Ferill 386. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 386 . mál.


Ed.

678. Frumvarp til laga



um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



I. KAFLI

Um skipan prestakalla og prófastsdæma.

1. gr.

    Prestaköllum og prófastsdæmum skal skipa þannig:

I. Múlaprófastsdæmi.


1.     Skeggjastaðaprestakall:
    Skeggjastaðasókn.
    Prestssetur: Skeggjastaðir.

2.     Hofsprestakall:
    Vopnafjarðar- og Hofssóknir.
    Prestssetur: Hof.

3.     Valþjófsstaðarprestakall:
    Valþjófsstaðar-, Ás-, Hofteigs-, Eiríksstaða- og Möðrudalssóknir.
    Prestssetur: Eiðar.

4.     Eiðaprestakall:
    Eiða-, Hjaltastaðar-, Kirkjubæjar- og Sleðbrjótssóknir.
    Prestssetur: Eiðar.

5.     Egilsstaðaprestakall:
    Egilsstaða-, Vallanes- og Þingmúlasóknir.
    Prestssetur: Egilsstaðir.

6.     Desjarmýrarprestakall:
    Bakkagerðissókn.
    Prestssetur: Desjarmýri.

7.     Seyðisfjarðarprestakall:
    Seyðisfjarðarsókn.
    Prestssetur: Seyðisfjörður.

II. Austfjarðaprófastsdæmi.


1.     Norðfjarðarprestakall:
    Norðfjarðar- og Brekkusóknir.
    Prestssetur: Neskaupstaður.

2.     Eskifjarðarprestakall:
    Eskifjarðar- og Reyðarfjarðarsóknir.
    Prestssetur: Eskifjörður.

3.     Kolfreyjustaðarprestakall:
    Kolfreyjustaðar- og Fáskrúðsfjarðarsóknir.
    Prestssetur: Kolfreyjustaður.

4.     Heydalaprestakall:
    Heydala- og Stöðvarfjarðarsóknir.
    Prestssetur: Heydalir.

5.     Djúpavogsprestakall:
    Berunes-, Berufjarðar-, Djúpavogs- og Hofssóknir.
    Prestssetur: Djúpivogur.

III. Skaftafellsprófastsdæmi.


1.     Hafnarprestakall:
    Stafafells-, Bjarnanes- og Hafnarsóknir.
    Prestssetur: Höfn.

2.     Kálfafellsstaðarprestakall:
    Brunnhóls-, Kálfafellsstaðar- og Hofssóknir.
    Prestssetur: Kálfafellsstaður.

3.     Klaustursprestakall:
    Kálfafells-, Prestsbakka-, Langholts-, Grafar- og Þykkvabæjarsóknir.
    Prestssetur: Kirkjubæjarklaustur.

4.     Víkurprestakall:
    Víkur-, Reynis- og Skeiðflatarsóknir.
    Prestssetur: Vík.

IV. Rangárvallaprófastsdæmi.


1.     Holtsprestakall:
    Eyvindarhóla-, Ásólfsskála- og Stóradalssóknir.
    Prestssetur: Holt.

2.     Bergþórshvolsprestakall:
    Akureyjar- og Krosssóknir.
    Prestssetur: Bergþórshvoll.

3.     Breiðabólsstaðarprestakall:
    Hlíðarenda-, Breiðabólsstaðar- og Stórólfshvolssóknir.
    Prestssetur: Breiðabólsstaður.

4.     Oddaprestakall:
    Odda-, Keldna- og Hábæjarsóknir.
    Prestssetur: Oddi.

5.     Fellsmúlaprestakall:
    Árbæjar-, Kálfholts-, Haga-, Marteinstungu- og Skarðssóknir.
    Prestssetur: Fellsmúli.

V. Árnessprófastsdæmi.


1.     Hrunaprestakall:
    Hruna-, Hrepphóla- og Stóranúpssóknir.
    Prestssetur: Hruni.

2.     Hraungerðisprestakall:
    Ólafsvalla-, Hraungerðis- og Villingaholtssóknir.
    Prestssetur: Hraungerði.

3.     Skálholtsprestakall:
    Skálholts-, Bræðratungu-, Haukadals- og Torfastaðasóknir.
    Um þjónustu prestakallsins fer eftir ákvæði 42. gr. laga þessara.

4.     Mosfellsprestakall:
    Mosfells-, Stóruborgar-, Búrfells-, Miðdals- og Úlfljótsvatnssóknir.
    Prestssetur: Mosfell.

5.     Selfossprestakall:
    Selfoss- og Laugardælasóknir.

6.     Eyrarbakkaprestakall:
    Eyrarbakka-, Stokkseyrar- og Gaulverjabæjarsóknir.
    Prestssetur: Eyrarbakki.

7.     Hveragerðisprestakall:
    Hveragerðis- og Kotstrandarsóknir.
    Prestssetur: Hveragerði.

8.     Þorlákshafnarprestakall:
    Hjalla- og Strandarsóknir.
    Prestssetur: Þorlákshöfn.

9.     Þingvallaprestakall:
    Þingvallasókn.
    Prestssetur: Þingvellir.

VI. Borgarfjarðarprófastsdæmi.


1.     Saurbæjarprestakall:
    Saurbæjar-, Innrahólms- og Leirársóknir.
    Prestssetur: Saurbær.

2.     Akranessprestakall:
    Akranessókn.
    Prestssetur: Akranes.

3.     Hvanneyrarprestakall:
    Hvanneyrar-, Bæjar-, Lundar- og Fitjasóknir.
    Prestssetur: Staðarhóll.

4.     Reykholtsprestakall:
    Reykholts-, Stóraás-, Gilsbakka- og Síðumúlasóknir.
    Prestssetur: Reykholt.

5.     Stafholtsprestakall:
    Stafholts-, Hjarðarholts-, Norðtungu- og Hvammssóknir.
    Prestssetur: Stafholt.

6.     Borgarprestakall:
    Borgar-, Borgarnes-, Akra-, Álftártungu- og Álftanessóknir.
    Prestssetur: Borg.

VII. Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi.


1.     Staðastaðarprestakall:
    Staðastaðar-, Staðarhrauns-, Fáskrúðarbakka-, Rauðamels- og Kolbeinsstaðasóknir.
    Prestssetur: Staðastaður.

2.     Ingjaldshólsprestakall:
    Hellna-, Búða- og Ingjaldshólssóknir.
    Prestssetur: Hellissandur.

3.     Ólafsvíkurprestakall:
    Ólafsvíkur- og Brimilsvallasóknir.
    Prestssetur: Ólafsvík.

4.     Grundarfjarðarprestakall:
    Setbergssókn.
    Prestssetur: Grundarfjörður.

5.     Stykkishólmsprestakall:
    Bjarnarhafnar-, Helgafells-, Stykkishólms-, Narfeyrar- og Breiðabólsstaðarsóknir.
    Prestssetur: Stykkishólmur.

6.     Búðardalsprestakall:
    Snóksdals-, Kvennabrekku-, Stóra-Vatnshorns- og Hjarðarholtssóknir.
    Prestssetur: Búðardalur.

7.     Hvolsprestakall:
    Hvamms-, Staðarfells-, Dagverðarnes-, Skarðs- og Staðarhólssóknir.
    Prestssetur: Hvoll í Saurbæ.

VIII. Barðastrandarprófastsdæmi.


1.     Reykhólaprestakall:
    Reykhóla-, Garpsdals-, Gufudals- og Flateyjarsóknir.
    Prestssetur: Reykhólar.

2.     Patreksfjarðarprestakall:
    Patreksfjarðar-, Sauðlauksdals-, Breiðuvíkur- og Saurbæjarsóknir.
    Prestssetur: Patreksfjörður.

3.     Tálknafjarðarprestakall:
    Stóra-Laugardals-, Haga- og Brjánslækjarsóknir.
    Prestssetur: Tálknafjörður.

4.     Bíldudalsprestakall:
    Bíldudals- og Selárdalssóknir.
    Prestssetur: Bíldudalur.

IX. Ísafjarðarprófastsdæmi.


1.     Þingeyrarprestakall:
    Hrafnseyrar-, Þingeyrar-, Mýra-, Núps- og Sæbólssóknir.
    Prestssetur: Þingeyri.

2.     Holtsprestakall:
    Kirkjubóls-, Holts- og Flateyrarsóknir.
    Prestssetur: Holt í Önundarfirði.

3.     Suðureyrarprestakall:
    Staðarsókn.
    Prestssetur: Suðureyri.

4.     Bolungarvíkurprestakall:
    Hólssókn.
    Prestssetur: Bolungarvík.

5.     Ísafjarðarprestakall:
    Hnífsdals-, Ísafjarðar- og Súðavíkursóknir.
    Prestssetur: Ísafjörður.

6.     Vatnsfjarðarprestakall:
    Vatnsfjarðar-, Nauteyrar-, Melgraseyrar-, Unaðsdals- og Ögursóknir.
    Prestssetur: Vatnsfjörður.

X. Húnavatnsprófastsdæmi.


1.     Árnessprestakall:
    Árnessókn.
    Prestssetur: Árnes.

2.     Hólmavíkurprestakall:
    Kaldrananes-, Drangsnes-, Staðar-, Hólmavíkur- og Kollafjarðarnessóknir.
    Prestssetur: Hólmavík.

3.     Prestbakkaprestakall:
    Prestbakka-, Staðar- og Óspakseyrarsóknir.
    Prestssetur: Prestbakki.

4.     Melstaðarprestakall:
    Efranúps-, Staðarbakka-, Melstaðar- og Víðidalstungusóknir.
    Prestssetur: Melstaður.

5.     Hvammstangaprestakall:
    Hvammstanga-, Tjarnar-, Vesturhópshóla- og Breiðabólsstaðarsóknir.
    Prestssetur: Hvammstangi.

6.     Þingeyrarklaustursprestakall:
    Blönduós-, Þingeyrar- og Undirfellssóknir.
    Prestssetur: Blönduós.

7.     Bólstaðarhlíðarprestakall:
    Bólstaðarhlíðar-, Bergsstaða-, Holtastaða-, Svínavatns- og Auðkúlusóknir.
    Prestssetur: Bólstaður.

8.     Skagastrandarprestakall:
    Höskuldsstaða-, Höfða- og Hofssóknir.
    Prestssetur: Skagaströnd.

XI. Skagafjarðarprófastsdæmi.


1.     Sauðárkróksprestakall:
    Sauðárkróks-, Hvamms- og Ketusóknir.
    Prestssetur: Sauðárkrókur.

2.     Glaumbæjarprestakall:
    Reynistaðar-, Glaumbæjar-, Víðimýrar- og Reykjasóknir.
    Prestssetur: Glaumbær.

3.     Mælifellsprestakall:
    Mælifells-, Goðdala- og Ábæjarsóknir.
    Prestssetur: Mælifell.
    Presturinn skal auk sóknarprestsstarfa gegna starfi farprests í Skagafjarðarprófastsdæmi samkvæmt nánari ákvörðun vígslubiskups og prófasts.

4.     Miklabæjarprestakall:
    Silfrastaða-, Miklabæjar-, Flugumýrar-, Hofsstaða- og Rípursóknir.
    Prestssetur: Miklibær.

5.     Hólaprestakall:
    Hóla- og Viðvíkursóknir.
    Um þjónustu prestakallsins fer eftir ákvæði 42. gr. laga þessara.

6.     Hofsóssprestakall:
    Hofsós-, Hofs-, Fells- og Barðssóknir.
    Prestssetur: Hofsós.

7.     Siglufjarðarprestakall:
    Siglufjarðarsókn.
    Prestssetur: Siglufjörður.

XII. Eyjafjarðarprófastsdæmi.


1.     Ólafsfjarðarprestakall:
    Ólafsfjarðarsókn.
    Prestssetur: Ólafsfjörður.

2.     Dalvíkurprestakall:
    Upsa-, Tjarnar-, Urða- og Vallasóknir.
    Prestssetur: Dalvík.

3.     Hríseyjarprestakall:
    Hríseyjar- og Stærra-Árskógssóknir.
    Prestssetur: Hrísey.

4.     Möðruvallaprestakall:
    Möðruvalla-, Bakka-, Bægisár- og Glæsibæjarsóknir.
    Prestssetur: Möðruvellir.

5.     Glerárprestakall:
    Lögmannshlíðarsókn.

6.     Akureyrarprestakall:
    Akureyrar- og Miðgarðasóknir.

7.     Laugalandsprestakall:
    Grundar-, Saurbæjar-, Hóla-, Möðruvalla-, Munkaþverár- og Kaupangssóknir.
    Prestssetur: Syðra-Laugaland.

XIII. Þingeyjarprófastsdæmi.


1.     Laufássprestakall:
    Svalbarðs-, Laufás- og Grenivíkursóknir.
    Prestssetur: Laufás.

2.     Ljósavatnsprestakall:
    Draflastaða-, Háls-, Illugastaða-, Ljósavatns-, Lundarbrekku- og Þóroddsstaðasóknir.
    Prestssetur: Háls.

3.     Skútustaðaprestakall:
    Skútustaða-, Reykjahlíðar- og Víðirhólssóknir.
    Prestssetur: Skútustaðir.

4.     Grenjaðarstaðarprestakall:
    Grenjaðarstaðar-, Þverár-, Einarsstaða- og Nessóknir.
    Prestssetur: Grenjaðarstaður.

5.     Húsavíkurprestakall:
    Húsavíkursókn.
    Prestssetur: Húsavík.

6.     Skinnastaðarprestakall:
    Skinnastaðar-, Garðs- og Snartarstaðasóknir.
    Prestssetur: Skinnastaður.

7.     Raufarhafnarprestakall:
    Raufarhafnarsókn.
    Prestssetur: Raufarhöfn.

8.     Þórshafnarprestakall:
    Sauðanes- og Svalbarðssóknir.
    Prestssetur: Þórshöfn.

XIV. Kjalarnessprófastsdæmi.


    Nær yfir Vestmannaeyjar og sóknir í Reykjaneskjördæmi utan Kópavogs og Seltjarnarness.

XV. Reykjavíkurprófastsdæmi.


    Nær yfir sóknir í Reykjavík vestan Elliðavogs og Reykjanesbrautar og Seltjarnarnesskaupstað.

XVI. Holta- og Vogaprófastsdæmi.


    Nær yfir sóknir í Kópavogskaupstað og í Reykjavík austan Elliðavogs og Reykjanesbrautar.

