Ferill 456. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 456 . mál.


Sþ.

1026. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 111/1989, fjáraukalögum fyrir árið 1989.

Frá meiri hl. fjárveitinganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarpið til meðferðar og kallað til viðræðna við sig fulltrúa fjármálaráðuneytisins og fengið skýringar og svör þeirra um einstök atriði. Þá hefur nefndin fengið upplýsingar um lokaútgjaldaniðurstöður einstakra viðfangsefna, stofnana og verkefna á fjárlögum og borið þær saman við fjárlagaheimildir. Í nokkrum tilvikum er um veruleg frávik að ræða þar sem útgjöld fara ótæpilega fram úr fjárlagaheimildum og hefur nefndin rætt þau mál sérstaklega við fulltrúa fjármálaráðuneytisins og fengið skýringar þess. Í öðrum tilvikum er einnig um að ræða óeðlilega mikil útgjöld umfram greiðsluheimildir hjá einstökum stofnunum og viðfangsefnum. Vegna þess hve skammt er til þinglausna hefur fjárveitinganefnd ekki haft tíma til þess að skoða þau mál nánar fyrir afgreiðslu frumvarpsins en nefndin og starfsmenn fjármálaráðuneytisins eru sammála um að taka þessi útgjaldaviðfangsefni til sérstakrar skoðunar í sumar og kalla þá m.a. fyrir sig stjórnendur stofnana og verkefna sem farið hafa að mati nefndarinnar umtalsvert fram úr greiðsluheimildum fjárlaga og fjáraukalaga og krefjast skýringa. Í framhaldi af þeim viðræðum verður svo tekin afstaða til þess hvort ástæður liggi til þess að grípa þurfi til sérstakra aðgerða vegna þeirra mála og þá hverra eða hvort um fullgildar ástæður sé að ræða sem skýra niðurstöðuna.
    Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1989 var afgreitt frá Alþingi 22. desember sl. og hafði frumvarpið þá verið til meðferðar í fjárveitinganefnd frá því það var lagt fram á Alþingi 1. nóvember 1989. Nefndin lagði mikla vinnu í yfirferð sína á frumvarpi þessu, enda um nýmæli að ræða að Alþingi fengi til meðferðar frumvarp til fjáraukalaga á fjárlagaári því sem frumvarpið átti við og voru nefndarmenn í fjárveitinganefnd sammála um að nauðsyn bæri til þess að vanda sem best afgreiðslu málsins svo að fjáraukalög þau, sem afgreidd yrðu, gæfu sem réttasta mynd af niðurstöðunni. Eftir nákvæma athugun á stöðu einstakra verkefna, sem fjárveitinganefnd gerði, lagði hún til margvíslegar breytingar bæði á einstökum efnisliðum og á uppsetningu frumvarpsins frá upphaflegri gerð þess. Nefndin kallaði í því sambandi sérstaklega eftir upplýsingum frá framkvæmdarvaldinu og stofnunum þess um stöðu einstakra útgjaldaverkefna og þá ekki síst þeirra fjárfrekustu og bað um, rétt fyrir afgreiðslu frumvarpsins 22. desember sl., að fá fram hvaða ákvarðanir kynnu að vera á döfinni hjá framkvæmdarvaldinu um útgjöld sem ekki væri fyrir séð í fjárlögum eða í því frumvarpi til fjáraukalaga sem fyrir dyrum stóð að afgreiða.
    Nefndin varð því fyrir nokkrum vonbrigðum með að útgjöld umfram ákvarðanir þær, sem teknar voru við afgreiðsluna 22. desember, skyldu hafa numið 1.073 þús. kr. eins og í ljós kom þegar frumvarp það til fjáraukalaga, sem nú er til afgreiðslu, var lagt fram á Alþingi. Nefndin telur að hér sé um óeðlilega mikla skekkju í útgjaldaáætlunum að ræða þegar tillit er tekið til þess að einungis örfáir dagar voru eftir af fjárlagaárinu þegar afgreiðsla fjáraukalaganna fór fram á Alþingi 22. desember 1989 og að miðað við þær framfarir, sem orðið hafa í upplýsingaöflun um útgjaldamál ríkisins og stofnana þess, eigi að vera unnt að fá haldbetri upplýsingar um stöðu útgjalda svo skömmu fyrir lok fjárhagsársins. Í viðræðum við embættismenn fjármálaráðuneytisins hefur m.a. komið fram sú skoðun þeirra að unnt eigi að vera að bæta þessa upplýsingaöflun og ákveðinn vilji sé til þess að gera það. Er skiljanlegt að í fyrsta sinn, sem fjáraukalög eru afgreidd á yfirstandandi fjárlagaári, komi ýmislegt í ljós sem betur geti farið og er það vilji bæði fjárveitinganefndar og ráðuneytanna að reyna að bæta þar úr.
    Það eru þó fleiri ástæður sem valda því að útgjöld fóru svo mjög fram úr þeirri útgjaldaáætlun sem afgreidd var með fjáraukalögunum á Alþingi 22. desember sl. Þegar sú afgreiðsla fór fram voru að koma fram upplýsingar sem bentu til þess að áætlun útgjalda til einstakra viðfangsefna, svo sem útgjalda á vegum sýslumanna og bæjarfógeta, væru ekki réttar en nefndin lét hjá líða að taka nægilegt tillit til þess. Þá gerðist það einnig að ríkisstjórnin tók á dögunum milli jóla og nýárs ákvarðanir um greiðslu fjár úr ríkissjóði talsvert umfram það sem fjárveitinganefnd hafði verið tjáð að til stæði.
    Ýmsar orsakir eru þannig til þess að útgjöld ríkissjóðs á árinu 1989 fóru 1.073 þús. kr. fram úr áætlun fjáraukalaga sem afgreidd voru nokkrum dögum fyrir áramótin. Sumar ástæður þess eiga sér eðlilegar skýringar og verða ekki gagnrýndar. Aðrar ástæður eru hins vegar gagnrýni verðar og er ástæða til þess að hafa hliðsjón af því við næstu afgreiðslur Alþingis á fjáraukalögum.
    Meiri hl. nefndarinnar telur að fullnægjandi skýringar hafi fengist á öllum efnisatriðum fjárlagafrumvarpsins á þskj. 791 sem frábrugðin eru þeirri afgreiðslu sem fór fram á Alþingi 22. desember sl. Sumt af því sem nú er verið að afgreiða hefði betur átt heima í þeirri afgreiðslu, en niðurstaðan er óhjákvæmileg og ómótmælanleg og leggur meiri hl. nefndarinnar því til að frumvarpið sé afgreitt og samþykkt óbreytt.

Alþingi, 24. apríl 1990.



Sighvatur Björgvinsson,


form., frsm.


Margrét Frímannsdóttir,


fundaskr.


Alexander Stefánsson.


Ásgeir Hannes Eiríksson.


Ólafur Þ. Þórðarson.