Ferill 406. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 406 . mál.


Ed.

728. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, sbr. lög nr. 76/1989, 70/1990, 124/1990 og 130/1990.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



1. gr.


     8. gr. laganna orðist þannig:
     Hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins er að annast lánveitingar og að sinna húsbréfaviðskiptum í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða á grundvelli þeirra. Sjóðurinn annast einnig um lántökur og lánveitingar sem átt hafa sér stað úr sjóðnum eða ákveðið kann að verða að taka upp.

2. gr.


     2. mgr. 9. gr. laganna falli niður.

3. gr.


     11. gr. laganna orðist svo:
     Úr Byggingarsjóði ríkisins er heimilt að veita lán skv. 1. 3. tölul. enda hafi verið gert ráð fyrir þessum lánaflokkum í fjárhagsáætlun sjóðsins fyrir það ár sem veiting láns fer fram:
     Lán til bygginga heimila fyrir aldraða og dagvistarstofnana fyrir börn og aldraða.
     Sérstök lán til einstaklinga með sérþarfir.
     Lán eða styrk til tækninýjunga í byggingariðnaði.
     Húsnæðismálastjórn er heimilt að ákveða nýja lánaflokka að fengnu samþykki félagsmálaráðherra.

4. gr.


     Á eftir 11. gr. laganna komi nýr undirkafli með fjórum nýjum greinum, 12. 15. gr. Fyrirsögn kaflans verði: Um lánveitingar Byggingarsjóðs ríkisins. Hinn nýi undirkafli orðist svo:

     a. (12. gr.)
     Lán skv. 1. tölul. 11. gr. er heimilt að veita þeim sem byggja hjúkrunarheimili eða dagvistarstofnanir handa börnum eða öldruðum.
     Sá sem hyggst hefjast handa um byggingu dvalarheimilis skal fyrst láta fara fram athugun á þörf fyrir slíkt heimili í samvinnu við sveitarstjórn.
     Skilyrði lánveitingar er að umsókn um lán til byggingar dagvistarstofnunar eða dvalarheimilis fylgi umsögn heilbrigðisráðuneytis.

     b. (13. gr.)
     Lán skv. 2. tölul. 11. gr. er aðeins heimilt að veita ellilífeyrisþegum og öryrkjum sem búa við skerta starfsorku eða eru hreyfihamlaðir. Lánin eru veitt til byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði vegna aukins kostnaðar af völdum sérþarfa umsækjanda og geta komið til viðbótar fasteignaveðlánum sem húsbréfadeild gefur út vegna byggingar eða kaupa á íbúð.
     Lán þessi má enn fremur veita til endurbóta á húsnæði.
     Lán samkvæmt þessari grein má einnig veita þeim sem hafa orðið fyrir meiri háttar röskun á högum og hafa vegna fráfalls maka eða af öðrum ástæðum lækkað svo í tekjum að þeir geta ekki haldið íbúðum sínum. Umsóknum um lán samkvæmt þessari málsgein skal fylgja umsögn Félagsmálastofnunar eða viðkomandi sveitarstjórnar.

     c. (14. gr.)
     Lán skv. 3. tölul. 11. gr. er heimilt að veita til þess að gera tilraunir með tækninýjungar sem leitt geta til lækkunar byggingarkostnaðar enda fylgi staðfesting á því að umsóknin sé ekki lánshæf hjá sérsjóðum iðnaðarins. Heimilt er að hafa fyrirgreiðsluna í formi styrks.

     d. (15. gr.)
     Húsnæðismálastjórn skal við gerð fjárhagsáætlunar hverju sinni ákveða hámarkshlutfall af byggingarkostnaði fyrir lán skv. 1. tölul. 11. gr.
     Fjárhæð láns skv. 2. tölul. 11. gr. má nema allt að 80% af viðbótarkostnaði eða endurbótakostnaði enda séu framkvæmdir nauðsynlegar að mati húsnæðismálastjórnar.
     Fjárhæð láns eða styrks skv. 3. tölul. 11. gr. svo og lánstíma skal ákveða hverju sinni af húsnæðismálastjórn með hliðsjón af kostnaði við að koma nýjungum í notkun, svo og mikilvægi þeirra fyrir byggingariðnaðinn.
     Lánstími skv. 1. 2. tölul. 11. gr. skal vera allt að 25 árum.
     Að öðru leyti gilda ákvæði 30. gr. laganna um lán skv. 1. 3. tölul. 11. gr.
     Í reglugerð skal kveðið nánar á um lánaflokka skv. 1. 3. tölul. 11. gr.

