Ferill 57. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 57 . mál.


Sþ.

211. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990, sbr. lög nr. 72/1990.

Frá minni hl. fjárveitinganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1990 til athugunar. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með nokkrum breytingum en minni hl. stendur ekki að afgreiðslu málsins. Sú afstaða byggist þó ekki á því að minni hl. sé andvígur öllum breytingartillögum meiri hl. heldur á því aðalatriði að stjórn á fjármálum ríkisins er með þeim hætti í höndum núverandi ríkisstjórnar að minni hl., fulltrúar stjórnarandstöðunnar, getur á engan hátt átt þar aðild að. Hluti af því dæmi öllu kemur fram í því frumvarpi sem hér er til afgreiðslu.
    Þegar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1990 var lagt fram fyrir rúmi ári taldi fjármálaráðherra að megináhrif stefnumiða frumvarpsins birtust í eftirfarandi:
     Tekjur ríkissjóðs áttu að lækka á árinu 1990 um 1,5% að raungildi eða 1.500 m.kr.
     Útgjöld ríkissjóðs áttu að lækka um 4,2% að raungildi eða 4.000 m.kr.
     Halli ríkissjóðs átti að lækka og verða um 2.900 m.kr.
    Frumvarpinu var fjálglega lýst sem nýjum hornsteini „jafnvægis og stöðugleika“.
    Fljótt kom í ljós að hér var málum blandið. Frumvarpið var losaralega unnið og götótt. Forsendur þess voru afar óljósar og samanburðartölur í ýmsum greinum villandi. Ljóst var að skattbyrðin átti að halda áfram að vaxa, rekstrarumfang ríkisins að aukast og þar með útgjöldin, en tekinn var upp nýstárlegur feluleikur til þess að reyna að leyna því í lengstu lög hversu mikil hækkun yrði á raunverulegum útgjöldum ríkissjóðs.
    Fjárlögin fyrir þetta ár voru síðan afgreidd fyrir tæpu ári með nálega 3,7 milljarða kr. halla. Nokkrar breytingar urðu í meðförum Alþingis, m.a. var hulunni svipt af feluleiknum með gjaldahliðina í ýmsum smærri atriðum, en sama leiknum haldið staðfastlega áfram í fjölmörgum hinna veigameiri mála. Hvergi var komist fyrir rætur vandans í fjármálum ríkisins, þ.e. þenslu í rekstrarumsvifum ríkiskerfisins og eyðslu hjá ráðherrunum sjálfum. Við, sem skipum minni hl. fjárveitinganefndar og erum fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi, gagnrýndum þá afgreiðslu harðlega og sýndum lið fyrir lið fram á skekkjur í niðurstöðum þar sem stjórnarliðið kaus að loka augunum til þess að geta haldið feluleiknum áfram. Okkar mat var að halli á fjárlagadæminu yrði eigi minni en 6 7 milljarðar kr. og væri þó gífurlegum vanda í útgjöldum ríkisins slegið á frest og þannig velt yfir á herðar framtíðarinnar.
    Nú er að koma til afgreiðslu fjáraukalagafrumvarp sem er annað í röðinni við fjárlög þessa árs. Það fyrsta var afgreitt í byrjun maímánaðar sl. og fól það í sér nokkurn niðurskurð á einstökum útgjaldaliðum og einnig hækkun annarra, en meginbreytingin varð þá bæði tekna- og gjaldamegin vegna breyttra forsendna við þjóðarsáttina. Svo sem kunnugt er hafði ríkisstjórnin byggt á þeim stefnumiðum sínum að verðlag á milli ára 1989 og 1990 hækkaði um 16 17%, erlendur gjaldeyrir um 13 14% og laun um 11% sem þýddi 5,5% lækkun kaupmáttar. Þessu vildu aðilar vinnumarkaðarins ekki una og mótuðu nýjan efnahagsgrundvöll fyrir ríkisstjórnina þar sem verðlagshækkun milli ára færðist niður í eins stafs tölu og skerðingu kaupmáttar launafólks var að mestu eytt á þessu ári. Hinar nýju efnahagsforsendur þýddu liðlega 2.000 m.kr. sparnað í rekstri ríkissjóðs frá efnahagsgrunni ríkisstjórnarinnar.
    Þriðja fjáraukalagafrumvarpið verður væntanlega flutt snemma á næsta ári og er engan veginn hægt að segja fyrir um það nú hvernig það muni líta út.
    Í töflu 1 hér á eftir er sýnt hvernig útgjöld A-hluta ríkissjóðs (í þús. kr.) skiptast á einstök ráðuneyti samkvæmt fjárlögum og þær breytingar sem á þeim verða við fjáraukalög í maí sl. og við það frumvarp sem hér kemur til 2. umræðu miðað við breytingartillögur meiri hl. fjárveitinganefndar.

Tafla 1.


