Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 185 . mál.


Ed.

212. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     3. tölul. 24. gr. laganna hljóðar svo:
     Ráðherra skipar fimm manna samstarfsráð sjúkrahúsanna í Reykjavík, Borgarspítala, St. Jósefsspítala og Ríkisspítala. Í ráðinu eiga sæti formenn stjórna Borgarspítala, St. Jósefsspítala og Ríkisspítala og tveir fulltrúar skipaðir af ráðherra til eins árs í senn. Ráðið kýs sér formann úr hópi fulltrúa sjúkrahúsanna til tveggja ára í senn.
     Hlutverk ráðsins er að gera tillögur um mótun framtíðarstefnu áðurnefndra sjúkrahúsa, flokkun þeirra og starfssvið, þróunar og fjárfestingaráætlanir og stuðla þannig að sem hagkvæmastri verkaskiptingu þessara sjúkrahúsa.
     Tillögur samstarfsráðsins skulu lagðar fyrir stjórnir ofangreindra sjúkrahúsa til umfjöllunar og skulu þær síðan senda ráðuneytinu tillögur sínar. Samstarfsráð skal fylgjast með að sjúkrahúsin starfi í samræmi við fjárveitingar til þeirra, þær áætlanir sem gerðar hafa verið og að gætt sé fyllstu hagkvæmni í rekstri þeirra.
     Samstarfsráðið skal að öðru leyti annast verkefni sem heilbrigðismálaráð Reykjavíkurlæknishéraðs hefur með höndum og snerta þessi sjúkrahús.
     Framkvæmdastjóri þess sjúkrahúss, sem formaður stjórnar kemur frá hverju sinni, annast framkvæmd mála fyrir ráðið.

2. gr.


     3. tölul. 24. gr. verður 4. tölul. 24. gr. laganna.

3. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Allt frá setningu fyrstu laga um heilbrigðisþjónustu sem öðluðust gildi 1. janúar 1974 hafa verið í lögunum ákvæði um skiptingu sjúkrahúsa í flokka eftir tegund og þjónustu. Í sjálfum lögunum hefur aldrei verið tekin afstaða til einstakra sjúkrahúsa, heldur er ætlast til þess að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um flokkunina að höfðu samráði við Landssamband sjúkrahúsa, og ákveði jafnframt hver skuli vera verkaskipting og verksvið þeirra. Árið 1982 lágu fyrir drög að reglugerð um flokkun sjúkrahúsa samkvæmt framangreindu, sem unnin voru af sérstakri nefnd í samráði við Landssamband sjúkrahúsa og sjúkrahúsin í landinu. Ekki náðist samstaða um reglugerðina.
    Við endurskoðun heilbrigðisþjónustulaga, sbr. gildandi lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, var sett í lög sérstakt ákvæði þar sem ráðherra er heimilað með reglugerð að kveða á um samvinnu og samstjórn sjúkrahúsa í landinu. Var þetta m.a. gert í samræmi við ályktanir heilbrigðisþings, sem haldið var haustið 1980, um nauðsyn þess að hægt væri að kveða á um sem mesta samvinnu og samstjórn sjúkrahúsa í landinu, bæði svæðisbundið og í heild. Var í þessu sambandi ekki síst hugsað til þessara þátta í Reykjavíkurlæknishéraði þar sem starfandi eru þrjú stærstu sjúkrahús landsins.
    Árið 1984 var sett á laggirnar svokölluð samvinnunefnd sjúkrahúsa. Nefndin hefur meðal annars gert tillögur um flokkun og verkaskiptingu sjúkrahúsa utan Reykjavíkur en þar er ekki tillaga um breytta skipan mála í Reykjavík. Í þessari nefnd hafa frá upphafi átt sæti fulltrúar sjúkrahúsanna í Reykjavík auk fulltrúa Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, landlæknis og ráðuneytisins.
    Árið 1989 var sett á laggirnar sérstök nefnd, sem falið var að kanna alla möguleika á auknu samstarfi sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu og/eða sameiningu þeirra í eina eða fleiri stofnanir. Í þá nefnd voru skipaðir framkvæmdastjórar stóru sjúkrahúsanna þriggja í Reykjavík, þ.e. Ríkisspítala, Borgarspítala og St. Jósefsspítala, yfirlæknar sömu stofnana, fulltrúi borgarstjórnar Reykjavíkur og tveir fulltrúar heilbrigðis og tryggingamálaráðuneytisins, og var annar þeirra formaður nefndarinnar.
    Nefndin hefur nú lokið störfum og fylgir skýrsla nefndarinnar með lagafrumvarpi þessu sem fylgiskjal ásamt bréfi því sem nefndarmenn rituðu heilbrigðis og tryggingamálaráðherra. Á það er lögð áhersla af hálfu nefndarinnar að þær tillögur, sem nefndin varð ásátt um, séu málamiðlun en engu að síður mikilvægt skref til aukins samstarfs milli sjúkrahúsanna og markvissrar verkaskiptingar milli þeirra.
    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir nánast sömu skipan mála og nefndin varð sammála um. Áherslumunur varð hins vegar í nefndinni um það hvernig ráðið skyldi skipað. Frumvarpið gerir ráð fyrir svipaðri skipan samstarfsráðsins og tillögur meiri hluta nefndarinnar gerðu ráð fyrir.
    Vaxandi þörf er á nýjum fjárfestingum á vegum sjúkrahúsanna í Reykjavík vegna hátækni og skapast þá hætta á að verið sé að koma upp sama eða svipuðum búnaði á öllum sjúkrahúsum, án þess að afstaða hafi áður verið tekin til þess hvort nauðsynlegt sé að öll sjúkrahúsin þurfi á þessum búnaði að halda eða hvort hægt er með samvinnu og verkaskiptingu að samnýta búnaðinn. Annað vandamál sem taka þarf á eru lokanir deilda yfir sumarmánuðina. Er veruleg þörf á að dregið verði úr þeim eins og frekast er kostur og að náið samstarf sé milli sjúkrahúsanna um hvers konar aðgerðir, sem leiða eiga til sparnaðar, er gætu þýtt minni þjónustu.
    Með breytingum sem gerðar voru á lögum um heilbrigðisþjónustu sl. vor var tekin ákvörðun um nýja flokkun sjúkrahúsa, sbr. nánar 1. tölul. 24. gr. laganna, þannig að ástæða er til þess tæpum 16 árum eftir gildistöku laganna, sem bæði fjalla um heilsugæslu og þjónustu sjúkrahúsa, að flokka sjúkrahúsin og kveða á um verkaskiptingu þeirra og samvinnu ekki síst í Reykjavíkurlæknishéraði. Í þessu tilviki skal bent á að rúm átta ár eru síðan reglugerð fyrir heilsugæslustöðvar var sett, en þær höfðu þá aðeins starfað í átta ár.
    Lagt er til að sett verði á laggirnar sérstakt samstarfsráð eins og tillaga nefndar þeirrar sem heilbrigðisráðherra skipaði árið 1989 gerir ráð fyrir.
    Hvað snertir skipun tveggja fulltrúa ráðherra í ráðið til eins árs í senn er það að segja að nauðsynlegt er að tryggja sem mest tengsl við ráðuneytið, en til þess að binda ekki um of hendur komandi ráðherra er lagt til að skipun þeirra verði til eins árs í senn. Ráðinu er einnig ætlað að sinna þeim verkefnum sem heilbrigðismálaráði Reykjavíkurlæknishéraðs, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1990, er ætlað að sinna gagnvart þeim sjúkrahúsum, sem hér um ræðir, enda tengjast þau með beinum hætti hlutverki ráðsins samkvæmt frumvarpinu. Þessi sjúkrahús yrðu því ekki á verkefnaskrá heilbrigðismálaráðs og því óeðlilegt að fulltrúar þeirra sætu í heilbrigðismálaráði.
    Hlutverk samstarfsráðs er að gera tillögur um flokkun, starfssvið og verkaskiptingu sjúkrahúsa í Reykjavík í samræmi við 2. tölul. 24. gr. gildandi laga. Er ráðinu falin ákveðin stefnumörkun í samvinnumálum þessara sjúkrahúsa, m.a. með því að gera tillögur um þróunar og fjárfestingaráætlanir. Enn fremur er gert ráð fyrir því að ráðið fylgist með því að sjúkrahúsin starfi í samræmi við þær áætlanir sem gerðar hafa verið og að gætt sé fyllstu hagkvæmni í rekstri þeirra. Til að framfylgja þessu hlutverki sínu þarf ráðið að fjalla um fjárveitingar til sjúkrahúsanna með hliðsjón af verkaskiptingu og samvinnu þeirra. Ráðinu er ekki ætlað að hlutast til um rekstur stofnananna að öðru leyti en því að leggja línurnar sérstaklega hvað varðar hagkvæmni við skipulag á verkaskiptingu þeirra og hvaða sérfræðiþjónustu hvert þeirra skuli veita.
    Ljóst er að ná má meiri hagræðingu og sparnaði í rekstri sjúkrahúsanna í Reykjavík og að fenginni reynslu genginna ára virðist nauðsynlegt að Alþingi taki afstöðu til málsins, enda ákveður Alþingi fjárveitingar til rekstursins að öllu leyti. Verði ekki hægt að ná tökum á þessum málum er viðbúið að sú þróun, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, haldi áfram og að kostnaður við starfsemina aukist enn. Samstarfsráði sjúkrahúsanna í Reykjavík er ætlað að skapa grundvöll undir verkaskiptingu þeirra og samvinnu með þeim bætta þjónustu og hagræðingu að leiðarljósi.


    REPRÓ fylgiskjals