Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 1 . mál.


Sþ.

294. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1991.

Frá 1. minni hl. fjárveitinganefndar.



     Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1991 kemur nú til afgreiðslu á Alþingi við aðrar aðstæður í þjóðfélaginu en verið hafa um langt skeið. Þrátt fyrir geigvænlegar horfur í fjármálum ríkisins og alvarlega stöðu í málefnum ýmissa greina atvinnulífsins og landsbyggðarinnar er nú meiri kyrrð yfir verðlags- og launamálum en verið hefur í mörg ár.
    Fyrir ári birti ríkisstjórnin efnahagsstefnu sína fyrir árið í ár og voru afleiðingar hennar m.a. áætlaðar í þjóðhagsspá sem hér segir:
     Verðlag á milli áranna 1989 og 1990 mundi hækka um 16 17%.
     Erlendur gjaldeyrir mundi hækka um 13 14%.
     Laun mundu hækka um 11%.
     Kaupmáttur launafólks mundi lækka um 5 1 / 2 %.
     Þessi efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar fyrir árið 1990 þýddi því kjaraskerðingu hjá launafólki um 5 1 / 2 % til viðbótar við þá miklu skerðingu kaupmáttar sem orðið hafði síðustu tvö árin á undan og samkvæmt yfirliti Þjóðhagsstofnunar nam 22 prósentustigum.
     Svo sem kunnugt er vildu aðilar vinnumarkaðarins ekki una þessari efnahagsstefnu. Í tengslum við kjarasamningana í febrúar mótuðu þeir nýjan efnahagsgrundvöll fyrir ríkisstjórnina og fyrir þjóðina. Þessi efnahagsgrundvöllur hlaut nafnið þjóðarsátt og með henni var efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar vikið til hliðar. Í meginatriðum þýddi þessi nýja efnahagsstefna eftirfarandi:
     Verðlag á árinu 1990 hækkaði eigi yfir 6 7%.
     Verð á erlendum gjaldeyri stæði óbreytt.
     Kaupmáttur launafólks væri sem næst óbreyttur.
     Segja má að þessi meginatriði hafi gengið eftir. Þjóðarsáttinni fylgdu engir afarkostir fyrir ríkisstjórnina. Einungis voru sett skilyrði um að launaákvæði samninganna næðu jafnt yfir alla og að dregið yrði úr útgjöldum ríkissjóðs um sem svaraði 1 milljarði kr. Því síðasttalda var að nafninu til framfylgt með afgreiðslu fjáraukalaga í maímánuði sl. Sú afgreiðsla var þó að meginhluta sýndarmennska eins og glöggt er sýnt fram á í nefndaráliti minni hl. fjárveitinganefndar um fjáraukalögin í haust sem afgreidd voru um síðustu mánaðamót. Þótt útgjöld ríkissjóðs væru lækkuð lítils háttar á pappírnum í maí hafa þau þegar verið hækkuð aftur með fjáraukalögum um 4.200 millj. kr. og á þó ríkisstjórnin sitthvað eftir í pokahorninu sem kemur til gjalda hjá ríkissjóði á þessu ári.
     En einnig varð að ætlast til þess að ríkisstjórnin notaði tíma þjóðarsáttarinnar til þess að laga til í þjóðfélaginu með því að taka fjármál ríkisins nýjum tökum, eyða raunverulegri verðbólgu og leggja grunn að batnandi lífskjörum almennings í landinu. Þetta hefði átt að vera þeim mun sjálfsagðara þar sem hinn nýi efnahagsgrunnur þjóðarsáttarinnar lækkaði útgjöld ríkissjóðs sjálfkrafa um 2.050 millj. kr. frá því það sem orðið hefði ef efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hefði verið fylgt. Jafnframt hefur orðið stórhækkun á flestum útflutningsafurðum okkar.
     Fullyrða má að í þessum efnum hafi ríkisstjórnin gjörsamlega brugðist. Ríkisstjórnin heldur áfram óstjórn í fjármálum ríkisins og dregur þar á eftir sér hrikalegan slóða óleystra vandamála. Ríkisstjórnin hefur ekki unnið gegn þenslu í efnahagskerfinu, heldur gerir hún hvort tveggja að loka hækkanir, þ.e. verðbólgu, inni og geyma þangað til eftir kosningar eða, eins og hún orðar það, „eftir þjóðarsátt“ og sprengir upp lánsfjármarkaðinn og vextina með meiri opinberum lántökum en nokkru sinni hafa áður þekkst á innlendum lánsfjármarkaði. Ríkisstjórnin hefur einnig látið undir höfuð leggjast að nota svigrúm þjóðarsáttar og hækkandi verðs á útflutningsafurðum til að leggja grunn að betri lífskjörum, auknum hagvexti, ef frá eru talin þau handarbakavinnubrögð sem beitt hefur verið við undirbúning nýs álvers.