5. gr.


     12. gr. laganna falli brott.

6. gr.


     13. gr. laganna falli brott.

7. gr.


     14. gr. laganna falli brott.

8. gr.


     15. 17. gr. laganna falli brott.

9. gr.


     18. 19. gr. laganna falli brott.

10. gr.


     23. 24. gr. laganna falli brott.

11. gr.


     25. 26. gr. laganna falli brott.


12. gr.


     27. 28. gr. laganna falli brott.

13. gr.


     29. gr. laganna falli brott.

14. gr.


     30. gr. laganna (verður 16. gr.) orðist þannig:
     Öll lán Byggingarsjóðs ríkisins skulu vera að fullu verðtryggð og miðast höfuðstóll lánsins við lánskjaravísitölu eins og hún er á hverjum tíma, sbr. 39. gr. laga nr. 13 frá 10. apríl 1979.
     Hvert lán skal að jafnaði tryggt með 1. eða 2. veðrétti í þeirri íbúð sem lánað er til eins og nánar greinir í lögum þessum. Jafnframt má ákveða að veitt lán og áhvílandi megi ekki fara fram úr tilteknu hlutfalli af kaupverði, fasteignamati eða brunabótamati.
     Vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins frá og með 1. júlí 1984 skulu vera breytilegir. Ríkisstjórnin tekur ákvörðun um vexti af hverjum lánaflokki á hverjum tíma að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og umsögn Seðlabankans. Selji lántakandi (skuldari) íbúð sína ber honum skylda til að tilkynna aðilaskipti að láni til Húsnæðisstofnunar ríkisins án tafar. Kaupanda og seljanda ber báðum að undirrita yfirlýsingu um þetta efni. Sé tilkynningarskylda vanrækt er húsnæðismálastjórn heimilt að gjaldfella þau lán er hvíla á fasteign frá Byggingarsjóði ríkisins.
     Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða breytt vaxtakjör á láni við aðilaskipti til samræmis við almenn vaxtakjör samkvæmt nánari ákvörðun hennar.
     Lán skulu vera afborgunarlaus fyrstu tvö árin en endurgreiðast síðan að fullu með jöfnum greiðslum vaxta og afborgana (annuitet) að viðbættum verðbótum samkvæmt lánskjaravísitölu Seðlabanka Íslands á eftirstöðvum lánstímans. Heimilt skal þó lántakanda að greiða lán upp á skemmri tíma og skal þess getið í skuldabréfi.
     Gjalddagar lána skulu eigi vera færri en fjórir á ári.

15. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    
Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. og 5. 7. gr. laga þessara skulu 1. 2. tölul. 11. gr. og 12. 14. gr. laga nr. 86/1988, sbr. lög nr. 76/1989 og nr. 70/1990, halda gildi sínu fram til 1. mars 1994 gagnvart þeim umsækjendum sem:
     þegar hafa fengið lánsloforð, þ.e. endanlegt svar Húsnæðisstofnunar ríkisins um fjárhæð og lánstíma,
     eigi hafa fengið lánsloforð en fengið svar almenns eðlis frá Húsnæðisstofnun ríkisins um að þeir eigi rétt á láni.
     Skilyrði lánsréttar samkvæmt þessum töluliðum eru:
     Lífeyrissjóður, sem umsækjandi er félagi í, hafi fullnægt samningi við Húsnæðisstofnun ríkisins um ráðstöfunarfé til Byggingarsjóðs ríkisins.
     Umsækjandi hafi staðfest umsókn sína innan þriggja mánaða frá því að tilkynning barst honum frá Húsnæðisstofnun um nauðsyn staðfestingar hennar.
    Húsnæðisstofnun skal tilkynna umsækjendum, sem falla undir 2. tölul. þessa ákvæðis, eftirfarandi:
     Nauðsyn á staðfestingu umsóknar, sbr. b - lið 2. tölul. þessa ákvæðis.
     Ekki sé hægt að nýta sér bæði húsbréfaviðskipti annars vegar og lánsrétt skv. 2. tölul. þessa ákvæðis hins vegar.

II.


