Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 445 . mál.


Ed.

777. Frumvarp til laga



um breytingu á sjómannalögum, nr. 35/1985.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    81. gr. laganna falli brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Um 1. gr.


    81. gr. sjómannalaga hljóðar svo:
    Ef skipverji rís upp á móti skipstjóra eða þeim manni sem er í skipstjóra stað eða skorast undan hlýðni við þá en beitir þó eigi ofbeldi eða ógnar með því sætir hann sektum eða varðhaldi ef sakir eru miklar.
    Hið sama gildir ef skipverji óhlýðnast réttmætum fyrirmælum hvers þess yfirmanns sem segja má honum fyrir verkum.

    Ákvæðið byggist fyrst og fremst á því ríkjandi viðhorfi í íslensku þjóðfélagi að tryggja beri öryggi sjófarenda svo sem unnt er. Því er ætlað að treysta og styrkja aðstöðu skipstjórnarmanns (skipstjóra eða þess yfirmanns sem málið snertir hverju sinni) við að koma skipi í örugga höfn eða var þegar hættu ber að höndum eða bjarga að öðru leyti mönnum og skipi úr háska. Samkvæmt áliti formanns nefndarinnar, sem samdi gildandi sjómannalög, kemur fram að samkvæmt viðurkenndum lögskýringarviðhorfum yrði greinin ekki látin ná til venjulegra starfa undir venjulegum kringumstæðum. Ákvæðið eigi því ekkert skylt við nauðungarvinnu eða bann við henni í alþjóðlegum sáttmálum.
    Ísland fullgilti árið 1960 alþjóðasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 105 1957 um afnám nauðungarvinnu. Í skýrslu sérfræðinganefndar stofnunarinnar hefur nefndin um árabil gert athugasemd varðandi Ísland vegna þessa ákvæðis og óskað eftir niðurfellingu þess. Nefndin telur framangreinda skýringu íslenskra stjórnvalda á tilurð og tilgangi ákvæðisins ekki réttlæta tilvist þess þar sem gildissvið ákvæðisins sé ekki takmarkað við atvik sem hafa í för með sér hættu fyrir skipið eða líf og heilsu sjófarenda.
    Í ljósi framangreindra athugasemda Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og Evrópuráðsins hefur félagsmálaráðuneytið farið þess eindregið á leit að umrædd grein verið felld niður.
    Þar sem umrætt ákvæði er talið brjóta gegn alþjóðasamþykkt sem Ísland hefur fullgilt og önnur ákvæði sjómannalaga tryggja agavald skipstjóra þegar skip er statt í háska eða þegar nauðsynlegt er í öðrum tilvikum að halda góðri reglu á skipinu og enn fremur með tilliti til þess að umræddri 81. gr. laganna hefur ekki verið beitt er hér lagt til að það verði niður fellt.