Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 126 . mál.


Ed.

130. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 64 21. maí 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, sbr. lög nr. 72 30. maí 1984.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðist svo:
     Hafrannsóknastofnuninni er heimilt, að fengnu samþykki stjórnar stofnunarinnar og sjávarútvegsráðherra, að eiga aðild að rannsóknar - og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð er þrói hugmyndir og hagnýti niðurstöður rannsóknar - og þróunarverkefna sem stofnunin vinnur að hverju sinni.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.


A t h u g a s e m d i r v i ð l a g a f r u m v a r p þ e t t a .


    Með frumvarpi þessu er lagt til að Hafrannsóknastofnuninni verði heimilt að eiga aðild að rannsóknar - og þróunarfyrirtækjum sem vinna að því að hagnýta niðurstöður rannsókna stofnunarinnar í þágu atvinnuveganna. Er líklegt að fyrst verði samvinna við fyrirtæki á sviði eldis sjávardýra en einnig opnast möguleikar á öðrum sviðum rannsókna eins og t.d. þróun veiðarfæra. Með þátttöku stofnunarinnar í slíkum fyrirtækjum er stuðlað að betri tengslum og samvinnu við fyrirtæki í sjávarútvegi og þannig munu niðurstöður rannsókna stofnunarinnar nýtast betur í þágu sjávarútvegs.
    Sams konar breyting og hér er lögð til hefur verið gerð á lögum um Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 8/1986, um Iðntæknistofnun Íslands, sbr. lög nr. 77/1986, og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sbr. lög nr. 71/1989.
    Aðild Hafrannsóknastofnunarinnar að stofnun fyrirtækja í þessu skyni er háð samþykki stjórnar stofnunarinnar og sjávarútvegsráðherra hverju sinni. Jafnframt er heimildin bundin við aðild að félögum með takmarkaðri ábyrgð þannig að áhættan verður takmörkuð við hlutafjárframlög.
    Einstakar greinar frumvarpsins þarfnast ekki nánari skýringa.