Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 197 . mál.


Ed.

1111. Nefndarálit



um frv. til l. um Úreldingarsjóð fiskiskipa.

Frá 1. minni hl. sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og voru eftirtaldir kallaðir á fund hennar: Páll Sigurðsson og Sveinn Hjörtur Hjartarson frá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, en Sveinn Hjörtur kom einnig á fund nefndarinnar sem fulltrúi Landssambands íslenskra útvegsmanna ásamt Kristjáni Ragnarssyni og Sigurði Einarssyni, Örn Pálsson og Haraldur Jóhannsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Snær Karlsson frá Verkamannasambandi Íslands, Árni Benediktsson frá Félagi Sambandsfiskframleiðenda, Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Benedikt Valsson, Guðjón A. Kristjánsson, Helgi Laxdal og Ragnar I. D. Hermannsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Dagbjartur Einarsson frá Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda, Ólafur B. Ólafsson frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sturlaugur Sturlaugsson, Arnar Sigurmundsson og Ágúst Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Sigurgeir Sigurðsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kristján Skarphéðinsson, deildarstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu. Komu þeir Kristján Skarphéðinsson og Sveinn Hjörtur Hjartarson oftar en einu sinni til fundar við nefndina.
    Umsagnir um frumvarpið bárust frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi Sambandsfiskframleiðenda, Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, Samtökum fiskvinnslustöðva og Sjómannasambandi Íslands. Enn fremur bárust nefndinni ýmsar upplýsingar frá sjávarútvegsráðuneytinu.
    Það ósamræmi, sem verið hefur á milli afkastagetu fiskiskipaflotans og afrakstursgetu fiskistofnanna, hefur verið eitt af meginvandamálum íslensks sjávarútvegs á undanförnum árum. Stafar þetta fyrst og fremst af þeirri miklu uppbyggingu sem átti sér stað í fiskiskipaflotanum á áttunda áratugnum. Afleiðingarnar eru þær að nauðsynlegt hefur reynst að setja víðtækar reglur um stjórn fiskveiða og takmarkanir á veiðiheimildir einstakra fiskiskipa. Í þessu frumvarpi, sem hér er til umfjöllunar, er lagt til að stofnaður verði sjóður sem hafi það hlutverk að stuðla að fækkun fiskiskipa. Með því móti einu er hægt að auka veiðiheimildir þeirra skipa sem eftir verða í flotanum. Starfsemi sjóðsins mun þannig geta leitt til aukinnar hagkvæmni í útgerð og jafnframt haft jákvæð áhrif á samsetningu fiskiskipaflotans og komið í veg fyrir skipulagslausa fækkun fiskiskipa.
    Fyrsti minni hl. nefndarinnar leggur til nokkrar breytingartillögur við frumvarpið. Með þeim vill 1. minni hl. ná fram tveimur markmiðum. Annars vegar að sjóðurinn verði efldur og hins vegar að hlutverk hans verði aukið með tilliti til atvinnuöryggis í byggðarlögum sem byggja allt sitt á sjávarútvegi.
    Fyrsti minni hl. leggur til að við bætist ný grein á eftir 4. gr. frumvarpsins. Í greininni er gert ráð fyrir að sjóðurinn verði efldur með því að honum verði árlega úthlutað þeim veiðiheimildum sem ekki nýtast vegna álags á útflutning á óunnum fiski. Þessi úthlutun verði þó aldrei meiri en sem nemur 12.000 þoskígildistonnum. Þá er gerð tillaga um lækkun á því gjaldi sem eigendur skipa 10. brl. og stærri skulu greiða árlega. Er gjaldið fært til samræmis við það gjald sem eigendur þessara skipa greiða nú til Aldurslagasjóð. Er hér um 30 millj. kr. lækkun á tekjum Hagræðingarsjóðs að ræða.
