Ferill 129. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 129 . mál.


Nd.

515. Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 73 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands.

Frá meiri hl. allsherjarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Umsagnir bárust frá Bjarna Guðleifssyni, dr. sci., Búnaðarfélagi Íslands, Dýralæknafélagi Íslands, eiturefnanefnd, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, félagsmálaráðuneytinu, Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Geislavörnum ríkisins, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Heilbrigðisfulltrúafélagi Íslands, Hinu íslenska náttúrufræðafélagi, Hollustuvernd ríkisins, iðnaðarráðuneytinu, Jarðfræðafélagi Íslands, landbúnaðarráðuneytinu, Landgræðslu ríkisins, landlækni, röntgendeildum Landspítalans, Borgarspítalans og Landakotsspítala, Landvernd, Líffræðistofnun Háskólans, menntamálaráðuneytinu, Náttúruverndarráði, Orkustofnun, Rannsóknaráði ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, samgönguráðuneytinu, Siglingamálastofnun ríkisins, Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Veðurstofu Íslands, Vinnueftirliti ríkisins, vísindaráði, yfirdýralækninum í Reykjavík og Þjóðminjasafni Íslands.
    Flestir eru sammála um að bæta þurfi yfirstjórn umhverfismála hér á landi, en greinir á um leiðir að því markmiði. Meiri hl. nefndarinnar telur rétt að stofnað verði sjálfstætt umhverfisráðuneyti þar sem víðtæk samstaða er um slíka ákvörðun. Með þessu frumvarpi er ekki ákveðið hvaða málaflokkar né stofnanir skuli heyra undir umhverfisráðuneyti, heldur eingöngu að það skuli stofnað og að umhverfisráðherra skipi nefnd til að semja frumvarp til laga um umhverfisvernd. Til þess að svo megi vera er nauðsynlegt að fella brott úr frumvarpinu seinni tölulið ákvæðis til bráðabirgða, en meiri hl. nefndarinnar telur rétt að ræða það í tengslum við 128. mál, um yfirstjórn umhverfismála. Einnig þarf að breyta gildistökuákvæði frumvarpsins, en í því er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi um síðustu áramót. Flytur meiri hl. nefndarinnar því breytingartillögur á sérstöku þingskjali og leggur til að frumvarpið verði samþykkt þannig breytt.

Alþingi, 25. jan. 1990.


Jón Kristjánsson,

form.,frsm.

Guðni Ágústsson.

Björn Gíslason.

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.







Prentað upp.