Afdrif skýrslu Byggðastofnunar um Vestfirði
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Ólafur Kristjánsson) :
    Virðulegur forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til forsrh. um afdrif skýrslu Byggðastofnunar um Vestfirði. Hún er svohljóðandi:
    ,,Hefur ríkisstjórnin afgreitt áætlun Byggðastofnunar, ,,Vestfirðir, byggðaáætlun``, sem gefin var út í júlí 1989? Ef svo er, hver eru framkvæmdaáform í landshlutanum og á hvaða stigi er undirbúningsvinna eða tillögugerð?``
    Aðdragandi að þessari fsp. er sá að stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga fór þess á leit við stjórn Byggðastofnunar í aprílmánuði 1986 að hún léti vinna alhliða róttæka byggðaþróunaráætlun fyrir Vestfirði með það markmið í huga að fá fram tillögur um með hvaða hætti mætti leitast við að stöðva frekari fólksfækkun á Vestfjörðum.
    Þessu var vel tekið af stjórn Byggðastofnunar og hún samþykkti að setja þessa vinnu af stað með þeim skilyrðum að heimamenn mundu vinna eins og þeir frekast gætu að þessari væntanlegu áætlun. Þessi vinna hófst í Reykjavík 1987 og var af hálfu Vestfirðinga settur í þá vinnunefnd Guðmundur H. Ingólfsson í Hnífsdal.
    Í upphafi var ákveðið að skipta þessari vinnu í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi að fá fram alhliða úttekt á búsetuskilyrðum og stöðu byggðar. Í öðru lagi tillögur heimamanna um eflingu byggðar og bætt búsetuskilyrði og síðan að setja fram tillögur um aðgerðir sem talið er að mestu máli skipti að nái fram að ganga á næstu árum.
    Nú er það svo að áætlanagerð ein og sér gerir ekkert. Það sem skiptir meginmáli í þessu er hvernig unnið er í framhaldi af tillögugerðinni og hvað er að gerast. Það er þess vegna sem ég hef lagt þessa fsp. fram því ég vil fá að vita það hjá hæstv. forsrh. á hvaða stigi sú undirbúningsvinna eða tillögugerð er sem um er fjallað í þessari skýrslu.