Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


113. löggjafarþing 1990–1991.
Þskj. 74  —  72. mál.




Frumvarp til laga

Nd.


um brottfall laga og lagaákvæða.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.

    Lög þau, lagafyrirmæli og lagaákvæði, sem greind eru í 2.–30. gr. laga þessara, eru felld úr gildi.

2. gr.

Lög er varða embættismenn og yfirvöld.


     1.      Tilskipun um erindi til stjórnarinnar, áritun á þau o.fl., 3. apríl 1771.
     2.      Opið bréf kansellíisins um afrit skjala sem send eru til staðfestingar, 23. janúar 1789.
     3.      Tilskipun um samningu umsókna- og kærubréfa o.fl., 28. desember 1792.
     4.      Konungsbréf um sektavald amtmanna, 3. janúar 1823.
     5.      Tilskipun um lögleiðing nokkurra lagaboða á Íslandi sem út komu fyrir Danmörku árið 1827, 21. desember 1831.
     6.      Konungsúrskurður um að dómsmálastjórnin skuli hafa vald til að útkljá nokkur mál, 23. desember 1864.
     7.      Tilskipun um hvernig gegna skuli embættisstörfum amtmanna, stiftsyfirvalda og landfógeta á Íslandi, þegar embætti þessi verða lögð niður, nr. 12/1904.

3. gr.

Lög er varða opinbera starfsmenn, þar á meðal lífeyri þeirra.


     1.      Tilskipun sem lögleiðir á Íslandi lög 5. janúar 1851, um eftirlaun, 31. maí 1855.
     2.      Opið bréf, sem lögleiðir á Íslandi með nokkrum breytingum lög 5. janúar 1851, um skyldu embættismanna til að sjá ekkjum sínum borgið með fjárstyrk eftir sinn dag, 31. maí 1855.
     3.      Lög um breytingu á lögum nr. 13/1884, um eftirlaun prestekkna, nr. 36/1895.
     4.      Lög um eftirlaun, nr. 4/1904.
     5.      Lög um skyldu embættismanna til að safna sér ellistyrk eða kaupa sér geymdan lífeyri, nr. 5/1904.
     6.      Lög um viðauka við opið bréf 31. maí 1855, um skyldu embættismanna til að sjá ekkjum sínum borgið með fjárstyrk eftir sinn dag, nr. 28/1905.
     7.      Lög um forgangsrétt kandídata frá Háskóla Íslands til embætta, nr. 36/1911, 5. gr.

4. gr.

Lög er varða landshagi, hagfræðiskýrslur og Hagstofuna.


     1.      Lög um viðauka við lög 8. nóvember 1895 um hagfræðiskýrslur, nr. 20/1903.
     2.      Lög um skráningu Íslendinga til stuðnings mannfræði- og ættfræðirannsóknum hér á landi, nr. 30/1956.
     3.      Tilskipun áhrærandi árlega kapítulstaxta á Íslandi, 16. júlí 1817.
     4.      Lög um afnám laga nr. 27/1954 um verðlagsskrár, nr. 6/1964, bráðabirgðaákvæði.
     5.      Lög um greiðslu íslenskra afurða, nr. 43/1943.

5. gr.

Lög er varða opinber gjöld og gjaldheimtu.


     1.      Kammerréttarskipun 18. mars 1720.
     2.      Tilskipun um gjaldheimtu og reikningsskil í Danmörku, 30. janúar 1793.
     3.      Opið bréf kansellíis um það, hvers gæta skal til að tryggja fjármuni opinberra stofnana, 10. apríl 1795.
     4.      Kansellíumburðarbréf um aðför eftir sátt hjá gjaldheimtumönnum konungs, 16. nóvember 1819.
     5.      Kansellíbréf um tilkynningu um andlát eða gjaldþrot skuldunauta hins opinbera o.fl., 17. maí 1823.
     6.      Opið bréf um meðöl til að frama innlausn veitingarbréfa frá stjórnarráðunum, 23. nóvember 1827.
     7.      Opið bréf um nokkrar ákvarðanir þeim til trausts er þinggjaldi eiga að lúka, 10. febrúar 1847.
     8.      Tilskipun um meðferð á störfum landsféhirðis, nr. 16/1918.
     9.      Lög um innheimtu gjalda af erlendum fiskiskipum, nr. 47/1925.
     10.      Lög um lestagjald af skipum, nr. 10/1946.
     11.      Lög um eignakönnun, nr. 67/1947.
     12.      Lög um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl., nr. 22 1950.
     13.      Lög um breyting á lögum nr. 83 26. nóvember 1948, um skattfrelsi vinninga o.fl. varðandi happdrættislán ríkissjóðs, nr. 74/1953.
     14.      Lög um skatt á stóreignir, nr. 44/1957, ásamt breytingalögum nr. 19/1958.
     15.      Lög um sérstakan skattfrádrátt tapaðra skulda vegna skuldaskila bátaútvegsins, nr. 21 1952.

6. gr.

Lög er varða efnahagsmál.


     1.      Lög um efnahagsmál, nr. 4/1960, 2.–6. gr., 19. gr. og 20. gr.
     2.      Lög um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, nr. 103/1978.
     3.      Lög um niðurfærslu vöruverðs og verðbótavísitölu í september 1978, nr. 109/1978.
     4.      Lög um kjaramál, nr. 121/1978.
     5.      Lög um stjórn efnahagsmála o.fl., nr. 13/1979, 26. gr.
     6.      Lög um ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, nr. 10/1981.
     7.      Lög um verðlagsaðhald, lækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana, nr. 12/1981.
     8.      Lög um efnahagsaðgerðir, nr. 2/1983.

7. gr.

Lög um gjaldeyrismál.


     1.      Lög um ráðstafanir á gullforða Íslandsbanka og um heimild fyrir ríkisstjórnina til að banna útflutning á gulli, nr. 16/1920.
     2.      Lög um viðauka við lög nr. 73 31. desember 1937, um gjaldeyrisverslun o.fl., nr. 82/1941.
     3.      Lög um breyting á lögum nr. 82 9. júlí 1941, um viðauka við lög nr. 73 31. desember 1937, um gjaldeyrisverslun o.fl., nr. 71/1942.
     4.      Lög um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenskrar krónu, nr. 28/1962.
     5.      Lög um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenskrar krónu, nr. 69/1967.
     6.      Lög um ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breyting á gengi íslenskrar krónu, nr. 74/1967.
     7.      Lög um ráðstöfun á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum o.fl., nr. 79/1967.
     8.      Lög um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenskrar krónu, nr. 74/1968.
     9.      Lög um ráðstafanir vegna landbúnaðarins í sambandi við breytingu á gengi íslenskrar krónu, nr. 83/1968.
     10.      Lög um breyting á lögum nr. 79 31. desember 1968, um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu, og um hækkun á aflahlut og breytt fiskverð, nr. 62 1972.
     11.      Lög um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenskrar krónu, nr. 97/1972.
     12.      Lög um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu, nr. 78/1974.
     13.      Lög um ráðstafanir í sjávarútvegi og um ráðstöfun gengishagnaðar, nr. 106/1974.
     14.      Lög um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu, nr. 2/1975.
     15.      Lög um ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins samkvæmt lögum nr. 2/1975 og um ráðstafanir vegna hækkunar brennsluolíuverðs til fiskiskipa, nr. 55/1975.
     16.      Lög um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu, nr. 2/1978.
     17.      Lög um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu, nr. 22/1979.
     18.      Lög um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu 26. ágúst 1981 o.fl., nr. 81/1981.
     19.      Lög um breyting á lögum nr. 81 21. desember 1981, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu 26. ágúst 1981 o.fl., nr. 7 1982.
     20.      Lög um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu 14. janúar 1982, nr. 28/1982.

8. gr.

Lög er varða ríkisábyrgðir.


     1.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að ábyrgjast lán fyrir Flugfélag Íslands til flugvélakaupa, nr. 43/1964.
     2.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að ábyrgjast lán fyrir Flugfélag Íslands til flugvélakaupa, nr. 33/1965.
     3.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina að ábyrgjast lán fyrir Flugfélag Íslands hf. til kaupa á millilandaflugvél, nr. 70/1966, ásamt breytingalögum nr. 93/1966.
     4.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lán til þriggja skipasmíðastöðva, nr. 73/1962.
     5.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lán til byggingar dráttarbrauta og skipasmíðastöðva, nr. 61/1965.
     6.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lán til byggingar dráttarbrauta og skipasmíðastöðva, nr. 17/1968.
     7.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lán til kaupa á síldarflutningaskipi o.fl., nr. 91/1966.
     8.      Lög um heimild til lántöku vegna Vestfjarðaáætlunar og Norðurlandsáætlunar, nr. 60 1969.
     9.      Lög um ábyrgðarheimild fyrir ríkisstjórnina vegna lántöku Fiskveiðasjóðs Íslands og fleira, nr. 93/1972.
     10.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á 10 fiskiskipum yfir 300 lestir og til kaupa á 2 ferjuskipum, nr. 13/1974.
     11.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lán fyrir Rafveitu Ísafjarðar, nr. 104 1974.
     12.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að ábyrgjast lán fyrir Flugleiðir hf., nr. 16 1975.
     13.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að ábyrgjast lán Landsvirkjunar og til að taka lán og endurlána það Landsvirkjun til virkjana í Tungnaá, nr. 70/1976.
     14.      Lög um ábyrgðarheimildir og heimild til lántöku vegna endurskoðaðrar lánsfjáráætlunar 1978, nr. 120/1978.
     15.      Lög um ábyrgðarheimildir og greiðsluheimildir vegna lántöku Framleiðsluráðs landbúnaðarins, nr. 9/1980.
     16.      Lög um ábyrgðarheimildir vegna lántöku Bjargráðasjóðs, nr. 28/1980.
     17.      Lög um ábyrgðarheimildir vegna lántöku Bjargráðasjóðs, nr. 37/1981.
     18.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á ferjuskipi Skallagríms hf., nr. 60/1982.
     19.      Lög um heimild handa ríkisstjórninni til að ábyrgjast lán vegna björgunar skipsins Het Wapen, nr. 25/1983.

9. gr.

Lög er varða opinbera sjóði.


     1.      Lög um Jöfnunarsjóð, nr. 41/1932.
     2.      Lög um framkvæmdasjóð ríkisins, nr. 55/1942.

10. gr.

Lög er varða fasteignir ríkisins.


     1.      Lög um sölu lands úr ríkisjörðinni Grenivík í Grýtubakkahreppi, nr. 44/1967.
     2.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Mosfellshreppi jarðirnar Þormóðsdal og Bringur, nr. 46/1967.
     3.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja 9 jarðir og grasbýli í Neshreppi utan Ennis og eyðijörðina Lækjardal í Öxarfjarðarhreppi, nr. 55/1967.
     4.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja sex eyðijarðir í Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu og jörðina Rjúpnafell í Norður-Múlasýslu, nr. 56/1967.
     5.      Lög um sölu kristfjárjarðarinnar Litlu-Þúfu í Miklaholtshreppi, nr. 57/1967.
     6.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Hálshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu tiltekna landspildu úr prestssetursjörðinni Hálsi í Hálshreppi, nr. 11/1969.
     7.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Árskógshreppi Hauganesland, nr.44/1969.
     8.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja jarðirnar Höfðahóla með Hólagerði og Spákonufell í Höfðahreppi, nr. 64/1969.
     9.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja jörðina Fjós í Laxárdalshreppi, nr. 5 1972.
     10.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Brekkuborg í Breiðdalshreppi og Þorsteinsstaði í Sauðaneshreppi, nr. 9/1972.
     11.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja jarðirnar Háls og Kambshjáleigu í Búlandshreppi, nr. 10/1972.
     12.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Markúsarsel, Tunguhlíð og Veturhús í Geithellnahreppi, nr. 37/1972.
     13.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Grýtubakkahreppi jörðina Grenivík, eyðibýlið Svæði og nýbýlið Höfðabrekku og Borgarneshreppi hluta af landi Borgar, nr. 33 1973.
     14.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Gerðahreppi jarðirnar Útskála og Brekku í Gerðahreppi, nr. 64/1973.
     15.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja nokkrar eignir ríkissjóðs, nr. 67/1973.
     16.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Reykhólahreppi jörðina Reykhóla í Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandarsýslu, nr. 75/1976.
     17.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Reykjavíkurbæ eignina Laugarnes í Reykjavík, nr. 10/1956.
     18.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja Akureyrarkaupstað jörðina Ytra-Krossanes, Akureyri, nr. 16/1970.
     19.      Lög um sölu kirkjujarðarinnar Hvanneyrar í Siglufirði, nr. 74/1942.
     20.      Lög um sölu verslunarlóðarinnar á Sauðárkróki, nr. 3/1947.
     21.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja jörðina Þjóðólfshaga I í Holtahreppi, Rangárvallasýslu, nr. 35/1984.
     22.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja jörðina Bæjarstæði í Seyðisfjarðarhreppi, Norður-Múlasýslu, nr. 37/1984.
     23.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja jörðina Hamar í Glæsibæjarhreppi í Eyjafjarðarsýslu, nr. 15/1985.
     24.      Lög um heimild til að selja hluta ríkisjarðarinnar Þóroddsstaðar í Ljósavatnshreppi, Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 60/1988.

11. gr.

Lög er varða lán og lántökuheimildir.


     1.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku hjá Alþjóðabankanum í Washington, nr. 103/1961.
     2.      Lög um heimild til kaupa á skuldabréfum Sameinuðu þjóðanna og til lántöku í því skyni, nr. 6/1962.
     3.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku vegna viðbyggingar Landspítalans, nr. 48 1962.
     4.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka innlent lán, nr. 59/1964, og breytingalög nr. 23/1965.
     5.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku vegna vega- og flugvallagerða, nr. 26 1966.
     6.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1966, nr. 27/1966.
     7.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1967, nr. 26/1967.
     8.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1968, nr. 24/1968.
     9.      Lög um lántökuheimild fyrir ríkissjóð, nr. 8/1969.
     10.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1969, nr. 23/1969.
     11.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1970, nr. 34/1970.
     12.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1971, nr. 29/1971.
     13.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka innlent lán, nr. 82/1971.
     14.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1972, nr. 26/1972.
     15.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku vegna kaupa á þyrlu og vegna viðgerða á varðskipinu Þór, nr. 83/1972.
     16.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1973, nr. 8/1973.
     17.      Lög um lántökuheimild vegna framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar 1973 og um sérstaka lántökuheimild vegna hafnarframkvæmda, nr. 91/1973.
     18.      Lög um lántökuheimild fyrir ríkissjóð, nr. 11/1974.
     19.      Lög um lántökuheimildir erlendis, nr. 37/1974.
     20.      Lög um lántökuheimildir erlendis, nr. 92/1974.
     21.      Lög um lántökuheimild fyrir ríkissjóð, nr. 9/1975.
     22.      Lög um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum til þess að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og treysta undirstöðu atvinnu og lífskjara, nr. 11/1975.
     23.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka lán vegna framkvæmda og reksturs Rafmagnsveitna ríkisins og Vegagerðar ríkisins, nr. 15/1975.
     24.      Lög um heimild til erlendrar lántöku vegna opinberra framkvæmda á árinu 1976, nr. 89 1975.
     25.      Lög um lántökuheimild til eflingar Landhelgisgæslunnar, nr. 69/1976.
     26.      Lög um heimild til erlendrar lántöku vegna opinberra framkvæmda á árinu 1977, nr. 116 1976.
     27.      Lög um heimild til erlendrar lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna lánsfjáráætlana 1978, nr. 82/1977, og breytingalög nr. 13/1981.
     28.      Lög um ráðstafanir í efnahagsmálum, nr. 3/1978.
     29.      Lög um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar 1979, nr. 20/1979.

12. gr.

Lög er varða fjármál ríkisins.