2. gr.


    Ráðherra ákveður takmörk sókna og prestakalla og fjölda presta í Kjalarnessprófastsdæmi, Reykjavíkurprófastsdæmi og Holta- og Vogaprófastsdæmi, að fengnum tillögum biskups og hlutaðeigandi safnaðarráðs. Prestssetur skulu haldast í Vestmannaeyjum, á Reynivöllum í Kjósarhreppi, í Mosfellsbæ, í Grindavík og Útskálum í Gerðahreppi.
    Í Kjalarnessprófastsdæmi, Reykjavíkurprófastsdæmi og Holta- og Vogaprófastsdæmi skulu vera safnaðarráð. Skulu þau skipuð formönnum sóknarnefnda, safnaðarfulltrúum og prestum prófastsdæmisins. Prófastar eru formenn ráðanna og kalla þau saman. Skylt skal að kalla safnaðarráð saman til fundar þegar fullur þriðjungur safnaðarráðsmanna óskar þess.
    Verkefni safnaðarráðs eru:
1.    Að gera tillögur um skiptingu prófastsdæmisins í sóknir og prestaköll og um breytingar á þeim.
2.    Að vinna að eflingu kirkjulegs starfs innan prófastsdæmisins.
    Aðalfundur safnaðarráðs er héraðsfundur prófastsdæmisins og fer eftir lögum um héraðsfundi.

3. gr.


    Í hverju prestakalli skal vera einn sóknarprestur.
    Ráðherra er heimilt að ráða prest sóknarpresti til aðstoðar í prestaköllum þar sem íbúafjöldi er yfir 4.000. Í mannfærri prestaköllum hefur ráðherra sömu heimild ef sérstaklega stendur á. Nú fer íbúafjöldi yfir 8.000 og skal prestakallinu þá að jafnaði skipt.
    Aðstoðarprestur er ráðinn samkvæmt tillögu biskups í samráði við sóknarprest og með samþykki sóknarnefndar. Ráðningartími aðstoðarprests skal vera allt að þremur árum í senn.
    Aðstoðarprestur starfar undir stjórn sóknarprests samkvæmt erindisbréfi er biskup setur.

4. gr.

    Ráðherra er heimilt að stofna nýtt prestakall eða breyta mörkum prestakalla eftir tillögu biskups og að fengnum umsögnum héraðsfundar (safnaðarráðs) og aðalsafnaðarfundar viðkomandi sókna, sbr. 2. gr.

5. gr.

    Verði prestakalli skipt í tvö eða fleiri prestaköll, sbr. 4. gr., hefur skipaður sóknarprestur rétt til þess að velja hvaða hluta þess hann hyggst þjóna.

6. gr.

    Ráðherra er heimilt, að fenginni tillögu biskups og umsögn viðkomandi
héraðsfundar, að sameina prestakall öðru prestakalli, fari íbúafjöldi þess niður fyrir 250.
    Prestsembættum innan þjóðkirkjunnar utan Reykjavíkur- og Kjalarnessprófastsdæma skal þó ekki fækka við framkvæmd þessa ákvæðis.

7. gr.

    Ráðherra skipar prest, er sitji á Þingvöllum og gegni Þingvallaprestakalli skv. 1. gr., að fengnum tillögum biskups og Þingvallanefndar, enda gegni hann þá jafnframt starfi þjóðgarðsvarðar.

8. gr.

    Þar sem prestssetur er samkvæmt lögum þessum, er presti skylt að hafa aðsetur og lögheimili, nema biskup heimili annað um stundarsakir, að fenginni umsögn prófasts og viðkomandi sóknarnefnda.
    Um réttindi og skyldur presta gagnvart prestssetursjörðum gilda ákvæði ábúðarlaga og annarra laga, eftir því sem við getur átt. Leigugjald af prestssetursjörðum skal ákveðið með reglugerð, sem kirkjumálaráðherra setur, að fenginni umsögn biskups.
    Farprestar (skv. 9. gr.) njóti sambærilegra húsnæðiskjara og sóknarprestar.
    Eigi má ráðstafa prestssetri til langframa, nema til þess komi samþykki biskups, að fenginni umsögn viðkomandi prófasts, héraðsfundar og sóknarnefnda í viðkomandi presta-kalli, svo og samþykki þess prests er veitingu hefur fyrir viðkomandi brauði.
    Nú er prestssetur selt þar sem prestakall er lagt niður samkvæmt lögum þessum, og skal þá andvirði þess renna í Kristnisjóð.
    Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn biskups og hlutaðeigandi prófasts, sóknarnefndar og sóknarprests, að flytja prestssetur til innan prestakalls. Ákvörðun um þetta efni skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.

II. KAFLI

Um sérþjónustuembætti.

9. gr.

    Ráðherra er heimilt samkvæmt tillögu biskups að ákveða að í prófastsdæmum
starfi farprestar er hafi með höndum eftirtalin verkefni:
1.    Að vera til aðstoðar í fjölmennum eða víðlendum prestaköllum.
2.    Að þjóna í forföllum.
3.    Að annast tiltekin sérverkefni.
    Heimilt er að ákveða að sami farprestur starfi í fleiri en einu prófastsdæmi.
    Ráðningartími farprests skal vera allt að þremur árum í senn.

10. gr.


    Ráðherra er heimilt samkvæmt tillögu biskups að ákveða að prestar starfi meðal Íslendinga erlendis. Ráðningartími þeirra skal vera allt að þremur árum í senn.

11. gr.

    Á sjúkrastofnunum skal halda uppi prestsþjónustu.
    Þar sem þess er þörf skal ráða presta að sjúkrastofnunum og hafi þeir sérmenntun til starfans. Við ráðningu sjúkraprests ber að leita álits stjórnar hlutaðeigandi stofnunar og ber honum að starfa í samráði við stofnunina.

12. gr.

    Við fangelsi skal starfa prestur (prestar), er hafi sérmenntun til starfans.

13. gr.

    Meðal heyrnarskertra skal starfa prestur er hafi sérmenntun til starfans.

14. gr.

    Heimilt er ráðherra að ráða presta til sérþjónustu í fleiri tilvikum en greinir hér að framan.
    Ráðherra ákveður í reglugerð, að fenginni tillögu biskups, starfssvið presta, er gegna sérþjónustu, kveður á um skipulag prestsþjónustu þeirra og stöðu þeirra gagnvart sóknarprestum.

III. KAFLI

Um embættisgengi presta.

15. gr.

    Kirkjumálaráðherra skipar sóknarpresta í embætti, sbr. lög um veitingu prestakalla, nr. 44/1987. Ráðherra ræður aðra presta til þjónustu, að fengnum tillögum biskups.
    Biskup setur prestum erindisbréf.

16. gr.

    Almenn skilyrði til skipunar eða setningar í prestsembætti eru þessi:
1.    25 ára aldur. Kirkjumálaráðherra getur þó, að tillögu biskups, veitt undanþágu frá því ákvæði.
2.    Embættispróf frá guðfræðideild Háskóla Íslands eða frá viðurkenndri guðfræðideild eða guðfræðiskóla og skal biskup um hið síðarnefnda atriði leita umsagnar guðfræðideildar Háskóla Íslands.
3.    Áður en kandídat hlýtur vígslu skal hann hafa starfað með sóknarpresti eigi skemur en fjóra mánuði undir eftirliti prófasts. Um framkvæmd og eftirlit þessa skal nánar kveðið á um í reglugerð. Að öðru leyti fer um nám í kennimannlegri guðfræði, svo sem segir í reglugerð um nám í guðfræðideild Háskóla Íslands.
4.    Aðili hafi ekki gerst sekur um athæfi sem ætla má að rýri álit hans og sé ósamboðið manni í prestsstarfi. Nú telur biskup að hæfni kandídats orki tvímælis og getur hann þá kvatt þriggja manna nefnd sér til ráðuneytis.
5.    Að öðru leyti verður maður að fullnægja almennum skilyrðum 3. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

17. gr.


    Biskup skal vandlega gæta þess að eigi veljist aðrir til prestsþjónustu í þjóðkirkjunni en þeir, sem til þess eru hæfir að framkvæma prestlegt embætti og annast sálgæslu sóknarbarna sinna. Er engum óvígðum guðfræðingi heimilt að sækja um prestsstarf í þjónustu kirkjunnar, nema fyrir liggi umsögn biskups um að hann fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til prestsvígslu.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði um presta og starfsskyldur þeirra.

18. gr.

    Sóknarprestar og aðrir starfsmenn þjóðkirkjunnar, sem lög þessi ná til og taka laun úr ríkissjóði, eru opinberir starfsmenn og njóta lögkjara og bera
skyldur samkvæmt því, sbr. m.a. lög nr. 38/1954.

19. gr.

    Skylt er sóknarpresti að taka við embætti sínu jafnskjótt og föng eru á eftir að hann hefur hlotið skipun. Ráðherra getur þó samkvæmt tillögu biskups veitt presti, er situr jörð, frest til næstu fardaga til að taka við embættinu.

20. gr.

    Hver sóknarprestur skal hafa með höndum kirkjulega þjónustu samkvæmt vígslubréfi í sínu prestakalli, nema lög eða stjórnvaldsreglur mæli fyrir um annað.

21. gr.

    Samstarf presta innan hvers prófastsdæmis skal einkum lúta að:
1.    Afleysingaþjónustu í sumarleyfum og á frídögum presta.
2.    Samvinnu um ýmsa kirkjulega þjónustu sem er með einhverjum hætti sameiginleg fyrir prófastsdæmið í heild eða hluta þess.

22. gr.


    Biskupi er heimilt að fela sóknarpresti, er þjónar í fámennu prestakalli, að annast tiltekin verkefni án viðbótarlauna en gegn greiðslu kostnaðar.

23. gr.

    Sóknarpresti er skylt að taka að sér aukaþjónustu sókna innan prófastsdæmis, ef þörf krefur, samkvæmt boði biskups gegn launum skv. 26. gr. laga nr. 38/1954.

24. gr.

    Nú er kirkja á prestssetursjörð og skal prestur þá hafa umsjón með henni í samvinnu við sóknarnefnd. Ef prestur situr ekki prestssetursjörð skal ábúanda skylt, að ósk sóknarnefndarmanna, að hafa eftirlit með slíkri kirkju.

25. gr.

    Sóknarprestur skal að jafnaði sitja sóknarnefndarfundi, sbr. 17. gr. laga um kirkjusóknir o.fl., nr. 25/1985. Hann á sæti á héraðsfundum og er skylt að sækja þá. Þá er honum að forfallalausu skylt að sitja fundi er biskup og prófastur boða hann til.

26. gr.

    Nú rís ágreiningur milli presta um rétt eða skyldu þeirra til tiltekinnar þjónustu. Ber þá viðkomandi prófasti að leita sátta í málinu. Ef niðurstaða næst ekki leggur hann málið fyrir biskup til úrskurðar.

V. KAFLI

Um prófasta.

27. gr.

    Kirkjumálaráðherra skipar prófasta úr hópi þjónandi presta í prófastsdæminu með ráði biskups er leitað hefur áður álits þjónandi presta í prófastsdæminu og þriggja fulltrúa leikmanna, sem kosnir eru á héraðsfundi til fjögurra ára í senn, þó ekki fleiri en þjónandi prestar eru í prófastsdæminu. Sóknarpresti er skylt að takast á hendur prófastsembætti. Biskup getur falið presti eða nágrannaprófasti að gegna prófastsembætti um stundarsakir ef sérstaklega stendur á, svo sem vegna fjarveru prófasts eða veikinda hans eða vegna þess að prófasts missir við.
    Nú lætur prófastur af prestsembætti í prestakalli og verður prófastsembætti þá laust. Nú telur prófastur sér óhægt að gegna embættinu vegna veikinda eða af öðrum sérstökum persónulegum ástæðum og er þá heimilt að leysa hann undan því embætti þótt hann gegni prestsembætti sínu eftirleiðis.
    Biskup setur próföstum erindisbréf.

28. gr.

    Prófastur er fulltrúi biskups í prófastsdæminu og trúnaðarmaður hans og hefur í umboði hans almenna umsjón með kirkjulegu starfi þar. Hann er í fyrirsvari fyrir prófastsdæmið að því er varðar sameiginleg málefni þess, gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum.
    Nú er kirkjuleg starfsstöð stofnuð í prófastsdæminu og veitir prófastur henni jafnaðarlega forstöðu og skipuleggur starfsemi á hennar vegum. Hann er formaður stjórnar héraðssjóðs prófastsdæmis, svo og héraðsnefndar. Hann boðar héraðsfund í samvinnu við héraðsnefnd og stjórnar fundum hennar, undirbýr mál, sem sá fundur fær til meðferðar og kemur ályktunum fundarins til biskups og
annarra aðila og fylgir þeim eftir, sbr. og VII. kafla laga nr. 25/1985.

29. gr.

    Prófastur hefur eftirlit með prestssetrum, kirkjum og kirknaeignum í prófastsdæmi. Hann skýrir biskupi frá því sem honum þykir athugavert um þessar eignir, þar á meðal skort á viðhaldi, og getur biskup lagt fyrir rétta aðila að bæta úr.
    Prófastur framkvæmir úttekt á prestssetrum og embættisbústöðum presta við prestaskipti og þegar prestur flytur í annað húsnæði innan prestakallsins. Hann tekur út nýjar kirkjur, kapellur og safnaðarheimili.
    Prófastur setur nýjan prest í embætti, heimsækir presta og vísiterar kirkjur og söfnuði samkvæmt nánari ákvæðum í erindisbréfi. Hann fylgir biskupi á vísitasíum hans til presta og safnaða í prófastsdæminu.
    Prófastur hefur eftirlit með að prestar skili embættisskýrslum til Hagstofu Íslands. Hann gengur eftir því að starfsskýrslum og endurskoðuðum reikningum sé skilað á réttum tíma og leggur fyrir héraðsfund með athugasemdum sínum og sóknarnefnda og gerir tillögur um úrlausn. Þá fjallar hann um ágreining sem kann að rísa milli sóknarprests, sóknarnefndar og safnaðar.
    Prófastur löggildir gerðabækur og aðrar bækur sóknarnefndar, eftir því sem við á.
    Prófastur veitir presti leyfi til fjarvista úr prestakalli um stundarsakir, en leyfi til lengri fjarvista veitir biskup, að höfðu samráði við kirkjumálaráðherra.
    Prófastur skipuleggur samstarf presta í sumarleyfi þeirra og önnur samningsbundin leyfi í prófastsdæminu.
    Nú getur sóknarprestur ekki gegnt embætti vegna veikinda, fjarvista eða af öðrum ástæðum, og ákveður prófastur þá í samráði við sóknarprest hvernig þjónusta hans skuli leyst af hendi.