Fjárlög
Fjáraukalög Fjáraukalög Hækkun frá
Ráðuneyti
1990
í maí í nóv. fjárlögum Samtals

Æðsta stjórn ríkisins
1.051.452
-83.000 43.360 -39.640 1.011.812
Forsætisráðuneyti
674.204
62.700 62.700 736.904
Menntamálaráðuneyti
14.326.583
-99.000 673.980 574.980 14.901.563
Utanríkisráðuneyti
1.173.690
-5.000 187.400 182.400 1.356.090
Landbúnaðarráðuneyti
3.404.144
27.000 207.600 234.600 3.638.744
Sjávarútvegsráðuneyti
857.552
-8.000 57.300 49.300 906.852
Dómsmálaráðuneyti
4.319.708
-55.000 173.700 118.700 4.438.408
Félagsmálaráðuneyti
3.749.738
49.565 49.565 3.799.303
Heilbrigðisráðuneyti
38.616.399
2.000 1.545.200 1.547.200 40.163.599
Fjármálaráðuneyti
5.062.692
-116.000 909.000 793.000 5.855.692
Samgönguráðuneyti
6.913.796
-144.000 376.300 232.300 7.146.096
Iðnaðarráðuneyti
1.061.933
-20.000 231.100 211.100 1.273.033
Viðskiptaráðuneyti
4.657.319
800.000 12.000 812.000 5.469.319
Hagstofa Íslands
108.648
108.648
Umhverfisráðuneyti
22.951
2.500 2.500 25.451
Fjárlaga- og hagsýslustofnun
9.230.704
-2.000 -318.000 -320.000 8.910.704
Breyttar forsendur
-2.050.000 -2.050.000
Samtals A - hluti
95.231.513
-1.753.000 4.213.705 4.510.705 97.692.218



    Tafla 2 sýnir á hinn bóginn (í millj. kr.) tekjuhlið, gjaldabálk og hallarekstur A-hluta ríkissjóðs á árinu 1990 samkvæmt fjárlögum, fjáraukalögum í maí og fjáraukalagafrumvarpi nú, miðað við breytingartillögur meiri hl. fyrir 2. umr.

Tafla 2.

    
    
Fjárlög
Fjáraukalög Fjáraukalagafrv.
    
1990
í maí eftir 2. umr.
    Tekjur
91.544
88.944 92.574
    Gjöld
95.231
93.478 97.692
    Halli
-3.686
-4.533 -5.177

    Það yfirlit, sem þessar töflur sýna, sannar að ýmsu leyti haldleysi þeirra fjárlaga sem afgreidd voru fyrir tæpu ári. Það sannar líka að niðurskurðurinn í fjáraukalögum í maí var að meira eða minna leyti sýndarmennska og enn fremur að hallareksturinn er þegar kominn yfir 5.000 m.kr. Er þá nauðsynlegt að muna eftir því sem fyrr er getið og fram kemur í töflu 1 að nýjar forsendur vegna þjóðarsáttarinnar, sem aðilar vinnumarkaðarins færðu ríkisstjórninni á silfurdiski, hafa lækkað útgjaldaáætlun ríkissjóðs á þessu ári um rúmlega 2.000 m.kr. Þetta yfirlit og samanburður við fjárlög ársins á undan sýnir að tekjur ríkissjóðs lækka ekki að raungildi á árinu 1990 um 1.500 m.kr. eins og fjármálaráðherra sagði fyrir ári heldur hækka þær um 2.500 m.kr. að raungildi. Útgjöld ríkissjóðs lækka ekki frá árinu á undan um 4.000 m.kr. að raungildi eins og fjármálaráðherra fullyrti heldur hækka þau um yfir 5.000 m.kr. að raungildi. Halli ríkissjóðs er kominn yfir 5 milljarða kr. og á eftir að hækka því að ekki eru öll kurl til grafar komin enn þá. Yfirlætisfullar staðhæfingar fjármálaráðherra um nýjan hornstein, nýjan grundvöll að jafnvægi, stöðugleika í fjármálum ríkisins o.s.frv. eru álíka mikils virði og sprunginn belgur. Þetta kemur þó betur í ljós síðar.

Frumvarpið og afgreiðsla þess.