     1.      Lög um lækkun lögbundinna framlaga á fjárlögum, nr. 96/1975.
     2.      Lög um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði og heimild til lántöku á árinu 1980 o.fl., nr. 98/1979.
     3.      Lög um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum, nr. 23/1984.
     4.      Lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum 1984, nr. 43/1984, 1.–3. gr., 7. gr. og 26.–29. gr.
     5.      Lög um sérstaka fjáröflun vegna húsnæðismála á árunum 1985 og 1986, nr. 48/1985.

13. gr.

Ýmis eignarnámslög.


     1.      Lög um eignarnám á landspildu á Bolungarvíkurmölum í Hólshreppi, nr. 16/1932.
     2.      Lög um eignarnám á landspildu í Skeljavík við Hnífsdal, nr. 17/1932.
     3.      Lög um eignarnám á landspildu í Sandvíkurlandi, nr. 21/1938.
     4.      Lög um eignarnámsheimild fyrir Siglufjarðarkaupstað á jörðunum Efri-Skútu og Neðri- Skútu í Siglufirði, nr. 37/1949.
     5.      Lög um eignarnám lands í Flatey á Breiðafirði, nr. 44/1966.
     6.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka leigunámi tvö hvalveiðiskip hf. Hvals, nr. 9/1973.

14. gr.

Lög er varða banka og lánastofnanir.


     1.      Viðaukalög við lög 12. janúar 1900 um stofnun veðdeildar við Landsbankann í Reykjavík, nr. 30/1902.
     2.      Lög um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka (seríur) bankavaxtabréfa, nr. 60/1928.
     3.      Lög um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka bankavaxtabréfa, nr. 122/1935.
     4.      Lög um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka bankavaxtabréfa, nr. 94/1941.
     5.      Lög um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka bankavaxtabréfa, nr. 55/1945.
     6.      Lög um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands til að gefa út nýja flokka bankavaxtabréfa, nr. 73/1965.
     7.      Lög um rekstrarlánafélög, nr. 98/1938.

15. gr.

Lög er varða félagsmál.


     1.      Lög um lausamenn, húsmenn og þurrabúðarmenn, nr. 60/1907.
     2.      Lög um íbúðir í kjöllurum, nr. 57/1929.
     3.      Lög um niðurfærslu verðlags og launa o.fl., nr. 1/1959.
     4.      Lög um innheimtu ýmissa gjalda með viðauka, nr. 99/1970.
     5.      Lög um fyrirframgreiðslu opinberra gjalda, nr. 3/1971.
     6.      Lög um kaup og kjör yfirmanna á botnvörpuskipum, sem eru stærri en 500 rúmlestir brúttó, nr. 6/1973.
     7.      Lög um launajöfnunarbætur, bætur almannatrygginga, verðlagsmál o.fl., nr. 13/1975.

16. gr.

Lög er varða kirkjumálefni.


     1.      Konungsbréf um ráðstafanir gegn prestum þeim er láta prestssetrin falla og níðast niður, 11. maí 1708.
     2.      Konungsbréf um afsetta presta, 7. október 1740.

17. gr.

Lög er varða menntamál.


     1.      Lög um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda, nr. 5/1968, 6. gr. og 7. gr. 1. og 4. tölul.

18. gr.

Lög er varða heilbrigðismál.


     1.      Lög um útbúnað og ársútgjöld spítala handa holdsveikum mönnum, nr. 2/1898.
     2.      Lög um aðgreining holdsveikra frá öðrum mönnum og flutning þeirra á opinberan spítala, nr. 3/1898.
     3.      Lög um breyting á lögum nr. 3/1898, um aðgreining holdsveikra frá öðrum mönnum og flutning þeirra á opinberan spítala, nr. 57/1909.

19. gr.

Lög er varða samgöngur.


     1.      Lög um hægri handar umferð, nr. 65/1966.
     2.      Lög um strandferðir, nr. 53/1913, og breytingalög nr. 41/1914.
     3.      Lög um úrskurðaraðila í deilu um starfsaldurslista flugmanna Flugleiða hf., nr. 8/1981.
     4.      Lög um málefni Flugleiða hf., nr. 74/1980.
     5.      Lög um happdrættislán ríkissjóðs vegna vega- og brúagerða á Skeiðarársandi er opni hringveg um landið, nr. 99/1971.
     6.      Lög um happdrættislán ríkissjóðs til að fullgera Djúpveg og opna þannig hringveg um Vestfirði, nr. 48/1974.
     7.      Lög um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg og Austurveg, nr. 36/1975.
     8.      Lög um að útlendum skipum verði gefinn kostur á að flytja vörur hafna á milli á Íslandi og milli Íslands og Danmerkur, 17. apríl 1868.
     9.      Lög um dag- og næturbendingar á íslenskum skipum í sjávarháska og um ráðstafanir, er skip rekast á, nr. 13/1899.
     10.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa hf. Hval innflutning á tveimur hvalveiðiskipum, nr. 99/1961.
     11.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa hf. Hval innflutning á hvalveiðiskipi, nr. 9/1963.

20. gr.

Lög er varða lögreglumálefni.


     1.      Lög um tilsjón með flutningum á þeim mönnum, sem flytja sig úr landi í aðrar heimsálfur, nr. 3/1876.
     2.      Lög um viðauka við lög 14. janúar 1876 um tilsjón með flutningum á þeim mönnum, sem flytja sig úr landi í aðrar heimsálfur, nr. 14/1891.
     3.      Lög um viðauka við og breyting á lögum 14. janúar 1876, um tilsjón með flutningum á þeim mönnum, er flytja sig úr landi í aðrar heimsálfur, nr. 9/1896.
     4.      Lög um eftirlit með mannflutningum til útlanda, nr. 49/1903.
     5.      Lög um lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli, nr. 33/1954, 1. gr. 2. mgr. og 2. gr. 2. mgr.

21. gr.

Lög er varða sveitarstjórnir og stöðu bæjarfógeta í kaupstöðum.


     1.      Lög um manntal í Reykjavík, nr. 18/1901, og lög um breytingar á þeim, nr. 64/1907, 57 1917 og 49/1933.
     2.      Lög um heimild til lóðarsölu fyrir Ísafjarðarkaupstað, nr. 24/1905.
     3.      Lög um gjöld til holræsa og gangstétta í Reykjavík o.fl., nr. 42/1911.
     4.      Lög um mjólkursölu á Ísafirði, nr. 32/1918.
     5.      Lög um bæjarstjórn Vestmannaeyja, nr. 26/1918, 2. gr. 2. málsl.
     6.      Lög um breytingar á lögum nr. 30 22. nóvember 1918, um bæjarstjórn á Siglufirði, nr. 58/1919.
     7.      Lög um sorphreinsun og salernahreinsun á Akureyri, nr. 49/1927.
     8.      Lög um sjóveitu í Vestmannaeyjum, nr. 28/1931.
     9.      Lög um bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði nr. 48/1928, 1. gr. 2. mgr. og 4. gr., sbr. lög nr. 23/1936, 1. gr.
     10.      Lög um bæjarstjórn á Akranesi, nr. 45/1941, 1. gr. 2. mgr., 2. gr. og 4. gr.
     11.      Lög um heimild fyrir kaupstaði og hreppsfélög til að koma á þegnskylduvinnu, nr. 63 1941.
     12.      Lög um bæjarstjórn í Ólafsfirði, nr. 60/1944, 1. gr. 2. mgr., 2. gr. og 4. gr.
     13.      Lög um nýbyggingar í Höfðakaupstað, nr. 42/1946.
     14.      Lög um bæjarstjórn á Sauðárkróki, nr. 57/1947, 1. gr. 2. mgr. 1. málsl.
     15.      Lög um bæjarstjórn í Keflavík, nr. 17/1949, 1. gr. 2. mgr. 1. málsl. 2. gr. og 4. gr.
     16.      Lög um bæjarstjórn í Húsavík, nr. 109/1949, 1. gr. 2. mgr. 1. málsl.
     17.      Lög um heimild til að fella niður manntal í Reykjavík, nr. 94/1954.
     18.      Lög um bæjarstjórn í Kópavogskaupstað, nr. 30/1955, 1. gr. 2. mgr. 1. málsl. og 2. gr.
     19.      Lög um heimild fyrir sveitarstjórnir til þess að innheimta með álagi skatta og gjöld til sveitarsjóða sem miðuð eru við fasteignamat, nr. 29/1959.
     20.      Lög um húsbyggingar á vegum Viðlagasjóðs eða Vestmannaeyjakaupstaðar, nr. 105 1973.

22. gr.

Lög er varða landbúnað.


     1.      Lög um aðfluttar ósútaðar húðir, nr. 35/1891.
     2.      Samþykktarlög um verndun Safamýrar í Rangárvallasýslu, nr. 12/1894.

23. gr.

Lög er varða fiskveiðar, sjávarútveg og siglingar.


     1.      Lög fyrir Ísland um tilhögun á löggæslu við fiskiveiðar í Norðursjónum, nr. 20/1901, og breytingalög nr. 29/1902.
     2.      Lög um síldarnætur, nr. 28/1902.
     3.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til ýmissa ráðstafana vegna útflutnings á nýjum fiski, nr. 37/1931, og breytingalög nr. 65/1932.
     4.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að leyfa erlendum manni eða félagi að reisa og starfrækja síldarbræðsluverksmiðju á Austurlandi, nr. 66/1932.
     5.      Lög um útflutning saltaðrar síldar, nr. 70/1933.
     6.      Lög um stofnun síldarhræðsluverksmiðju á Norðurlandi o.fl., nr. 15/1934.
     7.      Lög um mat á fiskúrgangi, nr. 9/1935.
     8.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að kaupa og starfrækja síldarverksmiðjuna á Raufarhöfn, nr. 47/1935.
     9.      Lög um útflutning á síldarmjöli, nr. 56/1935.
     10.      Lög um meðferð, verkun og útflutning á sjávarafurðum, nr. 92/1935.
     11.      Lög um að reisa síldarverksmiðju á Raufarhöfn og aukningu við síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði, nr. 10/1938.
     12.      Lög um breyting á lögum nr. 10 13. janúar 1938, um að reisa síldarverksmiðju á Raufarhöfn og aukningu við síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði, nr. 42/1940.
     13.      Lög um síldartunnur, nr. 60/1940, og lög um frestun þeirra, nr. 46/1943.
     14.      Lög um veiði, sölu og útflutning á kola, nr. 19/1941.
     15.      Lög um heimild til lántöku fyrir síldarverksmiðjur ríkisins, nr. 131/1941.
     16.      Lög um að reisa nýja síldarverksmiðju, nr. 93/1942.
     17.      Lög um olíugeyma o.fl., nr. 110/1943.
     18.      Lög um heimild handa ríkisstjórninni til ákvörðunar um samflot íslenskra skipa milli Íslands og Stóra-Bretlands, nr. 47/1943.
     19.      Lög um stuðning við nýbyggingu fiskiskipa, nr. 9/1944.
     20.      Lög um skipakaup ríkisins, nr. 48/1945.
     21.      Lög um togarakaup ríkisins, nr. 109/1945.
     22.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til ráðstafana vegna útflutnings á afurðum bátaútvegsins, nr. 46/1946.
     23.      Lög um smíði tveggja þilfara togara í tilraunaskyni, nr. 16/1948.
     24.      Lög um fiskiðjuver ríkisins í Reykjavík, nr. 52/1949.
     25.      Lög um að reisa stöð til hagnýtingar efna úr síldarsoði, nr. 21/1950.
     26.      Lög um togarakaup ríkisins, nr. 50/1950.
     27.      Lög um viðauka við lög nr. 50 25. maí 1950, um togarakaup ríkisins, nr. 88/1950.
     28.      Lög um síldarleit úr lofti, nr. 56/1954.
     29.      Lög um heimild handa ríkisstjórninni til að kaupa togarann Vilborgu Herjólfsdóttur, nr. 49/1955.
     30.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lán til togarakaupa fyrir Neskaupstað, nr. 50/1955.
     31.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lán til togarakaupa fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur, nr. 84/1956.
     32.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til skipakaupa, lántöku og sérstakra ráðstafana í útgerðarmálum til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, nr. 94/1956.
     33.      Lög um þátttöku Síldarverksmiðja ríkisins í útgerðarfélagi á Siglufirði, nr. 27/1963.
     34.      Lög um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, nr. 4/1967.
     35.      Lög um ráðstafanir vegna flutninga sjósaltaðrar og ísvarinnar síldar af fjarlægum miðum sumarið 1968, nr. 16/1969.
     36.      Lög um ráðstafanir vegna flutninga sjósaltaðrar og ísvarinnar síldar af fjarlægum miðum sumurin 1969 og 1970, nr. 64/1970.
     37.      Lög um kaup á skuttogurum, nr. 113/1972.
     38.      Lög um ráðstöfun eftirstöðva Olíusjóðs fiskiskipa, nr. 76/1976.
     39.      Lög um olíusjóð fiskiskipa, olíugjald o.fl., nr. 1/1983.

24. gr.

Lög er varða verslun.


     1.      Opið bréf innihaldandi nákvæmari ákvarðanir með tilliti til tilskipananna um þá íslensku kauphöndlun og skipaferðir, 28. desember 1836.
     2.      Lög um að selja kornvörur og kol eftir vigt, nr. 29/1877.
     3.      Lög um að selja salt eftir vigt, nr. 37/1902.
     4.      Lög um sölu á eggjum eftir vigt, nr. 21/1912.
     5.      Lög um þyngd bakarabrauða, nr. 11/1917.

25. gr.

Lög er varða iðnað.


     1.      Lög um heimild til að selja Húseiningum hf. húsnæði Tunnuverksmiðju ríkisins á Siglufirði, nr. 19/1977.
     2.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku vegna byggingar áburðarverksmiðju, nr. 88/1952.
     3.      Lög um kaup ríkissjóðs á hlutabréfum Áburðarverksmiðjunnar hf. sem eru í einkaeign, nr. 45/1968.

26. gr.

Lög er varða orkumál.


     1.      Lög um eignarnám á vatnsréttindum í Andakílsá o.fl., nr. 20/1921, 1., 3. og 4. gr.
     2.      Lög um heimild handa landsstjórninni til framkvæmda á rannsóknum til undirbúnings virkjunar Sogsfossanna, nr. 73/1921.
     3.      Lög um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins, nr. 92/1947, 2. gr.
     4.      Lög um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins, nr. 34/1949, 2. gr.
     5.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til lánveitinga til Sogs- og Laxárvirkjana og til lántöku vegna sömu fyrirtækja, nr. 63/1950.
     6.      Lög um ný orkuver og nýja orkuveitu rafmagnsveitna ríkisins, nr. 12/1951, 2. gr.
     7.      Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku í Alþjóðabankanum í Washington vegna Sogs- og Laxárvirkjana, nr. 74/1952.
     8.      Lög um ný orkuver og nýjar orkuveitur rafmagnsveitna ríkisins, nr. 65/1956, 2. gr.
     9.      Lög um viðauka við lög nr. 28 23. apríl 1946 um virkjun Sogsins, nr. 35/1959.
     10.      Lög um viðauka við lög nr. 28 23. apríl 1946 um virkjun Sogsins, nr. 51/1963.
     11.      Lög um heimild til lántöku fyrir raforkusjóð, nr. 54/1963.

27. gr.

Lög er varða veitingar og gistihúsarekstur.


     1.      Lög um byggingu gistihúss í Reykjavík, nr. 36/1946.

28. gr.

Lög er varða félög og stofnanir.


     1.      Lög um heimild fyrir Sláturfélag Suðurlands til að innkalla stofnbréf sín, nr. 13/1940.
     2.      Lög um heimild fyrir Sláturfélag Skagfirðinga til að innkalla stofnbréf sín, nr. 89/1945.

29. gr.

Lög er varða áfengi.


     1.      Lög um undanþágu frá lögum nr. 91 14. nóvember 1917, um aðflutningsbann á áfengi, nr. 3/1923.

30. gr.

Lög er varða réttarfar.


