslur samkvæmt aukafjárveitingaheimildum eru skuldbindandi. Tilgangurinn var sá að leiða í ljós hverjum af þessum aukafjárveitingum Alþingi gat haft vald á þegar frumvarpið var lagt fram og kom þá í ljós að það var aðeins lítill hluti aukafjárveitinganna sem var á valdi Alþingis að úrskurða um hvort greiddar skyldu eða ekki. Lagði fjárveitinganefnd síðan sitt sjálfstæða mat á þær aukafjárveitingabeiðnir og heimildir sem ekki höfðu verið greiddar og verður gerð grein fyrir niðurstöðu nefndarinnar síðar.
2.     Í frumvarpinu voru ýmsar safntölur, svo sem um áætlaðan greiðsluhalla stofnana ríkisins, um laun og verðlagsmál o.fl. Fjárveitinganefnd markaði þá stefnu að slíkar safntölur skyldi sundurliða til einstakra verkefna og viðfangsefna þannig að fyrir lægi hver staðan væri hjá hverri stofnun og hverju viðfangsefni fyrir sig og ljóst væri hvaða greiðsluheimildir væri verið að gefa hverri stofnun með afgreiðslu fjáraukalaga. Sé þetta ekki gert er ekki hægt að bera saman annars vegar greiðsluheimildir sem stofnanir og viðfangsefni hafa fengið á fjárlögum og hins vegar niðurstöðuna í árslok. Umrædd sundurliðun var framkvæmd eins og fram kemur í breytingartillögum meiri hl. fjárveitinganefndar á sérstöku þingskjali.
3.     Fjárveitinganefnd kallaði síðan fyrir sig menn úr ráðuneytum og einstökum stofnunum — og þá sérstaklega frá þeim stofnunum sem hæstum fjárhæðum velta — og bar saman áætlanir um afkomu þessara stofnana annars vegar á grundvelli þeirra sundurliðana sem fjármálaráðuneytið hafði gert á tölum fjáraukalagafrumvarpsins og hins vegar á grundvelli þeirra upplýsinga sem forráðamenn stofnana og ráðuneyta lögðu fyrir nefndina um fjármálastöðu stofnananna og viðfangsefnanna. Jafnframt hafði fjárveitinganefnd til hliðsjónar nýjustu upplýsingar úr Ríkisbókhaldi um stöðu stofnana og viðfangsefna. Hvað suma þessara aðila varðaði kom í ljós að umtalsverður munur var á áætlunum, sem lagðar voru fram í frumvarpi til fjárauklaga, um afkomu þeirra og á niðurstöðum Ríkisbókhalds og áætlunum stofnananna sjálfra um stöðu og afkomu. Þar sem verulegum fjárhæðum munaði á áætlun fjáraukalagafrumvarpsins og rökstuddum áætlunum stofnana og niðurstöðum upplýsinga úr Ríkisbókhaldi brá fjárveitinganefnd á það ráð að leiðrétta augljósar skekkjur og má þar sem dæmi nefna að í áætlun fjáraukalaganna var gert ráð fyrir því að greiðslur umfram fjárlagaheimildir hjá Ríkisspítölum mundu nema 50 milljónum króna en við nánari athugun kom í ljós að hallinn á rekstri Ríkisspítala mun nema a.m.k. tvöfaldri þeirri fjárhæð og gerði fjárveitinganefnd tillögu um tilsvarandi leiðréttingu á áætlun fjáraukalagafrumvarpsins. Þannig tók fjárveitinganefnd fyrir öll stærstu viðfangsefnin í útgjöldum ríkisins og bar áætlaða niðurstöðu þar um í fjáraukalagafrumvarpinu saman við nýjustu upplýsingar Ríkisbókhalds og rekstraráætlana forstöðumanna sjálfra. Væri mikill munur á áætlun og sennilegri útkomu gerði fjárveitinganefnd óhjákvæmilega leiðréttingu, enda voru fjárveitinganefndarmenn sammála um þá meginstefnu við afgreiðslu fjáraukalagafrumvarpsins að stefna bæri að því þegar það er nú afgreitt örfáum dögum fyrir áramót að frumvarpið gefi sem réttasta mynd á raunverulegri og óhjákvæmlegri niðurstöðu ársins sem aðeins tíu dagar verða eftir af þegar fjáraukalagafrumvarpið hlýtur lokaafgreiðslu á Alþingi.
4.     Í fjórða lagi fór nefndin mjög vandlega yfir áætlanir þær, sem gerðar hafa verið í fjármálaráðuneytinu, um áhrif kjarasamninga, sem gerðir voru á árinu, á launaútgjöld ríkisins og stofnana þess. Nefndin gerði engar athugasemdir við áætlun þá um launakostnaðaráhrif kjarasamninganna sem fjármálaráðuneytið gerði og lagði til grundvallar áætlana um aukin launakostnaðarútgjöld í fjáraukalagafrumvarpinu, en áætluð áhrif kjarasamninganna eru skýrð í greinargerð þess frumvarps.
5.     Þá óskaði fjárveitinganefnd eftir sundurliðuðum hugmyndum ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðuneyta um niðurskurð ríkisútgjalda í samræmi við boðaða stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1989. Nefndin lagði mat á þessar tillögur hverja fyrir sig og flytur þær lítið eitt breyttar á Alþingi þannig að Alþingi gefist kostur á að taka sjálfstæða afstöðu til hverrar og einnar af þessum tillögum.

