Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 352 . mál.


Ed.

1123. Tillaga til rökstuddrar dagskrár



í málinu: Frv. til l. um stjórn fiskveiða.

Frá Guðmundi H. Garðarssyni, Karvel Pálmasyni,


Skúla Alexanderssyni og Halldóri Blöndal.



    Frv. til l. um stjórn fiskveiða er samið af nefnd sem skipuð er fulltrúum þingflokka og hagsmunaaðila í sjávarútvegi samkvæmt lögum nr. 3 8. janúar 1988, um stjórn fiskveiða 1988–1990. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi hinn 15. febrúar sl. Sjávarútvegsnefndir beggja deild unnu að athugun málsins og kölluðu fyrir sig fulltrúa hagsmunaaðila. Síðan fór málið til lokaafgreiðslu í sjávarútvegsnefnd Ed. Á fundi sjávarútvegsnefndar fimmtudaginn 25. apríl lagði formaður fram endanlegar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar við frumvarpið og frv. til l. um Úreldingarsjóð fiskiskipa. Tillögurnar fela í sér grundvallarbreytingu á stjórn fiskveiða og verða ekki ræddar né afgreiddar nema í samhengi. Fyrsti minni hl. sjávarútvegsnefndar hefur tekið upp brtt. ríkisstjórnarinnar. Ekki var haft samráð við fulltrúa hagsmunaaðila. Á fundum sjávarútvegsnefndar kom fram að meðal fulltrúa hagsmunaaðila er mikil andstaða við málið eins og það liggur nú fyrir í heild.
    Að framansögðu er ljóst að nauðsynlegt er að endurskoða frv. til l. um stjórn fiskveiða og frv. til l. um Úreldingarsjóð fiskiskipa frá grunni með hliðsjón af nýjum viðhorfum og þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið. Deildin telur nauðsynlegt að samráðsnefnd sú, sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 3 8. janúar 1988, um stjórn fiskveiða 1988–1990, verði kölluð saman að nýju og skili áliti eigi síðar en 1. ágúst n.k. Í framhaldi af því verði aukaþing kallað saman svo fljótt sem verða má til þess að afgreiða heildarlög um stjórn fiskveiða áður en reglulegt Alþingi kemur saman 10. október nk.
    Með vísan til framanritaðs samþykkir deildin að taka fyrir næsta mál á dagskrá.