     1.      Opið bréf er lögleiðir á Íslandi með breytingum lög 30. nóvember 1857, um innkallanir í búum, 4. janúar 1861.
     2.      Lög um úrskurðarvald sáttanefnda, nr. 32/1911.
     3.      Lög um heimild til löggildingar á fulltrúum bæjarfógeta til þess að gegna eiginlegum dómarastörfum o.fl., nr. 79/1919.
     4.      Tilskipun um forgöngurétt ómyndugra o.fl., 19. desember 1821.
     5.      Lög um breyting á þeim tíma, er manntalsþing skulu háð, nr. 68/1921.
     6.      Lög um bráðabirgðabreyting á dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum, nr. 3/1973.

31. gr.

    Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp um sama efni og frumvarp þetta var lagt fram á 112. löggjafarþingi 1989–90 en varð eigi útrætt. Nokkrar minni háttar breytingar hafa nú verið gerðar á fyrra frumvarpi.
    Hinn 22. maí 1984 var samþykkt í sameinuðu Alþingi tillaga til þingsályktunar „um lagahreinsun og samræmingu gildandi laga“. Flutningsmenn tillögunnar voru þau Árni Gunnarsson, Birgir Ísl. Gunnarsson, Stefán Benediktsson, Davíð Aðalsteinsson og Guðrún Agnarsdóttir. Tillagan var samþykkt nokkuð breytt. Þingsályktunin er svofelld:
    „Alþingi ályktar:
1.     Að fela ríkisstjórninni að leita eftir samstarfi við Lagastofnun Háskóla Íslands um framhaldsvinnslu lagasafns með þeim hætti að
    a.    fella nýja löggjöf inn í tölvuskráðan texta Lagasafns 1984, þannig að ávallt sé tiltækur réttur texti gildandi laga í landinu,
    b.    undirbúa hreinsun úreltra ákvæða úr núgildandi lögum og gera tillögur um niðurfellingu lagabálka sem engum tilgangi þjóna lengur og fella má úr gildi og um greinar gildandi laga sem eðlilegt er og nauðsynlegt að samræma,
    c.    gera reglugerðum sömu skil um brottfellingu og samræmingu og
    d.    leggja á ráð um framtíðarskipun á útgáfu laga og reglugerða og alhliða upplýsingamiðlun um réttarreglur, enda verði tölvutækni hagnýtt eftir því sem kostur er og henta þykir.
     2.      Að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að maður verði ráðinn til framkvæmdar á þessu verkefni.
     3.      Að kjósa nefnd níu manna til ráðuneytis um framkvæmd framangreindra verkefna.“
    Hinn 20. júní 1985 var kosin nefnd níu manna, er skyldu „vera til ráðuneytis um framkvæmd“ þeirra verkefna sem þingsályktunin fjallar um. Í nefndina voru kosin dr. Ármann Snævarr, fyrrv. hæstaréttardómari, Gils Guðmundsson, fyrrv. alþingismaður, Haraldur Blöndal hæstaréttarlögmaður, Hreinn Pálsson lögfræðingur, Margrét Rún Guðmundsdóttir blaðamaður, Már Pétursson héraðsdómari, nú bæjarfógeti og sýslumaður, Sigurður Líndal prófessor, Snædís Gunnlaugsdóttir dómarafulltrúi og Svala Thorlacius hæstaréttarlögmaður. Margrét Rún Guðmundsdóttir hefur ekki vegna fjarvista tekið þátt í störfum nefndarinnar. Ármann Snævarr hefur gegnt störfum formanns nefndarinnar, en ritarar hafa verið Már Pétursson og Svala Thorlacius.
    Nefndin hefur talið það höfuðverkefni sitt að gera tillögur um lagahreinsun og setja fram ábendingar um samræmingu laga. Er þetta verkefni bæði víðtækt og vandasamt.
    Skal nú fyrst rætt nokkuð almennt um „lagahreinsun og samræmingu gildandi laga“, sbr. fyrirsögn þingsályktunarinnar. Síðar verður svo vikið að störfum nefndarinnar og viðhorfum
hennar til þessa verkefnis.

I.


Umræður um lagahreinsun og lagasamræmingu.


    Þörfin á lagahreinsun og lagasamræmingu hefur verið rædd um langt skeið hér á landi. Í hinum víðtæku umræðum sem urðu á Alþingi um stofnun lagaskóla á Íslandi, einkum á 19. öldinni, var oft vikið að þessu máli, einkum um könnun á gildi lagaboða hér á landi og væntu menn forustu kennara við lagaskólann um átak í því efni.
    Á Alþingi 1881 var flutt tillaga til þingsályktunar um undirbúning að safni gildandi laga hér á landi. Í tillögunni var skorað á landshöfðingja „að hann hlutaðist til um að safnað verði saman öllum þeim lögum og lagagreinum, er gildandi eru hér á landi og eigi standa í lögbók vorri (Jónsbók)“, (Alþt. 1881, bls. 551). Þessi tillaga var samþykkt í neðri deild, en felld í efri deild. Það mun fyrst og fremst hafa vakað fyrir flutningsmönnum að sérfróðir menn könnuðu hver lög og lagagreinar hefðu gildi hér á landi og gæfu síðan út aðgengilegt lagasafn. Hér átti vísast bæði að fara fram rannsókn á því hver lög og lagagreinar hefðu verið lögfest hér á landi og síðan hvort þau hefðu verið felld úr gildi með síðari tíma löggjöf og einnig hvort þau væru andstæð meginreglum íslensks réttar. Að þessu leyti mun lagahreinsun hafa verið höfð í huga þótt hitt sé ekki síður mikilvægt að hér var brotið upp á útgáfu lagasafns í svipaðri mynd og síðar tíðkaðist. Hér má geta þess að lagasafn handa alþýðu, er þeir Magnús Stephensen landshöfðingi og Jón Jensson yfirdómari ritstýrðu í upphafi, hóf útkomu 1890.
    Árið 1915 ritaði Lárus H. Bjarnason prófessor grein í Andvara þar sem hann hvetur mjög til lagahreinsunar og raunar til þess að felld verði úr gildi dönsk lagafyrirmæli og lögfest verði íslensk í þeirra stað. Hann víkur sérstaklega að þörfinni sem á því er „að hreinsa til í lagaskemmunni, fleygja því út sem aldrei hefði átt þar inn að koma, sundra því sem sundurleitt er, en saman hefir verið hrúgað, og safna því saman er sundrað er …“ Nauðsynlegt sé að „fella niður það sem úrelt er orðið, eyða andstæðum o.s.frv.“ Hann brýtur hér bæði upp á lagahreinsun og svo samræmingu laga sem skipulega verði unnið að um nokkurt árabil. Ekki leiddi þessi skorinorða hugvekja Lárusar prófessors til lagaaðgerða.
    Prófessor Ólafur Lárusson ritaði grein í Vöku, 1. tbl. 1927, er hann nefndi Lög og landslýður. Þar gerðist hann talsmaður þess að Íslendingar settu sér lögbók sem tæki yfir mjög mikinn hluta af íslenskri lagaskipun. Jafnframt yrði þá endurskoðað gildi einstakra laga. Hann lagði m.a. til að öll dönsk lög yrðu afnumin áður en alþingishátíð yrði haldin 1930 og að þjóðin byggi upp frá því eingöngu við lög, er Alþingi Íslendinga hefði sett.
    Prófessor Ólafur Lárusson tókst á hendur útgáfu Lagasafns 1931. Þá og svo fyrr við útgáfu lagasafna urðu menn að taka afstöðu til þess hver lagafyrirmæli væru í gildi á þeim tíma er lagasafn var við miðað hverju sinni, þar á meðal hin eldri lagafyrirmæli. Útgefendur lagasafna hafa jafnan beitt varfærnislegri aðferð er meta skal hvort eldri lagaboð, sem öðlast hafa gildi hér á landi, væru niður fallin, t.d. vegna þess að þau samræmdust ekki meginviðhorfum í lagaskipuninni. Hafa þeir réttilega talið að löggjafinn ætti hér um að fjalla eða dómstólar að svo miklu leyti sem þessi álitaefni koma til þeirra kasta sem er raunar sjaldnast.
    Í formála fyrir Lagasafni 1973 víkur útgefandinn, Ármann Snævarr hæstaréttardómari, að lagahreinsuninni. Þar segir svo: „Við lestur laga þeirra, er lagasafn þetta geymir, er auðsætt, að brýn þörf er á allsherjarlagahreinsun á landi hér. Allmargt er hér af gömlum lögum, sem um margt hafa lifað sjálf sig vegna breyttra þjóðfélagshátta o.fl., þótt enn lifi þau góðu lífi í lagasafni. All oft hafa og yngri lög raskað grundvelli undir tilteknum lögum, og jafnvel ber það við, að við samningu yngri laga hefir gleymst að afnema eldri lög. Er hér úr vöndu að ráða fyrir útgefanda lagasafns, og væri æskilegt, að stofnað væri til allsherjarkönnunar þessara mála. Kæmi til greina að skipa laganefnd skv. lögum 48/1929 og fela henni þetta verkefni, en Alþingi tæki síðan afstöðu til mála á grundvelli lagafrumvarpa.“ Síðan segir: „Brýn þörf er á gagngerðri athugun á samningu lagafrumvarpa og tæknilegri könnun frumvarpa til laga. Mætti vera, að lagastofnun t.d. í tengslum við dómsmálaráðuneytið, sem fjallaði um undirbúning og tæknilega athugun lagafrumvarpa, gæti einnig tekið að sér útgáfu lagasafns og stjórnartíðinda. Stundum er gengið svo frá lögum að miklum erfiðleikum veldur við útgáfu lagasafns, ekki sízt lögum, er breyta eldri lögum.
    Nauðsyn ber til þess, að eigi síðar en einu sinni á ári sé samin og gefin út sérstök lagaskrá, þar sem lögum sé skipað í bálka með sama hætti og í lagasafni og yfirlit birt yfir brottfallin lög og lög, sem breytingum hafa sætt. Hefi ég gefið út slíkar skrár nokkrum sinnum, nánast vegna lögfræðikennslu. Slíkar skrár ættu að auðvelda mönnum mjög að leiðrétta lagasöfn sín. Á það skal þó ekki síður lögð áherzla, að brýn þörf er á að gefa út lagasafn með skemmra árabili en nú er, t.d. þriðja hvert ár.“
    Ætlunin var sú að í kjölfar lagasafnsútgáfu 1973 færi fram víðtæk rannsókn á lögum er ekki hefðu framar þýðingu og svo könnun á samræmingu laga. Við það tengdust umræður um að komið yrði á fót lagastofnun í tengslum við dómsmálaráðuneyti en með sjálfstæðri stöðu. Átti hún að gegna mikilvægu hlutverki um undirbúning lagafrumvarpa og lagatæknilega könnun á stjórnarfrumvörpum og reglugerðum o.fl. Var hugsunin sú að þessi stofnun hefði m.a. frumkvæði að lagahreinsun og lagasamræmingu og nýmælum í löggjöf eða yfirumsjón með því verki. Þáverandi dómsmálaráðherra Ólafur Jóhannesson hafði góðan skilning á þessum hugmyndum, en úr framkvæmdum varð ekki vegna fjárskorts. Benda má á að Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra lét kanna hugmynd um lagastofnun árin 1955 og 1956.
    Á Alþingi 1981 fluttu þeir Benedikt Gröndal og Sighvatur Björgvinsson tillögu til þingsályktunar um lagahreinsun og árlegt lagasafn. Var þar gert ráð fyrir að laganefnd samkvæmt lögum nr. 48/1929 skyldi skipuð og hefði hún m.a. það hlutverk að undirbúa lagafrumvarp um afnám laga sem ekki hefðu lengur raunhæfa þýðingu. Tillaga þessi sem var um margt svipuð hugmyndum þeim sem greindar eru að framan úr formála fyrir Lagasafni 1973 varð ekki útrædd.
    Skömmu síðar var svo flutt tillaga sú til þingsályktunar um lagahreinsun og lagasamræmingu sem greind er hér að framan. Með tillögunni var birt sem fylgiskjal greinargerð eftir Pál Sigurðsson dósent, sbr. Úlfljót 1984 1. tbl., en sama ár birtist ritgerð eftir Ármann Snævarr í Fjölriti Dómarafélags Íslands I um þetta efni. Í ritgerð hins fyrrnefnda var auk þess tekið undir tillögu Ólafs Lárussonar prófessors frá 1927 um lögbókargerð, sbr. hér að framan, en í þó nokkuð þrengri mynd. Í ritgerð hins síðarnefnda var auk þess rædd tillaga hans um að koma á fót lagastofnun við dómsmálaráðuneyti, Alþingi eða Háskóla Íslands.
    Um þetta efni má einnig vísa til Almennrar lögfræði eftir Ármann Snævarr, 1989, bls. 174 og áfram.

II.


Lagahreinsun, almennar athugasemdir.


A. Um aldur íslenskra laga.


    Íslensk löggjöf, sem nú er talin gilda, tekur yfir aldahaf, og spannar a.m.k. sjö aldir. Elsta lagaboðið er þáttur úr Kristinrétti Árna biskups Þorlákssonar frá 1275. Alls eru 47 kapítular eða kapítulaþættir úr Jónsbók frá 1281 teknir með í Lagasafn 1983, en 56 voru í Lagasafni 1931. Sum þau ákvæði Jónsbókar, sem enn eru í gildi, eru tekin úr Grágás eða samin á grundvelli hennar og með hana sem aðalheimild. Hvergi á Norðurlöndum eru jafngömul einstök lagaboð í gildi sem hér á landi.
    Enn er talin í gildi réttarbót Eiríks konungs Magnússonar frá 1294 og alþingisdómur um rekamark frá um 1300, en slíkir dómar töldust hafa lagagildi. Síðan tekur við mikil eyða. Er næsta lagaboð í gildi brot úr kirkjuskipan Kristjáns fjórða hinni norsku frá 1607, löggilt hér á landi 1629. Sjö lagaboð frá 17. öld eru tekin með í Lagasafn 1983, þrjátíu og sex frá 18. öld, en eitt hundrað og þrjú frá 19. öld. Í Lagasafni 1931 voru lagaboð frá 17. öld níu, frá 18. öld sextíu og frá 19. öld eitt hundrað níutíu og fimm. Hafa þessi eldri lagaboð því talsvert týnt tölunni á þessum rösklega fimmtíu árum. Þorri laga, sem nú eru í lagasafni, er frá þessari öld, einkum frá síðustu fimmtíu árunum.

B. Jónsbók og löggjöf er leysti hana af hólmi.


    Jónsbók var á sínum tíma lögbók með nokkuð samfelldri löggjöf, svo langt sem hún náði. Mörg ákvæði hennar voru þó tilvikakennd („kasúistísk“) eins og títt var um lög frá þessum tíma. Síðan hafa Íslendingar ekki sett sér lögbók. Til þess var stofnað af hálfu konungsvaldsins að ákvæði Norsku laga Kristjáns fimmta frá 1687 yrðu lögtekin hér á landi og með þeim hætti yrði þá að mestu komið á lögeiningu í löndunum þremur, Danmörku, Noregi og Íslandi, sbr. Dönsku lög Kristjáns fimmta frá 1683 sem eru í mjög mörgum greinum sama efnis og Norsku lög 1687. Ritaði konungur lögmönnum og biskupum bréf 14. apríl 1688 þar sem fyrir þá var lagt að semja lögbók fyrir Ísland sem skyldi sniðin svo sem frekast væru föng á eftir Norsku lögum. Þótt embættismennirnir semdu frumvarpið til lögbókar náði það ekki staðfestingu. Síðar var þetta boð um að semja lögbók fyrir Ísland áréttað með bréfi konungs 29. maí 1719 og var þá nefnd manna skipuð í þessu skyni. Voru þá einnig samin drög til frumvarps um lögbók er náðu þó eigi staðfestingu konungs. Ýmsir kaflar Dönsku og Norsku laga voru lögfestir með sérstökum lagaboðum smám saman, sbr. t.d. réttarfarsákvæði Norsku laga með opnu bréfi 2. maí 1732, refsiákvæðin um manndráp og þjófnað með opnu bréfi 19. febrúar 1732, ákvæði Norsku laga um lögerfðir með konungsbéfi 17. febrúar 1769. Með tilskipun 21. desember 1831 voru lögfest ákvæði Dönsku laga um lögræði og fjárhald og ákvæði Dönsku laga og yngri tilskipana um þinglýsingar voru lögfest með tilskipun um afsalsbréf og pantsetningar á Íslandi að því er varðar Reykjavík, sbr. tilskipun 24. apríl 1838. Í þessu sambandi má geta þess að með tilskipun 24. janúar 1838 voru lögleidd í senn hér á landi nálega öll refsilöggjöf Danmerkur án þess þó að hún væri sérgreind og var hún þó á víð og dreif og raunar örðugt að segja skil á hver lagaboð væru gild. Var það vitaskuld gersamlega ótæk lögleiðsla og raunar fráleit.
    Alkunna er að mikil réttaróvissa ríkti hér á landi öldum saman, einkum vegna þess að óljóst var hver dönsk lagaboð hefðu verið lögfest hér á landi. Oft var dönskum lögum beitt gagnrýnislaust sem aldrei höfðu verið lögleidd hér. Það varð ekki síst verkefni Hins konunglega íslenska Landsyfirréttar er stofnaður var með tilskipun 11. júlí 1800 að greiða úr þessari óvissu. Munaði þar eflaust mest um framlög fyrsta dómstjórans Magnúsar Stephensens sem hafði rannsakað þetta mál manna mest og ritað um það doktorsritgerð 1819.

