Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 352 . mál.


Nd.

1271. Nefndarálit



um frv. til l. um stjórn fiskveiða.

Frá meiri hl. sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið á tíu fundum. Sjö þeirra voru haldnir sameiginlega með sjávarútvegsnefnd neðri deildar og komu þá á fundi nefndarinnar eftirtaldir: Þorsteinn Gíslason fiskimálastjóri, Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Lárus Jónsson frá Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda, Sigurbjörn Svavarsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson frá Aflamiðlun, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Jón Kjartansson frá Verkamannasambandi Íslands, Árni Benediktsson frá Félagi Sambandsfiskframleiðenda, Óskar Vigfússon og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Benedikt Valsson og Kristján Ingibergsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Dagbjartur Einarsson frá Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda, Kristján Ragnarsson, Brynjólfur Bjarnason og Eiríkur Tómasson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Jón Ingvarsson frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Ágúst Einarsson og Sturlaugur Sturlaugsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Ólafur Karvel Pálsson frá Hafrannsóknastofnun og Jón Kristjánsson fiskifræðingur.
    Sjávarútvegsnefnd efri deildar sendi frumvarpið til umsagnar, ýmist að eigin frumkvæði eða að ósk nefndarmanna í sjávarútvegsnefnd neðri deildar. Bárust umsagnir frá eftirtöldum: bæjarstjórn Stykkishólms, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi Sambands fiskframleiðenda, Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja, Félagi rækju- og hörpudiskframleiðenda, Félagi viðskipta- og hagfræðinga, Fiskifélagi Íslands, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, rækjubátaeigendum við Ísafjarðardjúp, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Sjómannasambandi Íslands, Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda, Verkalýðsfélaginu Baldri, verkalýðsfélögunum á Snæfellsnesi, Verslunarráði Íslands, Vinnuveitendafélagi Breiðafjarðar, Vinnuveitendafélagi Vestfjarða og Vinnuveitendafélagi Vestmannaeyja.
    Kristján Skarphéðinsson, deildarstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, sat flesta fundi nefndarinnar. Veitti hann nefndinni ýmsar upplýsingar varðandi frumvarpið og aflaði gagna samkvæmt óskum sem fram komu á hinum sameiginlegu fundum, m.a. frá Fiskifélagi Íslands. Enn fremur lágu fyrir tillögur þær sem þrír stjórmálaflokkar í Færeyjum hafa gert um hugsanlega fiskveiðistjórn þar í landi. Þá óskuðu níu alþingismenn eftir áliti Lagastofunar Háskóla Íslands á réttarfars-, skattaréttar- og eignarréttarlegum álitaefnum í frumvarpinu og var hún unnin af prófessor Sigurði Líndal og Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni.
    Eftir að málið var afgreitt frá efri deild hélt nefndin þrjá fundi. Kynnti nefndin sér rækilega þær breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu í meðförum efri deildar og ræddi efnislega um þær. Aðrir efnishlutar frumvarpsins voru nefndinni vel kunnir enda verið til umfjöllunar í langan tíma.
    Þórhildur Þorleifsdóttir og Stefán Valgeirsson (um tíma varamaður hans Jóhann A. Jónsson) sátu fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúar.
    Meiri hl. nefndarinnar telur að þær breytingar, sem gerðar voru á frumvarpinu í meðförum efri deildar, séu til bóta. Leggur meiri hl. til að frumvarpið verði samþykkt, með áorðnum breytingum.

Alþingi, 4. maí 1990.



Jón Sæmundur Sigurjónsson,


form., frsm.


Alexander Stefánsson.


Geir Gunnarsson.


Guðni Ágústsson.