30. gr.

    Prófastur hefur þau afskipti af veitingu prestakalla sem lög kveða á um.
    Prófastur skipuleggur endurmenntun presta, sem prófastsdæmið beitir sér fyrir, í samráði við biskup og prestafélög.
    Prófastur sér um bókasafn prófastsdæmis, en guðfræðilegu bókasafni prófastsdæmis skal komið á fót samkvæmt ákvörðun héraðsfundar og héraðsnefndar fyrir fé sem veitt kann að vera á fjárlögum í þessu skyni og úr
héraðssjóði, svo og fyrir framlög einstakra manna.

31. gr.

    Prófastur hefur þau afskipti af kirkjugörðum og heimagrafreitum sem lög kveða á um.

32. gr.

    Í hverju prófastsdæmi skal með samþykki ráðherra og að fenginni tillögu biskups leggja prófasti til sérstaka aðstöðu eða árlegt fjárframlag vegna skrifstofuhalds, eftir því sem ráðuneytið samþykkir.

33. gr.

    Prófastur fær greiðslur úr ríkissjóði vegna ferðalaga í þágu prófastsdæmisins samkvæmt reikningi er dóms- og kirkjumálaráðuneytið úrskurðar.

34. gr.

    Biskup boðar prófasta til fundar a.m.k. einu sinni á ári til umræðna um málefni þjóðkirkjunnar og þau mál er sérstaklega varða störf prófasta og tengsl þeirra við biskup og dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Ferðakostnaður prófasta og önnur útgjöld vegna fundarsetu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt reikningi er dóms- og kirkjumálaráðuneytið úrskurðar.

VI. KAFLI

Um biskup Íslands og embætti hans.

35. gr.

    Ísland skal vera eitt biskupsdæmi.
    Forseti Íslands skipar biskup Íslands. Um kosningu hans og kjörgengi fer samkvæmt lögum um biskupskosningu, nr. 96/1980. Biskup hefur aðsetur í Reykjavík.

36. gr.

    Biskup fer með yfirstjórn málefna þjóðkirkjunnar, nema mál heyri undir kirkjumálaráðherra samkvæmt lögum eða venju.
    Biskup er forseti kirkjuþings og kirkjuráðs. Hann fylgir eftir markaðri stefnu kirkjuþings og prestastefnu og hefur ákvörðunarvald um einstök mál, nema þau lúti forsjá kirkjuráðs.
    Biskup vígir presta og kirkjur að svo miklu leyti sem hann felur ekki vígslubiskupum það verkefni. Hann hefur yfirumsjón með kristnihaldi og kirkjulegu starfi í landinu. Hann vísiterar kirkjur, presta og söfnuði.
    Biskup hefur samráð við vígslubiskup eða vígslubiskupa um ákvörðun meiri háttar málefna er kirkjuna varðar og getur falið vígslubiskupi að koma fram fyrir hönd kirkjunnar.

37. gr.

    Embættisskrifstofa biskups, biskupsstofa, skal vera í Reykjavík. Þar hafa kirkjuþing og kirkjuráð einnig aðsetur. Biskupsstofa annast afgreiðslu mála þjóðkirkjunnar, þar á meðal mála kirkjuþings og kirkjuráðs.
    Biskupsstofa annast vörslu og reikningshald sjóða og annarra eigna þjóðkirkjunnar.

38. gr.

    Biskup ræður starfsmenn á biskupsstofu, að fenginni heimild ráðherra, þar á meðal biskupsritara, skrifstofustjóra, forstöðumenn deilda, fulltrúa og aðra starfsmenn. Enn fremur ræður biskup aðra starfsmenn þjóðkirkjunnar, nema lög mæli fyrir um annað.
    Ráðherra getur, eftir tillögum biskups, ákveðið hæfnisskilyrði og ráðningartíma starfsmanna er gegna tilteknum verkefnum á biskupsstofu.

39. gr.

    Biskup boðar prestastefnu Íslands og er forseti hennar.
    Á prestastefnu hinnar íslensku þjóðkirkju eiga setu og atkvæðisrétt vígslubiskupar, allir starfandi þjóðkirkjuprestar, svo og fastir kennarar guðfræðideildar Háskóla Íslands með guðfræðimenntun. Aðrir prestar og guðfræðingar eiga rétt til fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti.

40. gr.

    Biskup boðar til leikmannastefnu. Á henni eiga sæti fulltrúar frá prófastsdæmum landsins, kjörnir á héraðsfundum. Þá eiga þar sæti fulltrúar frá landssamtökum kristilegra félaga, sem starfa á kenningargundvelli þjóðkirkjunnar, svo og fastir kennarar guðfræðideildar Háskóla Íslands sem ekki eru guðfræðingar.
    Biskup setur nánari reglur um leikmannastefnu (m.a. um kjör fulltrúa), að fengnum tillögum hennar.

41. gr.

    Í forföllum biskups setur ráðherra þann vígslubiskup er biskup tilkveður til þess að gegna embætti biskups.
    Nú fellur biskup frá eða lætur af embætti og skal þá setja þann vígslubiskup sem eldri er að biskupsvígslu til þess að gegna embætti biskups.

VII. KAFLI

Um vígslubiskupa og embætti þeirra.

42. gr.

    Tveir vígslubiskupar skulu vera hér á landi. Hafa þeir aðsetur í Skálholti í Biskupstungum og á Hólum í Hjaltadal.
    Vígslubiskup í Skálholti hefur með höndum prestsþjónustu í Skálholtsprestakalli og skal honum ráðinn aðstoðarprestur.
    Vígslubiskup á Hólum hefur með höndum prestsþjónustu í Hólaprestakalli. Skal hann njóta aðstoðarþjónustu nágrannapresta eða farprests í Skagafjarðarprófastsdæmi.
    Heimilt er þó ráðherra að ákveða aðra tilhögun á búsetu vígslubiskupa og prestsþjónustu, að fenginni tillögu biskups, enda mæli meiri hluti þeirra sem rétt eiga til biskupskjörs í viðkomandi vígslubiskupsdæmi með því.

43. gr.

    Forseti Íslands skipar vígslubiskupa.
    Um kosningu vígslubiskupa og kjörgengi gilda ákvæði laga um biskupskjör, nr. 96 frá 1980, eftir því sem við getur átt, en ráðherra setur í reglugerð nánari reglur um kosningu og kjörgengi þeirra.

44. gr.

    Umdæmi vígslubiskups í Skálholti nær yfir Múla-, Austfjarða-, Skaftafells-, Rangárvalla-, Árness-, Kjalarness-, Reykjavíkur-, Holta- og Voga-, Borgarfjarðar-, Snæfellsness- og Dala-, Barðastrandar- og Ísafjarðarprófastsdæmi.
    Umdæmi vígslubiskups á Hólum nær yfir Húnavatns-, Skagafjarðar-, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.

45. gr.

    Verkefni vígslubiskupa í hvoru umdæmi fyrir sig skulu vera eftirfarandi:
1.    Að hafa tilsjón með kristnihaldi og vera biskupi til aðstoðar um kirkjuleg málefni.
2.    Að vígja kirkjur í umboði biskups.
3.    Að vígja presta að boði biskups.
4.    Að vísitera kirkjur, presta og söfnuði umdæma sinna í samráði við biskup.
    Einnig skulu vígslubiskupar vera biskupi til ráðuneytis um sameiginleg málefni þjóðkirkjunnar og gegna að öðru leyti þeim störfum, sem biskup felur þeim.

46. gr.


    Vígslubiskupar eiga sæti á árlegum prófastafundi. Þeir skulu sitja fundi kirkjuráðs, þegar þeir eru tilkvaddir af ráðinu og sérstaklega er fjallað um málefni embætta þeirra og umdæma. Þeir eiga enn fremur sæti á kirkjuþingi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt, sbr. lög um kirkjuþing og kirkjuráð, nr. 48 frá 1982.

VIII. KAFLI

Stjórnvaldsreglur o.fl.

47. gr.

    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna, að fengnum tillögum biskups.

48. gr.

    Nú er prestakall lagt niður samkvæmt lögum þessum og skal þá presti í því prestakalli gefinn kostur á embætti í viðkomandi prófastsdæmi eða öðru og skal hann njóta launa og annarra starfskjara eigi lægri en hann áður hafði.

49. gr.

    Við gildistöku laga þessara ber starfandi sóknarprestum og próföstum að hlíta, án sérstakra viðbótarlauna, þeim breytingum er verða á stærð prestakalla og prófastsdæma.

50. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.
    Frá sama tíma falla úr gildi þessi lög og réttarreglur:
    Konungsbréf 16. febr. 1621, um aldur presta.
    Alþingissamþykkt 30. júní 1629, um legorð presta.
    Alþingissamþykkt 1. júlí 1629, um prestmötu.
    Konungsbréf 10. desember 1646, um legorð presta.
    Dönsku lög Kristjáns V. frá 15. apríl 1683, 2. bók 2. kap., 5. gr. og 2. bók 11. kap. 13. gr.
    Konungsbréf 9. maí 1738, um legorð andlegrar stéttar manna.
    Konungsbréf 6. maí 1740, um portionsreikninga bændakirkna.
    Tilskipun 29. maí 1744, áhrærandi ungdómsins catechisation á Íslandi.
    Konungsbréf 19. maí 1747, um gegnumdregnar bækur.
    Konungsbréf 27. febr. 1756, um uppreist presta, er vikið hefur verið frá embætti.
    Konungsbréf 11. mars 1796, um prestsverk prófasta innan prófastsdæmis.
    Lög nr. 4 27. febr. 1880, um eftirlaun presta.
    Lög nr. 13 3. okt. 1884, um eftirlaun prestsekkna.
    Lög nr. 21 22. maí 1890, viðaukalög við lög nr. 5 27. febr. 1880, um stjórn safnaðarmála og skipun sóknarnefnda og héraðsnefnda.
    Lög nr. 47 16. nóv. 1907, um laun prófasta, 3. gr.
    Lög nr. 48 16. nóv. 1907, um ellistyrk presta og eftirlaun.
    Lög nr. 49 16. nóv. 1907, um skyldu presta til að kaupa ekkjum sínum lífeyri.
    Lög nr. 38 30. júlí 1909, um vígslubiskupa.
    Lög nr. 26 16. febr. 1953, um heimild fyrir kirkjumálaráðherra til að taka leigunámi og byggja á erfðaleigu hluta af prestssetursjörðum.
    Lög nr. 35 9. maí 1970, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um Kristnisjóð, 1.–4., 6.–10. og 14.–17. gr. Heiti þeirra laga breytist jafnframt og verður: Lög um Kristnisjóð o.fl.
    Við gildistöku laganna skal Múlasókn í Barðastrandarprófastsdæmi sameinast Gufudalssókn í sama prófastsdæmi, Staðarsókn í Grunnavík í Ísafjarðarprófastsdæmi sameinast Hólssókn í sama prófastsdæmi og Flateyjarsókn í Þingeyjarprófastsdæmi sameinast Húsavíkursókn í sama prófastsdæmi.

Ákvæði til bráðabirgða.