C. Mat á gildi gamalla lagaboða.


    Mat á gildi gamalla lagaboða getur verið örðugt. Frumþáttur þess er að hyggja að gögnum um lögleiðslu lagaboðs og birtingu þess hér á landi. Einnig hefur verið talið að gildi lagaboðs geti helgast af langri, óslitinni beitingu þess þótt ekki hafi það verið lögleitt eða birt hér á landi. Kemur þetta víða fram í lagasöfnum og í dómum. Hér verður að gæta að framkvæmdarvenjum. Á hinn veg ber að kanna hvort þessi eldri lagaboð eru fallin niður annað tveggja með beinum ákvæðum yngri laga eða lagastefnu þeirra. Þá er þess að gæta að lög geta fallið niður fyrir notkunarleysi er þeim hefur ekki verið beitt um langan aldur (svonefnd „desvetudo“).
    Útgefendur íslenskra lagasafna hafa unnið mikið og vandasamt könnunarstarf í þessu efni, en þeir hafa jafnaðarlega beitt varfærnislegum vinnubrögðum að því er varðar síðastnefnda atriðið. Í þessu sambandi má einkum nefna hið mikla safnrit, Lovsamling for Island í 21 bindi er þeir Jón Sigurðsson og Oddgeir Stephensen o.fl. sáu um útgáfu á og svo síðari útgáfu lagasafna, þar á meðal lagasafnsútgáfu Ólafs Lárussonar 1931.
    Tvö dæmi skulu nefnd úr dómasöfnum til skýringar á viðhorfum um mat á gildi laga. Fyrra dæmið sýnir að skoðanir geta vissulega verið skiptar um mat þetta. Í dómi Landsyfirréttarins frá 1878, sbr. dómasafn I, bls. 298, er byggt á því, að tilskipun 8. janúar 1802 sé gild lög. Í dómi Landsyfirréttarins frá 1895, sbr. dómasafn V, bls. 120, er hins vegar dæmt að þetta lagaboð hafi aldrei öðlast gildi hér á landi. Hitt dæmið varðar réttarvenju sem heimild um gildi lagaboðs, þ.e. að lagaboð verði talið gild lög vegna þess að farið hafi verið eftir því langtímum saman og hafi þannig helgast af venju. Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 1954 (hrd. XXV: 494) var fjallað um gildi tilskipunar 19. desember 1693 um uppboðsþing í Danmörku og Noregi. Segir í dóminum að lagaboð þetta hafi aldrei verið birt hér á landi „og því ekki öðlast hér gildi sem sett lög“. Tekið hafi verið að fylgja ákvæðum tilskipunarinnar fyrir aldamót 1800 og byggt á þeim sem gildum lögum í tilskipun 21. júní 1793. Síðan segir: „Tilskipunin frá 1693 eða ákvæði úr henni hafa þannig verið framkvæmd hér á landi meira en hálfa aðra öld og jafnan verið tekin upp í lagasöfn um gildandi íslensk lög og er þess þá að jafnaði getið að tilskipunin hafi ekki verið birt hér, en fylgt í framkvæmd. Þar sem svo lengi hefir verið farið eftir ákvæðum tilskipunarinnar frá 1693, hafa þau helgast af venju og yngri lögum og orðið gildar íslenskar réttarreglur.“ Sbr. t.d. einnig opið bréf 8. júní 1811, um meðferð á fundnu fé í kaupstöðum, og athugasemd í Lagasafni um gildi þess.

III.


Viðhorf lagahreinsunarnefndar.


A. Úrelt ákvæði ber að afnema formlega.


    Könnun á lögum og lagaboðum, sem tekin eru í Lagasafn 1983, leiðir í ljós að þar eru lagaboð sem eru gersamlega úrelt þótt ekki hafi þau verið formlega afnumin. Er eðlilegt að útgefendur lagasafns beiti hér varfærnislegri aðferð og ætli löggjafanum það verkefni að afnema lög með formlegum hætti. Lagaboð þau, sem hér eru höfð í huga, ganga stundum í berhögg við meginreglur íslenskra laga, svo sem nú er komið lagaþróun, og markaða lagastefnu. Í annan tíma eru þjóðlífsaðstæður gerbreyttar og lögin geta ekki lengur átt við. Gæta ber þess þó að stundum er hægt að beita ákvæðum gamalla laga að meginstefnu til, en viss atriði eru þar sem samlaga verður aðstæðum nú og lagareglum. Nefna má sem dæmi þessa Jónsbók Þjófabálk 14. kap. um fundið fé sem unnt er að beita með hliðsjón af opnum bréfum 8. júní 1811 og 5. desember 1812, en þó svo að þargreindar reglur um lýsingu fundins fjár verður að samlaga þjóðfélagsaðstæðum og færa til nútímahorfs. Við mat á gildi gamalla lagaboða verður enn að hafa í huga notkunarleysi þeirra, svo sem áður greinir.
    Rök mæla með því að lagaákvæði, sem úrelt eru og gegna ekki lengur tilætluðu hlutverki, séu formlega numin úr lögum. Þau tilheyra raunverulega réttarsögunni. Slík ákvæði flækjast fyrir í lagasöfnum og stafar raunar kostnaður af prentun þeirra þar. Hitt er þó mikilvægara að þau geta valdið óvissu í lagaframkvæmdinni. Sum þessara lagaboða eru raunar afkáraleg frá sjónarmiði nútímans og brjóta í bága við undirstöðureglur íslenskrar löggjafar.

B. Mismunandi aðferðir við lagahreinsun.


    Fleiri aðferð en ein koma til greina við lagahreinsun og lagasamræmingu.
    1. Við samningu og setningu heildarlaga um ýmis efni, sem kveðið hefur mikið að síðustu áratugi, hafa mörg úrelt ákvæði verið afnumin og þá fyrst og fremst vegna þess að ný ákvæði hafa verið í lagafrumvörpum sem ætlað hefur verið að leysa hin eldri af hólmi. Má hér nefna lög um meðferð einkamála í héraði, nr. 85/1936, lög um meðferð opinberra mála, nr. 27/1951 (nú 74/1974), almenn hegningarlög, nr. 19/1940, lögin um stofnun og slit hjúskapar, nr. 39 1921 (nú 60/1972), lögin um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923, og lög á sviði kirkjuréttar, m.a. frá þessum áratug. Hér má einnig nefna lög um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 42/1969 (nú 8/1986), vatnalög nr. 15/1923 og lax- og silungsveiðilögin nr. 61/1932 (nú 76 1970) og erfðalög nr. 42/1949 (nú 8/1962).
    2. Ýmis önnur heildarlög horfa mjög til samræmingar á löggjöf þótt ekki sé þar vikið verulega að gömlum lagaboðum. Meðal dæma þessa eru hafnalög nr. 29/1946 (nú 69/1984), sem komu í stað margra lagabálka um einstakar hafnir hér á landi og samræmdu ákvæði þeirra, lög nr. 37/1948 (nú 74/1982), um brunavarnir og brunamál, sem leystu af hólmi m.a. lög um slökkvilið í einstökum kaupstöðum, og sveitarstjórnarlög 58/1961 (nú 8/1986). Þá má enn fremur nefna lög um viðskiptabanka, nr. 86/1985, lög um framhaldsskóla, nr. 57 1988, og lög um lögreglusamþykktir, nr. 36/1988.
    Innan þessa flokks má sérstaklega geta laganna nr. 75/1982 og 10/1983, um breytingu á sektarmörkum nokkurra laga. Með þeim lögum eru sektarmörk allmargra laga samræmd og mörkuð þar sú refsistefna að hverfa skuli frá því að greina lágmark og hámark fésekta í einstökum ákvæðum. Ræðst þetta tvennt þá af almennu ákvæðunum í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, 50. gr., eins og efni hennar er markað á hverjum tíma, sbr. nú lög 42/1985, 7. gr. Halda þyrfti áfram þessu samræmingarstarfi að því er varðar fésektir sérrefsilaga. Enn fremur má benda á að ákvæði sérrefsilaga um eignarupptöku og réttindasviptingu þyrfti að samræma og kanna ákvæði um ítrekun í slíkum lögum með samræmingu í huga og raunar einnig fáein ákvæði sérrefsilaga um sakarfyrningu.
    3. Lög nr. 20/1988, um brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála, fjalla gagngert um brottnám laga á tilteknu sviði, og eru þau dæmi um svonefnda „hreina“ brottfellingu laga. Sama er um lög nr. 26/1989, um brottfall ýmissa laga á sviði menntamála, og lög nr. 33/1989, um afnám ýmissa laga um iðnaðar- og orkumál.

C. Afstaða lagahreinsunarnefndar til nokkurra grundvallaratriða.


    Við samningu og setningu heildarlaga á tilteknu sviði fer jafnaðarlega fram víðtæk könnun á lögum og lagaákvæðum er varða það svið sem frumvarpi er ætlað að taka til. Að ýmsu leyti er þetta tryggasta aðferðin við lagahreinsun og samræmingu laga. Hitt er það að slík heildarendurskoðun laga á tilteknum sviðum er fremur hæggeng hér á landi og nær auk þess ekki til allra þeirra lagasviða sem hér þarf að kanna. Er því vafalaust réttmætt að taka til athugunar almennt þörf á lagahreinsun.
    Sérstakar nefndir starfa nú að endurskoðun laga á nokkrum lagasviðum. Má þar nefna réttarfarsnefnd, kirkjulaganefnd og sifjalaganefnd, nefnd er fjallar um barnaverndarlöggjöf, svo og framfærslulög o.fl. Er eðlilegt að sérnefndir þessar fjalli m.a. um afnám úreltra laga á þeim lagasviðum er verkefni þeirra ná til. Í frumvarpi því, sem hér hefur verið samið, er þó gert ráð fyrir afnámi nokkurra lagaboða á sviði kirkjuréttar.
    Við vinnubrögð að lagahreinsun ber að áliti nefndarinnar að skirrast við að hreyfa við hinum elstu lagaboðum sem í gildi eru og prýða íslensk lagasöfn og hlýtur það sjónarmið þó að þoka fyrir brýnni nauðsyn ef slíku er að skipta. Yfirleitt eru þau lagaákvæði Jónsbókar, sem talin eru í gildi, með þeim hætti að þau ganga ekki í berhögg við nútímalög eða lagaviðhorf, en gæta ber þess, svo sem áður greinir, að samlaga einstök ákvæði þeirra meginreglum laga eða einstökum settum lagaákvæðum þegar þeim er beitt. Veldur það sjaldnast vafa. Athyglisvert er að til nokkurra Jónsbókarákvæða hefur verið vísað í hæstaréttardómum á síðustu árum. Í þessu lagahreinsunarstarfi ber því öðrum þræði að gæta lagaverndarsjónarmiða og þyrma hinum fornu lögum.
    Ekki verður fallist á þá skoðun að gömul lagaboð séu ónothæf og einskis nýt aldursins eins vegna. Þetta mál verður að kanna hverju sinni. Hér á raunsæisleg virðing að ráða. Könnun á meginreglum nútímalaga og lagaviðhorfum skiptir hér miku máli og með vísan til þess er oft réttmætt að leggja til að lagaboð sé afnumið eða þættir þess. Gamalt lagaboð á enn fremur ekki að fella úr gildi fyrir það eitt að það hafi ekki verið birt hér á landi, þegar leitt er í ljós að því hefur verið fylgt um langan aldur, sbr. hér hrd. XXV (1954):494, er áður greinir.
    Þess var áður getið að lög geta fallið úr gildi fyrir það að þeim hefur ekki verið beitt um langan aldur (notkunarleysi). Þessu lagasjónarmiði er þó beitt með varfærni bæði við útgáfu lagasafna og eins í dómum hér á landi. Málið horfir annan veg við í því starfi sem liggur til grundvallar frumvarpi þessu. Nefndin hefur gefið því sérstakan gaum hvort einstökum lögum eða lagaákvæðum hafi ekki verið beitt alllengi í reynd. Ef svo reynist, að áliti nefndarinnar, er lagt til að þau verði afnumin út frá því sjónarmiði að þau gegni ekki sérstöku hlutverki og án tillits til þess hvort sérreglur um notkunarleysi eigi beinlínis við.

IV.


Athugasemdir um nokkra flokka laga og réttarreglna.


    Ástæða er til að víkja hér sérstaklega að nokkrum flokkum laga sem alltíðir eru í lagasetningunni og greina frá afstöðu nefndarinnar til þeirra. Lög þau, er að er vikið í IV, A, B og C, eru tíðast „einnota lög“, ef svo má að orði komast, einskorðuð við tiltekinn gerning.

A. Eignarnámslög.


    Samkvæmt 67. gr. stjórnarskrár getur eignarnám ekki farið fram, nema það hafi stoð í settum lögum. Eru þær heimildir í reynd ýmist almennar, sbr. t.d. vatnalög, hafnalög og skipulagslög o.fl., eða sérgreindar, þ.e. víkja að tilteknum eignum sem taka má eignarnámi, sbr. t.d. lög nr. 110/1974 og nr. 57/1979. Allmargt er af síðargreindum lögum í lagasafni. Er oft einsætt að eignarnám hefur farið fram á grundvelli laganna. Þau hafa þá gegnt hlutverki sínu. Yfirfærsla eignarréttinda, beinna eða óbeinna, styðst þá við eignarnámsgerðina sem slíka. Vafalaust er forsvaranlegt að prenta aðeins fyrirsögn, en ekki texta, slíkra laga í lagasafni. Hinu má einnig hreyfa að réttmætt sé að fella þau úr gildi og er ótvírætt að afnám þeirra haggar ekki við gildi eignarnáms er fram hefur farið í skjóli þeirra, sbr. hér á eftir 13. gr. frumvarpsins og athugasemdir við hana.

B. Lög er varða lántökur.


    Lög um þetta efni hafa að jafnaði gegnt hlutverki sínu þegar lántökuheimildar hefur verið neytt að fullu. Telur nefndin réttmætt að hreinsa til í lagasafni að því er þessa löggjöf varðar þ.e. með formlegri brottfellingu hennar, sjá hér á eftir 11. gr. frumvarpsins og athugasemdir við hana.

C. Lög er varða ríkisábyrgðir.


    Um þessi lög reynir á svipuð viðhorf sem um lög skv. IV. B. Hér er einnig réttmætt að hreinsa til, sjá 8. gr. frumvarpsins og athugasemdir við hana.