    Varðandi aukið hlutverk sjóðsins leggur 1. minni hl. til að gerðar verði breytingar á 1. gr. og að bætt verði inn nýrri grein á eftir 7. gr. Gert er ráð fyrir að nafni sjóðsins verði breytt úr „Úreldingarsjóður fiskiskipa“ í „Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins“ og honum fengið það tvíþætta hlutverk að stuðla að fækkun fiskiskipa og koma til aðstoðar í byggðarlögum sem höllum fæti standa vegna sölu fiskiskips eða fiskiskipa þaðan. Skilyrði fyrir aðstoð sjóðsins verði þó bundið við að sala skipa úr byggðarlaginu leiði til fyrirsjáanlegrar fækkunar starfa og að byggðarröskun sé yfirvofandi af þeim sökum. Allt að helming þeirra veiðiheimilda sem gerð er tillaga um að sjóðurinn fái úthlutað geti sveitarstjórnir fengið til ráðstöfunar þar sem þær aðstæður hafa skapast sem réttlæta aðstoð af hálfu sjóðsins, enda hafi bæði Byggðastofnun og stjórn Hagræðingarsjóðs samþykkt aðstoðina. Með þessu ákvæði er tryggt að slík aðstoð fái ítarlega umfjöllun. Úthlutun veiðiheimilda í þessu skyni verði bundin við að aflanum verði landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi. Stjórn Hagræðingarsjóðs skal ákveða verð fyrir slíkar veiðiheimildir er taki mið af gangverði sambærilegra heimilda á hverjum tíma með sama hætti og við á um þann hluta veiðiheimilda sjóðsins sem fiskiskip fá árlega forkaupsrétt á. Nýti sveitarstjórnir ekki slíkan ráðstöfunarrétt verða heimildirnar boðnar út til skipa gegn sömu skilyrðum um ráðstöfun aflans, þ.e. að honum verði landað til vinnslu í því byggðarlagi sem aðstoð hefur verið samþykkt við. Fáist hins vegar ekkert skip til veiðanna er stjórn sjóðsins heimilt að ákveða lægra endurgjald eða fella það niður. Ólíklegt er hins vegar að ætla að slík staða komi upp þar sem fiskiskipaflotinn er það afkastamikill að fremur auðvelt ætti að vera að fá skip til veiðanna.
    Fyrsti minni hl. leggur til að 6. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að hlutfall þeirra veiðiheimilda, sem sjóðurinn getur haft ráðstöfunarrétt á, verði hækkað úr 3% í 5% af heildarveiðiheimildum. Er það til samræmis við þá tillögu að sjóðnum verði úthlutað sérstökum veiðiheimildum. Ef sjóðurinn á einhverjum tíma nær að eignast meira en sem nemur 5% heildarveiðiheimilda mun þeim heimildum verða skipt milli fiskiskipa 10 brl. og stærri í hlutfalli við aflaheimildir þeirra skipa sem eftir verða í flotanum. 1. minni hl. leggur áherslu á að með þessu fyrirkomulagi er ekki verið að stíga skref í átt að auðlindaskatti. Sjóðnum er fyrst og fremst ætlað að stuðla að fækkun fiskiskipa og bæta þannig rekstrargrundvöll þeirra skipa sem eftir verða í flotanum. Öllum tekjum sjóðsins verði varið til að stuðla að fækkun fiskiskipa og ekkert af þeim er ætlað að renna til samneyslunnar í þjóðfélaginu. Því er hér um lokaðan sjóð að ræða sem fyrst og fremst mun vinna fyrir sjávarútveginn í heild. 1. minni hl. hafnar með þessu alfarið þeirri skoðun að með stofnun sjóðsins sé verið að leggja auðlindaskatt á sjávarútveginn. Þá munu þau ákvæði, er lúta að aðstoð við byggðarlög er standa höllum fæti, tryggja að hægt sé að leysa slík vandamál án þess að til komi fjölgun fiskiskipa. Slík staðbundin vandamál yrðu fyrst og fremst leyst með því að nýta þá umframafkastagetu sem er fyrir í fiskiskipaflotanum.
    Auk þeirra breytingartillagna sem raktar hafa verið hér að framan leggur 1. minni hl. til að gerð verði breyting á ákvæði um gildistíma þannig að hann verði miðaður við 1. janúar 1991.
    Þá eru gerðar nokkrar tillögur um breytingar á texta frumvarpsins til samræmis við frumvarp til laga um stjórn fiskveiða.
    Að lokum leggur 1. minni hl. til að bætt verði við frumvarpið ákvæði I og II til bráðabirgða. Fyrra ákvæðið fjallar um úthlutun veiðiheimilda til sjóðsins á árinu 1991 en í síðara ákvæðinu er lagt til að verði frumvarpið að lögum skuli þau koma til endurskoðunar fyrir árslok 1992.
    Fyrsti minni hl. nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 30. apríl 1990.



Stefán Guðmundsson,


form., frsm.


Jóhann Einvarðsson.