1.    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal óbreytt skipan haldast um tvo sóknarpresta í tvímenningsprestaköllum meðan þeir prestar gegna stöðum þessum, sem ráðnir voru til starfa fyrir gildistöku laganna. Verði prestakalli, sem tveir sóknarprestar þjóna, skipt sbr. 5. gr., hefur sá prestur, sem lengri hefur þjónustualdur í kallinu, rétt til þess að velja hvaða hluta þess hann hyggst þjóna.
2.    Ráðherra getur ákveðið, ef sérstaklega stendur á, að fresta ákvörðun um sameiningu prestakalla skv. 1. gr.
    Ákvörðun um þetta skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.
3.    Í staðinn fyrir þau prestsembætti, sem lögð eru niður skv. 1. gr., skulu upp tekin í prófastsdæmunum samkvæmt liðum I–XIII í sömu grein, eigi færri embætti farpresta og/eða aðstoðarpresta, sbr. 3. og 9. gr.
4.    Ákvæði laga þessara um vígslubiskupa taka til þeirra vígslubiskupa, sem nú eru í starfi. Þó skulu ákvæði 42. gr., um fasta búsetu vígslubiskupa, ekki eiga við um vígslubiskupa, sem eru í starfi við gildistöku laganna.
5.    Meðan núverandi sóknarprestur í Skálholtsprestakalli þjónar kallinu, taka ákvæði 42. gr., um að vígslubiskup í Skálholti gegni prestsstörfum í Skálholtsprestakalli, ekki gildi.
6.    Lög þessi skulu koma til endurskoðunar eigi síðar en 1998.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Endanleg gerð frumvarpsins er unnin á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í samráði við biskup og kirkjuráð.
    Til skýringa er rétt að gera grein fyrir undirbúningi og gerð þess á fyrri stigum.
    Frumvarpið var upphaflega tvö frumvörp, þ.e. frumvarp til laga um skipan prestakalla og prófastsdæma og frumvarp til laga um starfsmenn þjóðkirkju Íslands.
    Frumvarpið um starfsmenn þjóðkirkju Íslands var lagt fram á 108 löggjafarþingi 1985–86, en hlaut ekki afgreiðslu.
    Síðla árs 1985 skipaði þáverandi kirkjumálaráðherra, Jón Helgason, nefnd til þess að endurskoða ákvæði laga um skipan prestakalla og prófastsdæma. Nefndin skilaði álitsgerð 3. okt. 1988, ásamt frumvarpi til laga um skipan prestakalla og prófastsdæma.
    Í nefndarálitinu er bent á að frumvarpið fjalli að nokkru um sama efni og frumvarp til laga um starfsmenn þjóðkirkju Íslands fjallaði um, einkum hvað snertir hin svokölluðu sérþjónustuembætti innan kirkjunnar.
    Í október 1988 skipaði þáverandi kirkjumálaráðherra, Halldór Ásgrímsson, nefnd til þess að fara yfir frumvarp til laga um starfsmenn þjóðkirkju Íslands og sameina ýmis ákvæði þess frumvarpi til laga um skipan prestakalla og prófastsdæma.
    Nefndin skilaði áliti í sama mánuði og lagði til að umrædd frumvörp yrðu sameinuð og að heiti fumvarpsins yrði: Frumvarp til laga um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands.
    Kaflaskipting frumvarpsins var þessi:
     I. kafli. Um skipan prestakalla og prófastsdæma.
     II. kafli. Um sérþjónustuembætti.
    III. kafli. Um embættisgengi presta.
     IV. kafli. Ýmis ákvæði um presta og samstarf þeirra.
     V. kafli. Um prófasta.
     VI. kafli. Um biskupsdæmi.
    VII. kafli. Stjórnvaldsreglur o.fl.
    I. og II. kafli var tekinn nær óbreyttur úr tillögum nefndar er samdi frumvarp um skipan prestakalla og prófastsdæma. Þar var gert ráð fyrir að fækka prestaköllum um sex.
    III. kafli var efnislega samhljóða 1.–4. gr. og 45. gr. starfsmannafrumvarpsins.
    Í IV. kafla voru ýmis ákvæði um presta og samstarf þeirra. Hluti kaflans, þ.e. ákvæði 20.–22. og 26. gr. voru samhljóða ákvæðum í III. kafla frumvarps um skipan prestakalla og prófastsdæma. 23. gr. var efnislega samhljóða 11. gr. starfsmannafrumvarpsins. 24. gr. var samhljóða 9. gr. starfsmannafumvarpsins og 25. gr. var samhljóða 10. gr. starfsmannafrumvarpsins.
    V. kaflinn um prófasta var nær óbreyttur tekinn upp úr starfsmannafrumvarpinu.
    VI. kafli frumvarpsins fjallaði um biskupsdæmi landsins. Tillögurnar gerðu ráð fyrir að landið yrði áfram eitt biskupsdæmi, en að embætti vígslubiskupa yrðu efld verulega. Gert var ráð fyrir, að vígslubiskupar hefðu í framtíðinni aðsetur í Skálholti og á Hólum. Hér var vikið frá tillögum í IV. kafla starfsmannafrumvarpsins um að landinu verði skipt í þrjú biskupsdæmi. Skrefið er
þó stigið til hálfs með því að efla núverandi vígslubiskupsembætti. Hér var um málamiðlunartillögu að ræða.
    Umrædd frumvörp voru lögð fyrir kirkjuþing 1988. Þingið féllst á þá lausn að sameina frumvörpin í eitt í samræmi við tillögur þeirrar nefndar, er skipuð var í október 1988 og lýst hefur verið hér að framan. Kirkjuþing gerði þó nokkrar breytingar á einstökum greinum frumvarpsins. Hér verður þeim ekki lýst, en síðar verður þó vikið að einstökum breytingum eftir því sem tilefni gefst til.
    Frumvarpið eins og kirkjuþing gékk frá því var síðan sent próföstum landsins til umsagnar, er kynntu það fulltrúum sókna. Frumvarpið var til umfjöllunnar á prófastafundi í mars 1989 og á prestastefnu í júní 1989.
    Kirkjuráð tók framkomnar ábendingar og breytingartillögur til skoðunar og gerði nokkrar breytingar á fyrri gerð frumvarpsins.
    Kirkjulaganefnd hefur komið með nokkrar gagnlegar ábendingar og hafa margar af þeim verið teknar til greina.
    Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu var farið yfir endanlega gerð frumvarpsins eins og það er hér lagt fram í samráði við biskup og kirkjuráð.

Yfirlit yfir efni frumvarpsins og nokkrar helstu breytingar


sem það hefur í för með sér.



    Í fyrsta kafla er gerð grein fyrir skipan prestakalla og prófastsdæma landsins. Þar er að finna ákvæði um prestssetur og um heimildir til breytingar á prestaköllum. Enn fremur ákvæði um Þingvallaprest og ráðningu aðstoðarpresta.
    Þær breytingar sem verða á skipan prófastsdæma og prestakalla samkvæmt frumvarpinu eru sem hér segir:
    Í Skaftafellsprófastsdæmi fækkar prestaköllum um eitt þar sem Ásaprestakall sameinast Klaustursprestakalli. Í Rangárvallaprófastsdæmi fækkar prestaköllum sömuleiðis um eitt, þar sem Kirkjuhvolsprestakall er lagt niður og sóknir þess færðar undir Fellsmúla- og Oddaprestakall. Í Árnessprófastsdæmi er eitt prestakall lagt niður, Stóranúpsprestakall, en tvö ný stofnuð, Þorlákshafnar- og Hraungerðisprestaköll. Í Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi er eitt prestakall lagt niður, Söðulholtsprestakall, en eitt stofnað, Ingjaldshólsprestakall. Í Barðastrandarprófastsdæmi er Sauðlauksdalsprestakall lagt niður, en stofnað nýtt prestakall, Tálknafjarðarprestakall. Í Þingeyjarprófastsdæmi fækkar prestaköllum um eitt þar sem lagt er til að Háls- og Staðarfellsprestaköll sameinist í Ljósavatnsprestakall. Alls fækkar prestaköllum yfir landið í heild um tvö.
    Á prófastsdæmunum er gerðar þær breytingar, að Reykjavíkurprófastsdæmi er skipt í tvö prófastsdæmi, Reykjavíkur- og Holta- og Vogaprófastsdæmi. Aðrar breytingar eru ekki gerðar á prófastsdæmunum, nema Siglufjarðarprestakall færist úr Eyjafjarðarprófastsdæmi yfir í Skagafjarðarprófastsdæmi.
    Heimild ráðherra til að ákveða takmörk sókna og prestakalla er rýmkuð frá gildandi lögum þannig að hún nái bæði til Reykjavíkur- og Kjalarnessprófastsdæma. Veitt er heimild til að ráða aðstoðarpresta í fjölmennum prestaköllum og gerir frumvarpið ráð fyrir að í stað tvímenningsprestakalla verði sóknarpresti ráðinn aðstoðarprestur.
    Nýmæli er að ráðherra er veitt heimild til að sameina prestaköll ef íbúafjöldi prestakalls fer niður fyrir 250. Þó er sá fyrirvari gerður að prestsembættum innan þjóðkirkjunnar, utan Reykjavíkur og Kjalarnessprófastsdæmis, skuli ekki fækka við framkvæmd þessa ákvæðis.
    Í öðrum kafla eru ákvæði um sérþjónustupresta. Heimild til ráðningar þeirra er rýmkuð frá því sem er í gildandi lögum, m.a. er veitt heimild til þess að ráða farpresta til starfa í prófastsdæmunum, en nú eru tveir farprestar í starfi fyrir allt landið.
    Í þriðja kafla eru ákvæði um skipun og setningu í prestsembætti og um embættisgengi presta. Nýmæli er að kveðið er á um skyldubundna starfsþjálfun kandídata um prestsembætti í a.m.k. fjóra mánuði áður en þeir hljóta vígslu.
    Í fjórða kafla er fjallað um réttarstöðu presta og starfskyldur þeirra. Þar eru einnig ákvæði um samstarf presta. Nýmæli er að biskupi er heimilað að fela sóknarpresti í fámennu prestakalli tiltekin verkefni án viðbótarlauna, en gegn greiðslu kostnaðar. Í kaflanum er ákvæði um það hvernig leysa eigi úr ágreiningi presta um rétt eða skyldu þeirra til tiltekinnar þjónustu og er það einnig nýmæli.
    Í fimmta kafla eru ákvæði um skipun og starfsskyldur prófasta. Gert er ráð fyrir að auk þjónandi presta taki leikmenn þátt í tilnefningu á prófasti og er það nýmæli.
    Sjötti kafli fjallar um biskup Íslands og embætti hans. Þar er að finna ákvæði um skipun biskups og um helstu starfskyldur hans. Enn fremur ákvæði um biskupsstofu og starfsmenn hennar.
    Í sjöunda kafla eru ákvæði um vígslubiskupa og embætti þeirra. Lagt er til að vígslubiskupar verði tveir eins og nú er. Hins vegar er lagt til að embætti þeirra verði efld verulega. Þannig er gert ráð fyrir að vígslubiskupsembættið verði fullt starf. Lagt er til að vígslubiskupar hafi aðsetur á hinum fornu biskupssetrum, Skálholti og Hólum, og að þeir hafi með höndum prestsþjónustu á þessum stöðum með aðstoð.
    Í áttunda kafla eru ákvæði um gildistöku, brottfallin lög og kveðið á um ýmis framkvæmdaratriði.


Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í þessum kafla er fjallað um skiptingu landsins í prófastsdæmi og prestaköll. Í frumvarpinu er gengið út frá því, að landinu sé skipt í sóknir. Sóknir, prestaköll og prófastsdæmi eru stjórnsýslueiningar innan þjóðkirkjunnar. Sóknin er grunneiningin. Fjöldi sókna og heiti þeirra hvíla á aldagamalli venju. Um sóknir fjalla lög nr. 25/1985. Samkvæmt 1. gr. þeirra laga skulu mörk sókna, prestakalla og prófastsdæma vera óbreytt, svo sem þau hafa mótast af lögum og í lagaframkvæmd, en um breytingar á þeim fer eftir því sem greinir í lögum.

Prófastsdæmin.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að prófastsdæmi landsins verði 16 í stað 15 samkvæmt gildandi lögum. Núverandi Reykjarvíkurprófastsdæmi er skipt í tvö prófastsdæmi, Reykjavíkurprófastsdæmi, sem nær yfir sóknir í Reykjavík vestan Elliðavogs og Reykjanesbrautar og Seltjarnarnesskaupstað og Holta- og Vogaprófastsdæmi er nær yfir sóknir í Kópavogskaupstað og þann hluta núverandi Reykjavíkurprófastsdæmis er liggur austan Elliðavogs og Reykjanesbrautar.
    Aðrar breytingar á mörkum prófastsdæma eru þær að Siglufjarðarprestakall er fært frá Eyjafjarðarprófastsdæmi til Skagafjarðarprófastsdæmis. Ástæður eru einkum þessar: Eyjafjarðarprófastsdæmi er bæði víðlendara og mun fjölmennara en Skagafjarðarprófastsdæmi. Samgöngur eru betri við Skagafjörð en Eyjafjarðarsvæðið. Siglufjörður er í sama kjördæmi og Skagafjörður og meiri stjórnsýsluleg tengsl eru við Skagafjarðarsvæðið en Eyjafjörð.
    Þess má geta að nefnd sú, sem samdi upphaflega frumvarpi til laga um skipan prestakalla og prófastsdæma, lagði til að fleiri breytingar yrðu gerðar á mörkum prófastsdæma eða þessar: Vestmannaeyjar fylgdu Árnessprófastsdæmi, Mosfellsprestakall og Reynivallaprestakall fylgdu eystri hluta Reykjavíkurprófastsdæmis, en það prófastsdæmi var nefnt Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Lagt var til að núverandi Söðulsholtsprestkall og Staðastaðarprestakall sameinuðust og færðust til Borgarfjarðarprófastdæmis, Reykhólaprestkall færðist til Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmis, er nefndist Breiðarfjarðaprófastsdæmi, og Laufássprestkall færðist til Eyjafjarðarprófastsdæmis.

Prestaköllin.
    Í landinu eru nú 114 prestaköll. Þar af eru fimm tvímenningsprestaköll. Íbúafjöldi í prestaköllum er afar misjafn. Fjöldi íbúa að baki hverjum presti er 1.424 utan Reykjavíkurprófastsdæmis, en 5.075 í Reykjavíkurprófastsdæmi. Í fimm prestaköllum er íbúafjöldi innan við 200 manns. Í 35 prestaköllum er íbúafjöldi innan við 500 manns. Í 24 tilvikum er íbúafjöldi yfir 4.000 manns á hvern prest. Rúmur helmingur presta í landinu eða 60 talsins þjóna prestköllum er telja á milli 500 til 4.000 manns. Af þessu sést að misræmið er mikið.
    Í greinargerð með upphaflegri gerð frumvarpsins um skipan prestakalla og prófastsdæma er tekið fram að nefnd sú, sem samdi frumvarpið hafi haft til viðmiðunar eftirtalda þætti varðandi breytingar á skipan prestakalla:
1. Mannfjölda.
2. Fjölda sókna.
3. Samgöngur.
4. Víðáttu prestakalls.
5.    Þjónustumiðstöðvar; sjúkrastofnanir, öldrunarheimili, menntastofnanir, kirkjulegar miðstöðvar og ferðamiðstöðvar.
    Nefndin taldi þó að taka þyrfti tillit til ýmissa fleiri atriða, svo sem einangrun byggða sem gerir það að verkum að erfitt er í sumum tilfellum að leggja niður fámenn prestaköll.
    Samkvæmt gildandi lögum skulu prestar vera svo margir í Reykjavík og kaupstöðum úti á landi að sem næst 4.000 manns komi á hvern að meðaltali. Þótt hafður sé til viðmiðunar ákveðinn íbúafjöldi, sem þykir hæfilegur í prestakalli í þéttbýli, þá verður að líta á fleiri þætti þar sem sérstök þjónustuþörf er fyrir hendi, t.d. þar sem eru sjúkrastofnanir. Er eðlilegt í þeim tilvikum að miða við lægri tölu íbúa í prestakalli en 4.000.
    Erfiðara er að finna einhvern lágmarksfjölda til að miða við vegna breytilegra aðstæðna. Setja má þó fram sem viðmiðun að ekki skuli að jafnaði vera færri en 500 manns í prestakalli og aðstæður að öðru leyti hindri ekki eðlilega þjónustu.
    Verður nú vikið að einstökum prófastsdæmum og gerð grein fyrir breytingum á prestakallaskipaninni sem felast í frumvarpinu.

Múlaprófastsdæmi.
    Mannfjöldi er 5.049 og sjö prestaköll eða 721 íbúi á hvern prest að meðaltali. Sóknir eru samtals 17. Tvö prestaköll eru mjög fámenn, Skeggjastaðaprestkall með 134 íbúa og Desjarmýrarprestkall með 213 íbúa. Hér er um að ræða einangraðar byggðir og því er lagt til að umrædd prestaköll haldist. Þær breytingar eru einar gerðar í prófastsdæminu að heiti Vallanessprestakalls breytist í Egilsstaðaprestakall.