     Þrátt fyrir þjóðarsátt og hækkandi verð á sjávarafurðum blasir eftirfarandi við samkvæmt opinberum gögnum:
     Erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa aldrei verið hærri en á þessu ári eða 51,6% af landsframleiðslu, voru 40,3% 1987.
     Greiðslubyrði af erlendum lánum verður á næsta ári samkvæmt spá Seðlabankans 21,7% af útflutningstekjum, var 16% 1987.
     Viðskipti þjóðarbúsins við útlönd eru með stöðugum halla og er spáð að hann verði 5.700 millj. kr. á næsta ári. Hallinn á því eina ári mun því nema 114 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu.
     Kaupmáttur ráðstöfunartekna launafólks er talinn hafa lækkað um 22 prósentustig frá 1987 til 1990.
     Atvinnuleysi hefur um það bil þrefaldast frá 1988. Gert er ráð fyrir að 2500 manns gangi atvinnulausir að meðaltali allt þetta ár. Þjóðhagsstofnun spáir því að atvinnuleysi aukist enn á næsta ári.
     Gjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja fer sífellt fjölgandi og eru engar horfur á að því dapurlega ástandi linni.
     Þótt sumar greinar atvinnulífsins standi betur en áður vegna hækkandi verðs á afurðum okkar erlendis eru fjölmörg fyrirtæki sem eiga ekkert eigið fé. Sem betur fer eru einnig önnur sem búa við góða afkomu. Gjaldþrotaskriðan sannar þó hve ástandið er alvarlegt. Til viðbótar hafa nýlegar ákvarðanir ríkisstjórnar, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi, valdið ótta hjá fólki á landsbyggðinni um að það þurfi að hrekjast frá staðfestu sinni þannig að eftir standi sviðin jörð.
     Lántökur opinberra aðila á innlendum lánsfjármarkaði eru á næsta ári áætlaðar 32,4 milljarðar kr. og að frádregnum afborgunum 20,2 milljarðar kr. Peningamagn í umferð hefur á þessu ári vaxið um 20%. Allt stuðlar þetta að hækkun raunvaxta og þenslu í efnahagskerfinu sem hætt er við að komi í ljós þegar kemur fram á næsta ár.
     Skattheimta til ríkisins fer enn vaxandi. Frá og með 1988 til 1991, miðað við fjárlagafrumvarpið og verðlag þessa árs, hafa skattar til ríkissjóðs verið hækkaðir um 15 1 / 2 milljarð kr. Það er álíka fjárhæð og öll útgjöld á vegum menntamálaráðuneytisins á næsta ári, en það er annað útgjaldafrekasta ráðuneytið.
     Þrátt fyrir þessa gífurlegu skattheimtu stefnir í það að samansafnaður halli ríkissjóðs árin 1988 1991 verði yfir 30 milljarðar króna á verðlagi fjárlagafrumvarpsins.
     Hér að framan eru dregnir fram tíu punktar sem lýsa glöggt því ástandi sem við er að fást þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur setið að völdum í rúmlega tvö ár. Þó nýtur ríkisstjórnin þeirrar giftu að aðilar úti í þjóðfélaginu skyldu taka af henni völdin í febrúarmánuði sl. og móta skynsamlegan efnahagsgrundvöll. Eigi að síður má í þessu yfirliti sjá hluta af þeim afrakstri sem orðið hefur af störfum þeirrar ríkisstjórnar sem kenndi sig við jafnrétti og félagshyggju. Það er sú ríkisstjórn sem lofaði því að leysa bráðan efnahagsvanda þjóðarinnar, treysta stöðu landsbyggðarinnar og varðveita velferðarkerfið. Þetta er líka sú ríkisstjórn sem í sífellu hefur sagst vera að leggja nýja og nýja hornsteina jafnvægis og stöðugleika í fjármálum ríkissjóðs.