    Þessi fimm atriði eru höfuðatriði þeirrar stefnu, sem fjárveitinganefnd markaði sameiginlega, um hvernig tekið skyldi á afgreiðslu frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 1989. Þannig hefur nefndin leitast við í fyrsta lagi að gera frumvarpið þannig úr garði að það gefi eins rétta mynd og unnt er af líklegri afkomu ríkissjóðs og stofnana ríkisins á árinu 1989, og er þó líklegra að rekstrarútgjöld ríkisins og stofnana þess umfram heimildir fjárlaga séu þar frekar vanmetin en ofmetin. Í öðru lagi mótuðust vinnubrögð nefndarinnar af því að leggja fyrir Alþingi til endanlegrar ákvörðunar sundurliðaðar tillögur sem með skýrum og greinargóðum hætti lýsa þeim viðbótarfjárheimildum sem verið er að afla fyrir hverja stofnun og hvert viðfangsefni og gefa einnig Alþingi kost á að taka afstöðu til sérhvers viðfangsefnis fyrir sig hvort sem um er að ræða tillögu til hækkunar útgjalda eða lækkunar.

Breytingar frá frumvarpinu.
    Helstu breytingar, sem fjárveitinganefnd hefur gert frá frumvarpinu eins og það var lagt fram, eru þessar:

Breytingar á gjaldahlið.
    Öðrum kafla frumvarpsins „Vegna breyttra verðlagsforsendna“ „09
Fjármálaráðuneyti, Launa- og verðlagsmál“ að fjárhæð 3.105 milljónir króna var breytt þannig að eftir standa á liðnum 1.315 milljónir króna og er það í samræmi við þær forsendur um breytingar á launa- og verðlagsmálum sem lagðar voru til grundvallar í frumvarpi til fjáraukalaga um áhrif nýrra launasamninga og breyttra verðlagsforsendna á rekstrargjöldum. Út hafa þá verið færð af þessum lið útgjöld vegna annarra viðfangsefna, svo sem vaxtagreiðslna, hækkun framlags til lífeyris- og sjúkratrygginga, og þau útgjöld vistuð á réttum stöðum.
    Í III. kafla frumvarpsins „Vegna fyrirsjáanlegs greiðsluhalla stofnana“ var tilgreind áætluð hallafjárhæð í einni tölu 800 milljónir króna. Fjárveitinganefnd hefur gert þær breytingar hér á að hún hefur óskað eftir og fengið sundurliðun frá fjármálaráðuneytinu um hvernig þessi áætlaði rekstrarhalli deildist niður á stofnanir og viðfangsefni. Nefndin tók síðan þá sundurliðun til sjálfstæðrar skoðunar og gerði á henni þær breytingar varðandi einstakar stofnanir og viðfangsefni sem hún taldi algerlega óhjákvæmilegar í ljósi nýjustu upplýsinga um stöðu stofnana og viðfangsefna svo að fjáraukalagafrumvarpið gæti gefið sem réttasta mynd af líklegum niðurstöðum. Í þessu sambandi er rétt að geta þess um stöðu stofnana og viðfangsefna í sundurliðun fjármálaráðuneytis um áætlaðan greiðsluhalla að flestar stofnanirnar reyndust þegar vera búnar að ráðstafa þeim viðbótarútgjöldum sem áætlanir gerðu ráð fyrir að ættu að endast til alls ársins; enn var þó síðasti mánuður ársins eftir. Er því óhætt að fullyrða að þær áætlanir, sem fjárveitinganefnd gerði og felast í breytingartillögum hennar, fela fremur í sér vanáætlanir en ofáætlanir á greiðslum í desember vegna þessara stofnana á árinu 1989.
    Í IV. kafla frumvarpsins „Vegna skattkerfisbreytinga“ var gert ráð fyrir 350 milljónum króna til endurgreiðslu söluskatts á árinu 1989 vegna sjávarútvegs, iðnaðar, fiskeldis o.fl. Fjárveitinganefnd óskaði eftir því að þessi fjárhæð yrði enduráætluð af fjármálaráðuneytinu og við þá enduráætlun taldi fjármálaráðuneytið að endurgreiðslufjárhæðin þyrfti að nema 390 milljónum króna og gerði fjárveitinganefnd þá niðurstöðu að tillögu sinni.
    Í V. kafla frumvarpsins „Vegna geymdra fjárveitinga frá 1988“ gerði fjárveitinganefnd þá breytingu að hún óskaði eftir og fékk sundurliðun á þessum geymdu tölum um fjárveitingar frá árinu 1988 og hefur tekið þá sundurliðun og gert hana að tillögu sinni þannig að ljóst sé um hvaða geymdar fjárveitingar sé að ræða til hvers viðfangsefnis fyrir sig og hvað vinna eigi
fyrir það fé.
    Í 4. gr. frumvarpsins segir að fjármálaráðherra sé heimilt að lækka gjöld skv. 2. gr. fjárlaga fyrir árið 1989 um allt að 650 milljónum króna. Í skýringum með þessari grein er sagt að hér sé um að ræða framkvæmd á samþykkt ríkisstjórnarinnar um þessa lækkun á útgjöldum ársins 1989. Fjárveitinganefnd kallaði eftir því frá ráðuneytunum að fá sundurliðun og nánari grein gerða fyrir þeirri lækkun fjárveitinga sem hér væri ráðgerð. Samkvæmt þeim upplýsingum kom fram að auk niðurskurðar á framlögum til byggingarsjóðanna að fjárhæð 500 milljónir króna hafði ríkisstjórnin samþykkt viðbótarniðurskurð hjá tilteknum ráðuneytum um 150 milljónir króna samtals. Þegar sundurliðaðar tillögur ráðuneytanna bárust kom hins vegar í ljós að samanlögð fjárhæð lækkaðra útgjalda hjá þeim nam aðeins 118 milljónum króna og ritaði þá fjárveitinganefnd fjármálráðuneytinu bréf og bað um tillögu ráðuneytisins um þær 32 milljónir króna er á vantaði. Fjárveitinganefnd fékk tillögur fjármálaráðuneytisins þar um og fjölluðu þær um niðurskurð á fjárveitingum vegna viðhalds og stofnframkvæmda á viðfangsefnum á vegum nokkurra ráðuneyta og höfðu þær greiðslur ekki verið inntar af hendi. Fjárveitinganefnd féllst á tillögur fjármálaráðuneytisins um þann niðurskurð þó að fyrir lægi að flestallar þær stofnanir, sem í hlut áttu, höfðu farið fram úr fjárlagaheimildum ársins og sumar allverulega en þá vegna launakostnaðar og annarra rekstrargjalda. Niðurskurðartillögurnar, sem fjárveitinganefnd gerir að sínum, eru því í rauninni um að tilteknar fjárhæðir vegna viðhalds og stofnkostnaðar, sem ekki er búið að ráðstafa, samtals að fjárhæð 32 milljónir króna hjá tilteknum stofnunum, verði ekki yfirfærðar til næsta árs sem geymdar fjárveitingar. Hvað varðar aðrar tillögur er nefndinni bárust hefur hún gert þær allar að sínum og flytur þær nú að einni tillögu undantekinni. Var það tillaga samgönguráðuneytis um niðurskurð á framkvæmdum til tiltekinna viðfangsefna í vegagerð að fjárhæð samanlagt 33 milljónir króna. Vaninn hefur verið sá að þegar þurft hefur að skera niður framkvæmdafé vegna vegagerðar hefur verið haft um það samráð við þingmenn kjördæmanna og þeir hafðir með í ráðum um hvaða viðfangsefni eru valin. Svo var ekki gert nú. Ekki var leitað til þingmannahópanna um þennan niðurskurð og ekkert samráð við þingmenn um það haft og telur fjárveitinganefnd því að ekki sé stuðningur á Alþingi við þær hugmyndir um niðurskurð á einstökum vegaframkvæmdum sem fólust í tillögum samgönguráðherra. Vildi nefndin því ekki fallast á að leggja þær þannig fyrir Alþingi heldur gerir tillögu um niðurskurð sem raunar er mun meiri á öðrum framlögum til vegagerðar sem ráð var fyrir gert í frumvarpinu sjálfu.
    Um I. kafla frumvarpsins er það að segja að í honum eru taldar allar svokallaðar aukfjárveitingar sem samþykktar hafa verið á árinu 1989. Samtals nema þessar aukafjárveitingar 8.802.739 þúsundum króna og eru það allt greiðslur án heimilda í fjárlögum. Af þessari fjárhæð var þegar búið að greiða, þegar frumvarp til fjáraukalaga kom til fjárveitinganefndar, 2.275.178 þúsundir króna og búið var að taka skuldbindandi ákvörðun um greiðslu 5.792.531 þúsunda króna því til viðbótar. Þar að auki kom svo endurgreiðsla á söluskatti, sem einnig er bundin, að fjárhæð 350 milljónir króna, þannig að svigrúm fjárveitinganefndar og Alþingis til ákvarðanatöku um greiðslur úr ríkissjóði námu aðeins 385.030 þúsundum króna en þar af áttu 100 milljónir króna að renna sem framlag til Hlutafjársjóðs í samræmi við samþykktir ríkisstjórnar þannig að svigrúm fjárveitinganefndar til ákvarðana um greiðslur utan fjárlagaheimilda nam innan við 300 milljónum króna. Fjárveitinganefnd fór yfir allar þær aukafjárveitingar sem samþykktar höfðu verið en ógreiddar voru og tók þá meginstefnu að leggja ekki til að slíkar aukafjárveitingar yrðu samþykktar. Samtals námu niðurskurðartillögur fjárveitinganefndar á ógreiddum aukafjárveitingum þannig rúmlega 100 milljónum króna og nema niðurskurðartillögur fjárveitinganefndar því rúmlega þriðjungi af þeirri samanlögðu aukafjárveitingafjárhæð sem nefndin gat tekið afstöðu til hvort greiða ætti eða ekki. Allar aðrar greiðslur höfðu ýmist verið inntar af hendi eða teknar skuldbindandi ákvarðanir um þegar að því kom að nefndin og Alþingi gætu um þær fjallað. Þá bárust nefndinni einnig allmörg erindi frá einstökum ráðuneytum og öðrum um aukafjárveitingar til einstakra viðfangsefna langt umfram það sem fjáraukalögin gerðu ráð fyrir. Fjárveitinganefnd samþykkti engin slík erindi en vísaði þeim öllum frá.