    Með frumvarpinu er farið fram á hækkun útgjalda hjá ríkissjóði um 4.056 m.kr. Í þeim auknu útgjöldum kennir ýmissa grasa. Af einstökum útgjaldaliðum er sá hæsti til Tryggingastofnunar ríkisins, 1.200 m.kr., þar af 1.100 m.kr. til sjúkratrygginga en um helmingurinn af því er aukinn lyfjakostnaður. Þetta er athyglisvert því að ætlunin var að spara 500 m.kr. í sjúkrakostnaði. Minni hl. vakti athygli á því við afgreiðslu fjárlaga að ólíklegt væri að þetta tækist. Sú hefur orðið raunin.
    Athyglisvert er einnig hversu rýmilega er ætlað fyrir auknum útgjöldum á vegum fjármálaráðuneytisins eða samtals um 909 m.kr. Útgjaldaaukning þessa ráðuneytis hefur síðustu árin verið gífurleg og meiri en annars staðar í ríkiskerfinu.
    Við 2. umr. leggur meiri hl. fjárveitinganefndar fram nokkrar breytingartillögur, sem samtals nema 157,7 m.kr., til hækkunar útgjalda. Við þessa umræðu vekur það meiri athygli hvað ekki er tekið inn í tillögur meiri hl. en tillögurnar sjálfar. Eru sum þessara mála þannig að augljóslega er verið að gera tilraun til að leyna raunveruleikanum eins lengi og fært er. Önnur sýnast eiga að bíða fjáraukalagafrumvarps á nýju ári og um enn önnur virðast teknar umdeilanlegar ákvarðanir.
    Stærst af þessum málum er yfirtaka ríkissjóðs 1. júní sl. á yfirdráttarskuld Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins í Seðlabankanum sem við þessa umræðu er ekki gerð tillaga um að færa á greiðsluyfirlit ríkissjóðs til gjalda. Hér er um liðlega 1.500 m.kr. að ræða. Ríkisendurskoðun hefur skilað greinargerð um málið, dags. 19. nóv. sl. Þar segir m.a.: „Ekki hægt að horfa fram hjá því að ríkissjóður yfirtók gjaldfallna yfirdráttarskuld en ekki ógjaldfallna skuld samkvæmt skuldabréfi.“ Síðar segir: „Af þeim sökum verður ekki komist hjá því að afla fullgildrar lagaheimildar til greiðslu og lántöku ef með þarf vegna uppgjörs ríkissjóðs á skuldum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins við Seðlabanka Íslands.“ Hér liggur það ljóst fyrir að greiðsluheimildar þarf að afla í fjáraukalögum fyrir yfirtöku þessara lausaskulda 1. júní sl. Vel má vera að um þetta verði flutt breytingartillaga við 3. umr. Greinargerð Ríkisendurskoðunar ásamt fylgibréfum er birt sem fylgiskjal með þessu nefndaráliti.
    Þá er ekki nema að litlu leyti tekið tillit til alvarlegs hallarekstrar hjá sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Sumpart stafar þessi halli af því að virðisaukaskattur leggst mun þyngra á rekstur þessara stofnana en söluskattur gerði áður. Ekki var gert ráð fyrir þessum kostnaðarauka í fjárlögum og er sömu sögu að segja um margar stofnanir ríkiskerfisins. Meiri hl. hefur ekki tekið upp í tillögur sínar eina einustu krónu til að mæta þessari skattheimtu á stofnanir sem ríkið rekur og er hjá sjúkrahúsunum einum um 90 m.kr. á þessu ári. Þessi fjárhæð, sem þannig á að spara, svarar til kostnaðar við 50 legurúm fyrir aldraða á einu ári.
    Fjármálaráðuneytið segir ráðherrana hafa komist að samkomulagi um að skila ekki til atvinnuveganna jöfnunargjaldi sem innheimt verður í desembermánuði á þessu ári. Þessi ákvörðun kemur þvert ofan í gefin loforð. Þessi endurgreiðsla ætti að nema í desember um 260 m.kr. til allra atvinnugreina, þar af til iðnaðarins 50 m.kr.
    Til Atvinnuleysistryggingasjóðs vantar til loka ársins um 200 m.kr. sem áformað er að afla með því að selja verðbréf í eigu sjóðsins með allt að 30% afföllum. Viðbótarfjárþörf Lánasjóðs íslenskra námsmanna á þessu ári er um 452 m.kr. og reiknað er með að mæta henni með enn aukinni lántöku. Með þessari ráðstöfun er verið að rýra eigið fé sjóðsins sem eykur fjárhagsvanda hans í framtíðinni.
    Ekkert hefur heyrst af samningum fjármálaráðherra við nokkur stærri sveitarfélög um greiðslu á skuldum ríkissjóðs samkvæmt heimild í 6. gr. fjárlaga en skuldir þessar eru öðrum hvorum megin við 1 milljarð kr.
    Þótt fjölmörg smærri málefni séu hér ótalin sýnir framanskráð að fjarri fer því að öll kurl séu til grafar komin varðandi útgjöld ríkissjóðs á þessu ári við 2. umr. frumvarpsins. Má í því sambandi minna á afgreiðslu fjáraukalaga 21. desember í fyrra er heimiluðu 8,5 milljarða kr. aukin útgjöld umfram fjárlög. Eigi að síður þurfti fjármálaráðherra að biðja um meira en 1 milljarð kr. í nýjum fjáraukalögum sem eytt var umfram heimildir síðustu 10 daga ársins.
    Ríkisstjórnin og stuðningslið hennar munu væntanlega reyna að ýta sumu af því á undan sér sem að framan er talið, halda feluleiknum áfram, láta fljóta meðan ekki sekkur. Önnur atriði eru þess efnis að ekki verður komist hjá að taka þau inn á greiðsluyfirlit ríkissjóðs í fjáraukalögum.
    Spá okkar í minni hl. við afgreiðslu fjárlaga fyrir tæpu ári um 6 7 milljarða kr. raunverulegan halla ríkissjóðs á þessu ári var varfærin. Miðað við horfur nú sýnist það síst of í lagt ef ríkisstjórnin og stuðningslið hennar beitir ekki beinum bolabrögðum í feluleiknum. Árið verður ekki gert upp fyrr en með fjáraukalögum eftir áramót og með ríkisreikningi. Enn er því ekki tímabært að gefa fjármálaráðherra einkunn fyrir fjármálastjórnina á árinu þótt frammistaðan, ekki síst í eigin ráðuneyti, gefi sterkar bendingar um hver hún verður.
    Hitt er ljóst að gagnrýni okkar í minni hl. við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár hefur þegar sannast og að öll glamuryrði fjármálaráðherra um nýja hornsteina, jafnvægi og stöðugleika í fjármálum ríkisins hafa reynst gaspur eitt.

