Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 69 . mál.


Ed.

71. Frumvarp til laga



um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



I. KAFLI


Almenn ákvæði.


1. gr.


     Tilgangur laga þessara er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.

2. gr.


     Konum og körlum skulu með stjórnvaldsaðgerðum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu, launa og menntunar.

3. gr.


     Hvers kyns mismunun eftir kynferði er óheimil. Þó teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir, sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, ekki ganga gegn lögum þessum. Það telst ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar.

II. KAFLI


Atvinna.


4. gr.


     Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.
     Með launum í lögum þessum er átt við venjulegt grunn - eða lágmarkskaup og hvers konar frekari þóknun, beina eða óbeina, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti, sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni fyrir vinnu hans.
     Með jöfnum launum karla og kvenna fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf er í lögum þessum átt við launataxta sem samið er um án þess að gerður sé greinarmunur á kynjum.
     Með kjörum í lögum þessum er átt við lífeyris - , orlofs - og veikindarétt og hvers konar önnur samningsréttindi.

5. gr.


     Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna - og karlastörf.

6. gr.


     Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um:
     Laun, launatengd fríðindi og hvers konar aðra þóknun fyrir vinnu.
     Ráðningu, setningu eða skipun í starf.
     Stöðuhækkun og stöðubreytingar.
     Uppsögn úr starfi.
     Vinnuaðstæður og vinnuskilyrði.
     Veitingu hvers konar hlunninda.
     Ef einhver telur rétt á sér brotinn samkvæmt ákvæðum þessarar greinar og vísar máli sínu til kærunefndar jafnréttismála, sbr. 19. gr., skal atvinnurekandi sýna kærunefnd fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

7. gr.


     Starf, sem laust er, skal standa opið jafnt konum sem körlum.
     Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu.
     Ákvæði þessarar greinar gildir ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni.

8. gr.


     Nú er umsækjandi um auglýst starf kona en það hefur verið veitt karlmanni og skal þá kærunefnd jafnréttismála, sé þess óskað, fara fram á það við hlutaðeigandi atvinnurekanda að hann veiti nefndinni skriflegar upplýsingar um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika umfram konuna sá hefur til að bera er ráðinn var í starfið.
     Sama rétt skal karlmaður, sem er umsækjandi um starf, hafa ef konu er veitt starfið.

9. gr.


     Konur og karlar skulu njóta sömu möguleika til framhaldsmenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið er haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings annarra starfa.


III. KAFLI


Menntun.


10. gr.


     Í skólum og öðrum mennta - og uppeldisstofnunum skal kynjum ekki mismunað. Skylt skal að gæta þessa í námi og kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur. Á öllum skólastigum skal veita fræðslu um jafnréttismál, m.a. með því að leggja áherslu á að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Gæta skal þess sérstaklega að kennslutæki og kennslubækur séu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.
     Í náms - og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skal leitast við að kynna bæði piltum og stúlkum störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla - eða kvennastörf.
     Menntamálaráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd þessarar greinar í samráði við Jafnréttisráð. Ráðuneytið skal fylgjast með þróun jafnréttismála í skóla - og uppeldisstarfi, m.a. með reglubundnum rannsóknum.

IV. KAFLI


Önnur svið.


11. gr.


     Auglýsandi og sá, sem hannar eða birtir auglýsingu, skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.

12. gr.


     Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar og skal ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð.

13. gr.


     Í sveitarfélögum með yfir 500 íbúa og annars staðar, þar sem því verður við komið, skal skipa jafnréttisnefndir og skulu þær hafa með höndum jafnréttismál innan síns sveitarfélags samkvæmt lögum þessum. Skulu nefndirnar fylgjast með og hafa frumkvæði að aðgerðum til að bæta stöðu kvenna í sveitarfélaginu, taka við ábendingum vegna brota á lögum þessum og vera tengiliður við ráðuneyti og Jafnréttisráð. Enn fremur skulu nefndirnar vera ráðgefandi fyrir sveitarstjórn í málefnum er varða jafnrétti kvenna og karla.

V. KAFLI


Framkvæmd laganna.


14. gr.


     Félagsmálaráðherra fer með jafnréttismál kvenna og karla.

15. gr.


     Eftir hverjar kosningar til Alþingis skal skipa sjö manna Jafnréttisráð. Félagsmálaráðherra skipar formann án tilnefningar, einn nefndarmann tilnefndan af Vinnuveitendasambandi Íslands, einn tilnefndan af Alþýðusambandi Íslands, einn tilnefndan af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, einn tilnefndan af Kvenréttindafélagi Íslands og einn nefndarmann tilnefndan af Kvenfélagasambandi Íslands. Varamenn þeirra eru tilnefndir á sama hátt. Jafnframt skal skipa formann kærunefndar jafnréttismála í ráðið, sbr. 19. gr., og er varaformaður kærunefndar varamaður hans.
     Jafnréttisráð hefur skrifstofu og ræður framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn. Einn starfsmanna skal hafa lokið embættisprófi í lögum og skal hann annast lögfræðiráðgjöf og önnur lögfræðistörf á vegum Jafnréttisráðs vegna ætlaðra brota á lögum þessum.
     Kostnaður við Jafnréttisráð greiðist úr ríkissjóði.