„Traustir skulu hornsteinar ...“


    Skömmu áður en núverandi ríkisstjórn settist á valdastóla undir lok septembermánaðar 1988 hafði fyrrverandi fjármálaráðherra lýst því yfir að halli á rekstri ríkissjóðs á því ári yrði 693 m.kr. Hér verður eigi dæmt um hvort þetta hefði orðið niðurstaðan ef sá fjármálaráðherra hefði setið til loka ársins. Hitt liggur fyrir að það tók nýjan húsbónda í fjármálaráðuneytinu ekki nema fáa daga að breyta áætlunum ráðuneytisins og síðan lokaútkomu ársins í halla sem nam 7.200 m.kr. eða 10.500 m.kr. miðað við verðlag fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 1991.
     Núverandi ríkisstjórn hefur síðan lagt fram þrjú fjárlagafrumvörp. Hið fyrsta þeirra var með rekstrarjöfnuði. Því var lýst af fjármálaráðherra sem tímamótaplaggi. Lokið væri tímaskeiði hallareksturs og eyðslu hjá ríkissjóði, við tæki jafnvægi og ráðdeild. Síðari fjárlagafrumvörp ríkisstjórnarinnar hafa einnig verið talin tímamótaverk af hálfu fjármálaráðherra. Hann hefur einnig lýst þeim sem nýjum og nýjum hornsteinum jafnvægis og stöðugleika í fjármálum ríkisins og lagt áherslu á hvílíku lykilhlutverki þessir traustu hornsteinar, sem hann væri að leggja í fjármálum ríkisins, gegndu í almennri hagstjórn á Íslandi.
     Til þess að sýna fram á hvernig þessi fallegu orð hafa reynst birtist hér eftirfarandi yfirlit:



REPRÓ






     1) Þessi tala er með þeim fyrirvara að árið er ekki liðið. Sýnilega á hallinn eftir að hækka verulega. T.d. hafa enn ekki verið færð til gjalda útgjöld ríkissjóðs vegna yfirtöku á lausaskuldum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins 1. júní sl. um 1500 m.kr.

     Samkvæmt þessu yfirliti er ljóst að allar yfirlýsingar fjármálaráðherra um „tímamót“, „jafnvægi og stöðugleika“ og alla „hornsteinana“ hafa reynst orðin tóm, raunar eins og hvert annað gaspur. Það mun þó koma betur í ljós þegar niðurstaða liggur fyrir um hallarekstur ríkissjóðs á þessu ári og við afgreiðslu á fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1991.
     Reynslan af fjármálastjórn núverandi ríkisstjórnar sannar að hún þarf að breyta sínum yfirlýsingum. Einkunnarorðin gætu orðið: Hallarekstur, eyðslustefna, skattrán. Hornsteinar fjármálaráðherra eru því mjög ólíkir þeim sem Jónas kvað um forðum.


Fjárlagafrumvarpið 1991.


     Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1991 sýnir enn betur en fyrr hve ríkisstjórninni hefur gjörsamlega mistekist í fjármálum ríkisins. Engar yfirlýsingar fjármálaráðherra breyta þessari niðurstöðu.
     Megineinkenni frumvarpsins eru þessi:
     Frumvarpið er lagt fram með 3,7 milljarða kr. halla. Það er meiri halli en áður hefur orðið. Stærri vanda er þó leynt með margbrotnum feluleik í frumvarpinu. Heitstrengingar fjármálaráðherra um jafnvægi í rekstri ríkissjóðs hafa snúist upp í andhverfu sína.
     Gífurlegur hallarekstur ríkissjóðs á síðustu árum veldur því að nálega tíunda hver króna af útgjöldum ríkissjóðs fer til að greiða vexti.
     Frumvarpið gerir ráð fyrir nýjum sköttum á þjóðina sem nema 2.200 millj. kr.
     Hluti af skatttekjum ríkissjóðs kemur ekki fram í tekjuyfirliti frumvarpsins heldur hverfur inn í rekstur tiltekinna stofnana sem sértekjur. Svo er um hinn nýja hafnaskatt, ICAO - tekjur og flugvallagjald, samtals 1.300 m.kr.
     Útgjöld ríkissjóðs hafa vaxið meira en tekjurnar í tíð núverandi ríkisstjórnar. Frumvarpið boðar þar enga stefnubreytingu.
     Umsvif ríkisins halda áfram að aukast. Rekstrarútgjöld aukast um 2% að raungildi á milli ára. Launaútgjöld frumvarpsins tákna ígildi 468 nýrra starfa hjá A - hluta ríkissjóðs á næsta ári umfram þau 495 störf sem færast til ríkisins vegna nýrra verkaskiptalaga.
     Frumvarpið er í sumum greinum nýstárlega sett upp, þannig að fjárlagaliðum, sem áður voru aðskildir, er steypt saman í einn svo að það verður erfiðara um allan samanburð við fyrri ár. Sums staðar krefst hin nýja uppsetning lagabreytinga, en þó fylgja engin lagafrumvörp. Samanburðartöflur eru sumar villandi. Sérmerktum tekjustofnum sem ríkissjóður innheimtir er ekki skilað til samræmis við það sem lög kveða á um, sjá fskj. VII.
     Frumvarpið boðar gífurlegan vanda í fjármálum ríkisins á komandi árum vegna hallarekstrar síðustu ára, vegna skuldbindinga af hálfu ríkisstjórnarinnar sem þá falla í gjalddaga og vegna samfélagslegra sjóða sem sækja styrk sinn til ríkissjóðs, en ríkisstjórnin hefur vanrækt að leggja fram fé til svo að þeir eru að éta upp sitt eigið fé og eru komnir að fótum fram. Fjármálaráðherra viðurkennir að vandi sjóðanna einna sé svo mikill að það taki 2 3 kjörtímabil að ráða fram úr honum.
     Frumvarpið er skýr yfirlýsing um uppgjöf og ráðleysi ríkisstjórnarinnar í fjármálum ríkisins. Hvergi er komist fyrir rætur vandans þ.e. útþenslu í umsvifum kerfisins og sóun, einkum hjá ráðherrunum sjálfum, sem jafnvel eyða meira en mánaðarlaunum verkamanns í gistingu yfir nóttina á ferðum sínum erlendis.
     Viðskilnaður ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki er ekki gleðigjafi fyrir þjóðina. Vandinn verður ekki auðleystur, en fram hjá því verður ekki gengið að þjóðin verður að taka á sig byrðarnar.