Breytingar á tekjuhlið.
    Fjárveitinganefnd óskaði síðan eftir því að farið yrði yfir 1. gr. frumvarps til fjáraukalaga ef einhverjar breytingar kynnu að hafa orðið á tekjuáætlun frumvarpsins nú rétt í þann mund sem tekjuárinu er að ljúka. Niðurstaða þeirrar athugunar varð eftirfarandi:
    Áætlun frumvarpsins um tekjur af beinum sköttum umfram áætlun fjárlaga er lækkuð úr 600 milljónum króna í 200 milljónir króna eða um 400 milljónir króna.
    Áætlun frumvarpsins um tekjur af óbeinum sköttum umfram áætlun fjárlaga er hækkuð úr 802 milljónum króna í 1.352 milljónir króna eða um 550 milljónir króna.
    Áætlun frumvarpsins um aðrar tekjur umfram áætlun fjárlaga er hækkuð úr 66 milljónum króna upp í 116 milljónir króna eða um 50 milljónir króna.
    Þessi tekjuspá er algerlega unnin af starfsmönnum fjármálaráðuneytisins í ljósi nýjustu upplýsinga um innheimtu skatta á árinu 1989 og eru heildaráhrifin þau að tekjur umfram áætlun fjárlaga stefna í 3.302 milljónir króna í stað þess að gert var ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga að þær stefndu í 2.683 milljónir króna og munar þarna 350 milljónum króna sem áætlað er að tekjur muni hækka umfram áætlun fjárlagafrumvarpsins. Gjöld samkvæmt niðurstöðum fjárveitinganefndar verða hins vegar samtals, umfram áætlun fjárlaga yfirstandandi árs, 8.493.422 þúsundir króna í stað þess sem í frumvarpi til fjáraukalaga segir 8.152.739 þúsundir króna. Gjöld umfram tekjur stefna því nú í 5.460.422 þúsundir króna í stað 5.469.739 þúsunda króna eins og frumvarp til fjáraukalaga gerði ráð fyrir. Munar hér 9.317 þúsundum króna á frumvarpinu og þeirri afgreiðslu sem hér er lögð til sem gjöld umfram tekjur eru minni en áætlað var í frumvarpi til fjáraukalaga. Þegar tillit er svo tekið til lánahreyfinga sem eru mikils til óbreyttar frá frumvarpinu verður greiðsluafkoman mínus 16.636 þúsundir króna samkvæmt þeirri afgreiðslu sem hér er lögð til í stað þess að verða mínus 25.953 þúsundir króna sem frumvarpið gerði ráð fyrir.
    Nánari grein verður gerð fyrir einstökum breytingartillögum meiri hl. fjárveitinganefndar í umræðum.