D. Lög um efnahagsmál, þar á meðal gengismálefni.


    Lög um efnahagsmál, þar á meðal gengismál og tolla- og skattalög er tengjast þeim, skera sig nokkuð úr að því leyti að við setningu laga á því sviði er ekki nema að litlu leyti tekin afstaða til eldri laga á sama sviði og frambúðargildis þeirra. Brýn þörf er á að gagnger endurskoðun af hálfu sérfræðinga fari fram á þessum lagavettvangi. Lagahreinsunarnefnd hefur látið gera tölvuútskrift á lögum er varða þetta efni, svo og lögum á sviðum sem heyra undir II. A–C liði hér að framan, sem ætti að geta haft nokkurt leiðsögugildi. Farið hefur verið með löndum í tillögugerð í frumvarpi þessu um afnám laga á þessu sviði. Æskilegt væri að forsætisráðherra beitti sér fyrir skipun sérfræðinganefndar sem jafnframt yrði samvinnunefnd þeirra ráðuneyta og stofnana er um þessi mál hafa fjallað til frekari athugunar á þessum lagaflokkum.

E. Eldri réttarreglur.


    Lagafyrirmæli voru ekki nefnd lög fyrr en á 19. öld. Tilskipanir, opin bréf, úrskurðir og jafnvel ráðuneytisbréf voru áður fyrr talin hafa lagagildi (og raunar alþingisdómar) og eru ýmis þeirra tekin með í lagasöfn. Nær rannsókn sú, sem liggur til grundvallar frumvarpi þessu, m.a. til þessara fyrirmæla og er lagt til að allmikill fjöldi þeirra verði nú afnuminn. Fyrirmæli framkvæmdarvalds eftir 1874 hafa hins vegar ekki lagagildi og eru ekki greind í frumvarpinu, t.d. tilskipun um lyfjaskrá, nr. 86/1965, sem að vísu er tekin með í Lagasafni 1983.

V.
Samræming löggjafar o.fl.

    Meðal verkefna hinnar þingkjörnu nefndar á að vera að setja fram hugmyndir um samræmingu löggjafar. Þetta er raunar óskýrgreint verkefni, en hlýtur að vera geysivíðtækt. Heppilegust vinnubrögð við það eru að nefndir sérfræðinga á tilteknum lagasviðum fjalli um það, en öðrum þræði ætti þetta að vera samstarfsverkefni milli ráðuneyta. Eins og áður greinir hefur mikið starf verið unnið að samræmingu laga með setningu heildarlaga á afmörkuðum sviðum. Þyrfti að gera meira að þessu en orðið er og vinna þar eftir samræmdum áætlunum. Raunar ætti þetta verkefni að vera enn víðtækara. Gefa þarf sérstakan gaum að ýmsum lagatæknilegum þáttum í lögum við samningu lagafrumvarpa og er þarflegt að endurskoða ýmis lög út frá þessu sjónarmiði. Bíður slík endurskoðun væntanlega uns komið hefur verið á fót lagastofnun annaðhvort í tengslum við dómsmálaráðuneyti, Alþingi eða við Háskóla Íslands, svo sem hugmyndir hafa verið settar fram um. Er æskilegt að stofnað verði til rannsókna á lagatækniatriðum og kennslu á því sviði á vegum lagadeildar Háskólans, væntanlega í tengslum við réttarheimildafræði sem gefa þarf aukinn gaum að hér á landi.
    Mörg svið íslenskrar löggjafar þarfnast könnunar í því skyni að samræma ákvæði þeirra og fella dreifð lög í samfellda lagabálka. Hér áður var minnst á efnahagslöggjöfina, þar á meðal löggjöf um gengismál. Einnig mætti benda á félagsmálalöggjöfina, landbúnaðar- og landsnytjalöggjöf, orkulöggjöf, þar á meðal um jarðhitaréttindi, og félagalöggjöf. Almenna umhverfismálalöggjöf skortir þar sem hyggja ætti að ýmsum samræmingarverkefnum og taka ætti á því verkefni, hvernig stjórnsýsla yrði samræmd á því mikilvæga sviði. Þá skortir mjög almenn stjórnsýslulög sem einnig mundu horfa til samræmingar, svo og löggjöf um aðgang að opinberum stjórnsýslugögnum, en frumvarp til stjórnsýslulaga hefur verið flutt á Alþingi og hlaut ekki afgreiðslu. Stundum eru áberandi eyður í löggjöf. Þannig eru lög sett um fasteignasala, en löggjöf um fasteignasölu skortir. Þá hafa norrænu lögin um afborgunarkaup ekki verið lögfest og gegnir hinu sama um lög um skuldabréf.
    Við samræmingarstarf þyrfti að huga að þörfinni á að fella saman lagabálka. Sem dæmi þessa má nefna löggjöfina um veiði dýra, friðun dýra og dýravernd. Hreyfa má einnig þeirri hugmynd að fella saman í einn lagabálk farsóttalög nr. 10/1958, sóttvarnarlög nr. 34/1954, berklavarnalög nr. 66/1939 og lög um varnir gegn kynsjúkdómum, nr. 16/1978, og e.t.v. fleiri lög á þessu sviði.
    Hin svonefndu afstæðu lagahugtök geta vissulega átt rétt á sér, t.d. svo að hugtakið skip sé ekki skýrgreint með sama hætti hvarvetna sem á það reynir í lögum. Grunnhugtök, sem skýrgreind hafa verið í lögum, ætti þó að beita samræmt, svo sem hugtakinu forsjá, en allvíða er enn í lögum talað um foreldravald. Fjármálamynstur laga um fjármál hjóna ætti einnig að leggja til grundvallar í öðrum lögum. Æskilegt væri að kanna í þessu sambandi hvort ekki sé réttmætt að beita sama greinimarki um hugtakið „óvígða sambúð“ hvarvetna sem það er greint í lögum, en þessu er ekki svo farið nú. Áður var hér rætt um samræmingu almennra hegningarlaga og sérrefsilaga, svo sem varðandi fésektir og mörk þeirra, ítrekun, réttindasviptingu, eignarupptöku og sakarfyrningu.
    Í nokkrum tengslum við framangreint mætti nefna þörfina á því að hverfa frá óþörfum lagaákvæðum. Þegar refsiákvæði hefur verið greint í lögum er þess jafnan getið að mál út af brotum á lögunum sæti meðferð opinberra mála eða orðalag er notað er jafngildi því. Slíks ákvæðis er naumast þörf því að 1. gr. laga nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála, kveður afdráttarlaust svo á að mál, sem handhafar ríkisvalds höfði til refsingar „lögum samkvæmt“, skuli hlíta ákvæðum þeirra laga, þ.e. laga nr. 74/1974, en rannsóknar- og ákæruskylda almennt er fólgin í réttarfarslögum þótt e.t.v. mætti kveða þar fastar að orði. Annað dæmi mætti nefna. Í langflestum lögum nú er það ákvæði að lögin taki gildi þegar í stað, þ.e. eftir birtingu þeirra. Hægt væri að breyta lögum nr. 64/1943, um birtingu laga o.fl., 7. gr., svo að lög tækju gildi þegar í stað eftir birtingu nema þau greini annan gildistökudag. Einnig má benda á að í einstökum lagaákvæðum í lagabálki er þess oft getið að heimilt sé að setja nánari reglur í reglugerð um þau efni er ákvæðið fjallar um, en síðan er t.d. í lok lagabálksins almennt ákvæði um setningu reglugerðar. Oft dugir að hafa almennt ákvæði um þetta efni þótt sjálfsagt sé það ekki algilt. Raunar hillir hér undir annað mikið álitamál, þ.e. um tengslin milli löggjafar og stjórnsýslu og í hverjum mæli löggjafinn geti falið stjórnvöldum að ráða málum til lykta með stjórnvaldsreglum. Þarf að gefa því máli mikinn gaum, en það er stærra verkefni en svo að hér verði rætt.
    Þegar meginbreytingar eru gerðar á ákveðnu lagasviði, svo sem um sveitarstjórnarmál eða réttarfarsmálefni, er þörf á rækilegri könnun á annarri löggjöf sem breyta þarf til samræmis. Nýleg dæmi má nefna. Vegna breytinga á skipan sveitarstjórnarmála með lögum 8/1986 var ákvæðum ýmissa annarra laga breytt til samræmis, sbr. lög nr. 108/1988, eða þau felld niður. Lög nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, gera það knýjandi að breyta löggjöf og lagaákvæðum er byggja á hinni eldri skipan, sbr. nú lög nr. 85, 86 og 90 frá 1989. Að öðrum frumvörpum er nú unnið. Á báðum þessum sviðum hefur verið tekið rösklega á samræmingarverkefni. Hins vegar fóru menn sér tiltölulega hægt í að breyta ákvæðum um konung og vald hans í einstökum lögum eftir að lýðveldi var stofnað 17. júní 1944. Annað dæmi má nefna. Þegar sáttanefndir voru afnumdar með lögum nr. 28/1981 var þess ekki gætt að breyta í kjölfar þessa 44. gr. laga nr. 60/1972 er fjallar um sáttir vegna skilnaða, en frumvarp til lagabreytingar hefur nú verið flutt.
    Í nokkrum tengslum við þetta mál má svo benda á að mikil þörf er á rannsóknum á lagatækni og grundvallarsjónarmiðum um samningu lagafrumvarpa, m.a. þyrfti að fjalla um það mál í rannsóknar- og kennslustarfsemi í Háskólanum.
    Um samræmingarverkefni það, sem þingsályktunin frá 22. maí 1984 víkur að, telur nefndin að miðað við starfsaðstöðu hafi hún ekki tök á að gera annað en að setja fram þær almennu ábendingar er að framan greinir. Áréttað skal að sumpart eru það eðlileg vinnubrögð að fela sérfræðinganefndum á tilteknum sviðum þetta verkefni og sumpart gæti það verið samstarfsverkefni milli ráðuneyta, en auk þess gæti það komið í hlut hugsanlegrar lagastofnunar er tengdist dómsmálaráðuneyti, Alþingi eða Háskóla Íslands.
    Þessum þætti skal svo ljúka með því að bent sé á þörfina á því að í upphafi árs sé gefin út skrá um ný lög, skipað t.d. eftir efnisskipulagi lagasafns, og svo um breytt lög með sama hætti og skráin taki þá einnig til brottfallinna laga. Mætti t.d. hugsa sér að þessi skrá yrði birt sem sérstakt fylgirit með A-deild Stjórnartíðinda. Skráin gæti gegnt góðu hlutverki og verið til hægðarauka fyrir þá mörgu menn sem fjalla um lög. Þá skal á það bent að rík þörf er á að endurútgefa lög sem sætt hafa verulegum breytingum og er allt of lítið gert að þessu, sbr. t.d. almannatryggingalög, skattalög og almenn hegningarlög. Má í því efni leita fyrirmynda til Danmerkur, en þar er þess vel gætt að endurútgefa lög.

VI.


Vinnubrögð við samningu frumvarpsins.


    Formaður nefndarinnar tók saman drög til frumvarpsins, er nefndin kannaði og ræddi. Að svo búnu ákvað nefndin að fela honum að leita umsagna ráðuneyta og ýmissa stofnana um hugmyndir þær er fólust í frumvarpsdrögunum. Voru bréf um það send viðkomandi ráðuneytum og stofnunum í september 1988 og síðar vorið 1989. Svör hafa borist frá öllum aðilum. Í allmörgum tilvikum átti formaður fund með starfsmönnum ráðuneyta og stofnana í sambandi við þetta verkefni. Að svo búnu fjallaði nefndin um endurskoðuð drög til frumvarpsins er formaður nefndarinnar tók saman á grundvelli umsagnanna. Nefndin fól formanni að semja greinargerð með frumvarpinu.
    Þessi vinnubrögð ættu að greiða fyrir því að unnt verði að flytja frumvarpið á Alþingi hið fyrsta.

VII.


Uppbygging lagafrumvarpsins.


    Frumvarpinu er hagað með þeim hætti að lögum eða lagaákvæðum, sem lagt er til að afnumin verði, er skipað í efnisflokka eftir skipulagi lagasafnsins í stórum dráttum. Ætti þetta bæði að vera til hægari verka fyrir þingmenn og þingnefndir og síðan fyrir þá sem við lögin eiga að búa. Í fylgiskjali með frumvarpinu er lögum, lagaboðum og lagaákvæðum skipað í aldursröð, þeim er frumvarpið tekur til. Sá háttur, sem hér er valinn, hefur einnig þann kost með sér að auðvelt er í þinginu að bæta við lögum, er lagt er til að afnumin verði, án þess að greinatala frumvarpsins raskist.
    Lögin, sem lagt er til að afnumin verði í frumvarpi þessu, eru 263 talsins, en einnig er lagt til að einstök ákvæði í 16 lögum til viðbótar verði úr gildi felld. Varðar frumvarpið því samtals 279 lög. Flokka má lögin, er frumvarpið tekur til, eftir aldri þeirra, svo sem hér segir:

1. Lagaboð frá 1800 og eldri
8
2. Lagaboð frá 1800–1900
24
3. Lög frá 1901–1950
94
4. Lög frá 1951 og yngri lög
153
Alls 279

Almennar athugasemdir við frumvarpið.


    Hér að framan er getið um þær viðmiðanir sem nefndin hefur beitt við mat á því hvort einstök lög eigi að nema úr gildi. Í fyrsta lagi má vera að lög samrýmist ekki síðar settum lögum efnislega og eigi þá eldri lögin að þoka að því skapi. Í öðru lagi má vera að lög, einkum hin eldri, brjóti í bága við meginreglu síðari laga eða almennar lagahugmyndir og lagastefnu. Þá er á það að líta að í ljós kann að vera leitt að tilteknum lögum hafi ekki verið beitt um langan aldur og þyki þau ekki gegna neinu hlutverki eins og nú er komið. Getur þá verið ástæða til að nema þau úr gildi. Enn fremur getur brottfellingarástæðan verið sú að lög hafi þegar gegnt tilætluðu hlutverki, sbr. t.d. eignarnámslög, lög um ríkisábyrgðir og lántökur. Er heppilegt að fá formlega staðfestingu Alþingis á því að slík lög séu úr gildi fallin. Árleg lög um veitingu ríkisborgararéttar þarf ekki að fella úr gildi og raunar má nefna að þau eru ekki prentuð í lagasafni. Sama er um heimildir í fjárlögum. Naumast er mikil þörf á að greina ítarlega við hvert einstakt ákvæði frumvarpsins hver ástæðan sé til tillögu um að lagaboð verði afnumið. Jafnaðarlega liggja þau rök í augum uppi.
    Vissulega hlýtur að orka tvímælis hversu langt verði gengið í að afnema einstök lög. Má vel vera að sumum þyki nefndin hafa gengið of skammt í þessu efni. En hvort tveggja er að einstakir þingmenn og þingnefndir geta hæglega bætt við fleiri lögum og eins er á það að líta að vonandi verður fljótlega haldið áfram því starfi sem þessi þingkjörna nefnd hefur nú innt af hendi.
    Skal nú farið nokkrum orðum um hverja einstaka grein frumvarpsins, en þó áður getið eins atriðis almenns efnis.

Fyrirsögn frumvarpsins.


    Lagt er til að lögin nefnist lög um brottfall laga og lagaákvæða, en orðið afnám er ekki notað hér. Þetta stafar af því að allmörg þeirra laga, er frumvarpið tekur til, eru þegar fallin úr gildi og því ekki afnumin með frumvarpi þessu ef lögleitt verður. Að þessu leyti er með frumvarpinu leitað eftir formlegri staðfestingu Alþingis á brottfalli ýmissa þeirra laga er frumvarpið fjallar um. Ákvæði 1. gr. frumvarpsins, sbr. gildistökuákvæði 31. gr., ber að skýra út frá þessari forsendu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Vísað er til almennra athugasemda hér næst á undan.

Um 2. gr.


    Lagt er til í 1.–3. tölul. að nokkur lagaboð verði numin úr gildi er varða skjöl sem send eru ráðuneytum. Er ekki gengið eftir því nú að farið sé eftir þessum fyrirmælum og eru þau úrelt. Tekið er fram að ekki þykir að svo stöddu rétt að afnema opið bréf 12. mars 1870, um rétt manna til að fá eftirrit af vissum skjölum, er fela í sér álit um erindi til stjórnvalda. Bíður það nýrra stjórnsýslulaga að leysa það lagaboð af hólmi.
    Lagaboð þau, er greinir í 4.–7. tölul. hafa ekki raunhæft gildi og sumpart eru önnur ákvæði laga eða stjórnsýsluvenjur komnar í þeirra stað.
    Haft hefur verið samráð við dómsmálaráðuneyti um efni greinarinnar.