    
Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laga þessara skal 2. mgr. 9. gr. stofnlaganna, sbr. lög nr. 76/1989 og nr. 70/1990, halda gildi sínu um þá samninga Húsnæðisstofnunar við lífeyrissjóði um skuldabréfakaup sem gerðir eru vegna lána sem veitt eru samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I. Lánskjör af skuldabréfum skulu miðast við þau kjör sem ríkissjóður býður almennt á fjármagnsmarkaði.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ríkisstjórnin ákvað 20. desember 1990 að skipa nefnd fjögurra ráðherra sem hefði það verkefni að gera tillögur um uppgjör húsnæðislánakerfisins frá 1986 og fjárhagsvanda Byggingarsjóðs ríkisins með hliðsjón af tillögum forsætisráðherra í ríkisstjórninni 18. desember 1990. Í nefndinni voru Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra, Guðmundur Bjarnason heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra, Júlíus Sólnes umhverfisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðar - og samgönguráðherra.
     Nefndin var sammála um að leggja niðurstöður hennar fyrir ríkisstjórnina 31. janúar 1991. Í niðurstöðunum segir m.a.:
     „Að óbreyttu stefnir í að Byggingarsjóður ríkisins verði gjaldþrota eftir rúman áratug.“
     Til að snúa þessari þróun við benti nefndin á eftirfarandi:
     „Hætt verði að taka við umsóknum um lán úr lánakerfinu frá 1986 og flutt um það frumvarp á yfirstandandi þingi.
     Umsækjendum sem bíða eftir lánsloforði úr lánakerfinu frá 1986 verði gefinn kostur á að staðfesta umsóknir sínar innan ákveðins tíma. Að öðrum kosti falli umsóknirnar úr gildi og viðkomandi verði vísað á húsbréfakerfið. Umsóknir sem verða staðfestar verði afgreiddar innan þriggja ára og vextir verði 5,0%. Vextir á útlánum Byggingarsjóðs ríkisins frá 1. júlí 1984 verði hækkaðir í 5,0%. Framkvæmd vaxtahækkunar verði þannig:
     Vextir verði hækkaðir við eigendaskipti á íbúð og flutt um það frumvarp á yfirstandandi þingi.
     Vextir á öllum útlánum frá 1. júlí 1984 verði hækkaðir 10 árum eftir stofndag láns.“
     Frumvarp þetta byggir á niðurstöðum nefndarinnar og er í höfuðatriðum tvíþætt. Í fyrsta lagi er lagt til að hætt verði að taka við umsóknum um lán úr almenna lánakerfinu frá 1986. Í öðru lagi eru gerðar tillögur um breytingu á lánskjörum á útlánum Byggingarsjóðs ríkisins allt frá 1. júlí 1984. Gert er ráð fyrir að lánskjörum verði breytt við aðilaskipti.

Hætt verði að taka við umsóknum samkvæmt lögum nr. 54/1986.
    