Austfjarðaprófastsdæmi.
    Mannfjöldi er 5.830 og fimm prestaköll eða 1.166 á hvern prest. Sóknir eru samtals 12. Ekki eru lagðar til breytingar í prófastsdæminu.

Skaftafellsprófastsdæmi.
    Mannfjöldi er 3.583 og fimm prestaköll eða 717 íbúar á hvern prest. Sóknir eru samtals 14. Ásaprestakall er fámennasta prestakallið, telur 201 íbúa. Lagt er til að það verði sameinað Klaustursprestakalli. Eftir þá breytingu verða í Klaustursprestakalli 648 íbúar og fimm sóknir. Heiti Bjarnarnessprestakalls breytist í Hafnarprestakall.

Rangárvallaprófastsdæmi.
    Mannfjöldi er 3.264 og sex prestaköll eða 544 íbúar á hvern prest. Sóknir eru samtals 16. Eitt prestakallið, Oddaprestakall, er þó langfjölmennast, telur 1.447 íbúa. Fjögur prestaköll eru með innan við 500 íbúa. Prófastsdæmið er ein samfelld byggð og samgöngur góðar. Lagt er til að í prófastsdæminu verði fimm prestaköll. Kirkjuhvolsprestakall verði lagt niður.
    Hábæjarsókn, sem tilheyrði Kirkjuhvolsprestakalli, færist yfir til Oddaprestakalls og aðrar sóknir, er tilheyrðu Kirkjuhvolsprestakalli, þ.e. Kálfholts- og Árbæjarsóknir leggist til Fellsmúlaprestakalls. Enn fremur er lagt til að Stórólfshvolssókn, sem áður tilheyrði Oddaprestakalli, færist yfir til Breiðabólsstaðarprestakalls.
    Þess má geta að nefnd sú, er samdi upphaflega frumvarpið, lagði auk framangreindra breytinga til að Bergþórshvolsprestakall yrði sameinað Holtsprestakalli.

Árnessprófastsdæmi.
    Mannfjöldi er 10.883 og átta prestaköll eða 1.360 íbúar á hvern prest að meðaltali. Þingvallaprestakall hefur sérstöðu þar sem presturinn gegnir jafnframt stöðu þjóðgarðsvarðar. Ekkert hinna prestakallanna er verulega fámennt, en tvö fjölmenn, þ.e. Hveragerðisprestakall með 3.102 og tvo meginbyggðakjarna, Hveragerði og Þorlákshöfn og fjórar sóknir og Selfossprestakall með 4.302 íbúa og fjórar sóknir.
    Lagt er til að stofnuð verði tvö ný prestaköll, Þorlákshafnarprestakall og Hraungerðisprestakall, en Stóranúpsprestakall verði lagt niður. Þorlákshafnarprestakall er með 1.281 íbúa og myndað af Hjalla- og Strandarsóknum sem áður tilheyrðu Hveragerðisprestakalli. Hraungerðisprestakall er myndað af Ólafsvalla-, Hraungerðis- og Villingaholtssóknum sem áður tilheyrðu Selfossprestakalli og Stóranúpsprestakalli.
    Lagt er til að við Hrunaprestakall bætist Stóranúpssókn sem áður var í Stóranúpsprestakalli.

Borgarfjarðarprófastsdæmi.
    Mannfjöldi er 9.178 og sex prestaköll eða 1.530 íbúar á hvern prest. Sóknir eru samtals 21. Í Garðaprestakalli eru 5.380 manns. Í fjórum prestaköllum eru milli 400 og 600 manns.
    Ekki eru lagðar til aðrar breytingar í prófastsdæminu en að heiti Garðaprestakalls breytist í Akranessprestakall. Geta má þess að nefnd sú, er samdi upphaflega frumvarpið, lagði til að Söðulholtsprestakall og Staðastaðarprestakall í Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi yrðu sameinuð og færð undir Borgarfjarðarprófastsdæmi.

Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi.
    Mannfjöldi er 5.478 og sjö prestaköll eða 783 íbúar á hvern prest. Gert er ráð fyrir að fjöldi prestakalla haldist óbreyttur.
    Fámennustu prestaköllin eru Staðastaðarprestakall og Söðulholtsprestakall. Lagt er til að Söðulholtsprestakall verði lagt niður og sóknir þess færðar undir Staðastaðarprestakall. Jafnframt er lagt til að nýtt prestakall verði stofnað, Ingjaldshólsprestakall með Hellna- og Búðasóknum, sem tilheyrðu áður Staðastaðarprestakalli og Ingjaldshólssókn sem tilheyrði áður Ólafsvíkurprestakalli. Heiti Setbergsprestakalls breytist í Grundarfjarðarprestakall. Á sama hátt breytist heiti Hjarðarholtsprestakalls í Búðardalsprestakall og Hvammsprestakalls í Hvolsprestakall, en engar breytingar verða á sóknum þessara prestakalla.

Barðastrandarprófastsdæmi.
    Mannfjöldi í prófastsdæminu er 2.291 og fjögur prestaköll eða 573 íbúar á hvern prest að meðaltali. Gert er ráð fyrir að fjöldi prestakalla haldist óbreyttur.
    Lagt er til að Sauðlauksdalsprestakall verði lagt niður og upp tekið nýtt prestakall, Tálknafjarðarprestakall. Tálknafjarðarprestakall er myndað af Stóru-Laugardalssókn sem áður tilheyrði Patreksfjarðarprestakalli og Haga- og Brjánslækjarsóknum, sem áður tilheyrðu Sauðlauksdalsprestakalli. Lagt er til að aðrar sóknir, sem tilheyrðu Sauðlauksdalsprestakalli, falli undir Patreksfjarðarprestakall.

Ísafjarðarprófastsdæmi.
    Mannfjöldi er 6.507 og sex prestar eða 1.085 íbúar á hvern prest að meðaltali. Sóknir eru samtals 19.
    Engar breytingar eru gerðar á prestakallaskipaninni í prófastsdæminu. Gert er ráð fyrir að heiti Staðarprestakalls breytist í Suðureyrarprestakall og Staðarsókn í Grunnavík, Bolungarvíkurprestakalli, sameinist Hólssókn í sama prestakalli, sbr. 50. gr. frumvarpsins.

Húnavatnsprófastsdæmi.
    Mannfjöldi í prófastsdæminu er 5.088 og átta prestaköll eða 636 íbúar á hvern prest að meðaltali. Ekkert prestakall er óhæfilega stórt eða mannmargt. Hins vegar eru fjögur prestaköll fámenn, eitt með 117 íbúa og þrjú með íbúa milli 300 til 400 manns. Ekki er lagt til að breyting verði á fjölda prestakalla.
    Þótt Árnessprestakall sé fámennt, með 117 íbúa, er ekki lagt til að það verði lagt niður sökum þess hve prestakallið er einangrað.
    Gert er ráð fyrir að auk prests á Melstað verði prestur á Hvammstanga. Breiðabólsstaðarprestakall verði að Hvammstangaprestakalli og Hvammstangasókn, sem samkvæmt gildandi lögum tilheyrir Melstaðarprestakalli, færist undir Hvammstangaprestakall. Víðidalstungusókn, sem nú tilheyrir Breiðabólsstaðarprestakalli, færist undir Melstaðarprestakall.
    Geta má þess að nefndin er samdi upphaflega frumvarpið lagði til að Prestbakkaprestakall yrði lagt niður.
    Í austurhluta prófastsdæmisins eru ekki gerðar breytingar, nema Höfðakaupstaðarprestakall verður að Skagastrandarprestakalli, en engar breytingar eru gerðar á sóknum prestakallsins.

Skagafjarðarprófastsdæmi.
    Mannfjöldi í prófastsdæminu er nú 4.600 og sex prestar eða 767 manns á hvern prest að meðaltali. Sóknir eru nú samtals 21.
    Sauðárkróksprestakall er langfjölmennast með 2674 íbúa. Fámennast er Mælifellsprestakall með 283 íbúa. Í þremur prestaköllum eru milli 300–500 íbúar. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á fjölda prestakalla, nema að lagt er til að Siglufjarðarprestakall færist frá Eyjarfjarðarprófastsdæmi yfir í Skagafjarðarprófastsdæmi eins og áður hefur verið gerð grein fyrir.
    Í Skagafjarðarprófastsdæmi eru samgöngur góðar og fjarlægðir innan héraðs ekki miklar. Lagt er til að Mælifellsprestur hafi skyldur umfram sóknarprestsskyldur, þ.e. gegni starfi farprests í prófastsdæminu, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Í 42. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að vígslubiskup á Hólum njóti aðstoðar nágrannaprests eða farprests við þjónustu í Hólaprestakalli. Því er lagt til að vígslubiskup og prófastur taki nánari ákvörðun um störf farprestsins. Lagt er til að Reykjasókn, sem nú tilheyrir Mælifellsprestakalli, færist undir Glaumbæjarprestakall. Enn fremur er lagt til að Rípursókn, sem nú tilheyrir Hólaprestakalli, færist undir Miklabæjarprestakall.

Eyjafjarðarprófastsdæmi.
    Mannfjöldi er nú 21.212 og níu prestar eða 2.357 manns á hvern prest. Sóknir eru samtals 21. Eina breytingin, sem lögð er til, fyrir utan flutning Siglufjarðarprestakalls, er sú að Miðgarðasókn í Grímsey falli undir Akureyrarprestakall í stað Glerárprestakalls. Miðgarðasókn hefur nokkra sérstöðu vegna legu sinnar. Fari svo að farprestur verði ráðinn í Eyjafjarðarprófastsdæmi, mætti hugsa sér að honum yrði falið að þjóna sókninni.

Þingeyjarprófastsdæmi.
    Mannfjöldi er nú 6.708 manns og níu prestar eða 745 manns á hvern prest. Sóknir eru samtals 24. Húsavíkurprestakall er fjölmennast með 2.617 manns. Lagt er til að prestaköllum fækki um eitt. Fámennustu prestaköllin Hálsprestakall með 227 íbúa og Staðarfellsprestakall með 371 íbúa verði sameinuð í eitt, Ljósavatnsprestakall. Enn fremur er lagt til að heiti Sauðanessprestakalls breytist í Þórshafnarprestakall án þess að breyting sé gerð á sóknum prestakallsins.

Reykjavíkur- og Kjalarnessprófastsdæmi.
    Samkvæmt gildandi lögum er prestakallaskipan utan Reykjavíkurprófastsdæmis ákveðin í lögum, en í Reykjavíkurprófastsdæmi er hún ákveðin samkvæmt ákvörðun ráðherra.
    Lagt er til að sú breyting verði gerð að ráðherra ákveði prestakallaskipanina í núverandi Reykjavíkurprófastsdæmi og Kjalarnessprófastsdæmi. Á þessu landsvæði á sér stað mikil mannfjölgun. Því þykir heppilegra að hafa betri möguleika á að breyta prestakallaskipaninni til samræmis við breyttar aðstæður á hverjum tíma.
    Núverandi Reykjavíkurprófastsdæmi er lang stærst af prófastsdæmum landsins. Mannfjöldi í því er yfir 45% af öllum landsmönnum. Því er lagt til að Reykjavíkurprófastsdæmi verði skipt í Reykjavíkurprófastsdæmi og Holta- og Vogaprófastsdæmi.
    Bent skal á að verði Reykjavíkurprófastsdæmi skipt þarf að breyta lögum um kirkjuþing og kirkjuráð íslensku þjóðkirkjunnar, nr. 48/1982, varðandi kjör fulltrúa á kirkjuþing.
    Í núverandi Reykjavíkurprófastsdæmi eru 19 prestaköll, þar af fjögur tvímenningsprestaköll. Í prófastsdæminu eru nú 5.075 íbúar á hvern prest. Til þess að 4.000 íbúar væru á hvern prest, þyrftu að vera 29 prestar. Í Reykjavík eru allar helstu sjúkrastofnanir landsins. Samtals eru í Reykjavíkurhéraði sjúkrarúm fyrir 1.477 sjúklinga. Hjúkrunarrúm fyrir aldraða eru 390 og vistrúm 379. Sjúkra- og vistrúm fyrir áfengissjúklinga eru 169. (Tölur eru frá árinu 1988.)
    Lögð er áhersla á aukna prestsþjónustu á sjúkrastofnunum og því þarf augljóslega að fjölga prestum í Reykjavík til að sinna þeirri þjónustu.
    Í Kjalarnessprófastsdæmi eru eftirtalin prestaköll með yfir 4.000 íbúa: Keflavíkurprestakall 7.436 íbúar, Hafnarfjarðarprestakall 8.905 íbúar, Víðistaðaprestakall 5.641 íbúar og Garðaprestakall 8.485 íbúar.
    Það er því augljóst að fjölga þarf prestum í umræddum prófastsdæmum.

Um 1. gr.


    Hér að framan hefur verið gerð nokkur grein fyrir breytingum á skipan prestakalla og prófastsdæma landsins samkvæmt frumvarpinu. Í 1. gr. frumvarpsins er tilgreint heiti hvers prestakalls og hvaða sóknir heyri þeim til. Í langflestum tilfellum er heiti prestakallsins dregið af þeim stað þar sem prestur situr.
    Nokkrar sóknir, sem tilgreindar eru í lögum nr. 35/1970, eru ekki taldar upp í 1. gr. Þetta eru sóknir sem hafa verið aflagðar annaðhvort vegna þess að þær hafa verið sameinaðar öðrum sóknum eða þær hafa eyðst af fólki. Í 50. gr. frumvarpsins er lagt til að þrjár sóknir, Múlasókn í Barðastrandarprófastsdæmi, Staðarsókn í Grunnavík, Ísafjarðarprófastsdæmi og Flateyjarsókn í Þingeyjarprófastsdæmi, verði sameinaðar öðrum sóknum.
    Í gildandi lögum er aðsetursstaður prests tilgreindur. Í frumvarpinu er aðsetursstaður eða prestssetur á sama hátt tilgreint. Þess má geta að nefndin, er samdi upphaflega frumvarpið, lagði til að aðsetursstaður eða prestssetur væri aðeins tilgreint í þeim tilfellum þar sem prestssetur eru jarðir.