Tekjuhliðin.


    Það hefur verið yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að hækka skatta til þess að ná endum saman í ríkisbúskapnum. Ekkert hefur á það skort að ríkisstjórn hafi komið fram fyrri hlutanum af þessari stefnu. Skattar hafa hækkað gífurlega í hennar tíð. Að framan er frá því greint að frá og með 1988 1991 hafa skattar verið hækkaðir um 15.500 millj. kr. miðað við fjárlagafrumvarpið og verðlag þessa árs.
     Á hinn bóginn hefur ekki tekist að ná endum saman í ríkisbúskapnum því að útgjöldin hafa hækkað meira en skattarnir. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa því báðir boðað nauðsyn nýrra skattahækkana á komandi árum og enginn efast um að því vilja þeir koma fram fái þeir til þess völd. Ríkisstjórnin kemur ekki auga á neina aðra leið út úr skuldafeni ríkissjóðs en þá að seilast enn dýpra í vasa borgaranna eftir fé. Allt mun þetta dæmt til að mistakast.
     Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nýjum sköttum, þ.e. hafnaskatti 560 m.kr. og hækkun launatengdra gjalda á atvinnulífið um 1.600 m.kr. Þessum launatengdu gjöldum á síðan að steypa saman í eitt svokallað tryggingaiðgjald.
     Enn skortir lagafrumvörp til þess að þessir nýju skattar verði lagðir á og svo virðist sem vaxandi vafi sé á því hvort þeir ná fram að ganga. Er þá ljóst að tekjuhliðin er í mikilli óvissu. Það er hins vegar boðskapur ríkisstjórnarinnar að þessir skattar skuli lagðir á sem þýðir að þeir sem nota hafnir skuli borga allar framkvæmdir í höfnum og að hluta rekstur Hafnamálastofnunar og Vitastofnunar Íslands. Enn fremur þýðir tryggingariðgjaldið stóraukna skattlagningu á atvinnulífið eða 34,3% frá fjárlögum þessa árs og jafnframt að launaskattur skuli leggjast á þær atvinnugreinar sem ekki hafa borgað hann til þessa, þ.e. ýmsar iðngreinar, landbúnaður og sjávarútvegur.
     Í töflu 2 hér á eftir er sýnt hvernig tekjur ríkissjóðs hafa aukist stórkostlega sem hlutfall af vergri landsframleiðslu frá 1985 1991, miðað við fjárlagafrumvarpið og áætlun um tekjur ríkissjóðs á þessu ári. Stóra stökkið í þessari skattheimtu varð árið 1989 þegar núverandi ríkisstjórn kom til valda.











REPRÓ












    Í töflunni kemur fram að tekjur ríkissjóðs lækka örlítið miðað við landsframleiðslu 1991, enda er þá byggt á því að landsframleiðslan aukist um 28,4 milljarða kr. Séu hins vegar tekjur ríkissjóðs 1991 bornar saman við fjárlög 1990 er gert ráð fyrir að þær hækki um 11,9% meðan verðlagsbreyting á milli ára er reiknuð 7% eða 4,9% umfram verðlag.