Yfirlit um breytingar frá frumvarpi til fjáraukalaga


fyrir árið 1989.



    Hækkun gjalda frá frumvarpi        422.390
    Lækkun gjalda frá frumvarpi         –117.207
                       —–
         Samtals          305.183

    Vöntun vegna lækkunar gjalda skv. 4. gr.     35.500
                       —–
         Samtals breyting          340.683

    Hækkun áætlaðra tekna frá frumvarpi         350.000
                        —–
    Breyting áætlaðrar greiðsluafkomu,
    bætt staða              9.317


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR



3. gr.

00 Æðsta stjórn ríkisins


201     Alþingi: Viðfangsefnið 1.02 Starfskostnaður hækkar um 13.000 þús. kr. Um er að ræða fjárveitingu vegna viðbótarrekstrarkostnaðar Alþingis á árinu 1989. Viðfangsefnið 104 Skrifstofu- og alþingiskostnaður hækkar um 6.000 þús. kr. Fjárveitingin er vegna óuppgerðra mála. Viðfangsefnið 690 Ýmis stofnkostnaður hækkar um 4.000 þús. kr. vegna kaupa á kvikmyndasafni Magnúsar Jóhannssonar.

01 Forsætisráðuneyti


101     Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefnið 101 Yfirstjórn hækkar um 5.000 þús. kr. Um er að ræða fjárveitingu vegna afmælis Rauða kross Íslands vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar.
171     Byggðastofnun, framlag: Viðfangsefnið 610 Byggðastofnun, Hlutafjársjóður hækkar um 50.000 þús. skv. beiðni ríkisstjórnarinnar.