Lög um húsbréfadeild og húsbréfaviðskipti gengu í gildi 15. nóvember 1989. Í fyrstu var eingöngu heimilt að skipta á húsbréfum og fasteignaveðbréfum vegna kaupa á notuðum íbúðum. Fram til 15. maí 1990 fengu þeir einir afgreiðslu sem áttu óafgreiddar lánshæfar umsóknir um almenn lán hjá Byggingarsjóði ríkisins. Þann 15. nóvember 1990 voru húsbréfaviðskipti jafnframt heimiluð vegna nýbygginga. 1. september 1991, sbr. lög nr. 124/1990, er húsbréfadeild falið að skipta á húsbréfum og fasteignaveðbréfum í tengslum við meiri háttar viðbyggingar, endurbætur og endurnýjunar á notuðu húsnæði. Þar með mun húsbréfadeild nánast hafa yfirtekið lánastarfsemi Byggingarsjóðs ríkisins.
     Á fundi ríkisstjórnarinnar 9. febrúar 1990 var samþykkt að gera úttekt á fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins með það að markmiði að leiða í ljós áætlaða meðalvexti á eignum og skuldum sjóðsins og rekstrarafkomu næstu árin. Á grundvelli þeirrar úttektar skyldu gerðar tillögur um leiðir til að koma jafnvægi á fjárhag sjóðsins. Félagsmálaráðherra skipaði nefnd 21. mars 1990 til að vinna að þessu verkefni.
     Nefndin skilaði niðurstöðum sínum og tillögum 22. júní 1990. Helstu niðurstöður nefndarinnar voru að Byggingarsjóður ríkisins yrði gjaldþrota um eða skömmu eftir næstu aldamót. Nefndin gerði tillögu um að almenna lánakerfinu frá 1986 verði lokað, þ.e. hætt verði að taka við umsóknum og einungis þeir umsækjendur afgreiddir sem fengið höfðu lánsloforð. Jafnframt gerði nefndin tillögu um að vextir á lánum sjóðsins verði hækkaðir í 5,0% á öllum útlánum frá 1. júlí 1984.
     Ríkisstjórnin fól starfshópi félagsmála - , fjármála - og forsætisráðuneytisins að leggja mat á niðurstöður og tillögur nefndarinnar. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum og tillögum 8. nóvember 1990. Starfshópurinn var sammála nefndinni um það að nauðsynlegt væri að loka almenna lánakerfinu frá 1986 og hækka vexti í 5,0% á öllum útlánum frá 1. júlí 1984 til að bæta fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins.
     Í umsögn Seðlabanka Íslands, dags. 28. janúar 1991, um útgáfu á 1. flokki húsbréfa 1991, segir: „Nauðsynlegt er að gera nú þegar þær lagabreytingar sem þarf til að loka lánakerfinu frá 1986 svo ekki komi til frekari lánveitinga úr því kerfi.“ Jafnframt segir í umsögn bankans að það sé vandkvæðum háð að hafa tvö húsnæðislánakerfi í gangi á sama tíma.
     Engin ástæða er til að hafa tvö húsnæðislánakerfi samtímis. Húsbréfakerfið leysir lánakerfið frá 1986 fyllilega af hólmi. Enginn verulegur munur er á greiðslu - eða vaxtabyrði almennra lána í lánakerfinu frá 1986 eða fasteignaveðlána í húsbréfakerfinu þegar íbúðarkaup eru athuguð í heild. Það að hafa tvö lánakerfi samtímis skapar óvissu á fjármagnsmarkaði því bæði lánakerfið frá 1986 og húsbréfakerfið byggja að verulegu leyti á fjármagni frá sama aðila, þ.e. frá lífeyrissjóðunum.
    Starfshópur ríkisstjórnarinnar, sem falið var að leggja mat á niðurstöður og tillögur nefndar félagsmálaráðherra frá 22. júní 1990, komst að þeirri niðurstöðu að aukin umsvif húsbréfakerfisins og lokun lánakerfisins frá 1986 muni geta haft jákvæð áhrif á fjármagnsmarkaðinn. Þannig muni losna um mikið fjármagn lífeyrissjóða og viðskiptabanka og jafnframt minnki þörf íbúðarkaupenda fyrir skammtímalán.
     Áætlað er að lántökur Húsnæðisstofnunar hjá lífeyrissjóðunum verði allt að 140 milljörðum króna lægri til ársins 2000 ef lánakerfinu frá 1986 verður lokað og húsbréfakerfið tekur alfarið við, eða um 14 milljarðar króna á ári að jafnaði. Ef lánakerfið frá 1986 starfar óbreytt áfram þurfa lántökur Húsnæðisstofnunar hjá lífeyrissjóðunum að vera um 174 milljarðar króna til aldamóta. Með yfirtöku húsbréfakerfisins þurfa þessar lántökur að vera um 30 milljarðar króna.
     Starfi lánakerfið frá 1986 óbreytt og vextir af inn - og útlánum Byggingarsjóðs ríkisins eru óbreyttir þurfa framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins að nema um 15 milljörðum króna til næstu aldamóta til að standa undir rekstrarhallanum. Framlög ríkissjóðs þyrftu hins vegar að verða um 7 milljarðar króna ef lánakerfinu verður lokað og ef til engra annarra aðgerða verður gripið til að rétta af rekstrarvanda sjóðsins.
     Grundvallarmunur er á húsbréfakerfinu annars vegar og almenna lánakerfinu frá 1986 hins vegar. Í kjölfar almenna lánakerfisins frá 1986 jukust útlán til kaupa á notuðum íbúðum mikið. Miklu nýju fjármagni var beint inn á almenna fasteignamarkaðinn sem óhjákvæmilega leiddi til hækkunar á íbúðarverði. Í húsbréfakerfinu er nýju fjármagni ekki beint inn á fasteignamarkaðinn heldur er innri fjármögnun aukin. Fasteignaviðskipti hafa einnig breyst með tilkomu húsbréfakerfisins. Seljendur íbúða fá þær greiddar mun fyrr en áður og hefur það tilhneigingu til að halda fasteignaverði niðri.
     Reynslan af húsbréfakerfinu hingað til er sú að það virðist ekki hafa haft áhrif til hækkunar á íbúðarverði.
     Starfshópur ríkisstjórnarinnar áætlaði að heildarútgáfa húsbréfa á ári yrði um 12 milljarðar króna og líkleg sala þeirra á markaði yrði rúmir 9 milljarðar króna.