16. gr.


     Verkefni Jafnréttisráðs eru að:
     Vinna að því að ákvæðum 2. 13. gr. laga þessara sé framfylgt.
     Móta stefnu í jafnréttismálum hér á landi og hafa frumkvæði að aðgerðum til að bæta stöðu kvenna. Skal ráðið vinna stefnumarkandi áætlun til fjögurra ára í senn og leggja fyrir félagsmálaráðherra. Þar skal kveðið á um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna. Áætlunina skal endurskoða á tveggja ára fresti, sbr. 17. gr.
     Vera ráðgefandi gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og félögum í málefnum er varða jafna stöðu og jafnrétti með konum og körlum.
     Sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi til félagasamtaka og almennings.
     Fylgjast með þjóðfélagsþróuninni sem m.a. varðar þetta lagaefni og gera tillögur til breytinga til samræmis við tilgang laganna.
     Stuðla að góðri samvinnu við samtök atvinnurekenda og launafólks og önnur félagasamtök svo að stefnu og markmiði þessara laga verði náð með sem eðlilegustum hætti.
     Taka til rannsóknar að eigin frumkvæði eða annarra stöðu kvenna og karla að því leyti er lög þessi varðar. Opinberum stofnunum, atvinnurekendum og félagasamtökum er skylt að veita Jafnréttisráði hvers konar upplýsingar hér að lútandi.
     Hafa samvinnu við jafnréttisnefndir sveitarfélaga.
     Fjalla um önnur mál sem ráðherra eða framkvæmdastjóri leggur fyrir ráðið.
     Halda jafnréttisþing á a.m.k. þriggja ára fresti.

17. gr.


     Félagsmálaráðherra leggur fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta og Jafnréttisráðs. Í áætluninni komi fram sundurliðuð framkvæmdaáform og áætlaðar fjárveitingar til einstakra verkefna sem tengjast jafnréttismálum. Áætlun þessa skal endurskoða á tveggja ára fresti og í tengslum við það leggur félagsmálaráðherra fram á Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála.

18. gr.


     Félagsmálaráðuneytinu er heimilt að ráða jafnréttisráðgjafa sem vinna í samvinnu við Jafnréttisráð að leiðréttingu á stöðu kvenna, m.a. í stofnunum og fyrirtækjum um allt land í samvinnu við starfsmenn og stjórnendur.


19. gr.


     Félagsmálaráðherra skipar kærunefnd jafnréttismála til þriggja ára í senn. Hæstiréttur tilnefnir formann nefndarinnar sem skal vera lögfræðingur, Kvenréttindafélag Íslands tilnefnir einn og félagsmálaráðherra skipar einn án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ef kæruefni varðar vinnumarkað skulu fulltrúi heildarsamtaka hlutaðeigandi starfsmanns og fulltrúi samtaka atvinnurekenda hlutaðeigandi launagreiðanda taka sæti í kærunefnd.
     Verkefni kærunefndar eru að taka við ábendingum um brot á ákvæðum þessara laga og rannsaka mál af því tilefni og senda að rannsókn lokinni niðurstöður til þeirra aðila sem málið snertir. Atvinnurekendum, opinberum stofnunum, félagasamtökum og öðrum þeim, er upplýst geta málið, er skylt að veita kærunefnd hvers konar upplýsingar hér að lútandi. Kærunefnd skal enn fremur í sérstökum tilvikum hafa frumkvæði um ábendingar varðandi framkvæmd ákvæða 2. 13. gr., sbr. þó 1. tölul. 16. gr. um hlutverk Jafnréttisráðs.
     Skrifstofa kærunefndar jafnréttismála er jafnframt skrifstofa Jafnréttisráðs.

20. gr.


     Nú telur kærunefnd jafnréttismála að ákvæði 2. 13. gr. laga þessara séu brotin og skal hún þá beina rökstuddum tilmælum um úrbætur til hlutaðeigandi aðila.

VI. KAFLI


Viðurlög og réttarfar.


21. gr.


     Fallist aðili ekki á tilmæli kærunefndar jafnréttismála skv. 20. gr. er nefndinni heimilt að höfða mál til viðurkenningar á rétti kæranda í samráði við hann. Gildir það einnig þótt ekki sé um skaðabótakröfu að ræða.

22. gr.


     Sá sem af ásettu ráði eða gáleysi brýtur gegn lögum þessum er skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum. Enn fremur má dæma hlutaðeigandi til að greiða þeim sem misgert er við, auk bóta fyrir fjártjón ef því er að skipta, fégjald fyrir hneisu, óþægindi og röskun á stöðu og högum.

VII. KAFLI


Önnur ákvæði.


23. gr.


     Félagsmálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessara laga í reglugerð að fengnum tillögum Jafnréttisráðs.

24. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru numin úr gildi lög nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Við gildistöku laga þessara fellur niður skipun núverandi Jafnréttisráðs.
     Skipa skal Jafnréttisráð, sbr. ákvæði 15. gr., og gildir skipunin þar til nýtt Jafnréttisráð hefur verið skipað að loknum næstu alþingiskosningum.
     Skipuð skal kærunefnd jafnréttismála til þriggja ára.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp það, sem hér er lagt fyrir Alþingi, byggir að stofni til á tillögum nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði 24. maí 1988, sem ætlað var að endurskoða lög um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna, nr. 65/1985. Var nefndin skipuð í framhaldi af könnun sem gerð var á stöðu kvenna í starfi hjá ríkinu þar sem fram kom verulegur launamunur milli kynja í störfum hjá hinu opinbera, svo og verulegur munur á hlunnindagreiðslum karla og kvenna. Í upphaflegu skipunarbréfi nefndarinnar var tekið fram að „ ... athugað verði hvernig draga megi úr launamisrétti karla og kvenna, jafna hlunnindagreiðslur og auka hlutdeild kvenna í nefndum og ráðum. Meðal annars verði höfð hliðsjón af skýrslu nefndar sem ætlað var að stuðla að auknu launajafnrétti karla og kvenna í störfum hjá hinu opinbera ...“
    Í nefndina voru upphaflega skipaðar Jóna Ósk Guðjónsdóttir, formaður Sambands alþýðuflokkskvenna, Þórunn Gestsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, og Unnur Stefánsdóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna, auk Láru V. Júlíusdóttur, þáverandi aðstoðarmanns félagsmálaráðherra, sem jafnframt var skipuð formaður nefndarinnar. Ritari nefndarinnar var skipuð Elsa Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisráðs. Þær breytingar urðu á skipan nefndarinnar í nóvember 1988 að í hópinn bættust þingmennirnir Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir og Guðmundur Ágústsson.
    Nefndin hélt 24 fundi og kallaði á sinn fund Vilborgu Harðardóttur sem var formaður nefndar sem skipuð var til að endurskoða jafnréttislög árið 1983, Ásdísi J. Rafnar, formann Jafnréttisráðs, Sigríði Jónsdóttur, Sólrúnu Jensdóttur og Guðrúnu Ágústsdóttur úr menntamálaráðuneytinu, Valgerði Bjarnadóttur, verkefnisstýru „Brjótum múrana á Akureyri“, svo og lögmennina Guðnýju Björnsdóttur og Skarphéðin Þórisson. Nefndin aflaði gagna víða að sem hún studdist við í störfum sínum. Nefndin fékk það verkefni í júlí 1988 að yfirfara drög að norrænni jafnréttisáætlun til fjögurra ára sem nú er unnið eftir á vegum norrænu ráðherranefndarinnar og skilaði ráðherra tillögum sínum að breytingum á þeirri áætlun.
    Þegar nefndin lauk störfum í apríl 1989 lagði félagsmálaráðherra fram á Alþingi frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Frumvarpið náði ekki fram að ganga en var sent um sumarið til umsagnar fjölmargra aðila. Nefndin var síðan kölluð saman á nýjan leik í september 1989 og falið að fara yfir umsagnir og koma með tillögur um úrbætur. Nefndin hélt fimm fundi og gerði nokkrar breytingar á upphaflega frumvarpinu með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram höfðu komið. Þannig breytt var frumvarpið endurflutt á vorþinginu 1990. Frumvarpið náði heldur ekki fram að ganga í það skiptið en var sent félagsmálanefnd neðri deildar Alþingis til umfjöllunar. Félagsmálanefndin varð sammála um að gera nokkrar breytingar sem teknar hafa verið upp í þessari gerð frumvarpsins og nánar verður komið að síðar.
    Meðal helstu breytinga, sem nefndin, sem skipuð var árið 1988, lagði til að gerðar verði á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 1985, voru eftirfarandi:
    „1. Breytt hlutverk Jafnréttisráðs. Lagt er til að aðgreint verði það tvíhliða hlutverk sem Jafnréttisráð hefur nú, annars vegar að fjalla um kærur vegna brota á lögunum og hins vegar að vera stefnumótandi í jafnréttismálum. Tillaga er gerð um að skipuð verði sérstök kærunefnd jafnréttismála sem eingöngu hafi það hlutverk að fjalla um kærur sem berast nefndinni og fylgja þeim eftir fyrir dómstólum. Jafnréttisráð mundi þannig áfram gegna öðrum verkefnum sínum, svo sem að vera stefnumótandi í jafnréttismálum, sinna rannsóknarskyldu, fræðslu o.fl. Nefndin leggur til breytta skipan Jafnréttisráðs. Gert er ráð fyrir að ráðið verði tengdara stjórnmálaflokkunum en nú er. Jafnframt er lagt til að fjölmennustu samtök á vinnumarkaði og kvennasamtök tilnefni í ráðið eins og verið hefur. Margar tillögur komu fram í nefndinni um skipan ráðsins, en nefndin sættist á þá tilhögun sem hér er lögð til. Jafnframt er lagt til að ráðgjafarnefnd Jafnréttisráðs verði lögð niður þar eð verkefni hennar færast yfir á Jafnréttisráð.