Alþingi, 27. nóv. 1990.



Pálmi Jónss

on,

frsm.

Málmfríður Sigurðardóttir.

Egill Jónsson.


Friðjón Þórðarson.





Fylgiskjal.
.......



Bréf Ríkisendurskoðunar til fjárveitinganefndar um yfirtöku


ríkissjóðs á lausaskuldum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins.


(19. nóv. 1990.)



    Vísað er til bréfs fjárveitinganefndar dags. 13. nóvember 1990 þar sem óskað er eftir greinargerð Ríkisendurskoðunar um yfirtöku ríkissjóðs á lausaskuldum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins.
    Með lögum nr. 39 15. maí 1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, var Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins lagður niður. Í ákvæði til bráðabirgða í nefndum lögum er kveðið á um að ríkissjóður skuli taka við skuldbindingum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Í athugasemdum við umrætt ákvæði í frumvarpi að lögum þessum segir m.a.:
    „Verulegar skuldbindingar eru nú á Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, bæði vegna lántöku hjá Seðlabankanum 1981 og vegna tveggja lána sem tekin voru 1988 og 1989. Áætla má að skuldir þessar geti numið allt að 2.000 m.kr. með vöxtum og gengistryggingu. Nauðsynlegt er að ríkissjóður taki á sig þessar skuldbindingar enda hafa verið gefin fyrirheit um það.“
    Nánar tiltekið mun ríkissjóður hafa tekið yfir eftirtaldar skuldbindingar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins.
     Lán, er tekið var í Seðlabanka Íslands á árinu 1981, og Ríkisábyrgðarsjóður sem ábyrgðaraðili varð að leysa til sín er það gjaldféll á sínum tíma, nú samtals að fjárhæð um 230 milljónir króna.
     Lán í formi yfirdráttar á hlaupareikningi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins hjá Seðlabanka Íslands að fjárhæð allt að 800 milljónir króna samkvæmt heimild í 1. gr. laga nr. 83/1988, sbr. yfirlýsingu um lántökuna frá 13. október 1988.
     Lán í formi yfirdráttar á hlaupareikningi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins hjá Seðlabanka Íslands að fjárhæð allt að 400 milljónir króna samkvæmt heimild í 1. gr. laga nr. 51/1989, sbr. yfirlýsingu um lántökuna frá 13. október 1988.
    Ríkissjóður tók í samræmi við tilgreindar lagaheimildir ábyrgð á báðum þeim lánum, sem um ræðir í lið 2 og 3 hér að ofan, sbr. áritun fjármálaráðherra á yfirlýsingarnar, sem Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins gaf út vegna lánanna. Í 4. tölul. yfirlýsinganna beggja er jafnframt kveðið á um að þegar fulldregið verði á lánin, þó eigi síðar en hinn 31. desember 1989 vegna fyrri lántökunnar og 30. apríl 1990 vegna þeirrar síðari, skuli yfirdráttarskuldirnar eins og þær eru ásamt vöxtum, vaxtaálögum og kostnaði, settar á skuldabréf, sem skulu endurgreiðast af tekjum frystiafurðadeildar Verðjöfnunarsjóðs, reikningi fyrir freðfisk og hörpudisk, af þessum afurðum til 15. júní 1992, sbr. 6. tölul. í síðari yfirlýsingunni.
    Við gildistöku laga nr. 39/1990, um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, 1. júní sl. féllu lög nr. 72/1969, um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, úr gildi. Þann sama dag yfirtók ríkissjóður ofangreindar skuldbindingar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Yfirdráttarskuldirnar á hlaupareikningi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins hjá Seðlabankanum, sbr. liðir 2 og 3 hér að ofan, námu 1. nóvember sl. 1.274,9 milljónum króna. Skuldin við Ríkisábyrgðasjóð, sbr. lið 1 hér að framan, nam á sama tíma 230 milljónum króna eins og áður segir.
    Með bréfi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins dags. 6. nóvember 1990 til Seðlabanka Íslands er gerð grein fyrir endanlegri skuldastöðu sjóðsins vegna lánanna frá árinu 1988 og 1989. Í bréfinu segir svo m.a.:
    „Samkvæmt lögum nr. 9/1989 og lögum nr. 51/1989 skyldi umrætt lán endurgreitt af tekjum Verðjöfnunarsjóðs af viðkomandi afurðum á næstu þremur árum eftir að það var tekið en það sem þá kynni að vera ógreitt skyldi falla á ríkissjóð. Með lögum nr. 39 15. maí 1990 er Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins lagður niður og skal ríkissjóður taka við skuldbindingum sjóðsins samkvæmt bráðabirgðaákvæði sömu laga. Samkvæmt því er fullljóst að skuldbindingar sjóðsins samkvæmt fyrrgreindri yfirdráttaryfirlýsingu falla á ríkissjóð og telur Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins frekari afskipti af frágangi skuldarinnar því ekki í verkahring sjóðsins.“
    Ekki verður um það deilt að skuld sjóðsins við Ríkisábyrgðarsjóð, sbr. lið 1 hér að framan, er gjaldfallin, enda er þar um að ræða endurkröfu vegna ábyrgðar, sem féll á Ríkisábyrgðasjóð vegna þess að Verðjöfnunarsjóður greiddi ekki á gjalddaga tiltekna skuld, sem ríkið ábyrgðist.