Um 3. gr.


    Í 1.–6. tölul. er lagt til að höfðu samráði við fjármálaráðuneyti að ýmis eldri lagafyrirmæli um lífeyri opinberra starfsmanna eða einstakra flokka þeirra verði numin úr lögum, enda gegna þau ekki neinu hlutverki lengur.
    Í 7. tölul. er lagt til að 5. gr. laga nr. 36/1911, um forgangsrétt kandídata frá Háskóla Íslands til embætta, verði afnumin, en ákvæðið varðar þá sem tóku embættispróf frá Kaupmannahafnarháskóla fyrir 1916. Það ákvæði er nú gildislaust. Samráð hafa verið höfð við Háskóla Íslands og Bandalag háskólamanna.

Um 4. gr.


    Í 1. og 3.–5. tölul. er lagt til að höfðu samráði við hagstofustjóra að nokkur lög og lagaákvæði, er varða landshagi, hagfræðiskýrslur og Hagstofu, séu numin úr lögum.
    Í 2. tölul. er lagt til að lög nr. 30/1956, um skráningu Íslendinga til stuðnings mannfræði- og ættfræðirannsóknum hér á landi, verði afnumin enda hefur þeim ekki verið beitt um alllanga hríð.

Um 5. gr.


    Hér er lagt til í 1.–7. tölul. að nokkur eldri lagaboð um gjaldheimtu og gjaldheimtumenn opinberra gjalda verði felld brott. Hvort tveggja er að þeim hefur ekki verið beitt um langan aldur og sumpart eru önnur ákvæði laga komin að verulegu leyti í þeirra stað. Með 99. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, eru lagaboð, er greinir í 1. og 4. tölul. greinarinnar, að vísu numin úr lögum, en þó svo að lög nr. 90/1989 taka ekki gildi fyrr en 1. júlí 1992. Þykir réttmætt að afnema þessi lagaboð nú þegar og eru þau því tekin hér með. Þá er lagt til að lögin um eignakönnun, nr. 67/1947, og lögin um stóreignaskatt o.fl., nr. 22/1950 og nr. 19/1958, verði afnumin, enda er ætlunarverki þeirra lokið. Lögin nr. 47/1925, um innheimtu gjalda af erlendum fiskiskipum, eru einnig úrelt. Lög nr. 10/1946, um lestagjald af skipum, mun enn fremur mega afnema. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki athugasemda. Samráð hafa verið höfð við fjármálaráðuneyti um efni þessarar greinar.

Um 6. gr.


    Hér er fjallað um löggjöf er varðar efnahagsmál. Of lítið er gert að því við setningu laga um efnahagsmál að taka afstöðu til gildis eldri laga. Höfð hafa verið samráð við forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið, Seðlabankann, Hagstofuna og Þjóðhagsstofnun um þessi málefni. Er hér farið varlega í tillagnagerð nefndarinnar svo sem áður greinir. Lagt er til að stofnað verði til sérstakrar sérfræðilegrar könnunar á þessari löggjöf og reynt að samræma hana, einkum að því er varðar gundvallarþætti hennar, en hjá tímabundnum breytingum og nýmælum verður vitaskuld ekki komist.
    Í 1. tölul. er þess að gæta að 2.–5. gr. laga nr. 4/1960 hafa glatað gildi sínu, en í stað 6. gr. hefur komið 11. gr. laga nr. 28/1962, nú 38. gr. laga nr. 13/1979. Lagt er til nánast til öryggis að 2.–6. gr. verði felldar niður. Eðlilegt er að setja nýja löggjöf í stað þeirra slitra sem eftir verða af lögum nr. 4/1960. Varðandi 5. tölul. er bent á að 28. og 29. gr. laga nr. 13/1979 eru felldar niður með 21. gr, laga nr. 84/1985.
    Í 6. tölul. felst að þau ákvæði laga nr. 10/1981, sem enn eru í gildi, verði felld niður. Fjórða grein er afnumin með lögum nr. 5/1984, en 1.–3. gr. eru áður úr lögum numdar svo sem greinir í Lagasafni 1983.

Um 7. gr.


    Hér er vikið að lögum um gjaldeyrismál. Gegnir um þau svipuðu máli og um efnahagslöggjöfina að alloft er ekki tekin afstaða til eldri löggjafar þegar yngri löggjöf um þau málefni er sett. Oft víkja lög um þetta efni að afmörkuðu verkefni, t.d. ráðstöfun á gengishagnaði, er myndast við tiltekna breytingu á gengí íslensku krónunar. Hafa lögin þá tíðast tímabundið gildi þótt þess séu dæmi að slík lög geymi ákvæði sem ætlað er að hafa gildi til frambúðar. Í 1. og 3.–20. tölul. er lagt til að ýmis lög um þetta efni verði afnumin, enda hafa þau lokið því hlutverki sem þeim var ætlað. Um 1. tölul. er sérstaklega vísað til 9. gr. laga nr. 63/1979. Í 2. tölul. er lagt til að afnumin verði lög nr. 82/1941 sem ekki hafa framar raunhæfa þýðingu, sbr. nú lög nr. 63/1979, en síðarnefndu lögin eiga einnig við um lög er greinir í 3. tölul.
    Samráð hafa verið höfð m.a. við Seðlabanka Íslands um efni þessarar greinar.

Um 8. gr.


    Í þessari grein er lagt til að ýmis lög, er varða ríkisábyrgðir, verði afnumin. Grunnsjónarmið nefndarinnar er það að þegar ábyrgð hefur verið tekin á skuldum með stoð í tilteknum lögum hafi lögin gegnt hlutverki sínu, enda haggar það ekki við gildi ábyrgðaryfirlýsingarinnar þótt lögin, sem voru á sínum tíma grundvöllur hennar, verði afnumin. Til þessara laga er jafnaðarlega vísað berum orðum í ábyrgðaryfirlýsingunni og því auðrakið á hverjum lagagrunni hún hvílir. Leitast hefur verið við að kanna hvort tiltekin lög hafi enn raunhæft gildi, þ.e. hvort lagaheimildar hafi verið neytt. Þetta kann stundum að orka tvímælis, t.d. vegna þess að ábyrgð hefur verið veitt vegna hluta af þeirri hámarksfjárhæð sem greind er í lögunum.
    Samráð hafa verið höfð við fjármálaráðuneytið um efni þessarar greinar.

Um 9. gr.


    Hér er lagt til að tvenn lög um opinbera sjóði verði afnumin þar eð þau hafa ekki raunhæft gildi. Nokkur fleiri lög hafa verið hér í sjónmáli, en rétt þótti að athuguðu máli að einskorða tillögurnar við þessa sjóði tvo.

Um 10. gr.


    Með 40. gr. stjórnarskrárinnar er áskilin lagaheimild ef láta á af hendi fasteignir ríkisins eða afnotarétt þeirra. Fjölmörg lög heimila sölu einstakra fasteigna. Eru þau „einnota“, svo sem áður greinir. Þegar salan er um garð gengin hafa lögin lokið því frumhlutverki sem þeim var ætlað. Sölugerningurinn er grundvöllur að yfirfærslu eignaréttindanna og afnám laganna haggar ekki gildi hans. Er forsvaranlegt þegar svo er komið að afnema lögin. Tilvist laganna á þeim tíma, er salan fór fram, er næg stoð undir sölunni. Hér verður vitaskuld að kanna eftir föngum hvort sala hafi farið fram samkvæmt hinum einstöku lögum. Þetta hefur reynst torvelt í nokkrum tilvikum. Hægur er hjá að afnema einstaka töluliði greinarinnar ef í ljós verður leitt að tiltekin lög gegni enn hlutverki. Samráð hafa verið höfð við dóms- og kirkjumálaráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti um efni þessarar greinar.
    Vakin er athygli á hinni almennu heimild í 37. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, sbr. 12. gr. laga nr. 90/1984, til sölu á ríkisjörðum til sveitarfélags sem jarðeign er í. Vegna þessa almenna ákvæðis hafa eldri lög um sölu ríkisjarða, sem svona stendur á um, lítið sjálfstætt gildi.

Um 11. gr.


    Greinin fjallar um lög sem varða lántökur og lántökuheimildir, sbr. 40. gr. stjórnarskrár. Grunnsjónarmiðið um mat á afnámi slíkra laga er svipað að sínu leyti og fram kemur í athugasemdum við 10. gr. frumvarpsins, þ.e. að þegar lán hefur verið tekið sé forsvaranlegt að afnema lögin. Önnur viðmiðun, sem einnig kemur til greina, er sú að afnema lögin ekki fyrr en lánið, sem lögin víkja að, er greitt að fullu. Hér er valinn nokkur meðalvegur og eru engin þeirra laga, sem greinin víkur að, yngri en 10 ára. Ætti það greinimark oftast að vera nærri lagi. Rætt hefur verið við starfsmenn fjármálaráðuneytis og ýmissa stofnana um efni þessa ákvæðis.

Um 12. gr.


    Greinin fjallar um lög varðandi fjármál ríkisins. Þorri þessara laga er tímabundinn og því raunverulega fallinn niður. Þau standa þó enn í lagasafni og er það til hægari verka að afnema þau með slíkum lagahreinsunarlögum sem stefnt er að með frumvarpi þessu.

Um 13. gr.


    Samkvæmt 67. gr. stjórnarskár verður eignarnám að styðjast við sett lög. Eru eignarnámsheimildir víða í lögum, svo sem áður greinir. Þegar eignarnám hefur verið framkvæmt með stoð í lögum er lúta að tiltekinni eign eða réttindum er hlutverki laganna raunverulega lokið. Yfirfærsla réttinda hvílir þá á eignarnámsgerðinni (og eftir atvikum þinglýsingu hennar) og afnám eignarnámslaganna raskar ekki gildi eignarnámsins. Stundum eru ákvæði í eignarnámslögum sem kveða á um meðferð hinna eignarnumdu réttinda í hendi eignarnema eða áskilja eignarnámsþola tiltekin réttindi eða áskilja honum forkaupsrétt o.fl. Getur þá verið varhugavert að fella lögin niður í heild sinni.
    Erfitt er að ganga úr skugga um hvort eignarnám hafi farið fram samkvæmt tilteknum eignarnámslögum eða hvort lögin hafi að öðru leyti misst raunhæft gildi fyrir það að samningar hafa tekist um yfirfærslu réttinda. Hér er valin varfærnisleg leið. Vafalítið mætti bæta nokkrum öðrum lögum við.

Um 14. gr.


    Í 1.–6. tölul. er lagt til að nokkur lög, er varða veðdeild Landsbanka Íslands og útgáfu bankavaxtabréfa, verði numin úr lögum. Hefur verið haft samráð um þetta við bankann en af hans hálfu er talið, að ekki sé vert að afnema lög nr. 1/1900 að svo stöddu. Lög um rekstrarlánafélög, nr. 98/1938, virðast ekki hafa neitt gildi lengur. Er því lagt til í 7. tölul. að þau verði afnumin.

Um 15. gr.


    Þessi grein fjallar um lög varðandi félagsmál. Í 1. tölul. er lagt til að lög um lausamenn, húsmenn og þurrabúðarmenn, nr. 60/1907, verði afnumin, enda hefur þróun þjóðfélags kippt stoðum undan þeim. Lög um íbúðir í kjöllurum, nr. 57/1929, sbr. 2. tölul., hafa ekki lengur sérstakt gildi, sbr. við löggjöf um byggingar og íbúðarhúsnæði o.fl. Lög, er greinir í 3.–7. tölul., hafa ekki lengur raunhæft gildi. Höfð hafa verið samráð m.a. við félagsmálaráðuneyti um lög þau er um getur í þessari grein.

Um 16. gr.


    Í þessari grein er lagt til að afnumin verði tvenn gömul lagaboð um kirkjumálefni. Í greinargerðinni hér að framan er þess getið að kirkjulaganefnd starfar að heildarendurskoðun laga á sviði kirkjuréttar og er kunnugt að hún fjallar m.a. um afnám gamalla lagaboða á þessum vettvangi. Nefndinni þykir þó einsýnt að felld verði brott með frumvarpi þessu þau lagaboð er greinin víkur að, enda eru þau úrelt með öllu. Samráð hefur verið haft við ráðuneyti og biskup um þetta efni.

Um 17. gr.


    Á sviði menntamála hefur farið fram mikil endurskoðun síðustu ár er horft hefur til samræmingar á löggjöf og leyst hefur af hólmi eldri lög ýmis. Auk þess voru samþykkt lög á síðasta Alþingi nr. 26/1989 um afnám nokkurra laga á þessum vettvangi.
    Í 17. gr er aðeins getið tiltekinna ákvæða í lögum nr. 5/1968 sem lagt er til að felld verði úr gildi og hefur verið haft samráð við menntamálaráðuneyti um það. Um prófessorsembætti er nú fjallað í lögum um Háskóla Íslands og má afnema 6. gr. laga nr. 5/1968. Málum þeim, er greinir í 1. og 4. tölul. 7. gr. laganna, er nú skipað með reglum um skipulag menntamálaráðuneytis sem settar eru með stoð í lögum um Stjórnarráð Íslands, en um 3. tölul. vísast til laga um Námsgagnastofnun, nr. 45/1979. Ekki er lagt til að 2. tölul. 7. gr. verði felldur niður að svo stöddu, sbr. 88. gr. laga nr. 63/1974.

Um 18. gr.


    Allvíðtæk endurskoðun hefur farið fram á lögum um heilbrigðismál og heilsugæslu síðustu ár. Hér eru tillögur einskorðaðar við afnám þriggja laga um holdsveiki, en þeirra er ekki framar þörf. Samráð hefur verið haft við heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið um þessi efni.

Um 19. gr.


    Hér er fjallað um lög er varða samgöngur. Í 1. tölul. er lagt til að lög um hægri handar umferð frá 1966 séu formlega numin úr lögum, sbr. nú umferðarlög nr. 50/1987. Í 2. tölul. er vikið að lögum nr. 41/1914, um strandferðir, sem eru úrelt. Í 3. og 4. tölul. er lagt til að lög um tiltekin málefni Flugleiða verði formlega afnumin, en þau miðast við lausn mála sem útkljáð hafa verið. Í 5.–7. tölul. er lagt til að þrenn lög um happdrættislán ríkissjóðs í þágu vega- og brúagerða verði afnumin, en þau hafa þegar gegnt því hlutverki sem þeim var ætlað. Lögin, er greinir í 8.–11. tölul., hafa ekki raunhæft gildi lengur. Samráð hefur verið haft við samgönguráðuneyti um efni þessarar lagagreinar.

Um 20. gr.


    Í þessari grein er fjallað um lög er varða lögreglumálefni. Í 1.–4. tölul. er lagt til að fern lög um eftirlit með flutningi manna, sem flytja sig úr landi í aðrar heimsálfur eða til útlanda endranær, verði afnumin. Þessi lög hafa ekki raunhæft gildi lengur. Þá er lagt til að tiltekin ákvæði í lögum nr. 33/1954, um lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli, verði afnumin, enda eru þau óþörf nú. Að vísu er kveðið svo á í lögum nr. 92/1989, 20. gr., um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, að lögin falli að öllu niður, en skv. 16. gr. taka þau lög ekki gildi fyrr en 1. júlí 1992. Þykir því réttmætt að kveða á um brottfall greindra ákvæða í þessu lagafrumvarpi, sbr. og athugasemdir við 5. gr. frumvarpsins. Tekið skal fram að ekki þykir rétt að svo stöddu að afnema tilskipun 4. ágúst 1819, um skyldu manna að bjarga mönnum er sýnast dauðir, en ástæða er til að endurskoða þau ákvæði.
    Samráð hafa verið höfð við dómsmálaráðuneyti um efni þessarar greinar.

Um 21. gr.