     2. Úrbætur á réttarfarskafla. Nefndin leggur til nokkrar breytingar á réttarfarsákvæðum laganna. Meginbreytingin felst í því að leggja til að lögfest verði skýrari heimild en nú er til að dæma miskabætur vegna brota á lögunum. Enn fremur verði felld brott skylda dómara til að kveðja til meðdómendur í málum sem fjalla um lögin.
     3. Sönnunarreglum breytt. Þar sem fjallað var um bann við mismunun starfsfólks eftir kynferði var lagt til að atvinnurekanda skyldi skylt að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ráðningu. Þetta þýðir að sýni kærunefnd t.d. fram á að við stöðuveitingu hafi verið gengið fram hjá einstaklingi sem hefur meiri menntun en sá sem ráðinn hefur verið í starfið verði atvinnurekandi að sanna að þar hafi kynferði ekki ráðið. Reynslan hefur sýnt að til að lögin þjóni tilgangi sínum sé regla sem þessi nauðsynleg.
     4. Skýrari ákvæði en í gildandi lögum um skipan jafnréttismála í stjórnkerfinu. Kveðið er á um að jafnréttismál heyri undir félagsmálaráðuneyti.
     5. Framkvæmdaáætlanir. Markaður verði skýrari farvegur fyrir áætlanagerðir í jafnréttismálum, m.a. með því að Alþingi móti um þau stefnu til fjögurra ára í senn með samþykkt þingsályktunar. Inn í þessa áætlun verði felldar tillögur frá einstökum ráðuneytum og ríkisstofnunum.
     6. Stöðuveitingar. Lagt er til að við ráðningu í starf skuli það kynið, sem er í minni hluta í starfsgrein, ganga fyrir uppfylli umsækjandi tilskildar kröfur til starfsins. Þetta á að gilda bæði hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði.
     7. Tilnefningar í nefndir, stjórnir og ráð. Lagt var til að lögfest verði ákveðin leið til að jafna hlut kynja í nefndum, stjórnum og ráðum. Þannig verði tryggt að hlutur kvenna aukist frá því sem nú er því að núgildandi ákvæði hefur skilað takmörkuðum árangri. Nefndin telur mikilvægt að Jafnréttisráð fylgist náið með framvindu þessa ákvæðis.
     8. Jafnréttisráðgjafar. Ráðning sérstakra jafnréttisráðgjafa er meðal þeirra nýmæla sem nefndin lagði til. Með því er tekið undir hugmyndir um þetta efni sem fram hafa komið á Alþingi.
     9. Menntun. Nefndin leggur til að ákvæði laga nr. 65/1985 um menntun verði gert markvissara en nú er.
    10. Jafnréttisnefndir sveitarfélaga. Lagt er til að sveitarfélögum með 500 íbúum eða fleiri verði gert skylt að skipa jafnréttisnefndir. Það er mat nefndarinnar að mikilvægt sé að vinna að jafnréttismálum kvenna og karla sem víðast og að sveitarfélög, sem fara með ákveðinn þátt framkvæmdarvaldsins, gegni þar mikilvægu hlutverki.“
    Endurskoðunarnefndin lagði áherslu á að reglugerð skv. 24. gr. frumvarpsins, sem er 23. gr. í þessu frumvarpi, verði ítarleg og útgáfa hennar dragist ekki. Sérstaklega verði þörf á skýringum við 3. gr. laganna sem er óbreytt í frumvarpinu þar sem fjallað er um séraðgerðir í þágu kvenna, 4. gr. laganna, sem einnig er óbreytt í frumvarpinu, um hvað átt sé við með „jöfnum launum karla og kvenna fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf“, svo og útfærslu á 19. gr. frumvarpsins um jafnréttisráðgjafa. Enn fremur leggur nefndin áherslu á það við ráðherra að hann beiti sér fyrir því að ákvæði um jafnrétti karla og kvenna komi sem víðast inn í aðra stefnumarkandi löggjöf, svo sem grunnskólalög, lög um framhaldsskóla, lög um forskóla, útvarpslög o.fl.
    Í athugasemdum Jafnréttisráðs við frumvarpið, sem lagt var fram á vorþinginu 1990, var lagt til að sett yrði á stofn embætti umboðsmanns jafnréttismála. Hugmyndir svipaðs eðlis höfðu komið fram í endurskoðunarnefndinni og verið ræddar. Nefndin tók almennt jákvætt í hugmyndina um sérstakan umboðsmann jafnréttismála, svo sem er í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, og taldi frekari samræmingu á lagareglum þessara landa styrkja stöðu jafnréttismála á Norðurlöndum. Sumir nefndarmanna töldu þó ekki að svo stöddu tímabært að leggja til skipun sérstaks umboðsmanns jafnréttismála og gerði nefndin því ekki tillögu þar um.
    Það var hlutverk nefndarinnar að endurskoða lög um jafnan rétt og jafna stöðu frá 1985. Þar sem breytingartillögur nefndarinnar eru nokkuð viðamiklar og snerta margar greinar laganna frá 1985 valdi nefndin þá leið að semja frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Eins og áður sagði var frumvarpið lagt öðru sinni fyrir Alþingi vorið 1990 og var vísað til meðferðar félagsmálanefndar neðri deildar. Í nefndinni náðist samstaða um að gera eftirfarandi breytingar:
    1. Félagsmálanefnd var sammála um að tekin skuli af öll tvímæli um að í þeim tilvikum, sem einhver telur rétt á sér brotinn skv. 6. gr., þá skuli atvinnurekandi sýna kærunefnd jafnréttismála fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í þessari breytingu félagsmálanefndar felst að öfug sönnunarbyrði skuli einungis gilda fyrir kærunefnd en ekki í dómsmálum um jafnstöðumál.
    2. Nefndin leggur til að 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins falli brott. Sú málsgrein kvað á um að við ráðningu í starf skuli það kynið, sem er í minni hluta í starfsgrein, ganga fyrir uppfylli umsækjandi tilskildar kröfur til starfsins.
    3. Félagsmálanefnd samþykkti breytingar á 12. gr. frumvarpsins. Veigamesta breytingin er að fella niður skyldu að nefna bæði karl og konu þegar tilnefnt er í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ríkis og sveitarfélaga. Í þess stað er látið nægja að minna á að sem næst jafnmargar konur og karlar skuli sitja í nefndum og ráðum.
    4. Nefndin féllst ekki á tillögur endurskoðunarnefndarinnar um breytta skipan Jafnréttisráðs, sbr. 15. gr. frumvarpsins. Félagsmálanefnd leggur til að fækkað verði í ráðinu og fellt brott ákvæði um setu fulltrúa tilnefndra af þingflokkunum. Hins vegar er lagt til að formaður kærunefndar jafnréttismála eigi sæti í nefndinni.
    5. Félagsmálanefnd neðri deildar samþykkti breytingu á 16.gr. um verkefni Jafnréttisráðs. Samkvæmt breytingunni skal ráðið halda jafnréttisþing á a.m.k. þriggja ára fresti. Nefndin gerir ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um skipulag og hlutverk þingsins. Félagsmálanefnd tekur þó fram í áliti sínu að eðlilegt sé að verkefni slíks þings sé ráðgjafar - og umsagnarstörf á sviði jafnréttismála fyrir Jafnréttisráð, ekki síst vegna aðildar ráðsins að mótun jafnréttisáælunar. Um leið gæti þingið orðið vettvangur almennra umræðna um jafnréttismál og uppspretta og farvegur nýrra hugmynda um þau mál. Nefndin telur jafnframt eðlilegt að aðild að þinginu eigi, auk Jafnréttisráðs, fulltrúar jafnréttisnefnda, stjórnmálaflokka og fulltrúar félagasamtaka er láta sig jafnréttismál varða.
    6. Nefndin leggur til að 23. gr. frumvarpsins, sem fjallaði um viðurlög við brotum á lögunum, falli brott enda sé hún úr takt við önnur ákvæði VI. kafla frumvarpsins um viðurlög og réttarfar.
    Með bréfi, dags. 29. maí 1990, óskaði félagsmálaráðuneytið eftir umsögn Jafnréttisráðs um frumvarpið til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eins og það lá fyrir eftir samþykkt neðri deildar Alþingis. Í umsögn Jafnréttisráð kemur fram að ráðið telur miður að mörg ákvæði upphaflega frumvarpsins hafi verið felld niður í meðförum Alþingis, t.d. tillaga um að lögfesta svonefnda tilnefningarleið þegar tilnefnt er í stjórnir, nefndir og ráð. Jafnframt lýsir ráðið yfir furðu sinni með það að ekki skuli vera samstaða meðal þingmanna um að lögfesta reglur um sönnunarbyrði í jafnréttismálum sem taki til meðferðar þeirra mála bæði á stjórnsýslustigi og fyrir dómsstólum. Jafnréttisráð vekur athygli á því að þetta gerist á sama tíma og verið sé að yfirfara íslensk lög og reglugerðir með tilliti til reglna Evrópubandalagsins. Ráðið telur hins vegar að frumvarpið eins og það liggi fyrir eftir afgreiðslu félagsmálanefndar neðri deildar Alþingis sé spor í rétta átt. Í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að lögfesta nýtt fyrirkomulag á framkvæmdaáætlunum hins opinbera og gert sé ráð fyrir skýrri lagaheimild til að dæma bætur. Enn fremur er lagt til að sérstakri nefnd verði falin meðferð kærumála, svo að nokkur dæmi séu tekin um nýmæli frá núgildandi lögum.
    Eins og þessar tillögur liggja nú fyrir er kostnaður við breytinguna sjálfa ekki mikill. Aukinn kostnaður felst einkum í fjölgun starfsmanna með tilkomu jafnréttisráðgjafa, fjölgun fulltrúa í Jafnréttisráði og kærunefnd jafnréttismála. Að öðru leyti er það í raun háð pólitísku mati hverju sinni hversu miklu fé skal verja til að framfylgja lögunum, t.d. aðgerðum tengdum 3. gr. laganna. Engin sjálfvirkni felst í breytingunum sem slíkum. Ljóst má þó vera að ef vilji er til að þoka jafnréttismálum í rétta átt þarf töluvert aukið fjármagn til þessa málaflokks frá því sem nú er.
    Félagsmálaráðuneytið hefur tekið til athugunar þær breytingar sem samstaða náðist um á Alþingi að gera á fyrra frumvarpi. Í því skyni að skapa sem breiðasta samstöðu um það málefni sem hér um ræðir hefur verið ákveðið að endurflytja frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með þeim breytingum sem samþykktar voru af neðri deild Alþingis sl. vor.