Um 2. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum er prestakallaskipan utan Reykjavíkurprófastsdæmis ákveðin í lögum, en í Reykjavíkurprófastsdæmi er hún ákveðin samkvæmt ákvörðun ráðherra.
    Lagt er til að sú breyting verði gerð að ráðherra ákveði prestakallaskipanina í Reykjavíkurprófastsdæmi, Holta- og Vogaprófastsdæmi og Kjalarnessprófastsdæmi.
    Gengið er út frá því, eins og nú er í lögum, að safnaðarráð í hverju prófastsdæmi geri tillögur um skiptingu hvers prófastsdæmis í sóknir og prestaköll.

Um 3. gr.


    Í 1. mgr. segir að í hverju prestakalli skuli aðeins vera einn sóknarprestur. Þetta ákvæði girðir þó ekki fyrir það að fleiri prestar geti verið ráðnir til starfa í sama prestakalli. Ef íbúafjöldi í prestakalli fer yfir 4.000 manns eða aðrar ástæður gera það að verkum að verkefni í prestakalli eru meiri en svo að ætlandi sé einum presti að vinna þau þá getur ráðherra heimilað fleiri prestsstöður. Sem dæmi um tilgreindar ástæður mætti nefna sjúkrastofnanir þar sem verulegrar prestsþjónustu er þörf þótt mannfjöldi í prestakalli nái ekki tilgreindum mörkum.
    Aðstoðarprestar, sem ráðnir eru, starfa undir stjórn viðkomandi sóknarprests.
    Eðlilegt þótti að takmarka ráðningartíma aðstoðarpresta við þrjú ár. Ákvæði laga um veitingu prestakalla, nr. 44/1987, gilda ekki um ráðningu aðstoðarpresta. Tilskilið er að haft sé samráð við viðkomandi sóknarprest, þegar aðstoðarprestur er ráðinn enda nauðsynlegt, að samstarf milli þeirra sé sem best.
    Gengið er út frá því að laun aðstoðarpresta þjóðkirkjunnar séu greidd úr ríkissjóði. Samkvæmt 25. gr. laga um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl., nr. 25/1985, er gert ráð fyrir því, að söfnuðir geti ráðið til sín starfsmenn til safnaðarstarfa. Frumvarp það, sem hér um ræðir, tekur ekki til slíkra starfsmanna, heldur aðeins til presta þjóðkirkjunnar.
    Samkvæmt síðustu málsgrein er gert ráð fyrir að biskup setji aðstoðarprestum erindisbréf.

Um 4. gr.


    Í lögum nr. 35/1970 er heimild til þess að skipta prestaköllum í kaupstöðum utan Reykjavíkurprófastsdæmis þar sem eru tveir eða fleiri prestar.
    Ákvæði þessarar greinar er nokkuð rýmra.

Um 5. gr.


    Ákvæði greinarinnar er efnislega samhljóða 4. gr. laga nr. 35/1970.

Um 6. gr.


    Ákvæðið er nýmæli. Með sama hætti og ráðherra hefur heimild til þess að stofna ný prestaköll, sbr. 4. gr. Þá hefur hann jafnframt heimild til þess að leggja niður prestaköll, að fenginni tillögu biskups og umsögn viðkomandi héraðsfundar. Tilskilið er að íbúafjöldi í prestakalli sé undir 250 manns.
    Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því, að skv. 1. gr. eru 7 prestaköll nú undir 300 manns, þar af er eitt þeirra Þingvallaprestakall sem hefur nokkra sérstöðu. Í fjórum tilvikum eru prestaköll í afskekktum byggðarlögum, þar sem ekki þótti eðlilegt að leggja niður prestaköll og í einu þeirra er gert ráð fyrir að presturinn gegni jafnframt stöðu farprests.
    Í 2. mgr. er áskilið að heimild þessi sé bundin því skilyrði að prestsembættum fækki ekki í prófastsdæmum utan Reykjavíkur- og Kjalarnessprófastsdæmi við niðurlagningu prestakalla skv. 1. mgr.

Um 7. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 6. gr. laga nr. 35/1970.

Um 8. gr.


    Þar sem prestssetur er tilgreint í 1. gr. er presti skylt að hafa aðsetur og lögheimili, nema biskup heimili annað um stundarsakir. Um leigugjald af embættisbústöðum presta gildir nú reglugerð nr. 334/1982, sbr. lög nr. 27/1968.
    Ýmis ákvæði ábúðarlaga, nr. 64/1976, gilda um samskipti presta sem leiguliða og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem fer með forræði prestssetursjarða. Í því sambandi má nefna að framkvæmdir, sem prestur kostar á prestssetursjörð, eru metnar með sama hætti og segir í ábúðarlögum, sbr. 16. gr. þeirra. Um leigutíma gilda að sjálfsögðu ekki sömu reglur og almennt gilda samkvæmt ábúðarlögum. Miðað er við að ábúðartími prests sé sá sami og embættistími hans, sbr. þó 19. gr. frumvarpsins, sem gerir ráð fyrir að ráðherra geti veitt presti, er situr jörð, frest fram til næstu fardaga til að taka við embætti. Gera verður þó ráð fyrir að þetta frávik sé undantekning. Í 2. mgr. 8. gr. er kveðið á um það að kirkjumálaráðherra setji reglugerð um leigugjald af prestssetursjörðum.
    Í 3. mgr. 8. gr. er mælt fyrir um að farprestar, sbr. 9. gr. frumvarpsins, skuli njóta sambærilegra húsnæðiskjara og sóknarpresta. Þetta vísar til þess að farprestum skuli annaðhvort tryggður embættisbústaður, ef skilyrðum 2. gr. laga nr. 27/1968 um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins er fullnægt, eða húsaleigustyrkur.
    Í 4. mgr. 8. gr. eru sett ákveðin skilyrði fyrir því að prestssetri sé ráðstafað til langframa. Telja verður að ákvæðið eigi ekki við um tímabundna leigu. Þó verður að telja eðlilegt, að í þeim tilvikum sé haft samráð við biskup. Ákvæðið á ekki við ef prestssetur er selt vegna þess að prestakall er lagt niður með þeim hætti sem lög áskilja, sbr. 5. mgr. greinarinnar, eða það er flutt til, sbr. 6. mgr. greinarinnar.
    Síðasta málsgrein 8. gr. er efnislega samhljóða 14. gr. laga nr. 35/1970.

Um II. kafla.


    Í þessum kafla eru dregin saman ákvæði er eiga við um svokölluð sérþjónustuembætti. Hér er átt við alla presta innan þjóðkirkjunnar sem ekki eru sóknarprestar eða aðstoðarprestar sóknarpresta.
    Með breyttum áherslum innan kirkjunnar og breytingu á þjóðfélagsgerðinni á síðari árum hefur þörf fyrir ýmsa sérþjónustu presta aukist. Einnig má benda á að á síðari árum hafa prestar í auknum mæli farið í sérnám er gerir þá hæfari til að sinna sérhæfðum verkefnum. Er áskilið í frumvarpinu að slíkir prestar hafi sérnám að baki, sbr. 11.–13. gr. þess.
    Lögð er áhersla á aukna þjónustu á sjúkrahúsum og vistheimilum.

Um 9. gr.


    Ákvæði greinarinnar er nýmæli. Gefinn er möguleiki á því að ráða farpresta er starfi í prófastsdæmum.
    Verkefni þeirra eru:
1. Að vera til aðstoðar í fjölmennum og víðlendum prestaköllum.
2. Að þjóna í forföllum.
3. Að annast tiltekin sérverkefni.
    Gert er ráð fyrir að farprestar, sem ráðnir eru til þjónustu í tilteknu prófastsdæmi, starfi samkvæmt erindisbréfi biskups. Í framkvæmd skipuleggur hlutaðeigandi prófastur starf þeirra í samræmi við fyrirmæli biskups.
    Farprestum er ætlað að aðstoða sóknarpresta í fjölmennum prestaköllum. Einnig er þeim ætlað að þjóna í forföllum. Einkum er hér átt við forfallaþjónustu um skamman tíma, t.d. í veikindaleyfum. Auk umgetinnar aðstoðarþjónustu við einstaka sóknarpresta er farprestum ætlað að annast tiltekin sérverkefni, svo sem ýmsa félagslega þjónustu, t.d. er lýtur að æskulýðs- og öldrunarmálum, sjúkrahúsaþjónustu o.fl. Með tilkomu héraðssjóðanna samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, opnast möguleiki fyrir söfnuði til þess að vinna saman að ýmsum málum innan hvers prófastsdæmis. Ákvæði 9. gr. ætti að greiða fyrir slíku samstarfi.
    Ákvæði gildandi laga um farpresta, sem eru til þjónustu fyrir landið í heild, er ekki tekið upp í frumvarpið.

Um 10. gr.


    Í 9. gr. laga nr. 35/1970 er ákvæði um prest er skuli starfa í Kaupmannahöfn.
    Nú eru starfandi prestar í Kaupmannahöfn og London. Ákvæði 10. gr. gera ráð fyrir að ráðherra ákveði hvar íslenskir prestar skuli starfa erlendis. Ekki þykir eðlilegt að binda það nákvæmlega í lögum.

Um 11. gr.


    Í 1. mgr. segir að á sjúkrastofnunum skuli halda uppi prestsþjónustu. Með þessu er verið að undirstrika nauðsyn þess að prestur veiti sjúklingum þjónustu. Er þetta í samræmi við ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga nr. 25/1985 um kirkjusóknir, safnaðarfundi, héraðsfundi o.fl. Í langflestum tilfellum getur sjúklingur ekki sótt guðsþjónustur eða leitað til prests eins og fullhraust fólk getur. Með ákvæði þessu er verið að leggja áherslu á skyldur sóknarpresta til að veita þjónustu á sjúkrahúsum. Ekki aðeins með guðsþjónustuhaldi, eftir því sem aðstæður leyfa, heldur einnig með heimsóknum, viðtölum og sálgæslustarfi. Starf sóknarprests á sjúkrastofnun er hluti af starfi hans.
    Þar sem þess er þörf er gert ráð fyrir að ráða sérstaka sjúkrapresta er sinni eingöngu þessari þjónustu.
    Nauðsynlegt er að prestsstarf á sjúkrahúsum sé unnið í fullu samráði við hlutaðeigandi sjúkrastofnun og er því gerður áskilnaður um það í greininni. Einnig er tiltekið að þegar sérstakur sjúkraprestur er ráðinn beri að leita álits stjórnar hlutaðeigandi sjúkrastofnunar.

Um 12. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 8. gr. laga nr. 35/1970.

Um 13. gr.


    Í nokkur ár hefur starfað prestur er þjónað hefur heyrnarskertum þótt ekki sé um það fjallað í lögum nr. 35/1970.

Um 14. gr.


    Í 1. mgr. segir að heimilt sé að ráða presta til sérþjónustu í fleiri tilfellum en tiltekið er beint í lögunum. Þykir rétt að gera ráð fyrir slíkum möguleika.
    Ekki þótti rétt að binda í lögum nákvæmar reglur um réttarstöðu sérþjónustupresta, einkum þó stöðu þeirra gagnvart sóknarprestum. Eðlilegra þótti að slíkar reglur væru mótaðar innan kirkjunnar. Því er í 3. mgr. kveðið á um að ráðherra setji í reglugerð, að fenginni tillögu biskups, ákvæði um starfssvið sérþjónustupresta, skipulag prestsþjónustu þeirra og stöðu þeirra gagnvart sóknarprestum.

Um III. kafla.


    Í þessum kafla eru ákvæði um skipun og setningu í prestsembætti og um embættisgengi presta.

Um 15. gr.


    Samkvæmt greininni skipar kirkjumálaráðherra sóknarpresta í embætti, sbr. lög nr. 44/1987, en ræður aðra presta til þjónustu eftir tillögum biskups, þ.e. í samræmi við tillögur hans. Gert er ráð fyrir að sú venjubundna tilhögun standi óbreytt að biskup setji (ráði) menn til að gegna embætti um stundarsakir. Hér gætir því eigi breytinga frá þeirri framkvæmd sem nú tíðkast.

Um 16. gr.


    Í greinni er mælt fyrir um embættisgengi sóknarpresta, þ.e. hvaða skilyrðum maður verður að fullnægja til þess að verða skipaður eða settur í embætti sóknarprests.
1.    Í 1. tölul. er áskilinn 25 ára aldur, sbr. konungsbréf 16. febrúar 1621, sem gert er ráð fyrir að numið verði úr lögum. Ákvæðið er undanþægt, sbr. og tilgreint lagaboð. Á árum áður var það alltítt að aldursleyfi væru veitt, en er fátítt hin síðari ár.
2.    Í 2. tölul. er það lagaskilyrði að maður hafi lokið embættisprófi í guðfræði frá guðfræðideild Háskóla Íslands eða kandídatsprófi frá viðurkenndri guðfræðideild eða guðfræðiskóla. Um hið síðastnefnda skal biskup leita umsagnar guðfræðideildar Háskóla Íslands. Telja má víst að próf frá norrænu guðfræðideildunum yrðu viðurkennd hér á landi, en um kennimannlega guðfræði kann þó að gegna sérstöku máli. Með þessu ákvæði er lagt til að lögfestar verði reglur sem nú gilda í raun að því er ætla verður.
3.    Í 3. tölul. er kveðið á um starfsþjálfun kandídats í a.m.k. fjóra mánuði áður en hann hlýtur vígslu. Er það nýmæli. Kirkjunnar menn hafa oft bent á nauðsyn slíkrar starfsþjálfunar og hefir þessu máli m.a. verið hreyft á kirkjuþingi. Í frumvarpinu er lagt til að prófasti sé falin umsjón í þessu efni, en um framkvæmd og eftirlit verði nánar mælt í reglugerð. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að kandídat hljóti fræðslu í kennimannlegri guðfræði í guðfræðideild Háskólans eftir því sem nánar segir í reglugerð um það nám. Lágmarkstími starfsþjálfunar er fjórir mánuðir, en hann má lengja með reglugerðarákvæði. Eigi er kveðið á um launakjör guðfræðings í starfsþjálfun, en á því er byggt að hann hljóti laun meðan á þessari starfsþjálfun stendur. Ekki er það forsenda fyrir því að kandídat geti hlotið starfsþjálfun að hann hafi umsögn biskups um að hann sé hæfur til að takast á hendur prestsþjónustu í þjóðkirkjunni, sbr. 4. tölul. 16. gr. og 17. gr. frumvarpsins. Benda má á í sambandi við 3. tölul. að á Alþingi 1942 flutti séra Sveinbjörn Högnason frumvarp til laga um verklegt nám kandídata frá Háskóla Íslands, þar á meðal guðfræðinga, en það frumvarp náði ekki fram að ganga.
4.    Í 4. tölul. eru ákvæði um að sá maður sé ekki embættisgengur, sem gerst hafi sekur um athæfi, sem ætla megi að rýri álit hans og sé ósamboðið manni í prestsstarfi. Í þessu felst, sbr. og tilvísun 5. tölul. til 3. gr. laga 38/1954, að sá maður, sem hefir flekkað mannorð í lagaskilningi, sé ekki embættisgengur, nema fengið hafi uppreist æru. Í 4. tölul. er hins vegar gengið lengra, svo sem títt er um ýmsa aðra ríkisstarfsmenn, sbr. t.d. um dómara 35. gr. laga 85/1936 og um lækna, læknalög, nr. 80/1969. Að því er varðar siðferðiskröfur orkar ekki tvímælis að gera verður ríkar kröfur til presta, en ýmis lagaboð frá 17. og 18. öld, sem enn eru tekin í lagasöfn, eru gersamlega úrelt, og er lagt til að þau verði afnumin, sbr. 50. gr. frumvarpsins. Tekið skal fram að skv. 4. tölul. þarf athæfi, sem maður er sakaður um, að vera sannað með dómi eða með öðrum ótvíræðum hætti, og má hér benda á ákvæðin um kirkjudóm í 7. gr. laga nr. 74/1974 og Synódalrétt í 3. gr. laga nr. 75/1973.
5.    Í 5. tölul. er vísað hvað varðar almenn skilyrði til að gegna embætti til 3. gr. laga 38/1954 og felst í því að íslenskur ríkisborgararéttur er almennt áskilinn, sbr. þó undanþáguheimild í 4. tölul. 3. gr., lögræði og væntanlega fjárforræði, svo og óflekkað mannorð. Enn fremur felst í þessari tilvísun að konur og karlar hafa sama rétt til embætta innan þjóðkirkjunnar og sama rétt til launa og annarra starfskjara.
    Skilyrðum um embættisgengi verður bæði að fullnægja þegar manni er veitt embætti og svo síðar.