    Hér er lagt til að höfðu samráði við dómsmálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti að ýmis lög og lagaákvæði verði afnumin er varða sveitarstjórnarmál, svo og stöðu bæjarfógeta í kaupstöðum að því leyti sem um er fjallað í lögum um bæjarstjórnir, svo sem alloft er.
     1.      Lög um sveitarstjórnarmál, þ.e. mál einstakra kaupstaða, eru greind í 1., 3. og 17. tölul. (Reykjavík), í 2. og 4. tölul. (Ísafjörður), í 7. tölul. (Akureyri) og í 8. tölul. (Vestmannaeyjar). Þessi lög eru eigi talin hafa raunhæft gildi.
     2.      Lög um bæjarstjórnir, sbr. 5., 9., 10., 12., 14., 15., 16. og 18. tölul. Þar er einkum hreyft við ákvæðum er varða stöðu bæjarfógeta, en einnig ákvæðum um önnur efni er gegnt hafa þegar ætlunarverki sínu. Ákvæðin um stöðu bæjarfógeta eru að vísu felld niður með lögum nr. 92/1989, 22. gr., en hins vegar taka lögin ekki gildi fyrr en 1. júlí 1992, sbr. 16. gr. þeirra. Þykir rétt að leggja til að þessi lagaákvæði verði afnumin nú þegar, enda samræmast þau ekki síðari tíma löggjöf. Vísast til athugasemda við 5. og 20. gr.
     3.      Í 11. tölul. er tillaga um að afnema lög varðandi þegnskylduvinnu, nr. 63/1941, sem ekki hafa raunhæft gildi. Með lögum nr. 26/1989, 6. gr., eru afnumin lög nr. 28/1936 er einnig varða þegnskylduvinnu en þau lög voru raunar afnumin þegar með lögum nr. 108/1988, 65. gr.
     4.      Lög um nýbyggingar í Höfðakaupstað, nr. 42/1946, sbr. 13. tölul., virðast hafa gegnt hlutverki sínu nú þegar.
     5.      Lög skv. 19. og 20. tölul. virðast mega falla niður.

Um 22. gr.


    Í 1. tölul. er lagt til að höfðu samráði við yfirdýralækni að lög um aðfluttar ósútaðar húðir, nr. 35/1891, verði afnumin. Ekki er þörf á sérlögum um það efni.
    Í 2. tölul. er lagt til að lög um tiltekna mýri í Rangárvallasýslu verði felld niður og mætti þó e.t.v. halda þeim út frá lagaverndarsjónarmiði.
    Ýmis lög um landbúnaðarmálefni voru afnumin með lögum nr. 108/1988.

Um 23. gr.


    Í þessari grein er lagt til að allmörg lög og lagaákvæði, er varða fiskveiðar, sjávarútveg og siglingar, verði afnumin. Hefur notið við samstarfs við sjávarútvegsráðuneyti um samningu þessarar greinar. Lög þessi eru sundurleit að efni til.
     1.      Í 1. tölul. er lagt til að lög nr. 20/1901, með breytingalögum nr. 29/1902, um tilhögun á löggæslu við fiskveiðar í Norðursjónum, verði afnumin. Samningur sá frá 1882, sem liggur til grundvallar lögunum, var endurnýjaður 1967, sbr. C-deild Stjórnartíðinda 1969, bls. 23, og C- deild 1977, bls. 1, enda segir í 4. gr. laga nr. 20/1901: „Lög þessi … skulu vera í gildi, meðan samningur sá stendur óhaggaður, er gerður var í Haag 6. maímán. 1882 um löggæslu við fiskveiðar fyrir utan landhelgi í Norðursjónum.“ Í þessu sambandi má benda á lög nr. 68/1981 þar sem sett eru ákvæði um aðild Íslands að samningi um framtíðarsamvinnu ríkja varðandi fiskveiðar á Norðaustur-Atlantshafi, sbr. samning 18. nóvember 1980, sem birtur er sem fylgiskjal með lögunum, sbr. að sínu leyti um fiskveiðar á Norðvestur-Atlantshafi, lög nr. 48/1979. Í lögum nr. 34/1976, um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands, er ráðherra heimilað að setja reglur um þessar veiðar eftir því sem þörf þykir á, svo sem til samræmingar við reglur er gilda um veiðar íslenskra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
     2.      Í 2. tölul. er lagt til að lög nr. 28/1902, um síldarnætur, verði afnumin. Innflutningur sá, sem hér um ræðir, er tilkynntur tollstjórum samkvæmt almennum lögum um innflutning varnings til landsins.
     3.      Lög nr. 37/1931, sbr. lög nr. 65/1932, sbr. 3. tölul., um heimild fyrir ríkisstjórnina til ýmissa ráðstafana vegna útflutnings á nýjum fiski, eru úrelt vegna breyttra þjóðfélagsaðstæðna.
     4.      Lög um útflutning saltaðrar síldar, nr. 70/1933, sbr. 5. tölul., og lög um útflutning á síldarmjöli, nr. 56/1935, sbr, 9. tölul., eru úrelt og raunar sumpart andstæð yngri löggjöf. Sama er um lög um veiði, sölu og útflutning á kola, nr. 19/1941, sbr. 14. tölul.
     5.      Lög um mat á fiskúrgangi, nr. 9/1935, sbr. 7. tölul., og lög um meðferð, verkun og útflutning á sjávarafurðum, nr. 92/1935, sbr. 10. tölul., eru úrelt og taka yngri lög og stjórnvaldsreglur til þessara málefna.
     6.      Þá eru ýmis lög um að reisa og starfrækja síldarverksmiðjur og um lán í því skyni, þ.e. lög nr. 66/1932, er varða Austurland, sbr. 4. tölul., lög nr. 15/1934 (Norðurland), sbr. 6. tölul., lög nr. 47/1935 (Raufarhöfn), sbr. 8. tölul., lög nr. 10/1938 og 42/1940 (Raufarhöfn og Siglufjörður), sbr. 11. og 12. tölul., og lög nr. 93/1942 (ný síldarverksmiðja), sbr. 16. tölul., og lög nr. 131/1941 (lántaka vegna síldarverksmiðja ríkisins), sbr. 15. tölul. Hafa þau þegar gegnt ætlunarverki sínu og má afnema.
     7.      Lög um síldartunnur, nr. 60/1940, sbr. lög nr. 46/1943, sbr. 13. tölul., eru um margt úrelt og ekki ástæða til að halda í þau, enda eru fullnægjandi heimildir annars staðar til að skipa því máli sem þar greinir.
     8.      Lög um olíugeyma o.fl., nr. 110/1943, sbr. 17. tölul. hafa naumast raunhæft gildi og virðist mega afnema þau.
     9.      Lög nr. 47/1943, sbr. 18. tölul., um fyrirmæli um samflot skipa voru miðuð við heimstyrjöldina síðari og hafa ekki raunhæft gildi.
     10.      Lög um stuðning við nýbyggingu fiskiskipa, nr. 9/1944, sbr. 19. tölul., lög um skipakaup ríkisins, nr. 48/1945, sbr. 20. tölul., lög um togarakaup ríkisins nr. 109/1945, sbr. 21. tölul., og nr. 50/1950, sbr. 26. tölul., og viðaukalög nr. 88/1950, sbr. 27. tölul., lög um smíði tveggja þilfara togara í tilraunaskyni, nr. 16/1948, sbr. 23. tölul., lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til að kaupa togarann Vilborgu Herjólfsdóttur, nr. 49/1955, sbr. 29. tölul., lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til skipakaupa o.fl. til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, nr. 94/1956, 32. tölul., lög um kaup á skuttogurum, nr. 113/1972, sbr. 37. tölul., hafa öll gegnt því hlutverki sem þeim var ætlað. Virðist af þeirri ástæðu mega afnema þau. Sama er um lög nr. 50/1955, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að ábyrgjast lán vegna togarakaupa fyrir Neskaupstað, sbr. 30. tölul., og fyrir bæjarútgerð Reykjavíkur, nr. 84/1956, sbr. 31. tölul.
     11.      Þá eru nokkur önnur lög orðin úrelt eða hafa ekki raunhæft gildi lengur, þ.e. lög um fiskiðjuver ríkisins í Reykjavík, nr. 52/1949, sbr. 24. tölul., lög um að reisa stöð til hagnýtingar efna úr síldarsoði, nr. 21/1950, sbr. 25. tölul., svo og lög um þátttöku Síldarverksmiðja ríkisins í útgerðarfélagi í Siglufirði, nr. 27/1963, sbr. 33. tölul.
     12.      Lög nr. 56/1954, um síldarleit í lofti, sbr. 28. tölul., eru úrelt um margt og hafa ekki raunhæft gildi.
     13.      Lög er varða ráðstafanir vegna útflutnings á afurðum bátaútvegsins, nr. 46/1946, sbr. 22. tölul., og vegna sjávarútvegsins nr. 4/1967, sbr. 34. tölul., hafa ekki raunhæft gildi.
     14.      Lög nr. 16/1969, sbr. 35. tölul., og nr. 64/1970, sbr. 36. tölul., um ráðstafanir vegna flutninga sjósaltaðrar og ísvarinnar síldar af fjarlægum miðum eru tímabundin og hafa ekki gildi lengur.
     15.      Lög nr. 1/1983, um olíusjóð fiskiskipa, olíugjald o.fl, sbr. 39. tölul., má afnema, með því að sjóðurinn mun í reynd hafa verið lagður niður 1976. Með sjóðakerfisbreytingunni árið 1986 með stoð í lögum nr. 24/1986 voru m.a. lög nr. 54/1983, um útflutningsgjald af sjávarafurðum felld niður.

Um 24. gr.


    Með lögum nr. 20/1988 voru afnumin ýmis lög um viðskiptamál. Hér er tillaga um afnám opins bréfs frá 28. desember 1836 varðandi verslun og skipaferðir sem hefur ekki raunhæft gildi. Lög nr. 29/1877, 21/1912, 37/1902 og 11/1917 um sölu ýmissa vara eftir þyngd (vigt) eru greind hér samkvæmt tillögu viðskiptaráðuneytis, en í ábendingu ráðuneytisins segir: „Ákvæði þessara laga hafa nú verið leyst af hólmi með ákvæðum verðlagslaga og reglugerðum settum samkvæmt þeim.“

Um 25. gr.


    Með lögum nr. 33/1989 voru afnumin ýmis lög um iðnaðarmálefni. Í þessari grein er lagt til, að höfðu samráði við iðnaðarráðuneyti, að þrenn lög til viðbótar verði afnumin. Hafa þau öll gegnt því hlutverki sem þeim var ætlað.

Um 26. gr.


    Með lögum nr. 33/1989 voru afnumin nokkur lög er varða orkumál. Nefndin hefur kynnt sér álitsgerðir Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins um afnám laga á þessu sviði. Efni 26. gr. tekur mið af þeim og samráði við iðnaðarráðuneyti. Annars vegar er hér lagt til að lög, er gegnt hafa til hlítar hlutverki sínu, verði afnumin, sbr. 2. tölul. og að mestu 1. tölul., en í flestum tilvikum er um það að ræða, að mælt er fyrir um afnám ýmissa lagaákvæða, er varða lántökur til virkjana. Í þessu efni er miðað við lántökuheimildir sem eru 25 ára gamlar eða eldri, en í flestum þeim tilvikum eru lánin greidd upp eða verða það mjög á næstunni. Í nokkrum tilvikum hafa stofnamr þær, er að framan greinir, ekki verið á einu máli um hvort heimildir til virkjana ætti að afnema. Er þá yfirleitt valin sú leið í tillagnagerð nefndarinnar að láta við lögin sitja og hagga ekki við gildi þeirra.

Um 27. gr.


    Hér er lagt til að lög um byggingu gistihúss í Reykjavík, nr. 36/1946, verði afnumin. Þeim hefur ekki verið beitt og hafa þau ekki raunhæft gildi.

Um 28. gr.


    Lagt er til í þessari grein að lög nr. 13/1940 og 89/1945 um innköllun stofnbréfa í tveimur sláturfélögum verði afnumin. Þau hafa þegar gegnt því hlutverki sem til var ætlast.

Um 29. gr.


    Lög nr. 3/1923 um undanþágu frá lögum um aðflutningsbann á áfengi eru löngu úrelt og ber að afnema þau.
    Ekki er hreyft hér við ákvæðum hegningarlaga almennt, en um það vísast til almennra athugasemda í greinargerð þessari.

Um 30. gr.


    Í 1. tölul. er lagt til að opið bréf 4. janúar 1861, um innkallanir í búum, verði afnumið. Þess er ekki þörf, miðað við yngri löggjöf um það efni.
    Í 2. tölul. er kveðið á um að lög nr. 32/1911, um úrskurðarvald sáttanefnda, verði felld úr gildi. Sáttanefndir voru afnumdar með lögum nr. 28/1981. Er grundvöllur undir lögum nr. 327/1911 því hruninn. Lögin eru að vísu meðal laga er lög nr. 90/1989, um aðför, afnema en gildistaka þeirra laga er 1. júlí 1992. Er réttmætt að afnema lögin formlega nú þegar.
    Í 3. og 6. tölul. er lagt til að lög nr. 79/1919, um fulltrúa bæjarfógeta, og lög nr. 3/1973, um bráðabirgðabreytingu á dómsmálastjórn í Vestmannaeyjum o.fl., verði afnumin. Hvort tveggja lög eru að vísu afnumin með lögum nr. 92/1989 er taka þó ekki gildifyrr en 1. júlí 1992. Er ástæðulaust að bíða með brottfellingu laganna til þess að greind lög taki gildi.
    Í 4. tölul. er mælt fyrir um að tilskipun um forgangsrétt ómyndugra frá 19. desember 1821 verði afnumin. Hefur það lagaboð ekki framar gildi, sbr. við yngri löggjöf um þetta efni.
    Í 5. tölul. er lagt til að lög 68/1921 um manntalsþing verði afnumin, enda hafa þau ekki gildi lengur.
    Samráð hefur verið haft við dómsmálaráðuneyti um efni þessarar greinar.

Um 31. gr.


    Þarfnast ekki athugasemda.

Aldursröð þeirra laga sem lagt er til að brott falli í frumvarpi til laga
um brottfall nokkurra laga og lagaákvæða.

Tilvísun í svigum á við grein í frumvarpinu.