    

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

    

Um 1. gr.


     Tilgangur laganna er að bæta stöðu kvenna í því skyni að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum.

Um 2. gr.


     Hér er lögð til sú breyting á 2. gr. núgildandi laga að orðinu launa er bætt við. Er þetta liður í því að stjórnvöld beiti sér frekar en nú er til að draga úr því launamisrétti sem er milli karla og kvenna og að leitast verði við að tryggja möguleika fólks til launa óháð kyni.

Um 3. gr.


     Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.


Um 4. gr.


     Hér er lagt til að í lögin komi skilgreining á því hvað átt sé við með hugtakinu „laun“. Eins og lögin eru nú er aðeins skilgreint hvað átt sé við með jöfnum launum karla og kvenna fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, og hvað sé átt við með kjörum. Nauðsynlegt er að í reglugerð verði skýrt nánar hvað felist í orðunum „jafnverðmæt og sambærileg störf“. Einn mikilvægasti þátturinn í slíkri skilgreiningu þarf að vera að uppeldis - , umönnunar - og önnur hefðbundin kvennastörf verði metin til jafns við hefðbundin karlastörf.

Um 5. gr.


     Greinin er óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að lagt er til að stéttarfélög skuli ásamt atvinnurekendum vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Ábending þessa efnis kom frá jafnréttisnefnd BSRB.

Um 6. gr.


     Í fyrri gerðum frumvarpsins voru lagðar til nokkrar breytingar á greininni. Annars vegar var lagt til að í 2. tölul., þar sem fjallað er um ráðningu, setningu eða skipun í starf, bættist tilvitnun í 1. mgr. 8. gr. Í þeirri grein var að finna þá reglu að það kyn, sem er í minni hluta í starfsgrein, gangi fyrir í starf. Hins vegar var lagt til að atvinnurekandi sýni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ráðningu ef einhver telur rétt á sér brotinn samkvæmt þessu ákvæði. Ákvæði svipaðs eðlis er að finna í sænskum og finnskum jafnréttislögum. Enn fremur er þetta mjög í anda þeirra tilmæla sem Evrópubandalagið hefur sent aðildarlöndum sínum.
    Í meðförum Alþingis var samþykkt að breyta eldri gerð frumvarpsins þannig að tilvitnunin í 1. mgr. 8. gr. var felld brott. Enn fremur var samþykkt að breyta 2. mgr. þannig að teldi einhver rétt á sér brotinn samkvæmt ákvæðum greinarinnar og vísaði máli sínu til kærunefndar jafnréttismála, sbr. 19. gr., skuli atvinnurekandi sýna kærunefnd fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Um 7. gr.


     Greinin er óbreytt frá 6. gr. gildandi laga.

Um 8. gr.


     Áður er komið fram að með nýju ákvæði í 1. mgr. 8. gr. var leitast við að draga úr einhæfu starfsvali og veita því kyninu, sem lítið hefur fengist við starfið, frekari forgang en er í gildandi lögum. Flest kærumál, sem berast Jafnréttisráði, tengjast stöðuveitingum. Þar hafa konur talið rétt á sér brotinn þegar karlar hafa verið ráðnir í störf. Erfitt hefur reynst að beita ákvæðum laga nr. 65/1985, eins og þau eru nú, til að stuðla að bættri stöðu kvenna í þessu sambandi og því var lögð til framangreind breyting. Í meðförum Alþingis var 1. mgr. felld brott.
    Greinin er því óbreytt frá 7. gr. gildandi laga.

Um 9. gr.


     Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.


Um 10. gr.


     Hér er lagt til að kveðið verði fastar að orði varðandi menntun. Markmiðið hlýtur að vera að ná jafnrétti í öllu skólastarfi. Enn fremur er talið brýnt að ákvæði þess efnis verði sett inn í einstök sérlög þannig að sem víðast sé minnt á það takmark að ná hér jafnrétti kvenna og karla.

Um 11. gr.


     Greinin er samhljóða 11. gr. gildandi laga.

Um 12. gr.