Breyting lánskjara á lánum Byggingarsjóðs ríkisins.
    
Í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er ekki að finna nein ákvæði um það hvernig farið skuli með lán úr Byggingarsjóði ríkisins er hvíla á fasteign þegar hún er seld. Um áratugaskeið hefur það hins vegar tíðkast að við sölu á fasteignum hefur seljandi samið við kaupanda um yfirtöku hans á áhvílandi veðskuldum. Frá árinu 1984 hafa vextir á lánum Byggingarsjóðs ríkisins verið breytilegir og því hafa seljendur frá þeim tíma ekki í reynd getað gefið kaupendum fyrirheit um það að vextir á áhvílandi lánum yrðu óbreyttir, né hafa lántakendur getað treyst á að þau yrðu óbreytt um áratugaskeið.
     Lán úr Byggingarsjóði ríkisins hafa í gegnum árin verið veitt einstaklingum sem hafa uppfyllt þau skilyrði er lög hafa kveðið á um á hverjum tíma. Skilyrðin hafa verið breytileg og varðað atriði eins og fjölskyldustærð, lífeyrissjóðsaðild, húsnæðiseign o.fl. Lán hefur verið veitt til íbúðarkaupa eða byggingar til eigin nota. Allir lántakendur frá 1984 hafa fengið lán sín með breytilegum vöxtum og búið við það að ríkisstjórninni væri heimilt að ákveða vexti fyrir hvern lánaflokk á hverjum tíma. Stór hluti húsnæðiskaupenda og húsnæðisbyggjenda hafa leitað sér ráðgjafar og gert greiðsluáætlanir vegna íbúðarkaupa eða bygginga. Greiðslumat hefur verið lykilatriði í því að forða fólki frá því að lenda í greiðsluerfiðleikum við öflun á eigin húsnæði.
     Í þessu frumvarpi er lögð til sú breyting hvað varðar vaxtakjör fasteignaveðlána úr Byggingarsjóði ríkisins að ríkisstjórninni verði heimilað að breyta vaxtakjörum við aðilaskipti á fasteignum. Með þeirri tilhögun er ekki gengið á þá framkvæmd sem tíðkast hefur um áratugaskeið að seljandi geti heimilað kaupanda að yfirtaka þessi langtímalán. Þess er einungis krafist að aðilaskiptin séu tilkynnt Húsnæðisstofnun án tafar. Heimildin til að hafa vexti breytilega er fyrir hendi, en hér er lagt til að opnuð sé sú heimild að vaxtakjör af tilteknum lánaflokki geti verið breytileg eftir því hvort um upphaflegan lántakanda er að ræða eða aðila sem hefur yfirtekið lánin. Það er ljóst að aðstæður þess aðila sem yfirtekur lánið geta verið allt aðrar en þess sem upphaflega fékk lánið. Ekki er óeðlilegt að við ákvörðun á vaxtakjörum á lánum til þess sem yfirtekur lán sé fremur miðað við vexti eins og þeir eru til þeirra sem eru að fá ný lán heldur en til hinna sem fengu lán á meðan vextir voru lægri. Hinn nýi aðili gæti því þurft að sæta vaxtabreytingum sem ríkisstjórnin ákveður til samræmis við þá vexti sem tíðkast á þeim tíma sem yfirtaka á sér stað.
     Lánskjör yrðu hin sömu og upphaflegi lántakandi hefur notið, svo sem varðandi lánstíma og það að vextir séu breytilegir. Það er því ekki á nokkurn hátt verið að draga úr því hagræði sem bæði seljandi og kaupandi hafa af því að aðilaskipti skuli geta átt sér stað.
     Ráðherranefndin lagði til að tíu árum eftir að lán eru veitt upphaflega skulu vextir þeirra endurskoðaðir og færðir til samræmis við þá er gilda almennt á lánum úr Byggingarsjóði ríkisins. Ekki þykir ástæða til að taka þetta upp í frumvarpið þar sem ríkisstjórnin hefur heimild til að ákveða vexti á hverjum tíma og að vextir af öllum lánum eftir 1. júlí 1984 eru breytilegir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Byggingarsjóði ríkisins er aðeins ætlað að annast lánveitingar til þeirra lánaflokka sem eftir standa í 11. gr. laganna eins og henni er breytt með þessu frumvarpi. Hlutverk sjóðsins breytist því. Við sjóðinn er starfrækt húsbréfadeild og í nafni sjóðsins eru gefin út markaðshæf skuldabréf. Hlutverk Byggingarsjóðsins verður að annast um þau lán sem sjóðurinn hefur veitt á umliðnum árum. Enn fremur sinnir hann þeim skuldbindingum sem sjóðurinn hefur tekið á sig með lántökum, þ.e. sölu skuldabréfa, auk þeirra lánveitinga sem lög þessi mæla fyrir um.