Konungsbréf 11. maí 1708 (16. gr., 1. tölul.).
Kammerréttarskipun 18. mars 1720 (5. gr., 1. tölul.).
Konungsbréf 7. október 1740 (16. gr., 6. tölul.).
Tilskipun 3. apríl 1771 (2. gr., 1. tölul.).
Opið bréf 23. janúar 1789 (2. gr., 2. tölul.).
Tilskipun 28. desember 1792 (2. gr., 3. tölul.).
Tilskipun 30. janúar 1793 (5. gr., 2. tölul.).
Opið bréf 10. apríl 1795 (5. gr., 3. tölul.).
Tilskipun 16. júlí 1817 (4. gr., 3. tölul.).
Kansellíumburðarbréf 16. nóvember 1819 (5. gr., 4. tölul.).
Tilskipun 19. desember 1821 (30. gr., 4. tölul.).
Konungsbréf 3. janúar 1823 (2. gr., 4. tölul.).
Kansellíbréf 17. maí 1823 (5. gr., 5. tölul.).
Opið bréf 23. nóvember 1827 (5. gr., 6. tölul.).
Tilskipun 21. desember 1831 (2. gr., 5. tölul.).
Opið bréf 28. desember 1836 (24. gr., 1. tölul.).
Opið bréf 10. febrúar 1847 (5. gr., 7. tölul.).
Tilskipun 31. maí 1855 (3. gr., 1. tölul.).
Opið bréf 31. maí 1855 (3. gr., 2. tölul.).
Opið bréf 4. janúar 1861 (30. gr., 1. tölul.).
Konungsúrskurður 23. desember 1864 (2. gr., 6. tölul.).
Lög 17. apríl 1868 (19. gr., 8. tölul.).
Lög 3/1876 (20. gr., 1. tölul.).
Lög 29/1877 (24. gr., 2. tölul.).
Lög 14/1891 (20. gr., 2. tölul.).
Lög 35/1891 (22. gr., 1. tölul.).
Lög 12/1894 (22. gr., 2. tölul.).
Lög 36/1895 (3. gr., 3. tölul.).
Lög 9/1896 (20. gr., 3. tölul.).
Lög 2/1898 (18. gr., 1. tölul.).
Lög 3/1898 (18. gr., 2. tölul.).
Lög 13/1899 (19. gr., 9. tölul.).
Lög 18/1901 (21. gr., 1. tölul.).
Lög 20/1901 (23. gr., 1. tölul.).
Lög 28/1902 (23. gr., 2. tölul.).
Lög 29/1902 (23. gr., 1. tölul.).
Lög 30/1902 (14. gr., 1. tölul.).
Lög 37/1902 (24. gr., 3. tölul.).
Lög 20/1903 (4. gr., 1. tölul.).
Lög 49/1903 (20. gr., 4. tölul.).
Lög 4/1904 (3. gr., 4. tölul.).
Lög 5/1904 (3. gr., 5. tölul.).
Tilskipun 12/1904 (2. gr., 7. tölul.).
Lög 24/1905 (21. gr., 2. tölul.).
Lög 28/1905 (3. gr., 7. tölul.).
Lög 60/1907 (15. gr., 1. tölul.).
Lög 64/1907 (21. gr., 1. tölul.).
Lög 57/1909 (18. gr., 3. tölul.).
Lög 32/1911 (30. gr., 2. tölul.).
Lög 36/1911, 5. gr. (3. gr., 6. tölul.).
Lög 42/1911 (21. gr., 3. tölul.).
Lög 21/1912 (24. gr., 4. tölul.).
Lög 53/1913 (19. gr., 2. tölul.).
Lög 41/1914 (19. gr., 2. tölul.).
Lög 11/1917 (24. gr., 5. tölul.).
Lög 57/1917 (21. gr., 1. tölul.).
Tilskipun 16/1918 (5. gr., 8. tölul.).
Lög 26/1918, 2. gr. 2. málsl. (21. gr., 5. tölul.).
Lög 32/1918 (21. gr., 4. tölul.).
Lög 58/1919 (21. gr., 6. tölul.).
Lög 79/1919 (30. gr., 3. tölul.).
Lög 16/1920 (7. gr., 1. tölul.).
Lög 20/1921, 1., 3. og 4. gr. (26. gr., 1. tölul.).
Lög 68/1921 (30. gr., 5. tölul.).
Lög 73/1921 (26. gr., 2. tölul.).
Lög 3/1923 (29. gr., 1. tölul.).
Lög 47/1925 (5. gr., 9. tölul.).
Lög 49/1927 (21. gr., 7. tölul.).
Lög 48/1928, 1. gr. 2. mgr. og 4. gr. (21. gr., 9. tölul.).
Lög 60/1928 (14. gr., 2. tölul.).
Lög 57/1929 (15. gr., 2. tölul.).
Lög 28/1931 (21. gr., 8. tölul.).
Lög 37/1931 (23. gr., 3. tölul.).
Lög 16/1932 (13. gr., 1. tölul.).
Lög 17/1932 (13. gr., 2. tölul.).
Lög 41/1932 (9. gr., 1. tölul.).
Lög 65/1932 (23. gr., 3. tölul.).
Lög 66/1932 (23. gr., 4. tölul.).
Lög 49/1933 (21. gr., 1. tölul.).
Lög 70/1933 (23. gr., 5. tölul.).
Lög 15/1934 (23. gr., 6. tölul.).
Lög 9/1935 (23. gr., 7. tölul.).
Lög 47/1935 (23. gr., 8. tölul.).
Lög 56/1935 (23. gr., 9. tölul.).
Lög 92/1935 (23. gr., 10. tölul.).
Lög 122/1935 (14. gr., 3. tölul.).
Lög 23/1936, 1. gr. (21. gr., 9. tölul.).
Lög 10/1938 (23. gr., 11. tölul.).
Lög 21/1938 (13. gr., 3. tölul.).
Lög 98/1938 (14. gr., 7. tölul.).
Lög 13/1940 (28. gr., 1. tölul.).
Lög 42/1940 (23. gr., 12. tölul.).
Lög 60/1940 (23. gr., 13. tölul.).
Lög 19/1941 (23. gr., 14. tölul.).
Lög 45/1941, 1. gr. 2. mgr., 2. gr. og 4. gr. (21. gr., 10. tölul.).
Lög 63/1941 (21. gr., 11. tölul.).
Lög 82/1941 (7. gr., 2. tölul.).
Lög 94/1941 (14. gr., 4. tölul.).
Lög 131/1941 (23. gr., 15. tölul.).
Lög 55/1942 (9. gr., 2. tölul.).
Lög 71/1942 (7. gr., 3. tölul.).
Lög 74/1942 (10. gr., 19. tölul.).
Lög 93/1942 (23. gr., 16. tölul.).
Lög 43/1943 (4. gr., 5. tölul.).
Lög 46/1943 (23. gr., 13. tölul.).
Lög 47/1943 (23. gr., 18. tölul.).
Lög 110/1943 (23. gr., 17. tölul.).
Lög 9/1944 (23. gr., 19. tölul.).
Lög 60/1944, 1. gr. 2. mgr., 2. gr. og 4. gr. (21. gr., 12. tölul.).
Lög 48/1945 (23. gr., 20. tölul.).
Lög 55/1945 (14. gr., 5. tölul.).
Lög 89/1945 (28. gr., 2. tölul.).
Lög 109/1945 (23. gr., 21. tölul.).
Lög 10/1946 (5. gr., 10. tölul.).
Lög 36/1946 (27. gr., 1. tölul.).
Lög 42/1946 (21. gr., 13. tölul.).
Lög 46/1946 (23. gr., 22. tölul.).
Lög 3/1947 (10. gr., 20. tölul.).
Lög 57/1947, 1. gr. 2. mgr. 1. málsl. (21. gr., 14. tölul.).
Lög 67/1947 (5. gr., 11. tölul.).
Lög 92/1947, 2. gr. (26. gr., 3. tölul.).
Lög 16/1948 (23. gr., 23. tölul.).
Lög 17/1949, 1. gr. 2. mgr. 1. málsl. 2. gr. og 4. gr. (21. gr., 15. tölul.).
Lög 34/1949, 2. gr. (26. gr., 4. tölul.).
Lög 37/1949 (13. gr., 4. tölul.).
Lög 52/1949 (23. gr., 24. tölul.).
Lög 109/1949, 1. gr. 2. mgr. 1. málsl. (21. gr., 16. tölul.).
Lög 21/1950 (23. gr., 25. tölul.).
Lög 22/1950 (5. gr., 12. tölul.)
Lög 50/1950 (23. gr., 26. tölul.).
Lög 63/1950 (26. gr., 5. tölul.).
Lög 88/1950 (23. gr., 27. tölul.).
Lög 12/1951, 2. gr. (26. gr., 6. tölul.).
Lög 21/1952 (5. gr., 15. tölul.).
Lög 74/1952 (26. gr., 7. tölul.).
Lög 88/1952 (25. gr., 2. tölul.).
Lög 74/1953 (5. gr., 13. tölul.).
Lög 33/1954, 1. gr. 2. mgr. og 2. gr. 2. mgr. (20. gr., 6. tölul.).
Lög 56/1954 (23. gr., 28. tölul.).
Lög 94/1954 (21. gr., 17. tölul.).
Lög 30/1955, 1. gr. 2. mgr. 1. málsl. og 2. gr. (21. gr., 18. tölul.).
Lög 49/1955 (23. gr., 29. tölul.).
Lög 50/1955 (23. gr., 30. tölul.).
Lög 10/1956 (10. gr., 17. tölul.).
Lög 30/1956 (4. gr., 2. tölul.).
Lög 65/1956, 2. gr. (26. gr., 8. tölul.).
Lög 84/1956 (23. gr., 31. tölul.).
Lög 94/1956 (23. gr., 32. tölul.).
Lög 44/1957 (5. gr., 14. tölul.).
Lög 19/1958 (5. gr., 14. tölul.).
Lög 1/1959 (15. gr., 3. tölul.).
Lög 29/1959 (21. gr., 19. tölul.).
Lög 35/1959 (26. gr., 9. tölul.).
Lög 4/1960, 2.–6. gr., 19. gr. og 20. gr. (6. gr., 1. tölul.).
Lög 99/1961 (19. gr., 10. tölul.).
Lög 103/1961 (11. gr., 1. tölul.).
Lög 6/1962 (11. gr., 2. tölul.).
Lög 28/1962 (7. gr., 4. tölul.).
Lög 48/1962 (11. gr., 3. tölul.).
Lög 73/1962 (8. gr., 4. tölul.).
Lög 9/1963 (19. gr., 11. tölul.).
Lög 27/1963 (23. gr., 33. tölul.).
Lög 51/1963 (26. gr., 10. tölul.).
Lög 54/1963 (26. gr., 11. tölul.).
Lög 6/1964, bráðabirgðaákvæði (4. gr., 4. tölul.).
Lög 43/1964 (8. gr., 1. tölul.).
Lög 23/1965 (11. gr., 4. tölul.).
Lög 33/1965 (8. gr., 2. tölul.).
Lög 61/1965 (8. gr., 5. tölul.).
Lög 73/1965 (14. gr., 6. tölul.).
Lög 26/1966 (11. gr., 5. tölul.).
Lög 27/1966 (11. gr., 6. tölul.).
Lög 44/1966 (13. gr., 5. tölul.).
Lög 65/1966 (19. gr., 1. tölul.).
Lög 70/1966 (8. gr., 3. tölul.).
Lög 91/1966 (8. gr., 7. tölul.).
Lög 93/1966 (8. gr., 3. tölul.).
Lög 4/1967 (23. gr., 34. tölul.).
Lög 26/1967 (11. gr., 7. tölul.).
Lög 44/1967 (10. gr., 1. tölul.).
Lög 46/1967 (10. gr., 2. tölul.).
Lög 55/1967 (10. gr., 3. tölul.).
Lög 56/1967 (10. gr., 4. tölul.).
Lög 57/1967 (10. gr., 5. tölul.).
Lög 69/1967. (7. gr., 5. tölul.).
Lög 74/1967 (7. gr., 6. tölul.).
Lög 79/1967 (7. gr., 7. tölul.).
Lög 5/1968, 6. gr. og 7. gr. 1., 3. og 4. tölul. (17. gr., 1. tölul.).
Lög 17/1968 (8. gr., 6. tölul.).
Lög 24/1968 (11. gr., 8. tölul.).
Lög 45/1968 (25. gr., 3. tölul.).
Lög 74/1968 (7. gr., 8. tölul.).
Lög 83/1968 (7. gr., 9. tölul.).
Lög 8/1969 (11. gr., 9. tölul.).
Lög 11/1969 (10. gr., 6. tölul.).
Lög 16/1969 (23. gr., 35. tölul.).
Lög 23/1969 (11. gr., 10. tölul.).
Lög 44/1969 (10. gr., 7. tölul.).
Lög 60/1969 (8. gr., 8. tölul.).
Lög 64/1969 (10. gr., 8. tölul.).
Lög 16/1970 (10. gr., 18. tölul.).
Lög 34/1970 (11. gr., 11. tölul.).
Lög 64/1970 (23, gr., 36. tölul.).
Lög 99/1970 (15. gr., 4. tölul.).
Lög 3/1971 (15. gr., 5. tölul.).
Lög 29/1971 (11. gr., 12. tölul.).
Lög 82/1971 (11. gr., 13. tölul.).
Lög 99/1971 (19. gr., 5, tölul.).
Lög 5/1972 (10. gr., 9. tölul.).
Lög 9/1972 (10. gr., 10. tölul.).
Lög 10/1972 (10. gr., 11. tölul.).
Lög 26/1972 (11. gr., 14. tölul.).
Lög 37/1972 (10. gr., 12. tölul.).
Lög 62/1972 (7. gr., 10. tölul.).
Lög 83/1972 (11. gr., 15. tölul.).
Lög 93/1972 (8. gr., 9. tölul.).
Lög 97/1972 (7. gr., 11. tölul.).
Lög 113/1972 (23. gr., 37. tölul.).
Lög 3/1973 (30. gr., 6. tölul.).
Lög 6/1973 (15. gr., 6. tölul.).
Lög 8/1973 (11. gr., 16. tölul.).
Lög 9/1973 (13, gr., 6. tölul.).
Lög 33/1973 (10. gr., 13. tölul.).
Lög 64/1973 (10. gr., 14. tölul.).
Lög 67/1973 (10. gr., 15. tölul.).
Lög 91/1973 (11. gr., 17. tölul.).
Lög 105/1973 (21. gr., 20. tölul.).
Lög 11/1974 (11. gr., 18. tölul.).
Lög 13/1974 (8. gr., 10. tölul.).
Lög 37/1974 (11. gr., 19. tölul.).
Lög 48/1974 (19. gr., 6. tölul.).
Lög 78/1974 (7. gr., 12. tölul.).
Lög 92/1974 (11. gr., 20. tölul.).
Lög 104/1974 (8. gr., 11. tölul.).
Lög 106/1974 (7. gr., 13. tölul.).
Lög 2/1975 (7. gr., 14. tölul.).
Lög 9/1975 (11. gr., 21. tölul.).
Lög 11/1975 (11. gr., 22. tölul.).
Lög 13/1975 (15. gr., 7. tölul.).
Lög 15/1975 (11. gr., 23. tölul.).
Lög 16/1975 (8. gr., 12. tölul.).
Lög 36/1975 (19. gr., 7. tölul.).
Lög 55/1975 (7. gr., 15. tölul.).
Lög 89/1975 (11. gr., 24. tölul.).
Lög 96/1975 (12. gr., 1. tölul.).
Lög 69/1976 (11. gr., 25. tölul.).
Lög 70/1976 (8. gr., 13. tölul.).
Lög 75/1976 (10. gr., 16. tölul.).
Lög 76/1976 (23. gr., 38. tölul.).
Lög 116/1976 (11. gr., 26. tölul.).
Lög 19/1977 (25. gr., 1. tölul.).
Lög 82/1977 (11. gr., 27. tölul.).
Lög 2/1978 (7. gr., 16. tölul.).
Lög 3/1978 (11. gr., 28. tölul.).
Lög 103/1978 (6. gr., 2. tölul.).
Lög 109/1978 (6. gr., 3. tölul.).
Lög 120/1978 (8. gr., 14. tölul.).
Lög 121/1978 (6. gr., 4. tölul.).
Lög 13/1979, 26. gr. (6. gr., 5. tölul.).
Lög 20/1979 (11. gr., 29. tölul.).
Lög 22/1979 (7. gr., 17. tölul.).
Lög 98/1979 (12. gr., 2. tölul.).
Lög 9/1980 (8. gr., 15. tölul.).
Lög 28/1980 (8. gr., 16. tölul.).
Lög 74/1980 (19. gr., 4. tölul.).
Lög 8/1981 (19. gr., 3. tölul.).
Lög 10/1981 (6. gr., 6. tölul.).
Lög 12/1981 (6. gr., 7. tölul.).
Lög 13/1981 (11. gr., 27. tölul.).
Lög 37/1981 (8. gr., 17. tölul.).
Lög 81/1981 (7. gr., 18. tölul.).
Lög 7/1982 (7. gr., 19. tölul.).
Lög 28/1982 (7. gr., 20. tölul.).
Lög 60/1982 (8. gr., 18. tölul.).
Lög 1/1983 (23. gr., 39. tölul.).
Lög 2/1983 (6. gr., 8. tölul.).
Lög 25/1983 (8. gr., 19. tölul.).
Lög 23/1984 (12. gr., 3. tölul.).
Lög 35/1984 (10. gr., 21. tölul.).
Lög 37/1984 (10. gr., 22. tölul.).
Lög 43/1984, 1.–3. gr., 7. gr. og 26.–29. gr. (12. gr., 4. tölul.).
Lög 15/1985 (10. gr., 23. tölul.).
Lög 48/1985 (12. gr., 5. tölul.).
Lög 60/1988 (10, gr., 24, tölul.).