     Þrátt fyrir aukna menntun kvenna og þátttöku í atvinnulífinu sýna kannanir að konur eiga lítinn þátt í ákvörðunum í þjóðfélaginu, t.d. voru konur aðeins 11% þeirra sem sátu í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkisins árið 1987. Með ákvæði í eldri gerð frumvarpsins var leitast við að breyta hlutfallinu í stjórnum, nefndum og ráðum með því að sá sem skipar fulltrúa fái tilnefningar bæði um karl og konu og ber þá þeim sem skipar að velja sem jafnast hlutfall kynjanna í samræmi við ákvæði greinarinnar. Í þessu sambandi var lagt til að lögfest yrði svipuð leið og Danir hafa valið. Jafnframt er lögð áhersla á að Jafnréttisráð fylgist náið með árangri af ákvæði þessu á komandi árum. Ekki náðist samkomulag á Alþingi um þessa leið. Í efri deild var samþykkt að bæta við fyrri málsgrein: „og skal á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð“. Enn fremur samþykkti nefndin að fella brott síðari málsgrein. Greinin er því lítið breytt frá núgildandi lögum með þeirri undantekningu sem felst í breytingunni á fyrri málsgrein.

Um 13. gr.


     Rétt þykir að hafa í lögum þessum ákvæði um jafnréttisnefndir í sveitarfélögum. Nokkuð hefur fækkað þeim jafnréttisnefndum sem skipaðar voru á vegum sveitarfélaganna í kjölfar kvennaársins 1975. Lagt er til að jafnréttisnefndir skuli skipaðar í sveitarfélögum þar sem íbúatalan fer yfir 500 manns og annars staðar þar sem hægt verður að koma við starfsemi jafnréttisnefnda. Enn fremur er tekið fram í hverju störf nefndanna skuli fólgin. Þar er sérstaklega tekið fram að þær skuli hafa frumkvæði að aðgerðum til að bæta stöðu kvenna í sveitarfélaginu og er þetta í samræmi við þann tilgang sem kemur fram í frumvarpinu að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna.

Um 14. gr.


     Nauðsynlegt er að kveða skýrt á um það í lögum undir hvaða ráðherra jafnréttismál heyra.

Um 15. gr.


     Í fyrri gerðum frumvarpsins var lagt til að auk tilnefninga frá VSÍ, ASÍ, BSRB, KRFÍ og KÍ tilnefni þingflokkar á Alþingi fulltrúa til setu í Jafnréttisráði. Markmiðið var að skapa beinni tengsl á milli hinnar eiginlegu stjórnmálaumræðu og jafnréttisumræðunnar. Enn fremur var markmiðið að auka áhrif stjórnmálaflokka á stefnumótun og störf Jafnréttisráðs. Ekki náðist samstaða á Alþingi um þessa breytingu. Hins vegar er gert ráð fyrir að formaður kærunefndar Jafnréttisráðs, sbr. 19. gr., verði skipaður í ráðið. Að öðru leyti er skipan ráðsins óbreytt frá núgildandi lögum.
    Lagt er til að Jafnréttisráð verði skipað eftir hverjar kosningar til Alþingis í stað tveggja ára eins og nú er. Tilgangur þessa er tvíþættur. Annars vegar hafa ör skipti fulltrúa í ráðinu á undanförnum árum leitt til þess að erfitt hefur reynst að ná upp virku starfi innan ráðsins. Með lengri skipunartíma er leitast við að sníða af þennan annmarka. Hins vegar nást beinni tengsl milli stjórnvalda og ráðsins hverju sinni þar sem nýtt ráð er skipað eftir hverjar kosningar til Alþingis.
    Gert er ráð fyrir að formaður Jafnréttisráðs sé skipaður af félagsmálaráðherra í stað Hæstaréttar eins og er samkvæmt gildandi lögum. Þar sem frumvarp gerir ráð fyrir breytingu á starfssviði Jafnréttisráðs frá því að vera bæði stefnumarkandi og að fjalla um kærumál vegna laganna í að vera fyrst og fremst sá aðili sem mótar stefnu í jafnréttismálum og fylgir henni eftir í störfum sínum er eðlilegt að tryggja betur tengslin milli ráðherra jafnréttismála og Jafnréttisráðs.
    2. og 3. mgr. frumvarpsins eru óbreyttar frá 3. og 4. mgr. 13. gr. gildandi laga.

Um 16. gr.


     Þar sem Jafnréttisráði er ætlað breytt hlutverk frá gildandi lögum er verkefnisgrein ráðsins að nokkru leyti breytt. Annars vegar er kveðið á um það í 2. tölul. greinarinnar að endurskoða eigi stefnumarkandi áætlun ráðsins á tveggja ára fresti. Hins vegar er lagt til að 8. tölul. 15. gr. gildandi laga, sem fjallar um ábendingar við brotum, verði felldur undir verksvið kærunefndar jafnréttismála.
    Auk framangreindra verkefna samþykkti félagsmálan. neðri deildar Alþingis nokkrar aðrar breytingar á verkefnum Jafnréttisráðs eins og þeim var lýst í fyrri gerðum frumvarpsins. Neðri deild samþykkti að í 7. tölul. skuli kveðið á um það verkefni ráðsins að taka til rannsóknar að eigin frumkvæði eða annarra stöðu kvenna og karla. Einnig samþykkti deildin að bæta nýjum tölul við greinina þar sem kveðið sé um að halda skuli jafnréttisþing á a. m.k. þriggja ára fresti. Vísað er til umfjöllunar um jafnréttisþingin í inngangi þessara athugasemda. Neðri deild Alþingis samþykkti einnig að gera smærri orðalagsbreytingar á greininni.