Báknið.


    Alvarlegasta meinsemdin í fjármálum ríkisins er hversu umsvif ríkiskerfisins vaxa ár frá ári. Sífellt er verið að auka þessi umsvif í rekstri. Það er stofnað nýtt ráðuneyti að óþörfu, settar á laggirnar nýjar stofnanir og tekin á herðar ríkisins ný viðfangsefni með ærnum kostnaði. Útgjöldin vaxa í sífellu og gildir einu þótt skorið sé niður fé til opinberra framkvæmda, atvinnuvega og samfélagslegra sjóða.
     Núverandi ríkisstjórn hefur verið afkastamikil við að þenja út ríkisbáknið. Á árunum 1980 1987 voru útgjöld ríkisins frá 23 25% af landsframleiðslu. Nú er þetta hlutfall komið yfir 29%. Útgjöldin hafa því vaxið hraðar en tekjurnar og þykir þó flestum nóg um skattahækkanir ríkisstjórnarinnar. Í frumvarpinu nú er gert ráð fyrir aukningu á rekstrargjöldum um 2% að raungildi. Ekki lækkar það í meðförum Alþingis eða í höndum fjármálaráðherra á fjárlagaárinu miðað við fyrri reynslu.
     Þess er áður getið að hækkun á launalið frumvarpsins er um 15,2% frá fjárlögum 1990 sem virðist jafngildi þess að 963 störf bætist við hjá A - hluta ríkissjóðs á næsta ári, þar af 495 vegna tilfærslna við nýja verkaskiptingu, sjá fskj. I. Hér er því stefnt að gífurlegum hækkunum í launum og rekstrargjöldum sem eru bestu kennileitin til þess að sýna hvernig báknið þenst út.
     Á undangengnum árum hefur minni hl. fjárveitinganefndar gagnrýnt harðlega eyðslu ráðherranna á þeirra eigin skrifstofum. Gagnrýni minni hl. hefur verið að engu höfð, jafnt fyrir það þó sterklega hafi verið vakin athygli á því að sumir ráðherrarnir raða pólitískum vildarmönnum sínum á jötuna á skrifstofum sínum langt umfram það sem lög og reglugerð um Stjórnarráð Íslands heimila. Nú hefur það bæst við að flestir ráðherrarnir misbjóða siðgæðisvitund almennings í landinu með sóun í utanferðum sem er brot á þeim reglum sem áður giltu um þessi efni og ganga svo út yfir allan þjófabálk að erfitt er að skýra.
     Kostnaður við einstök ráðuneyti og aðalskrifstofur einstakra ráðherra hefur vaxið mismunandi mikið á síðustu árum. Sennilega fer vel á því að fjármálaráðherra er þar mjög í fararbroddi, bæði að því er varðar ráðuneytið í heild og eigin skrifstofu.
     Í fjáraukalögum, sem samþykkt voru á Alþingi um síðustu mánaðamót, voru útgjöld fjármálaráðuneytisins hækkuð um 909 m.kr. frá fjárlögum. Þá hafa útgjöld fjármálaráðuneytisins með öllum undirstofnunum hækkað á tveimur árum, 1989 og 1990, um 112%. Hækkun kostnaðar á aðalskrifstofu ráðherrans er enn meiri eða 129%. Á sama tíma hafa útgjöld ríkissjóðs í heild þó ekki hækkað nema um 54,6% og þykir nóg.
     Þegar svo er haldið á málum hjá fjármálaráðherra sjálfum og ráðherrunum í heild, eins og nóg dæmi eru um, er ekki von að vel fari eða að árangur verði af öllu því orðaflóði um jafnvægi, sparnað og hornsteina sem vellur af vörum þessara ráðamanna þjóðarinnar. Skylt er að geta þess að fjármálaráðherra virðist ekki hafa misfarið með aðstöðu sína í kostnaði við utanlandsferðir.
     Við, sem að þessu nefndaráliti stöndum, teljum stefnu ríkisstjórnarinnar í fjármálum ríkisins ranga og útþenslu ríkiskerfisins stefna út í ófæru. Þetta höfum við gagnrýnt áður. Við höfum bent á að samkvæmt yfirliti Þjóðhagsstofnunar vex þjóðarframleiðslan frá 1980 1990 um 4%, þjóðartekjur um 8% en samneyslan um 37%. Við höfum bent á að slík þróun stefnir út í efnahagslegt kviksyndi. Ríkisstjórnin skellir við þessu skollaeyrunum og herðir róðurinn í átt til glötunar.
     Við, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, teljum óhjákvæmilegt að gerbreyta um stefnu og bregðast við þessum horfum í meginatriðum á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með því að tryggja atvinnulífinu þau skilyrði að hagvöxtur geti tekið við af kyrrstöðu og hnignun. Í öðru lagi að stöðva þenslu ríkiskerfisins og ná raunverulegum sparnaði. Sá sparnaður hefjist hjá ráðherrunum sjálfum því að ráðherrar sem ganga á undan með sóun geta ekki náð árangri við að taka til hjá öðrum. Þeir eru með öðrum orðum ófærir um að takast á við fjármál ríkisins eins og reynslan sýnir um núverandi ríkisstjórn.
     Töflur sem sýna nánar ýmislegt af því sem hér hefur verið rakið birtast sem fylgiskjöl I VII.