    Að því er þá spurningu varðar hvort yfirdráttarskuldir þær, sem um ræðir í lið 2 og 3 hér að framan, séu í gjalddaga fallnar eða ekki skal eftirfarandi tekið fram. Ríkissjóður tók eins og áður segir við öllum skuldbindingum Verðjöfnunarsjóðs í kjölfar þess að hann var lagður niður 1. júní sl., sbr. 14. gr., og ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 39/1990. Því sjónarmiði sýnist mega hreyfa að í þessu felist jafnframt heimild fyrir ríkissjóð til þess að nýta sér heimildir eða rétt, sem Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins áður átti samkvæmt samningum við lánardrottna sína til þess t.d. að koma yfirdráttarskuldum í skil með tilteknum hætti, sbr. heimild sjóðsins í 4. tölul. yfirlýsingar þeirrar, sem fjallað er um hér að framan, til að gefa út skuldabréf fyrir umræddum yfirdrætti. Eðlilegt sé að túlka umrætt bráðabirgðaákvæði rúmt þannig að það verði og talið fela í sér að ríkissjóður geti gengið inn í rétt Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins til skuldbreytinga af þessu tagi. Því sé ekki nauðsynlegt að leita eftir sérstakri greiðslu- og lántökuheimild Alþingis af þessu tilefni þar sem engar greiðsluhreyfingar fylgi því að ganga frá málinu með þessum hætti.
    Að mati Ríkisendurskoðunar leyfir umrætt bráðabirgðaákvæði ekki svo rúma túlkun. Það mælir einungis fyrir um að ríkissjóður taki yfir skuldbindingar sjóðsins en hvorki réttindi né eignir að öðru leyti. Eignir hans teljast t.d. þvert á móti með ráðstöfunarfé hins nýja sjóðs, Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins, og skal þeim varið til greiðslu verðbóta með tilteknum hætti samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu. Fyrir liggur að ekki var gengið frá skuldabréfi milli Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og Seðlabanka Íslands eins og ráð var fyrir gert í yfirlýsingunum, sbr. það sem rakið er um þau áform hér að framan. Þar sem Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins hefur verið lagður niður kæmi það í hlut ríkissjóðs að gefa í sínu nafni út umrætt skuldabréf ef þessi leið yrði farin. Í þessu sambandi er hins vegar á það að líta að skv. 10. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, er bankanum einungis heimilt að veita ríkissjóði lán til skamms tíma og skulu slík lán greiðast upp innan þriggja mánaða frá lokum hvers fjárhagsárs með lántöku eða annarri fjáröflun utan Seðlabanka. Eins og á stóð er að mati Ríkisendurskoðunar ekki hægt að horfa fram hjá því að ríkissjóður yfirtók gjaldfallna yfirdráttarskuld sjóðsins en ekki ógjaldfallna skuld samkvæmt skuldabréfi. Því virðist umrætt ákvæði Seðlabankans girða fyrir þennan möguleika.
    Auk þess sem að framan er rakið er á það að líta að forsendur þær, sem bjuggu að baki áformum um endurgreiðslu lánanna, sýnast brostnar þegar litið er til þess að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins hefur hætt allri starfsemi og heyrir í raun sögunni til í kjölfar þess að hafa verið lagður niður frá og með 1. júní sl. með sérstöku lagaákvæði.
    Með hliðsjón af því sem að framan er rakið lítur Ríkisendurskoðun svo á að ofangreindar skuldbindingar Verðjöfnunarsjóðs hafi allar verið gjaldfallnar þegar ríkissjóður tók þær yfir 1. júní sl. Af þeim sökum verður ekki komist hjá því að afla fullgildrar lagaheimildar til greiðslu og lántöku ef með þarf vegna uppgjörs ríkissjóðs á skuldum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins við Seðlabanka Íslands.
    Að lokum skal þess getið að 6. júní sl. komust fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Seðlabanki Íslands að samkomulagi um uppgjör skuldabréfalána ríkissjóðs við bankann en það á rætur að rekja til skulda, sem mynduðust á viðskiptareikningi ríkissjóðs í bankanum fyrir gildistöku laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, og samið var um til ákveðins tíma. Samkvæmt þessu samkomulagi greiddi ríkissjóður Seðlabankanum 3.517,3 milljónir króna og aflaði til þess fjár með því að selja innlánsstofnunum skuldabréf. Af framangreindri greiðslu runnu 189,5 milljónir króna til að greiða upp lán, sem Ríkisábyrgðasjóður tók á sínum tíma hjá Seðlabankanum vegna greiðslufalls Verðjöfnunarsjóðs á láni því sem um ræðir í lið 1 hér að framan. Í greiðsluyfirliti ríkisbókhalds hefur mótbókun vegna lántökunnar verið færð á viðskiptareikning. Eins og mál þetta er vaxið er að mati Ríkisendurskoðunar eðlilegt að færa umrædda 189,5 milljóna króna greiðslu, svo og eftirstöðvar umræddrar skuldar sem framlag til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og að fjármálaráðherra leiti í samræmi við það eftir greiðsluheimild Alþingis hér að lútandi. Á móti þessu ætti fjárþörf Ríkisábyrgðarsjóðs, sem áætluð var 240 milljónir króna í fjárlögum fyrir árið 1990, að lækka um 130 milljónir króna. Skýringin á lækkun þessari er sú að gert var ráð fyrir að verja 90 milljónum króna af áðurnefndu 240 milljóna króna fjárframlagi á fjárlögum fyrir árið 1990 til greiðslu á umræddri skuld. Sú fjárhæð, að viðbættri greiðslu ríkissjóðs til Ríkisábyrgðasjóðs á eftirstöðvum skuldarinnar, sem eru 40,5 milljónir króna, mun þannig bæta greiðslustöðu sjóðsins um 130 milljónir króna.

