Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 362 . mál.


Nd.

1048. Breytingartillögur



við frv. til l. um launasjóð stórmeistara í skák.

Frá menntamálanefnd.



1.    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
         Stofna skal launasjóð íslenskra stórmeistara í skák. Fjárveiting til sjóðsins skal veitt í fyrsta sinn í fjárlögum fyrir árið 1991 og samsvara árslaunum fimm háskólakennara (lektora).
         Tilgangur sjóðsins er að skapa íslenskum stórmeisturum í skák fjárhagslegan grundvöll til að helga sig skáklistinni standi hugur þeirra til þess, sbr. og ákvæði 2. mgr. 3. gr.
         Þeir sem njóta launa úr sjóðnum hafa kennslu- og fræðsluskyldu að gegna við Skákskóla Íslands sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
2.    Við 2. gr. Greinin orðist svo:
         Í fjárlögum ár hvert skal sjóðnum áætluð fjárveiting er jafngildi launum háskólakennara (lektora) til þeirra er njóta skulu launa úr sjóðnum, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr.
         Fjárhæðin skal endurskoðuð ár hvert við undirbúning fjárlaga með tilliti til breytinga á launum háskólakennara.
3.    Við 3. gr. Greinin orðist svo:
         Rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa þeir íslenskir skákmeistarar sem öðlast hafa alþjóðlegan titil stórmeistara og sýna skákstyrk sinn með því að ná stórmeistaraárangri a.m.k. einu sinni á þriggja ára tímabili.
         Ef ekki er kona í hópi stórmeistara skal veita laun hverju sinni a.m.k. einni konu er náð hefur afburðaárangri í skák ef slík umsókn um laun liggur fyrir.
         Þeir, sem greiðslu hljóta úr sjóðnum, skulu settir eða ráðnir til a.m.k. eins árs í senn eða ráðnir með þriggja mánaða uppsagnarfresti.
4.    Við 4. gr. Í stað orðsins „stórmeistarar“ komi: skákmeistarar.
5.    Við 5. gr. Greinin orðist svo:
         Skákmeistarar, er þiggja laun samkvæmt lögum þessum, teljast opinberir starfsmenn með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir, sbr. lög nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar með talin réttindi til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, enda uppfylli þeir að öðru leyti ákvæði 3. gr. laga nr. 29/1963, með síðari breytingum.
6.    Á eftir 5. gr. komi ný grein er orðist svo:
         Stjórn launasjóðsins skal skipuð þremur mönnum sem tilnefndir eru til þriggja ára í senn. Menntamálaráðherra skipar tvo og er annar þeirra formaður, en Skáksamband Íslands einn.
7.    Á eftir 6. gr., er verður 7. gr., komi ný grein er orðist svo:
         Lög þessi öðlast þegar gildi.