Ferill 236. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 236 . mál.


Ed.

585. Nefndarálit



um frv. til l. um Héraðsskóga.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Helga Gíslason, verkefnisstjóra Héraðsskóga, Hauk Halldórsson og Hákon Sigurgrímsson frá Stéttarsambandi bænda. Nefndin studdist við umsagnir frá 112. þingi, en þá var frumvarpið fyrst lagt fram, að mestu leyti í sömu mynd og það er nú. Umsagnir bárust þá frá Skipulagi ríkisins, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Náttúruverndarráði, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Stéttarsambandi bænda, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Búnaðarsambandi Austurlands, Félagi skógarbænda á Héraði og Búnaðarfélagi Íslands. Á þessu þingi hafa umsagnir borist frá Félagi skógarbænda á Héraði, Skógræktarfélagi Austurlands og Helga Gíslasyni verkefnisstjóra.
    Er frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi gerði 4. gr. þess ráð fyrir að ríkið greiddi 100% samþykkts kostnaðar við skógrækt á jörðum í ábúð og 80% á eyðijörðum. Í 4. gr. þess frumvarps sem nú liggur fyrir eru þessi hlutföll lækkuð niður í 90% fyrir jarðir í ábúð en 70% fyrir eyðijarðir. Þessari skerðingu hafa skógarbændur á Héraði mótmælt og telja hana verða til þess að einungis 20% þeirra bænda sem upphaflega ætluðu að taka þátt í verkefninu Héraðsskógar muni halda áfram vinnu við það. Nefndin tekur undir sjónarmið skógarbænda, en til að fara bil beggja er lagt til að skipting kostnaðar verði í hlutföllunum 97% fyrir jarðir í ábúð og 75% fyrir eyðijarðir.
    Þá leggur nefndin til þá breytingu á 5. gr. frumvarpsins að í stað þess að 15% af tekjuafgangi skóganna fari til ríkissjóðs verði miðað við 30%.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með áðurgreindum breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 5. febr. 1991.



Skúli Alexandersson,


form., frsm.

Egill Jónsson,


fundaskr.

Jón Helgason.


Valgerður Sverrisdóttir.

Karvel Pálmason.

Danfríður Skarphéðinsdóttir.


Þorv. Garðar Kristjánsson.