Halldór V. Sigurðsson.


Sig. Þórðarson.



Hjálagt:
Bréf Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins dags. 6. nóvember 1990.
Yfirlýsing dags. 13. október 1988.
Yfirlýsing dags. 8. júní 1989.


Seðlabanki Íslands
Kalkofnsvegi 1
101 Reykjavík.

6. nóvember 1990.


    Með lögum nr. 9 2. mars 1989, um efnahagsaðgerðir, sbr. brbl. nr. 83 28. september 1988, var stjórn frystideildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins heimilað að taka allt að 800 m.kr. lán hjá Seðlabanka Íslands eða fyrir milligöngu hans er verja skyldi til greiðslu verðbóta á freðfisk og hörpudisk. Með lögum nr. 51 1. júní 1989, um ráðstöfun vegna kjarasamninga, var stjórn frystideildar heimilað að taka 400 m.kr. viðbótarlán í þessu skyni.
    Þessar lántökuheimildir voru nýttar og samdi stjórn frystideildar við Seðlabanka Íslands um heimild til yfirdráttar á hlaupareikningi sjóðsins í þessu skyni, sbr. fyrst yfirlýsingu dags. 13. október 1988, en síðar yfirlýsingu dags. 8. júní 1989 sem náði til lántöku vegna heimilda í báðum áður tilvitnuðum lögum.
    Lántökur þessar voru nýttar til greiðslu verðbóta vegna framleiðslu á tímabilinu 1. júní 1988 til 31. desember 1989. Uppgjöri vegna framleiðslu á þessu tímabili er nú lokið. Nam yfirdráttur vegna freðfisks samtals 15.496.192,70 SDR sem samsvarar 1.066.079.860 IKR miðað við gengi á þeim dögum sem ádráttur átti sér stað. Yfirdráttur vegna verðbóta á hörpudisk nam 688.374,67 SDR sem samsvarar 47.862.307 IKR miðað við sömu gengisforsendur og að framan getur. Samtals nemur yfirdráttur miðað við gengi á einstökum yfirdráttardögum því 1.113.942.167 IKR eða 16.184.567,37 SDR. Þetta samsvarar 1.274.851.898 IKR miðað við gengi 1. þ.m. Sendist hjálagt yfirlit varðandi yfirdráttarskuld þessa.
    Samkvæmt lögum nr. 9/1989 og lögum nr. 51/1989 skyldi umrætt lán endurgreitt af tekjum Verðjöfnunarsjóðs af viðkomandi afurðum á næstu þremur árum eftir að það var tekið en það sem þá kynni að vera ógreitt skyldi falla á ríkissjóð. Með l. nr. 39 15. maí 1990 er Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins lagður niður og skal ríkissjóður taka við skuldbindingum sjóðsins samkvæmt bráðabirgðaákvæði sömu laga. Samkvæmt því er fullljóst að skuldbindingar sjóðsins samkvæmt fyrrgreindri yfirdráttaryfirlýsingu falla á ríkissjóð og telur Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins frekari afskipti af frágangi skuldarinnar því ekki í verkahring sjóðsins.

Virðingarfyllst.



F.h. Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins

,

Árni Kolbeinsson, formaður

.



