Ferill 161. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 161 . mál.


Ed.

367. Nefndarálit



um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991.     

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarp það til lánsfjárlaga er hér um ræðir speglar þann samdrátt sem orðinn er í atvinnulífi og í hag almennings hér á landi. Og læðist að sú grunsemd að frumvarpið spegli fremur óskir og drauma háttvirtrar ríkisstjórnar um bætt ástand heldur en kaldan raunveruleikann eins og hann blasir við hinum almenna þjóðfélagsþegn og birtist í efnahagslegum staðreyndum. Þannig hefur fjármálaráðuneytið þegar orðið að hækka lántökuheimildir frumvarpsins um tæpa 2,2 milljarða króna á þeim fáu dögum sem það hefur verið til umfjöllunar í fjárhags- og viðskiptanefnd efri deildar.
     Ríkisstjórnin hefur á árinu 1990 sótt lán sín að mestu inn á íslenskan lánamarkað og má það að hluta teljast jákvætt. Hins vegar hefur það hve stíft hefur verið sótt á þessi mið af hálfu ríkisvaldsins valdið því að raunvextir hafa hækkað en ekki lækkað eins og spá ríkisstjórnarinnar gekk út á. Þetta kemur illa niður á öllum lántakendum. En svo er komið hag heimilanna í landinu að þau eru orðin annar helsti lántakandinn innan lands. Fyrirtækin hafa haldið að sér hendi og reynt að þreyja þorrann, þau sem ekki hafa hreinlega orðið gjaldþrota. Gjaldþrot einstaklinga og heimila eru uggvænlega tíð, enda helst sú þróun í hendur við eftirsókn heimilanna eftir bankalánum.

Erlendar lántökur.
     Sú þróun blasir við að fyrirtæki leiti lána erlendis þar sem raunvextir eru miklu lægri en á Íslandi og munu þá skuldir okkar sem greiða verður í erlendri mynt fara vaxandi en þjóðin öll að afla gjaldeyrisins til greiðslnanna.
    Þessar hugsanlegu erlendu skuldbindingar koma til viðbótar þeim sex milljörðum króna sem lánsfjárlögin gera ráð fyrir að fyrirtæki og stofnanir taki með fulltingi og ábyrgð ríkissjóðs. Gera má ráð fyrir að þessar upphæðir hækki verulega þegar líður á fjárhagsárið.
Skerðingarákvæði.
    Í þessu frumvarpi er í 21. lið áætlað að skerða fjárframlög til sjóða og stofnana sem lög kveða þó á um. Er þar afturgenginn ósiður fyrri ára og hlýtur að vera erfitt fyrir viðkomandi stofnanir að gera framtíðaráætlanir um starfsemi og hagræðingu þegar ekkert er vitað um fjárframlögin frá ári til árs annað en það að ekki verður staðið við lagaskuldbindingar.
    Ekki verður annað séð en að mörg þessara skerðingarákvæða séu ill- eða óframkvæmanleg því svo mjög skaða þau hag landsmanna og skulu nokkur dæmi talin hér á eftir.

Ferðamálaráð.
    Ferðamálaráði og Ferðamálasjóði er ætlað að efla eina þá starfsgrein sem helstar vonir eru bundnar við að vaxi á komandi árum. Samt er framlag til skipulags ferðamála skv. 19. gr. laganna skorið niður um 50%, þ.e. í 68 millj. kr. Þar af fara 60,2 millj. kr. í föst verkefni, en til að sinna óumflýjanlegum verkefnum öðrum þyrfti a.m.k. 15 millj. kr. til viðbótar, og er gerð tillaga um það á sérstöku þingskjali.

Kvikmyndasjóður.
    Kvikmyndagerð er nýlegur vaxtarbroddur íslenskrar menningar. Það fé, sem ætlað er á fjárlögum, nægir aðeins til gerðar einnar kvikmyndar árið 1991. Gera þyrfti árlega tvær til þrjár kvikmyndir hér á landi til þess að þekking og tækni nýttist í landinu. Nú stendur Íslendingum til boða að gera aðra kvikmynd árið 1991 í samvinnu við önnur Norðurlönd sem leggja munu til 50 millj. kr. Nú mun 22 millj. kr. skorta til að af þátttöku Íslendinga geti orðið og er hart ef málið á að stranda á svo litlu. Á sérstöku þingskjali er gerð tillaga um slíkt framlag.

Ríkisútvarpið.
    Eftir 60 ára dygga þjónustu er langbylgjustöðin á Vatnsendahæð orðin illa komin, lampar á sendibúnaði nánast forngripir og slík tæring í möstrum að þau geta fallið í næsta stormi. Langbylgjustöðin telst til helstu öryggistækja Íslendinga því að engin önnur stöð nær til allra annesja og eins langt á haf út. Ljóst er að brýna þjóðarnauðsyn ber til að endurnýja langbylgjustöðina og hefur svo verið í a.m.k. 12 ár. Kostnaður er ekki undir 500 millj. kr. En sú svipting tekjustofns sem 23. gr. kveður á um veldur því að Ríkisútvarpið hefur ekki bolmagn til að standa undir þessum kostnaði.

Framkvæmdasjóður aldraðra.
    Framkvæmdasjóður aldraðra verður fyrir verulegri skerðingu. Heilbrigðismálaráðherra hefur reynt að klóra í bakkann með því að víkka út starfsemi sjóðsins en fá að halda fjárframlögum. Líkur eru á að svo verði, en eigi að síður veldur þessi víkkun á starfseminni aukinni sókn í sjóðinn og mun því fylgja álíka fjárskortur og verið hefði að óbreyttu hlutverki og með skertum framlögum.

Framkvæmdasjóður fatlaðra.
    Framkvæmdasjóður fatlaðra hlýtur a.m.k. enn sem komið er enn verri útreið. Sagt er að verið sé að vinna að endurskoðun sjóðsins og að þá muni verða séð fyrir fjárhagslegum grunni hans. En mótmæla verður stöðunni eins og hún er í dag því að engin trygging er fyrir að endurskoðunin og bætt staða sjóðsins verði að veruleika.
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna.
    Endurgreiðsla ríkissjóðs til þessara tveggja sjóða ætti óskert að verða um 1.300 millj. kr. en er skorin niður í 700 millj. kr. Þar með skerðist það fé sem sjóðirnir hafa til að kaupa bréf af Byggingarsjóðum ríkisins og starfsemi þessa sjóða, sem eiga nægilega örðugt fyrir, verður enn torveldari. Nær væri að lífeyrissjóðirnir fengju óskert framlag og því fé, sem þannig bærist Byggingarsjóðum ríkisins, yrði varið til að efla byggingu almennra kaupleiguíbúða. En það fólk sem líklega mundi sækja inn á kaupleigumarkað á ákaflega erfitt í dag að fá þak yfir höfuðið.
    Einnig verður að undirstrika það að ofangreindir lífeyrissjóðir munu um næstu aldamót eiga í miklum erfiðleikum með að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lífeyrisþegum og ber nauðsyn til að styrkja sjóðina en ekki að draga úr þeim mátt.
    Annar minni hl. lítur svo á að þau lánsfjárlög, sem hér um ræðir, byggist á óraunsæi um þróun á lánamarkaðinum og augum lokað fyrir yfirvofandi áföllum eins og hruni mastra á Vatnsendahæð, en skollaeyrum skellt við hógværum beiðnum og andmælum fulltrúa hinna mjúku mála. Annar minni hl. mun taka afstöðu til einstakra greina frumvarpsins en situr hjá við málið í heild.

Alþingi, 19. des. 1990.



Guðrún J. Halldórsdóttir.