Um 17. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um að áður en óvígður guðfræðingur sækir um prestsstarf í þjóðkirkjunni skuli liggja fyrir umsögn biskups um að hann fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til prestsvígslu. Sérstök ástæða er til að benda á 4. tölul. 16. gr. í tengslum við 17. gr. Þetta eru forn ákvæði í kirkjurétti, sbr. einnig 43. gr., í erindisbréfi handa biskupum frá 1. júlí 1746. Biskup verður vitaskuld að gæta lögmæltra embættisskilyrða og réttra lagasjónarmiða og t.d. væri eigi lögmætt að synja kvenguðfræðingi um vottorð vegna kynferðis hennar, sbr. 5. tölul. 16. gr. Vísað er annars til athugasemda við 16. gr. frumvarpsins, m.a. við 3. tölul.

Um IV. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um atriði, er varða ýmis réttindi og skyldur presta, um samstarf presta í prófastsdæmum o.fl. Um réttindi og skyldur gilda ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. lög nr. 38/1954. Um prestsembætti hljóta þó einnig að gilda sérstakar reglur er taka mið af stöðu þeirra og stöðu þjóðkirkjunnar í þjóðfélaginu.

Um 18. gr.


    Gefur ekki tilefni til athugasemda. Ákvæðið er ekki tæmandi og ber að varast gagnályktun.

Um 19. gr.


    Hér er lagt til að unnt sé að veita sóknarpresti sem skipaður hefir verið í embætti nokkurn frest til að taka við því. Reynir einkum á þetta þegar prestur flyst milli prestakalla. Getur verið erfitt fyrir hann að flytjast til nýs prestakalls fyrirvaralítið þegar hann situr prestssetur sem bújörð fylgir. Er það gömul regla að þá skuli miða við fardaga, ef prestur óskar, sbr. tilskipun 6. janúar 1847, og er lagt til að ákvæði sem að því lúti verði áréttað í þessari grein. Ekki er vikið sérstaklega að því hvernig ráðstafa skuli þjónustu í því prestakalli, sem prestur hefir verið skipaður í, og geta ýmsir kostir komið þar til greina, en um það fer eftir almennum reglum sem myndast hafa.

Um 20. gr.


    Ákvæði greinarinnar lýsir þeirri meginreglu, sem í gildi hefur verið, að hver sóknarprestur þjóni sínu prestakalli, nema lög eða stjórnvaldsreglur mæli fyrir um annað. Er þetta efnislega í samræmi við 9. gr. í kirkjuordinatiu Kristjáns IV. hins norska frá 2. júlí 1907. Rétt er að athuga hvaða undantekningar kunna að vera á umræddri meginreglu.
    Sérþjónustuprestar hafa ekki með sama hætti og sóknarprestar ákveðið þjónustusvæði, prestakall, til þess að þjóna. Sérþjónustuprestar þjóna annaðhvort tiltekinni stofnun, t.d. fangaprestur eða sjúkraprestur, sem að sjálfsögðu er í einhverri sókn eða þeir þjóna tilteknum hópi manna, t.d. heyrnarlausum sem tilheyra einhverjum þjóðkirkjusöfnuði eða þeir starfa að tilteknum verkefnum í prófastsdæmunum, sbr. 3.tölul., 9. gr. frumvarpsins. Þannig skarast þjónustusvið sóknarpresta og sérþjónustupresta. Í frumvarpinu eru ekki settar fram fastar reglur um samskipti sérþjónustupresta og sóknarpresta. Þess í stað er ráðherra heimilað að setja slíkar reglur eftir tillögum biskups, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Einnig má líta á ákvæði 21. og 22. gr. frumvarpsins að nokkru sem frávik frá umræddri meginreglu. Með sama hætti ber að líta á ákvæði laga um leysing á sóknarbandi nr. 9/1882, einkum miðað við þá lagaframkvæmd sem hefur verið.

Um 21. gr.


    Efni greinarinnar er í samræmi við lagaframkvæmd. Í nokkur ár hafa verið ákvæði í kjarasamningi Prestafélags Íslands þess efnis að prestum beri að leysa hver annan af í sumarleyfum og á vikulegum frídegi. Í seinni tíð hefur samstarf safnaða aukist. Með tilkomu héraðsnefnda og héraðssjóða opnast möguleikar til meira samstarfs safnaða innan prófastsdæmis. Ákvæði greinarinnar eiga að stuðla að slíku samstarfi.

Um 22. gr.


    Ákvæði greinarinnar er nýmæli. Nokkur prestaköll eru fámenn. Biskupi er heimilt að fela prestum, er þjóna þeim, verkefni utan prestakallsins. Hér kæmi til greina að presti væru falin tiltekin verkefni í öðru prestakalli undir stjórn viðkomandi sóknarprests eða verkefni í fleiru en einu prestakalli eða tiltekið þjónustuvið, t.d. þjónusta við aldraða eða sjúka. Einnig er biskupi heimilt að fela þeim önnur verkefni er hann ákveður.

Um 23. gr.


    Ákvæði þessarar greinar er til að taka af tvímæli, en greinin er í samræmi við lagaframkvæmdina.

Um 24. gr.


    Ákvæði þessarar greinar mun vera í samræmi við lagaframkvæmd.

Um 25. gr.


    Í þessari grein segir um skyldu sóknarprests til að sitja fundi sóknarnefndar, sbr. og lög um kirkjusóknir o.fl., nr. 25/1985, 17. gr., og skyldu til að sækja héraðsfundi, svo og fundi sem biskup eða prófastur boðar honum. Þessi grein mun vera í samræmi við það sem nú er talið gilda, en ástæða er til að lögfesta þær reglur.

Um 26. gr.


    Ákvæði greinarinnar segir til um hvernig skuli leysa úr ágreiningi er kann að rísa milli presta um skyldur þeirra eða rétt til tiltekinnar þjónustu. Ákvæðið er nýmæli.

Um V. kafla.


    Í þessum kafla eru ákvæði um prófasta. Þau hafa sætt rækilegri athugun á prófastafundum, en ákvæðin í frumvarpinu eru eins og kirkjuþing afgreiddi þau haustið 1984. Ákvæðin gera ráð fyrir að prófastur verði virkari við eftirlit og umsjón með kirkjustarfi en nú er, en störf sín vinnur hann að verulegu leyti í umboði biskups. Ef kirkjulegri starfsstöð verður komið á fót í prófastsdæmi, veitir prófastur henni jafnaðarlega forstöðu, sbr. 28. gr. Störf prófasta verða samkvæmt frumvarpinu með svipuðum hætti ella og verið hefir. Bent er á að samkvæmt lögum nr. 25/1985, um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl., skal héraðsnefnd starfa undir forsæti prófasts. Samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl., nr. 91/1987, er prófastur stjórnarformaður héraðssjóðs.

Um 27. gr.


    Nokkur nýmæli eru í þessari grein.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að þjónandi prestar í prófastsdæmi kjósi prófast. Nauðsynlegt er að setja nánari reglur um rétt sérþjónustupresta til að taka þátt í prófaststilnefningu, sbr. 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins.
    Það er nýmæli að þrír fulltrúar leikmanna skuli taka þátt í tilnefningu. Þeir skulu kosnir á héraðsfundi sérstaklega til þess og til fjögurra ára í senn þó ekki fleiri en prestar eru í prófastsdæmi. Um þátttöku leikmanna í þessari tilnefningu hafa verið uppi ýmsar hugmyndir, en frumvarpið er hér í samræmi við afgreiðslu kirkjuþings. Biskup og kirkjumálaráðherra eru ekki bundnir við álit presta og leikmanna samkvæmt þessu. Byggt er hér á að ráðherra muni ávallt fara eftir tillögu biskups.
    Í 27. gr. 1. mgr. segir enn fremur að sóknarpresti sé skylt að takast á hendur prófastsembætti, en þó er heimilt skv. 2. mgr. að leysa hann undan því starfi ef hann telur sér óhægt að gegna því vegna veikinda eða af öðrum persónulegum ástæðum þótt hann gegni prestsembætti áfram.
    Sérstök ákvæði eru um það er prófastur getur ekki gegnt embætti um stundarsakir vegna veikinda eða fjarvista eða af öðrum ástæðum. Getur biskup þá falið presti eða nágrannaprófasti að gegna embættinu um stundarsakir. Er þetta í samræmi við venjur.

Um 28. gr.


    Í 1. mgr. eru almenn ákvæði um stöðu prófasta og eru þau í samræmi við venjur og lög.
    Í 2. mgr. er rætt um kirkjulega starfsstöð í prófastsdæmi. Eru hugmyndir uppi um það innan kirkjunnar að stofna slíka stöð er skipuleggi starfsemi kirkjunnar innan prófastsdæmis og verði til liðsinnis við kirkjulegt starf ýmiskonar. Í tengslum við það er svo hugmyndin um héraðssjóði, sbr. 8. gr. laga 91/1987 um sóknargjöld o.fl. Er lagt til í 28. gr. frumvarpsins að prófastur verði að jafnaði forstöðumaður starfsstöðvar. Um hið síðarnefnda skal tekið fram að heimilt er að ráða einn af sóknarprestum prófastsdæmis forstöðumann starfsstöðvar, m.a. þegar prófastur færist undan að gegna þeim starfa.
    Í 2. mgr. segir enn fremur um störf prófasts í tengslum við héraðsfundi, bæði um boðun fundar, undirbúning hans og um að fylgja eftir ályktunum fundarins, sbr. nánar í VII. kafla laga um kirkjusóknir o.fl. nr. 25/1985 , er áður greinir.

Um 29. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um ýmis störf prófasta. Er greinin um sumt samantekt á ýmsum lagaákvæðum og venjum, en að öðru leyti er um nýmæli að ræða.
    Eitt af meginverkefnum prófasts frá fornu fari er eftirlit með prestssetrum, kirkjum og kirknaeignum í prófastsdæmi, sbr. tilskipun 24. júlí 1789, og svo bókasöfnum prestakalla, sbr. lög nr. 17/1931.
    Annað meginverkefni er úttekt á prestssetrum og öðrum embættisbústöðum presta við prestaskipti, sbr. 2. mgr., þar sem því er bætt við að prófastur geri úttekt á nýjum kirkjum, kapellum og safnaðarheimilum.
    Þriðja verkefnið er að vísitera kirkjur og söfnuði og að fylgja biskupi á vísitasíum hans, sbr. 3. mgr.
    Fjórða verkefnið er að setja nýjan prest í embætti og er löng venja fyrir því.
    Í 4. mgr. eru ákvæði um störf prófasta varðandi starfsskýrslur og endurskoðaða reikninga sem hann leggur fyrir héraðsfundi.
    Í sömu málsgrein er vikið að því að prófastur fjalli um ágreining sem rísa kann milli sóknarprests, sóknarnefndar og safnaðar í því skyni að jafna þann ágreining.
    Í 5. mgr. er svo fyrir mælt að prófastur löggildi gerðabækur og aðrar bækur sóknarnefndar þar á meðal reikningsskilabækur.
    Í 6. mgr. segir að prófastur veiti presti leyfi til fjarvista úr prestakalli um stutta stund, en til lengri leyfa þarf samþykki ráðherra, að fenginni tillögu biskups.
    Í 7. mgr. segir að prófastur skipuleggi sumarleyfi og önnur samningsbundin leyfi presta í prófastsdæmi. Er mikilvægt að þeim málum sé skipað með hagkvæmum hætti.
    Að lokum er svo prófasti ætlað í 8. mgr. að ákveða hvernig þjónusta skuli af hendi leyst ef sóknarprestur getur ekki vegna veikinda, fjarvista eða af öðrum ástæðum gegnt embætti. Skal sú skipan á gerð í samráði við sóknarprest. Ef t.d. er um meiri háttar og langvarandi veikindi að ræða hlýtur mál að koma til kasta biskups og ráðherra. Flest þessara starfa eru í samræmi við gildandi lög og venjur.

Um 30. gr.