Ríkisstjórnin og landsbyggðin.


    
Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar lýsti því yfir í upphafi að hún mundi treysta stöðu landsbyggðarinnar. Því miður er staðan veik og sums staðar veikari en nokkru sinni. Þó hefur orðið grundvallarbreyting á afkomu ýmissa sjávarútvegsfyrirtækja vegna batnandi verðs á afurðum okkar á erlendum markaði. Þrátt fyrir það er afkomu heilla byggðarlaga stefnt í hættu með kveðjum ríkisstjórnarinnar til smábátaeigenda nú nýverið.
     Tilboð ríkisstjórnarinar í GATT - viðræðunum hefur vakið ugg á landsbyggðinni. Afgreiðsla á málum landbúnaðarins í fjárveitinganefnd bíður að sumu leyti 3. umr. Nokkur mál eru þó afgreidd og skal eitt þeirra gert að umtalsefni þar sem ráðherrar fjármála og landbúnaðar gerðu tillögu sem gengur í berhögg við gerða samninga.
     Á árinu 1988 tókst samkomulag milli ríkisvaldsins og bænda um málefni Búnaðarfélags Íslands, m.a. með tilliti til fjárveitinga. Samkvæmt tillögum ráðherranna er í engu staðið við það samkomulag. Sérstaklega er ámælisvert að af búnaðarmálasjóðsgjaldi, sem greitt er af bændum og samið var um að gengi til tiltekinna verkefna hjá félaginu, er nú ráðstafað til að lækka aðrar fjárveitingar til félagsins. Hér er um einsdæmi að ræða og er þessari meðferð mála hér sérstaklega mótmælt.
     Hafnir eru lífæðar atvinnulífs á landsbyggðinni. Í þessu frumvarpi er þörfum hafnanna sýnd meiri lítilsvirðing en áður hefur sést. Þessi málaflokkur bíður til 3. umræðu og væri mikil þörf á því að þar fengjust verulegar úrbætur.
     Á síðari árum hefur engin fólksfjölgun orðið utan Reykjavíkur og Reykjaness. Á heilum áratug hefur fólki á þessu svæði aðeins fjölgað um 367 en fólksfjölgun í heild er yfir 24 þúsund. Af hverjum 100 nýjum störfum, sem orðið hafa til á síðustu tveimur árum, eru aðeins 12 utan Reykjavíkur og Reykjaness. Þetta sannar hve staðan er veik. Þessu ástandi mætir ríkisstjórnin m.a. með því að skera niður framlög til Byggðasjóðs en auka starfsmannahald og umsvif ríkiskerfisins, svo sem að framan hefur verið gerð grein fyrir. Allir vita hvar þau störf og þau umsvif eru að meginhluta. Allir vita líka að því meira fjármagn sem dregið er saman til ríkisins því minna er eftir fyrir aðra sem fjær aðalstöðvum þess standa. Að þessu leyti rekur ríkisstjórnin stefnu sem er andstæð landsbyggðinni.

Afgreiðsla frumvarpsins.