Um 2. gr.


     Lánveitingar Byggingarsjóðs ríkisins frá árinu 1986 hafa grundvallast að mestu á fjármagni sem sjóðurinn hefur aflað með samningsbundnum skuldabréfakaupum lífeyrissjóða til tveggja ára. Þar sem að ákvæði 12. gr. laganna um lánsrétt, sem byggist á kaupum lífeyrissjóða, er fellt niður þá þykir ekki ástæða til að kveða á um það að samningarnir séu til a.m.k. tveggja ára, sbr. þó bráðabirgðaákvæði II.

Um 3. gr.


     Með greininni eru lánaflokkar Byggingarsjóðs ríkisins, að þremur undanskildum, felldir brott. Að öðru leyti vísast um þetta atriðið til almennra athugasemda frumvarpsins.
     Miklvægt er að halda opinni leið fyrir húsnæðismálastjórn að ákveða nýja lánaflokka og er því ekki lögð til breyting hvað það atriði varðar.

Um 4. gr.


     Samkvæmt frumvarpinu verða lánaflokkar Byggingarsjóðs ríkisins, að þremur undanskildum, felldir brott. Þeir þrír, sem eftir standa, tengjast hvorki þeim breytingum á lögunum sem gerðar voru á árinu 1986, sbr. lög nr. 54/1986, né rúmast þeir innan húsbréfakerfisins. Markmið lánaflokkanna eru hins vegar í fullu gildi. Lánaflokkarnir þrír standa því að mestu efnislega óbreyttir í þessu frumvarpi. Þær breytingar, sem á þeim eru gerðar, lúta að tveimur atriðum: Í fyrsta lagi eru lán til leiguíbúða aldraðra felld brott, sbr. 1. tölul. 11. gr., enda rúmast lán til leiguíbúða aldraðra innan félagslega lánakerfisins. Í öðru lagi er lagt til að lánstími lána skv. 1. og 2. tölul. 11. gr. verði samræmdur og verði 25 ár en það er sá lánstími sem nú gildir í húsbréfakerfinu. Enn fremur er sú breyting lögð til að kveðið verði nánar á um lánaflokkana þrjá í reglugerð í stað þeirra ítarlegu reglna sem eru í gildandi lögum.


Um 5. gr.


     Samkvæmt frumvarpinu er ekki lengur um að ræða lánsrétt eða lánveitingar sem byggja á lánsrétti skv. 12. gr. laganna og er greinin því felld brott, sbr. þó bráðabirgðaákvæði I.

Um 6. gr.


     Ekki verður lengur um að ræða lánveitingar til kaupa á nýjum íbúðum, sbr. 3. gr.

Um 7. gr.


     Ekki verður lengur um að ræða lánveitingar til kaupa á notuðum íbúðum, sbr. 3. gr.

Um 8. gr.


     Sjá athugasemdir við 4. gr.

Um 9. gr.


     Ákvæði um lán til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á notuðu íbúðarhúsnæði er flutt yfir í húsbréfakerfið með lögum nr. 124/1990 og er því fellt niður hjá Byggingarsjóði ríkisins.

Um 10. gr.


     Sjá athugasemdir við 4. gr.

Um 11. gr.


     Ákvæði um lán til orkusparandi breytinga á húsnæði eru felld niður úr Byggingarsjóði ríkisins þar sem þau rúmast innan ákvæða laganna varðandi húsbréfaviðskipti, sbr. lög nr. 124/1990.

Um 12. gr.


     Sjá athugasemdir við 4. gr.

Um 13. gr.


