Ferill 178. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 178 . mál.


Nd.

452. Frumvarp til laga



um veiðieftirlitsgjald.

(Eftir 2. umr. í Nd., 21. des.)



1. gr.

    Sjávarútvegsráðherra skal með reglugerð ákveða sérstakt gjald — veiðieftirlitsgjald — fyrir veiðileyfi sem veitt eru á grundvelli ákvæða laga nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða 1988–1990, eða annarra laga er kveða á um veiðar í íslensku fiskveiðilögsögunni.
    Gjald þetta rennur til reksturs veiðieftirlits sjávarútvegsráðuneytisins og skal fjárhæð þess miðast við að það standi undir rekstri eftirlitsins að hálfu.

2. gr.

    Fyrir önnur veiðileyfi en þau er um getur í 3. gr. skal gjaldið miðast við áætlað verðmæti þess afla sem leyfið heimilar veiðar á. Fyrir skip, sem velja sóknarmark við botnfiskveiðar, skal gjaldið miðast við aflamarkskost skipsins. Skal ráðherra áætla hlutfallsleg verðmæti einstakra tegunda sjávardýra í þessu sambandi fyrir upphaf vertíðar eða veiðitímabils. Aldrei skal gjald samkvæmt þessari málsgrein vera hærra en 0,2% af áætluðu verðmæti afla sem viðkomandi veiðileyfi heimilar veiðar á.

3. gr.

    Fyrir botnfiskveiðileyfi báta undir 10 brl. og leyfi til veiða, sem ekki eru bundnar tilteknu aflamarki, skal greiða fast gjald og getur ráðherra ákveðið það með hliðsjón af mögulegu aflaverðmæti, sbr. 2. gr., og eðli veiðanna.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990.