02 Menntamálaráðuneyti


201     Háskóli Íslands: Viðfangsefnið 101 Yfirstjórn lækkar um 1.000 þús. kr. Viðfangsefnið 102 Sameiginleg útgjöld hækkar um 2.900 þús. kr. Um er að ræða hækkun á ferðakostnaði í rannsóknarleyfum. Viðfangsefnið 103 Rekstur fasteigna hækkar um 8.900 þús. kr. Viðfangsefnið 111 Læknadeild hækkar um 6.400 þús. kr. Um er að ræða hækkun vegna vanáætlaðs rekstrarkostnaðar og ofáætlaðra sértekna. Viðfangsefnið 119 Íþróttakennsla hækkar um 800 þús. kr. Viðfangsefnið 125 Raunvísindadeild lækkar um 200 þús. kr.
203     Raunvísindastofnun Háskólans: Viðfangsefnið 120 Eðlisfræðistofa hækkar um 3.300 þús. kr. Um er að ræða leiðréttingu á mistökum um hvernig liðnum skyldi ráðstafað og ofáætlaðra sértekna. Viðfangsefnið 140 Jarðfræðistofa hækkar um 813 þús. kr. vegna ofáætlaðra sértekna. Viðfangsefnið 690 Tækjakaup deilda hækkar um 626 þús. kr. Um er að ræða endurnýjun á bifreið vegna tjóns.
321     Kennaraháskóli Íslands: Viðfangsefnið 101 Almennur rekstur hækkar um 1.300 þús. kr. Um er að ræða breytingar á föstum kennarastöðum við skólann vegna kjarasamninga.
871     Unglingaheimili ríkisins: Viðfangsefnið 101 Unglingaheimili ríkisins lækkar um 6.500 þús. kr.
931     Náttúrverndarráð: Viðfangsefnið 134 Friðlýst svæði, merkingar og eftirlit hækkar um 1.300 þús. kr.
977     Þjóðarbókhlaða: Viðfangsefnið 601 Stofnkostnaður lækkar um 30.000 þús. kr.
999     Ýmislegt: Viðfangsefnið 131 Geysir í Haukadal hækkar um 2.600 þús. kr. Um er að ræða skuld vegna samningsbundinna framkvæmda á hverasvæðinu sem fallin er í gjalddaga. Viðfangsefnið 181 Málræktarátak lækkar um 1.000 þús. kr.

03 Utanríkisráðuneyti


390     Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi: Viðfangsefnið 121 Framlag til Póllands vegna matarsendingar hækkar um 10.000 þús. kr. samkvæmt beiðni ríkisstjórnarinnar.
401     Alþjóðastofnanir: Viðfangsefnið 163 Alþjóðastofnanir, UNIFEM lækkar um 620 þús. kr.

04 Landbúnaðarráðuneyti


201     Búnaðarfélag Íslands: Viðfangsefnið 101 Yfirstjórn hækkar um 8.500 þús. kr. vegna halla fyrri ára.
205     Veiðistjóri: Viðfangsefnið 190 Almennur rekstur hækkar um 10.700 þús. kr. Um er að ræða uppgjör kostnaðar vegna eyðingar refa og minka.
231     Skógrækt ríkisins: Viðfangsefnið 630 Vélar og tæki lækkar um 887 þús. kr.
246     Veiðimálastofnun: Viðfangsefnið 601 Nýr liður Fasteignir hækkar og verður 3.000 þús. kr. Um er að ræða fjárveitingu til að greiða húsnæði stofnunarinnar að Hólum í Hjaltadal.
299     Landbúnaðarmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefnið 122 Ýmis verkefni lækkar um 2.000 þús. kr.

05 Sjávarútvegsráðuneyti


203     Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins: Viðfangsefnið 610 Tæki og búnaður lækkar um 1.000 þús. kr.