     Hér er fellt niður lán til viðurkenndra framkvæmdaraðila í byggingariðnaði, en þeir aðilar rúmast innan ákvæða laga um húsbréfaviðskipti, sbr. ákvæði um nýbyggingar.

Um 14. gr.


     Hér er kveðið á um heimildir ríkisstjórnarinnar til að ákveða vexti. Vextir eru breytilegir á öllum lánum úr Byggingarsjóði ríkisins eftir 1. júlí 1984. Opnuð er leið fyrir ríkisstjórn Íslands til að ákveða að vaxtakjör á þegar teknum lánum hjá Byggingarsjóði ríkisins geti breyst við aðilaskipti til samræmis við vexti af nýjum lánum. Gert er að skyldu að tilkynna aðilaskipti að lánum til Húsnæðisstofnunar strax og þau fara fram. Slíkt er forsenda þess að unnt sé að beita heimildarákvæðinu um breytt vaxtakjör til handa hinum nýja aðila. Til að tryggja að aðilaskipti séu tilkynnt þarf húsnæðismálastjórn að vera unnt að beita viðurlögum, hér er því lagt til að unnt sé að gjaldfella lán úr Byggingarsjóði ríkisins. Húsnæðismálastjórn væri veitt heimild til þessa en væntanlega færi það eftir því hversu mikill dráttur hefði verið á tilkynningu hvort hún gripi til þessa úrræðis.

Um 15. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


I.


     Í ákvæði þessu felst hvernig farið skuli með umsóknir þeirra sem ýmist hafa fengið lánsloforð eða svör almenns eðlis um lánsrétt þegar lög þessi taka gildi. Þannig er gert ráð fyrir að næstu þrjú árin, eða til 1. mars 1994, verði lánastarfsemi Byggingarsjóðs ríkisins haldið áfram í samræmi við ákvæði þetta, enda þótt ekki verði tekið við nýjum umsóknum frá og með gildistöku laganna.
     Ljóst er að það breytir engu um rétt þeirra, sem þegar hafa fengið lánsloforð, þótt ákvæði laganna um rétt umsækjanda, sbr. 12. gr., og um lán til nýrra og notaðra íbúða, sbr. 13. og 14. gr., verði felld niður. Kjósi umsækjandi, sem fengið hefur bindandi lánsloforð, hins vegar fremur að nýta sér húsbréfakerfið verður að sjálfsögðu orðið við því.
     Öðru máli gegnir um þá umsækjendur, sem ekki hafa fengið lánsloforð, en þó fengið svar almenns eðlis um lánsrétt, skilyrtan lánsrétt, í samræmi við 7. mgr. 12. gr. laganna. Til þess að sá réttur verði virkur þarf í fyrsta lagi lífeyrissjóður viðkomandi að fullnægja samningi sínum við Húsnæðisstofnun um skuldabréfakaup eins og segir í 7. mgr. 12. gr. Auk þessa er hér lagt til að réttur umsækjanda til láns verði því aðeins virkur að umsækjandi sýni sjálfur vilja til þess að svo verði, þ.e. hann staðfesti það skriflega við Húsnæðisstofnun innan þriggja mánaða frá því honum barst tilkynning um þetta atriði. Ljóst er að þetta skilyrði er bundið því að Húsnæðisstofnun hafi sannanlega tilkynnt umsækjanda að það valdi missi réttinda ef umsókn er ekki staðfest. Því er sú upplýsingaskylda Húsnæðisstofnunar sérstaklega tilgreind. Einnig er lögð sú skylda á Húsnæðisstofnun að tilkynna að réttur til húsbréfaviðskipta og lána frá Byggingarsjóði ríkisins fari ekki saman, sbr. reglugerð um húsbréfaviðskipti nr. 217/1990.
     Hinn 1. mars 1994 er lánveitingum úr Byggingarsjóði ríkisins með öllu hætt. Þeir umsækjendur, sem ekki hafa fengið lán sín afgreidd fyrir þann tíma, eiga ekki lánsrétt lengur.

II.


     Í því skyni að standa undir fjármögnun á lánum til þeirra einstaklinga, sem falla undir ákvæði til bráðabirgða I., er nauðsynlegt að ákvæði 2. mgr. 9. gr. laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins, um samninga Húsnæðisstofnunar við lífeyrissjóði um skuldabréfakaup til minnst tveggja ára, gildi um þá samninga sem gerðir verða á næstu árum til að fjármagna lán samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I.