Y F I R L Ý S I N G


    Vegna lántöku deildar fyrir frystar afurðir í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, reikninga fyrir freðfisk og hörpudisk, skv. 1. gr. bráðabirgðalaga um efnahagsaðgerðir, nr. 83 frá 28. sept. 1988, í formi yfirdráttar á hlaupareikningi sjóðsins nr. 35217 við Seðlabanka Íslands að fjárhæð allt að kr. 800.000.000,00, áttahundruðmilljónirkróna , lýsir undirritaður yfir eftirfarandi f.h. sjóðsins:
     Hámark skuldar á hlaupareikningi vorum frá og með deginum í dag þar til fulldregið verður á lánið, þó eigi síðar en 31. desember 1989, nemi ekki hærri fjárhæð en ofangreindum 800.000.000,00. Af þeirri fjárhæð eru allt að 750 m.kr. vegna freðfisks en allt að 50 millj. kr. vegna hörpudisks. Ráðgert er að draga eftir þörfum á greindan hlr. að hámarkinu.
     Yfirdráttarskuldin, eins og hún er á hverjum tíma, er bundin kaupgengi SDR eins og það er skráð á þeim degi er til skuldar er stofnað hverju sinni. Seðlabankinn getur skipt um lánsgrundvöll með því að afla erlends lánsfjár sem yrði grunnur yfirdráttarheimildar þessarar og síðar láns skv. 4. lið hér á eftir. Miðað skal við að lánsgrundvöllur sé ávallt skilgreindur í SDR, nema fjármálaráðuneytið að höfðu samráði við sjóðinn fallist á aðra gengisviðmiðun. Jafnframt hefur Seðlabankinn fallist á að láta sjóðinn njóta þeirra kjara sem um kann að semjast, þegar og ef skipt er um lánsgrundvöll, en áskilur sér þó rétt í því sambandi til að bæta vaxtaálagi við umsamda vexti, en vaxtaálagið fari þó aldrei fram úr 1 / 8 % (0,125%).
     Vextir af yfirdráttarskuldinni, eins og hún er á hverjum tíma, skulu vera millibankavextir í London (LIBOR) samvegnir eftir samsetningu SDR hverju sinni, sbr. þó ákvæði 2. liðar hér að framan. Þó skulu vextir vera hinir sömu og gilda á hverjum tíma af innstæðum Verðjöfnunarsjóðs, deildar fyrir frystar afurðir, ef skuldin fer ekki fram úr fjárhæð innstæðu.
     Þegar fulldregið verður á lánið, þó eigi síðar en 31. desember 1989, skal yfirdráttarskuldin, eins og hún er þá ásamt vöxtum, vaxtaálagi, ef um það er að ræða, og hugsanlegum kostnaði, færð í form skuldabréfs og skal skuldin endurgreidd af tekjum Verðjöfnunarsjóðs, deildar fyrir frystar afurðir, af reikningum fyrir freðfisk og hörpudisk í þeim hlutföllum sem getið er í 1. lið hér að framan á næstu þremur árum þar á eftir af tekjum sjóðsins af þeim afurðum. Það sem þá kann að vera ógreitt fellur á ríkissjóð, sbr. ákvæði 3. mgr. 1. gr. bráðabirgðalaga nr. 83/1988. Vextir skuldabréfsins ákveðast hinir sömu og á 3. lið hér að framan, sbr. þó ákvæði 2. liðar, og endurgreiðsla skuldarinnar miðast við breytingar á kaupgengi SDR, sem er grundvöllur láns þessa á hverjum tíma, sbr. 2. lið hér að framan.
     Til tryggingar skilvísri og skaðlausri endurgreiðslu á skuld þessari, auk vaxta, vaxtaálags, ef um það er að ræða, og hugsanlegs kostnaðar, tekst ríkissjóður Íslands, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 83/1988 á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuld þessari.

Reykjavík, 13. október 1988.



F.h. Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins,


deildar fyrir frystar afurðir.


Árni Kolbeinsson.




    Fjármálaráðuneytið, f.h. ríkissjóðs, tekst hér með á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu skuldar þessarar með heimild í 1. gr. laga nr. 83 28. sept. 1988. Jafnframt skal ríkissjóður greiða þann hluta skuldarinnar, sem ekki greiðist af tekjum sjóðsins vegna skuldar samkvæmt skuldabréfi, sbr. 4. lið hér að framan ásamt vöxtum, vaxtaálagi, ef um það er að ræða, og hugsanlegum kostnaði, sbr. ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga nr. 83/1988.

D.u.s.


Ríkissjóður Íslands



Ólafur Ragnar Grímsson


fjármálaráðherra.