07 Félagsmálaráðuneyti


700     Málefni fatlaðra: Viðfangsefnið 104 Kostnaður skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðra hækkar um 33.800 þús. kr. Um er að ræða greiðslu á skuld við Tryggingastofnun ríkisins.
708     Málefni fatlaðra, Suðurlandi: Viðfangsefnið 171 Sólheimar hækkar um 3.500 þús. kr.
799     Félagsmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefnið 190 Ýmis framlög hækkar um 3.500 þús. kr. vegna óskar félagsmálaráðuneytis.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefnið 140 Kvennaathvarf í Reykjavík lækkar um 1.000 þús. kr.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


271     Tryggingastofnun ríkisins: Viðfangsefnið 120 Sjúkratryggingar hækkar um 52.000 þús. kr. vegna greiðslu á rannsóknarkostnaði á Ríkisspítölum.
340     Málefni fatlaðra: Viðfangsefnið 190 Önnur starfsemi hækkar um 500 þús. kr. Um er að ræða fjárveitingu til Geðhjálpar til að samtökin geti haldið óbreyttri starfsemi áfram.
381     Sjúkrahús og læknisbústaðir: Viðfangsefnið 690 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða hækkar um 20.300 þús. kr. sem skiptist þannig: Vopnafjörður, dvalarheimili 2.500 þús. kr. Hafnarfjörður, H2 og Sólvangur 6.000 þús. kr. Ísafjörður, sjúkrahús 10.000 þús. kr. Hólmavík, 400 þús. kr. Hvolsvöllur, læknisbústaður, 1.400 þús. kr. Framlög þessi eru öll vegna skuldar við framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins.
481     Bindindisstarfsemi: Viðfangsefnið 140 Átak í áfengisvörnum lækkar um 2.000 þús. kr.
501     Skólar heilbrigðisstétta: Viðfangsefnið 130 Lyfjatækniskóli Íslands hækkar um 700 þús. kr. Um er að ræða fjárveitingu til endurnýjunar húsgagna, tölvukaupa og fleira sem fallið er í gjalddaga.

09 Fjármálaráðuneyti


989     Launa og verðlagsmál: Viðfangsefnið 130 Endurgreiðsla söluskatts til iðnaðar, sjávarútvegs og fiskeldis hækkar um 40.000 þús. kr., samkvæmt beiðni ríkisstjórnarinnar.
999     Ýmislegt: Viðfangsefnið 119 Ýmsar endurgreiðslur hækkar um 23.051 þús. kr. vegna skuldar á aðflutningsgjöldum hjá ríkisféhirði vegna björgunartækja o.fl.

10 Samgönguráðuneyti


211     Vegagerð ríkisins: Viðfangsefnið 510 Viðhald vega lækkar um 50.000 þús. kr.
333     Hafnamál: Viðfangsefnið 631 Landshafnir, óskipt hækkar um 50.000 þús. kr. vegna fyrirhugaðrar yfirtöku sveitarfélaga á rekstri landshafna um áramótin. Viðfangsefnið 640 Sjóvarnargarðar, Flateyri hækkar um 6.000 þús. kr. Um er að ræða fjárveitingu vegna skemmda á sjóvörn á Flateyri.
471     Flugmálastjórn: Viðfangsefnið 140 Flugvalladeild lækkar um 5.000 þús. kr.
485     Ýmis framlög: Viðfangsefnið 133 Öryggismálaskóli sjómanna hækkar um 7.500 þús. kr. Um er að ræða fjárveitingu til Slysavarnafélags Íslands vegna Öryggismálaskóla sjómanna.

11 Iðnaðarráðuneyti


399     Ýmis orkumál: Viðfangsefnið 119 Önnur orkumál hækkar um 36.000 þús. kr. Um er að ræða fjárveitingu til greiðslu á kostnaði við viðgerð á sæstreng til Vestmannaeyja.

4. gr.


    Gerð er grein fyrir sundurliðun á heimild fjármálaráðherra til lækkunar gjalda skv. 2. gr. fjárlaga að fjárhæð 614.500 þús. kr.

Alþingi, 17. des. 1989.



Sighvatur Björgvinsson,


form., frsm.


Margrét Frímannsdóttir,


fundaskr.


Alexander Stefánsson.


Ólafur Þ. Þórðarson.


Ásgeir Hannes Eiríksson.