Um 17. gr.


     Hér er lagt til að félagsmálaráðherra leggi fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um sérstaka áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn. Áætlun Jafnréttisráðs, sbr. 2. tölul. 16. gr., og áætlanir einstakra ráðuneyta og stofnana í jafnréttismálum yrðu felldar inn í þessa heildaráætlun. Lagt er til að áætlun þessi verði endurskoðuð á tveggja ára fresti.

Um 18. gr.


     Lagt er til að félagsmálaráðuneytið ráði jafnréttisráðgjafa og starfi þeir í samvinnu við Jafnréttisráð. Verkefni þeirra verði að vinna að leiðréttingu á stöðu kvenna. Ekki er tekið fram í greininni hve margir þeir skuli vera en eðlilegt þykir að störf þeirra beinist einkum að landsbyggðinni og að þeir starfi í hverju kjördæmi. Nauðsynlegt er að með reglugerð verði nánar kveðið á um aðsetur og starfsemi jafnréttisráðgjafa.

Um 19. gr.


     Hér er gerð tillaga um að félagsmálaráðherra skipi sérstaka nefnd, kærunefnd jafnréttismála. Formaður nefndarinnar verði tilnefndur af Hæstarétti og sé löglærður. Einn nefndarmaður sé tilnefndur af Kvenréttindafélagi Íslands og einn án tilnefningar. Varði kæruefni vinnumarkað er lagt til að fulltrúar viðkomandi heildarsamtaka taki sæti í nefndinni.
    Hlutverk nefndarinnar er að hafa almennt eftirlit ásamt Jafnréttisráði með því að ákvæðum laganna sé framfylgt og að taka við ábendingum um brot á lögunum. Gerð er tillaga um að lögfest verði upplýsingaskylda atvinnurekenda, opinberra stofnana og félagasamtaka við kærunefnd jafnréttismála. Vegna mikillar fjölgunar kærumála fyrir Jafnréttisráði þykir rétt að leggja til að sérstök nefnd hafi þetta hlutverk. Jafnréttisráð mun áfram gegna því hlutverki sínu að vinna að jafnrétti kvenna og karla, sbr. nánar 16. gr. frumvarpsins.
    Gert er ráð fyrir að kærunefnd hafi starfsaðstöðu á skrifstofu Jafnréttisráðs.

Um 20. gr.


     Kærunefnd jafnréttismála kemur í stað Jafnréttisráðs, sbr. 16. gr. gildandi laga.

Um 21. gr.


     Greinin er óbreytt frá 17. gr. gildandi laga nema hvað kærunefnd jafnréttismála kemur í stað Jafnréttisráðs. Rétt þykir hins vegar að skýra hér sérstaklega tilgang greinarinnar. Komist kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að rannsókn lokinni að ákvæði laganna hafi verið brotin á nefndin að beina rökstuddum tilmælum um ákveðnar úrbætur til hlutaðeigandi aðila. Ætlunin er sú að unnt verði að leysa sem flest deilumál á þennan hátt þannig að ábendingar kærunefndar verði teknar til greinar.
    Ef ekki verður fallist á tilmæli kærunefndar er henni heimilt í samráði við kæranda að höfða mál í umboði hans til viðurkenningar á rétti hans.
    Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. er ekki ætlunin að þau tilmæli um úrbætur, sem nefndin setur fram hverju sinni, skerði á nokkurn hátt heimild kærunefndar jafnréttismála til kröfugerðar skv. 21. gr.
    Einstaklingur, sem leitar til kærunefndar jafnréttismála, á að geta notið allrar lögfræðilegrar aðstoðar, fari málið fyrir dómstóla. Þá er það einnig mikilvægt fyrir starfsemi kærunefndar og Jafnréttisráðs við framkvæmd laganna að unnt sé að fá túlkun og skýringu dómstóla á efni þeirra.

Um 22. gr.


     1. mgr. er samsvarandi 18. gr. gildandi laga.
    2. mgr. er nýmæli. Samkvæmt henni er hægt að dæma menn til að greiða miskabætur með eða án bóta fyrir fjártjón. Ákvæði þetta er sérákvæði sem víkur til hliðar ákvæðum um miskabætur í 264. gr. núgildandi hegningarlaga, nr. 19/1940. Samkvæmt greininni getur sá sem misgert er við átt rétt á bótum fyrir miska, auk bóta fyrir fjártjón. Almennt má telja löglíkur fyrir því að einstaklingur, sem mismunað er vegna kynferðis, bíði ófjárhagslegt tjón, hann verði fyrir andlegri þjáningu og skapraun, álitshnekki og röskun á stöðu og högum, hvort sem af mismunun leiðir fjártjón eða ekki.

Um 23. gr.


     Greinin er efnislega óbreytt frá 21. gr. gildandi laga.

Um 24. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Nauðsynlegt er að setja reglur um skipun Jafnréttisráðs og kærunefndar jafnréttismála við gildistöku laganna.