    Í 1. mgr. segir almennt að prófastur hafi þau afskipti af veitingu prestakalla sem lög kveði á um. Samkvæmt lögum nr. 44/1987 er prófasti ætlað mikið hlutverk við val á sóknarpresti og vísast til þeirra laga í heild sinni um það efni.
    Í 2. mgr. er prófasti ætlað að skipuleggja endurmenntun presta sem prófastsdæmið beitir sér fyrir. Mundi slík endurmenntun væntanlega fara fram í samvinnu við starfsstöð sem komið yrði á fót. Þetta ákvæði er nýmæli.
    Í 3. mgr. segir að prófastur sjái um bókasafn prófastsdæmis er koma skuli á fót. Er þetta nýmæli. Vitaskuld er hér átt við yfirumsjón með bókasafni, en vinna við það kæmi eftir atvikum í hlut annarra manna.

Um 31. gr.


    Í þessari grein er vísað til laga varðandi afskipti prófasts af kirkjugörðum og heimagrafreitum. Eru nú fyrirmæli um það efni í lögum um kirkjugarða, nr. 21/1963. Er prófasti þar ætluð margs konar verkefni og vísast til laganna í heild sinni um það efni.

Um 32. gr.


    Hér er kveðið á um að í hverju prófastsdæmi verði prófasti lögð til starfsaðstaða með samþykki ráðherra og að fenginni tillögu biskups eða árlegt fjárframlag vegna skrifstofuhalds. Hagar hér mismunandi til eftir aðstæðum.

Um 33. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um geiðslur til prófasta vegna ferðalaga.

Um 34. gr.


    Biskup hefir boðað prófasta til fundar einu sinni á ári á sl. árum. Hafa fundirnir gegnt mikilvægu hlutverki. Hér er lagt til að lagagrundvöllur verði fenginn fyrir fundum þessum.

Um VI. kafla.


    Í þessum kafla frumvarpsins er fjallað um biskup og embætti hans.
    Frumvarp til laga um fjölgun biskupa og um biskupsdæmi hafa verið flutt þrívegis á Alþingi, árin 1941, 1945 og 1976. Jafnframt hefur kirkjuþing alloft samþykkt frumvörp sem fela í sér fjölgun biskupa, þ.e. árin 1958, 1964, 1966 og síðast árin 1982 og 1984. Á prestastefnu og hjá Prestafélagi Íslands hafa slíkar hugmyndir einnig oft komið fram. Sama er og um kirkjuráð. Langoftast hafa hugmyndir manna hnigið að því að biskupsdæmi yrðu þrjú og biskupar þrír með fullu biskupsvaldi.
    Hér er lagt til að landið verði áfram eitt biskupsdæmi. Jafnframt eru embætti vígslubiskupa efld verulega. Með þessari tilhögun er ekki girt fyrir að síðar geti sú breyting orðið að landinu verði skipt í þrjú biskupsdæmi ef reynslan sýnir að það sé nauðsynlegt. Með því að efla embætti vígslubiskupa er komið að verulegu leyti til móts við sjónarmið þeirra manna sem telja þörf á að styrkja biskupsembættið í landinu. Jafnframt er með þessum tillögum komið til móts við sjónarmið þeirra sem telja að það að skipta landinu í þrjú biskupsdæmi geti skapað vissa óeiningu innan kirkjunnar. Einnig má benda á að þessi tilhögun hefur lítinn aukakostnað í för með sér.

Um 35. gr.


    Ákvæði greinarinnar er í samræmi við gildandi reglur.

Um 36. gr.


    Ákvæði 1. til 3. mgr. eru í samræmi við gildandi reglur og lagaframkvæmd.
    Ákvæði 4. mgr. um að biskup hafi samráð við vígslubiskupa um ákvörðun meiri háttar málefna, er kirkjuna varðar, er eðlileg vísun til þeirra breytinga er verða á embættum vígslubiskupa, sbr. VII. kafla frumvarpsins.

Um 37. gr.


    Ákvæði greinarinnar er í samræmi við lagaframkvæmd.

Um 38. gr.


    Í gildandi lögum eru ákvæði um æskulýðsfulltrúa þjóðkirkjunnar, sbr. 7. gr. laga nr. 35/1970. Um aðra starfsmenn biskups eru ekki ákvæði í lögum.
    Fræðslu- og félagsstarf þjóðkirkjunnar hefur eflst á síðari árum. Með hliðsjón af þessu hefur skipulag á biskupsstofu verið endurskoðað. Ráðinn hefur verið fræðslustjóri sem jafnframt er deildarstjóri fræðsludeildar. Undir þá deild heyra m.a. æskulýðsmál er áður voru í höndum æskulýðsfulltrúa.
    Rétt þykir að hafa almennt ákvæði um starfsmenn, en ekki tilgreina starfsheiti einstakra starfsmanna. Því er ekki tekið upp í frumvarpið heitið æskulýðsfulltrúi.
    Í greininni er enn fremur kveðið á um að biskup ráði aðra starfsmenn þjóðkirkjunnar en þá sem starfa á biskupsstofu, ef lög kveða ekki á um annað. Þannig ræður biskup forstöðumann fyrir starfi kirkjunnar að Löngumýri í Skagafirði. Að sjálfsögðu er ávallt áskilið að samþykki ráðherra liggi fyrir.

Um 39. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um prestastefnu.
    Biskup boðar til prestastefnu íslensku þjóðkirkjunnar og er forseti hennar eins og verið hefir. Á prestastefnu hafa atkvæðisrétt allir starfandi þjóðkirkjuprestar og þá einnig vígslubiskupar, svo og fastir kennarar guðfræðideildar Háskóla Íslands, þeir er guðfræðimenntun hafa. Er hér átt við prófessora og dósenta og lektora í föstu starfi, ef því væri að skipta. Aðrir prestar, þar á meðal fríkirkjuprestar, svo og aðrir guðfræðingar, þar á meðal prestar er látið hafa af embætti, eiga rétt á fundarsetu með málfrelsi og tillögurétti.
    Ekki eru ákvæði í frumvarpinu um verkefni prestastefnu og fá lagaákvæði tengjast henni, sbr. þó um bókanefnd prestakalla 4. gr. laga nr. 17/1931. Þykir ekki þörf á að setja ákvæði í frumvarpið um þetta efni.

Um 40. gr.


    Ákvæðið fjallar um leikmannastefnu og er nýmæli.
    Biskup boðar til hennar. Leikmannastefna á að fjalla um ýmis sameiginleg málefni þjóðkirkjunnar og safnaða, einkum þau er varða leikmenn og störf þeirra innan kirkjunnar. Ekki þykir þörf á að lögfesta ákvæði um verkefni leikmannastefnu. Er gert ráð fyrir að biskup setji nánari reglur um leikmannastefnu, þar á meðal um kjör fulltrúa á hana. Leikmenn eru einir kjörgengir og er eðlilegt að telja að guðfræðingar séu það ekki, enda eiga þeir sæti á prestastefnu. Gert er ráð fyrir að leikmannastefna setji sér fundarsköp, þar á meðal um kosningu forseta og varaforseta og annarra starfsmanna, um undirbúning funda, milliþinganefndir o.fl.
    Benda má á að hinir svonefndu almennu kirkjufundir tíðkuðust um alllangt árabil og gegndu góðu hlutverki sem vettvangur til almennra umræðna um málefni þjóðkirkjunnar. Eru þeir m.a. fyrirmyndin að ákvæðum frumvarpsins um leikmannastefnu.

Um 41. gr.


    Ákvæði greinarinnar lýtur að því hvernig skuli háttað biskupsþjónustu þegar biskup forfallast, lætur af embætti eða fellur frá.

Um VII. kafla.


    Í þessum kafla eru ákvæði um vígslubiskupa.
    Gildandi lög um vígslubiskupa eru frá 1909. Í þeim lögum segir aðeins eftirfarandi um starfssvið þeirra: „Annar vígslubiskupanna vígir biskup landsins, er svo stendur á, að fráfarandi biskup getur eigi gert það. Í forföllum biskups vígja þeir og presta, hvor í sínu umdæmi.“
    Samkvæmt gildandi lögum eru embætti vígslubiskupa ekki fullt starf heldur er þeim ætlað að sinna vígslubiskupsstörfum til viðbótar föstu starfi. Með frumvarpinu er lagt til að sú breyting verði gerð að embætti vígslubiskupa verði fullt starf og að þeir hafi að hluta til sóknarprestsskyldur, sbr. 42. gr.
    Ekki er gert ráð fyrir að verkefni flytjist frá biskupstofu til vígslubiskupa hvað varðar almenna stjórnsýslu kirkjunnar. Þannig verður starfsmannahald, ráðning og setning presta áfram í höndum biskups. Vígslubiskupum er fyrst og fremst ætlað að vera til aðstoðar biskupi, en undir hans stjórn hvað varðar samskipti við söfnuði og presta landsins, sbr. 45. gr.
    Ekki sýnist þörf á að ráða þeim almennt skrifstofufólk.

Um 42. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að aðsetursstaðir vígslubiskupa skuli vera á hinum fornu biskupssetrum, Skálholti og Hólum í Hjaltadal. Heimilt er þó að víkja frá þessu ákvæði skv. 4. mgr., að fenginni tillögu biskups, enda mæli meiri hluti þeirra sem rétt eiga til biskupskjörs í viðkomandi vígslubiskupsumdæmi með því.
    Skv. 2. mgr. hefur vígslubiskup í Skálholti með höndum prestsþjónustu í Skálholtsprestakalli. Til þess að hann geti sinnt störfum sínum sem vígslubiskup er áskilið að honum sé ráðinn aðstoðarprestur.
    Skv. 3. mgr. hefur vígslubiskup á Hólum með höndum prestsþjónustu í Hólaprestakalli. Jafnframt eru ákvæði um að hann skuli njóta aðstoðarþjónustu nágrannapresta eða farprests í Skagafjarðarprestakalli.

Um 43. gr.


    Greinin fjallar um skipun, kjörgengi og kosningu vígslubiskupa.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að forseti Íslands skipi vígslubiskupa og er það í samræmi við gildandi reglur.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að lög um biskupskosningu gildi um vígslubiskupa, eftir því sem við getur átt, sem vísar til þess að við ákvörðun á kjörgengi og kosningarétti til vígslubiskupskjörs skuli taka tillit til vígslubiskupsumdæmisins. Í greininni er enn fremur mælt fyrir um að ráðherra skuli í reglugerð setja nánari reglur um þetta efni.
    Ákvæði laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eiga við um vígslubiskupa, sbr. 18. gr. frumvarpsins, þar á meðal ákvæði þeirra laga um aldurshámark embættismanna.

Um 44. gr.


    Í greininni er gerð grein fyrir umdæmum vígslubiskupsembættanna og er lagt til að ekki verði gerð breyting á þeim.

Um 45. gr.


    Í greininni er gerð grein fyrir helstu verkefnum vígslubiskupa annars vegar í umdæmi sínu, sbr. 1. mgr., og hins vegar hlutverki þeirra að vera biskupi til aðstoðar varðandi málefni þjóðkirkjunnar í heild, sbr. 2. mgr.

Um 46. gr.


    Í greininni er það lögfest að vígslubiskupar skuli eiga sæti á árlegum fundi sem biskup boðar til með próföstum landsins, sbr. 34. gr. frumvarpsins. Enn fremur að þeir skuli sitja fundi kirkjuráðs þegar þeir eru boðaðir af ráðinu og fjallað er um málefni embætta þeirra og umdæma. Síðasti hluti greinarinnar er efnislega samhljóða 2. gr. laga um kirkjuþing og kirkjuráð, þar sem fram kemur að vígslubiskupar eigi rétt til fundarsetu á kirkjuþingi og hafi þar málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt, nema þeir séu jafnframt kjörnir þingfulltrúar.

Um VIII. kafla.


    Í þessum kafla er m.a. að finna reglur um það hvernig framkvæma eigi þær breytingar, sem frumvarpið mun hafa í för með sér, verði það að lögum. Hér er einnig að finna almenna reglugerðarheimild, ákvæði um sameiningu sókna, gildistökuákvæði, ákvæði um brottfallin lög o.fl.

Um 47. gr.


    Efni greinarinnar þarfnast ekki skýringa.

Um 48. gr.


    Nokkur prestaköll eru lögð niður samkvæmt frumvarpinu. Í ákvæðinu er kveðið á um það að presti í prestakalli sem lagt er niður skuli gefinn kostur á öðru embætti í viðkomandi prófastsdæmi eða öðru og er honum í ákvæðinu tryggður réttur til sambærilegra launakjara.

Um 49. gr.


    Í frumvarpinu eru nokkrar tilfærslur á sóknum milli prestakalla. Samkvæmt greininni er prestum skylt að hlíta slíkum breytingum hvort sem er fækkun sókna eða fjölgun án sérstakra viðbótarlauna.

Um 50. gr.


    Í ákvæðinu eru felld úr gildi ýmis gömul og úrelt lagaboð um presta, svo sem ákvæði um legorð presta. Einnig ákvæði um vígslubiskupa og prófasta og um aldur presta þar sem í frumvarpinu er að finna ákvæði sem leysa þau af hólmi.
    Lagt er til að 1.–4., 6.–10. og 14.–17. gr. laga nr. 35/1970, um skipun prestakalla og prófastsdæma, falli niður þar sem þessi ákvæði samræmast ekki ákvæðum frumvarpsins. Jafnframt er lagt til að heiti laga nr. 35/1970 breytist til samræmis við innihald þeirra ef frumvarpið verður að lögum. Með lögum nr. 25/1985 voru ákvæði 11.–13. gr. laga nr. 35/1970 felld úr gildi. Eftir standa því af þeim lögum 5. gr. og II. kafli þeirra sem fjallar um Kristnisjóð.
    Með lögunum eru þrjár sóknir sameinaðar öðrum. Hér er um tvær mannlausar sóknir að ræða, Múlasókn í Barðastrandarprófastsdæmi og Flateyjarsókn í Þingeyjarprófastsdæmi og Staðarsókn í Grunnavík í Ísafjarðarprófastsdæmi, með einn íbúa.
    Í ákvæðum til bráðabirgða eru reglur er lúta að framkvæmd þeirra breytinga sem frumvarpið hefur í för með sér. Í lokalið þeirra er tilskilið að verði frumvarpið að lögum skuli þau koma til endurskoðunar eigi síðar en 1998. Verður þá væntanlega komin reynsla af þeirri skipan sem lagt er til að verði, einkum á kafla frumvarpsins um biskupsembætti.



Fylgiskjal.


(Texti er ekki til tölvutækur.)