Y F I R L Ý S I N G


    Vegna lántöku deildar fyrir frystar afurðir í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, reikninga fyrir freðfisk og hörpudisk, skv. 1. gr. laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga, nr. 51 frá 1. júní 1989, í formi yfirdráttar á hlaupareikningi sjóðsins nr. 35217 við Seðlabanka Íslands að fjárhæð allt að 400 m.kr. til viðbótar lántöku á hliðstæðan hátt að fjárhæð allt að 800 m.kr. skv. heimild í 1. gr. laga nr. 9 frá 2. mars 1989, eða samtals að hámarki kr. 1.200.000.000,00 tólfhundruðmilljónirkróna , lýsir undirritaður yfir eftirfarandi f.h. sjóðsins:
     Hámark skuldar á hlaupareikningi vorum frá og með deginum í dag þar til fulldregið verður á lánið, þó eigi síðar en 30. apríl 1990, nemi ekki hærri fjárhæð en ofangreindum kr. 400.000.000,00 til viðbótar áðurgreindum kr. 800.000.000,00. Af þeirri fjárhæð eru allt að 1.100 m.kr. vegna freðfisks en allt að 100 m.kr. vegna hörpudisks. Ráðgert er að draga eftir þörfum á greindan hlr. að hámarkinu, sbr. þó bréf Verðjöfnunarsjóðs til fjármálaráðuneytisins dagsett í dag.
     Yfirdráttarskuldin, eins og hún er á hverjum tíma, er bundin kaupgengi SDR. Grunngengi hvers ádráttar er kaupgengi SDR eins og það er skráð á þeim degi er til skuldar er stofnað hverju sinni. Seðlabankinn getur skipt um lánsgrundvöll og þar með gengisviðmiðun með því að afla erlends lánsfjár sem yrði grunnur yfirdráttarheimildar þessarar og síðar láns skv. 4. lið hér á eftir. Miðað skal við að lánsgrundvöllur sé ávallt skilgreindur í SDR, nema fjármálaráðuneytið að höfðu samráði við sjóðinn fallist á aðra gengisviðmiðun. Jafnframt hefur Seðlabankinn fallist á að láta sjóðinn njóta þeirra kjara sem um kann að semjast, þegar og ef skipt er um lánsgrundvöll en áskilur sér þó rétt í því sambandi til að bæta vaxtaálagi við umsamda vexti, en vaxtaálagið fari þó aldrei fram úr 1 / 8 % (0,125%).
     Vextir af yfirdráttarskuldinni, eins og hún er á hverjum tíma, skulu vera millibankavextir í London (LIBOR), samvegnir eftir samsetningu SDR hverju sinni, sbr. þó ákvæði 2. liðar hér að framan. Þó skulu vextir vera hinir sömu og gilda á hverjum tíma af innstæðum Verðjöfnunarsjóðs, deildar fyrir frystar afurðir, ef skuldin fer ekki fram úr fjárhæð innstæðu.
     Þegar fulldregið verður á lánið, þó eigi síðar en hinn 30. apríl 1990, skal yfirdráttarskuldin, eins og hún er þá ásamt vöxtum, vaxtaálagi, ef um það er að ræða, og hugsanlegum kostnaði, færð í form skuldabréfs og skal skuldin endurgreidd af tekjum Verðjöfnunarsjóðs, deildar fyrir frystar afurðir, af reikningi fyrir freðfisk annars vegar og hörpudisk hins vegar í samræmi við lántöku til hvors reiknings um sig, sbr. 1. lið hér að framan af tekjum sjóðsins af þeim afurðum til 15. júní 1992. Það sem þá kann að vera ógreitt, þ.e. hinn 15. júní 1992, fellur á ríkissjóð, sbr. ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga nr. 9/1989 og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 51 frá 1. júní 1989. Vextir skuldabréfsins ákveðast hinir sömu og á 3. lið hér að framan, sbr. þó ákvæði 2. liðar, og endurgreiðsla skuldarinnar miðast við breytingar á kaupgengi SDR, sem er grundvöllur láns þessa á hverjum tíma, sbr. 2. lið hér að framan.
     Til tryggingar skilvísri og skaðlausri endurgreiðslu á skuld þessari, auk vaxta, vaxtaálags, ef um það er að ræða, og hugsanlegs kostnaðar, tekst ríkissjóður Íslands, sbr. ákvæði 1. gr. laga nr. 9/1989 og 1. gr. laga nr. 51/1989, á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuld þessari.
     Yfirlýsing þessi er gefin út til viðbótar yfirlýsingu Verðjöfnunarsjóðs frá 13. október 1988 og gilda ákvæði þeirrar sem dagsett er 13. október 1988 um skuldir og viðskipti sjóðsins og ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum hans gagnvart Seðlabanka Ís           lands frá þeim degi til dagsetningar yfirlýsingar þessarar er ákvæði þessarar yfirlýsingar taka við.


Reykjavík, 8. júní 1989.


F.h. Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins,


deildar fyrir frystar afurðir.



Árni Kolbeinsson.



    Fjármálaráðuneytið f.h. ríkissjóðs tekst hér með á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu skuldar þessarar með heimild í 1. gr. laga nr. 9 frá 2. mars 1989 og 1. gr. laga nr. 51 frá 1. júní 1989. Jafnframt skal ríkissjóður greiða þann hluta skuldarinnar, sem ekki greiðist af tekjum sjóðsins vegna skuldar samkvæmt skuldabréfi, sbr. 4. lið hér að framan ásamt vöxtum, vaxtaálagi, ef um það er að ræða, og hugsanlegum kostnaði, sbr. ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga nr. 9/1989 og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 51/1989.

D.u.s.


Ríkissjóður Íslands



Ólafur Ragnar Grímsson


fjármálaráðherra.