    
Þegar frumvarpið var lagt fram var það með 3,7 milljarða kr. halla. Breytingartillögur nefndarinnar við þessa umræðu hækka útgjöldin um 890 millj. kr., ef samþykktar verða. Hallinn er því að nálgast 4,6 milljarða kr.
     Nefndin flytur þessar breytingartillögur sem heild svo sem oftast hefur verið. Við, sem erum fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárveitinganefnd, erum auðvitað misjafnlega ánægðir með þessar breytingartillögur og hefðum í sumum þeirra lagt aðrar áherslur. Við áskiljum okkur því rétt til að hafa óbundnar hendur um afstöðu til einstakra tillagna, sem og að flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma.
     Til 3. umr. bíður eftir venju tekjuhliðin, B - hluta stofnanir og 6. gr. Enn fremur bíða allmörg stórmál sem eru óleyst. Hvernig með þau verður farið mun hafa gríðarleg áhrif á niðurstöðutölur fjárlaga. Ýmis þessara viðfangsefna kosta hundruð milljóna króna hvert um sig. Þetta eru mál eins og Tryggingastofnun ríkisins, húsnæðissjóðirnir, hafnamál, uppgjör við sveitarfélögin, Þjóðleikhúsið, Þjóðarbókhlaðan og Þjóðminjasafnið, forsetasetrið á Bessastöðum, niðurgreiðslur, verðjöfnun á orku, ýmis landbúnaðarmál o.fl. Þá veltur eigi lítið á því hvernig farið verður með tekjuhliðina sem enn er á floti.
     Hér verður því ekki að sinni spáð um það hverjar verða niðurstöður fjárlaga eftir 3. umr. þótt líkurnar séu ótvíræðar. Víst er að hallinn á eftir að vaxa þótt án efa verði beitt eins miklum feluleik og mögulegt er til að leyna vandanum í lengstu lög. Því vinnulagi höfum við fengið að kynnast síðustu tvö árin.

Velt á framtíðina.


     Hvernig sem fer með afgreiðslu þess fjárlagafrumvarps, sem hér kemur til 2. umr., liggur hitt fyrir að sú ríkisstjórn, sem enn situr, veltir yfir á herðar framtíðarinnar gífurlegum byrðum. Þessar byrðar eru vissulega vandmetnar til fulls þótt ýmsir pinklarnir liggi að nokkru fyrir.
     Þessar byrðar má greina sundur í fimm aðalatriði.
     Uppsafnaður halli A - hluta ríkissjóðs
          árin 1988 1991
30.000 m.kr.

     Fjárskuldbindingar sem falla á ríkissjóð og leyst hefur verið með
          útgáfu skuldabréfa o.fl.
3.000 m.kr.

     Ríkisábyrgðir sem falla kunna á
          ríkissjóð á næstu árum
5.000 m.kr.

     Tap fjárfestingarlánasjóða 1989 1991 2.000 m.kr.
     Byggingasjóður ríkisins. Framlög sem ríkissjóður
          þarf að inna af hendi til ársins 2005, 460 m.kr. á ári
7.000 m.kr.

Samtals 47.000 m.kr.

_______________________
    Þessar gífurlegu byrðar skulu skýrðar hér nokkru nánar:

1.      Uppsafnaður halli A hluta ríkissjóðs á árabilinu 1988 til 1991.
     Uppsafnaður rekstrarhalli á greiðslugrunni til loka ársins 1990 (miðað við áætlaðan rekstrarhalla 1990, 5,3 milljarðar kr.) nemur alls 23,2 milljörðum kr. á verðlagi ársins 1991. Á árinu 1991 má áætla að rekstrarhallinn nemi 6 8 milljörðum kr. þannig að uppsafnaður rekstrarhalli í árslok 1991 gæti numið um 30 milljörðum kr. á verðlagi næsta árs. Þetta svarar til þriggja og hálfs árs framlaga ríkissjóðs til fjárfestingar samkvæmt frumvarpinu 1991. Þá er þetta sama fjárhæð og gert er ráð fyrir að sé greidd í laun hjá A - hluta stofnunum ríkissjóðs á árinu 1991.

2.      Fjárskuldbindingar sem falla á ríkissjóð sem leyst hefur verið með útgáfu skuldabréfa o.fl.
M.kr.


Jarðræktar- og búfjárframlög
210

Útflutningsbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir
550

Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins
1.500

Uppgjör við sveitarfélög, eftirstöðvar
760

3.020
________

3.      Ríkisábyrgðir sem e.t.v. falla á ríkissjóð á komandi árum og skuldasöfnun A-hluta ríkissjóðs.

     Áætla má að ríkissjóður þurfi að koma til bjargar vegna ríkisábyrgða, bæði er varðar ábyrgðir á lánum og svo ábyrgðir á einstökum útlánasjóðum. Gera má ráð fyrir að þessi áföll geti numið á bilinu 6 7 milljörðum kr. sem komi til með að falla á ríkissjóð á næstu árum.
     Hér koma til eftirtaldir aðilar:
M.kr.


Útlán Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina
1.700

A-skírteini Hlutafjársjóðs
200

Arnarflug og Skipaútgerðin
800

Tryggingasjóður fiskeldislána
140

Byggðastofnun
1.500

Loðdýrarækt
500

Samtals 4.840

_______


4. Afkoma fjárfestingarlánasjóða atvinnuvegarins á árinu 1989.
    
Athugun þessi nær til 13 fjárfestingarlánasjóða sem flestir eru í eigu ríkisins og sérstök lög gilda um. Tap á sjóðunum var um 700 millj. kr. á árinu 1989 eða um 10% af eigin fé sjóðanna. Sex þessara sjóða nutu ríkisframlags á árinu 1989, er nam rúmlega 1,7 milljörðum kr., og ef tekið er tillit til þess nam raunverulegt tap þeirra á árinu 2,4 milljörðum kr. Talið er að afkoma þessara sjóða á árinu 1990 verði ekki miklu betri en á síðastliðnu ári. Í því sambandi má nefna gjaldþrot laxeldisfyrirtækja og Arnarflugs á þessu ári.

5.      Þá er ótalinn vandi Byggingarsjóðs ríkisins, en talið er að ríkissjóður þurfi að leggja fram 460 millj. kr. árlega til ársins 2005 eða tæplega 7 milljarða kr.
     Fjármálaráðherra hefur lýst yfir því að það kunni að taka 2 3 kjörtímabil að ráða við þann vanda sem felst í tveimur síðustu töluliðunum hér að framan. Í þeim orðum felst viðurkenning á nokkrum hluta af þeirri arfleifð sem ríkisstjórnin skilur eftir sig. En vandinn er stærri. Ríkisstjórnin skilur eftir sig byrðar sem þjóðin þarf að axla á allra næstu árum og nema 48 milljörðum kr. Þetta eru 940 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu. Talan er geigvænleg. Samt er ekki allt talið. Hrikaleg staða Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eða vandamál Lánasjóðs íslenskra námsmanna er t.d. ekki tekin með.
     Við Sjálfstæðismenn höfum gagnrýnt fjármálastjórnina harðlega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Fjármálaráðherra hefur í síbylju talað um nýja hornsteina, nýjan grundvöll, jafnvægi og stöðugleika í fjármálum ríkisins undir sinni stjórn. Því miður eru þetta orðin tóm. Þetta eru aðeins orð sem bera vott um sjálfbirgingshátt og yfirlæti. Þau eru lítils virði þegar til kastanna kemur. Hitt liggur fyrir að nú stendur þjóðin frammi fyrir meiri vanda en nokkru sinni áður í fjármálum ríkisins. Ríkisstjórn ráðleysis og sóunar skilur þann vanda eftir sig.

Alþingi, 12. des. 1990.



Pálmi Jónsson,


frsm.

Egill Jónsson.

Friðjón Þórðarson.






Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti.
11. desember 1990.

Til:     Fjárveitingnefndar Alþingis.
Frá:     Fjármálaráðuneyti.

Efni:     Fyrirspurnir fjárveitinganefndar frá 22. október 1990.

Fyrirspurn 3:
    Launaútgjöld fjárlagafrumvarpsins virðast aukast frá fjárlögum í ár um 15,2%. Hvað þýðir þetta mikla fjölgun starfsmanna?

Svar:
    Á meðfylgjandi töflu koma fram helstu breytingar á launagjöldum og starfsmannafjölda frá fjárlögum 1990 til fjárlagafrumvarps 1991. Raunaukning launagjalda kemur fram í dálkinum „mismunur m.kr. ára“ og nemur 1.252,5 m.kr. og jafngildir það um 4% hækkun milli ára. Miðað við að meðalkostnaður við hvert starf nemi 1,3 millj. kr. þá jafngildir þessi hækkun því, að 963,4 ný störf verði stofnuð hjá ríkinu á næsta ári. Svo er þó ekki, heldur er samtals gert ráð fyrir 70,5 nýjum störfum. Skráðum störfum fjölgar um 565,1 hjá öllum ráðuneytum, en þar vegur þyngst breyting innan heilbrigðisráðuneytisins vegna breyttrar verkaskiptingar ríkis og sveitarfélaga.


(Tafla: Launagjöld ríkisins sett í Gut.)




(Fylgiskjal II sett í Gut

.)

(Fylgiskjal III sett í Gut.)



(Fylgiskjal IV sett í Gut.)



(Fylgiskjal V sett í Gut.)



(Fylgiskjal VI sett í GUt.)



(Fylgiskjal VII sett í GUT.)