Ferill 333. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 333 . mál.


Sþ.

766. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um úrbætur í félagslegum réttindum heimavinnandi fólks.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður framkvæmd tillagna um úrbætur í málefnum heimavinnandi fólks sem starfshópur á vegum félagsmálaráðuneytisins skilaði 31. október 1989?

    Félagsmálaráðherra skipaði þriggja manna starfshóp til að gera úttekt á réttarstöðu heimavinnandi fólks og gera tillögur um úrbætur í félagslegum réttindum þeirra sem þessi störf vinna. Tillögur nefndarinnar voru sendar til umsagnar Jafnréttisráðs, Bandalags kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasambands Íslands, Kvenréttindafélags Íslands og Landssamtaka heimavinnandi fólks. Almennt fögnuðu þessi samtök tillögum nefndarinnar enda þótt sumum þætti helst til skammt gengið.
    Á fundi ríkisstjórnarinnar 16. maí 1989 var aðstoðarmönnum félags - , fjármála - og heilbrigðisráðherra og fulltrúa Borgaraflokks falið að yfirfara tillögurnar og koma ábendingum í réttan farveg. Tillögur starfshópsins voru eftirfarandi:

1. Lífeyrissjóðir.
    Lagt er til að fjármálaráðherra leggi fram á Alþingi þann hluta draga að frumvarpi til laga um starfsemi lífeyrissjóða sem fjallar um skiptingu lífeyrisréttinda milli hjóna og er lagt til að það verði lögfest sem fyrst.
    Lagt er til að því verði bætt við frumvarpsdrögin að skipta beri lífeyrisréttindum hjóna í lok hvers árs.

2. Almannatryggingar.
    Lagt er til að heilbrigðis - og tryggingamálaráðherra beiti sér fyrir eftirfarandi í tengslum við endurskoðun almannatryggingalaganna.
     Að lífeyrir hjóna og einstaklinga frá almannatryggingum verði jafnaður, þannig að hjón njóti sama réttar og tveir einstaklingar gagnvart lífeyri.
     Að réttur heimavinnandi fólks til slysa - og sjúkradagpeninga verði bættur.

3. Skattakerfið.
    Lagt er til að fjármálaráðherra láti kanna hvaða áhrif það að millifærsla ónýtts persónuafsláttar milli hjóna með börn undir 2 3 ára aldri eða jafnvel að 7 ára aldri verði 100% hafi og jafnframt að ónýttan persónuafslátt megi færa að öllu leyti til maka ef það hjóna sem ekki nýtir sinn afslátt sannanlega annast sjúka eða aldraða á heimili sínu.

4. Starfsaldur.
    Lagt er til að ríkisvaldið beiti sér fyrir því að samtök á vinnumarkaði gefi lífaldri aukið vægi við starfsaldursmat. Bent er á þá leið að félagsmálaráðherra verði falið að skrifa aðilum vinnumarkaðarins áskorun þessa efnis.

    Á fundi ríkisstjórnarinnar 3. apríl 1990 var samþykkt að fela viðkomandi ráðherrum frekari framkvæmd á tillögum vinnuhópsins. Fyrirspurnin á þskj. 589 varðar verksvið þriggja ráðherra. Félagsmálaráðherra sendi fyrirspurnina að því er varðar lífeyris - og skattamál til fjármálaráðherra og hvað varðar grunnlífeyri og slysatryggingar til heilbrigðisráðherra.

Svar fjármálaráðherra.
    1.     Eins og kunnugt er lagði fjármálaráðherra fram frumvarp til laga um starfsemi lífeyrissjóða á 112. löggjafarþingi 1989 1990.
    Ekki var gert ráð fyrir að frumvarpið fengi þá afgreiðslu, heldur var sagt í greinargerð með frumvarpinu að því yrði vísað til milliþinganefndar til umfjöllunar og stefnt að afgreiðslu þess á næsta þingi. Þann 16. ágúst 1990 skipaði fjármálaráðherra fyrrgreinda milliþinganefnd.
    Sömu aðilar og tilnefndu menn í endurskoðunarnefnd lífeyriskerfisins, sem starfaði á árunum 1976 1987, eiga fulltrúa í nefndinni, ásamt fulltrúa Kennarasambands Íslands, og eðli málsins samkvæmt eiga þingflokkarnir sjö þar einnig fulltrúa.
    Ekki hefur náðst samstaða um það í nefndinni að leggja frumvarpið fram óbreytt né heldur hefur reynt á það hvort nefndin er reiðubúin að mæla með því að einstakir kaflar eða hlutar frumvarpsins verði lögfestir. Nefnd sú, sem starfaði á árunum 1976 1987 við endurskoðun lífeyriskerfisins, náði um það samstöðu að í gildandi ákvæðum um makalífeyri hjá flestum lífeyrissjóðanna fælist í mörgum tilvikum töluverð oftrygging vegna stóraukinnar atvinnuþátttöku giftra kvenna. Af þessum sökum varð niðurstaðan sú að leggja til annars vegar að ellilífeyrisréttindi hjóna skiptist á milli þeirra við skilnað en hins vegar að dregið yrði mjög úr makalífeyri til þeirra sem nú eru innan við miðjan aldur, svo fremi þeir hafi ekki mikla framfærslubyrði eða eigi við örorku að stríða. Nefndin taldi að með þessum tillögum næðist tvennt, meira samræmi milli ellilífeyrisréttinda, makalífeyrisréttinda og raunverulegra aðstæðna í þjóðfélaginu en nú er og um leið lækkun á kostnaði af makalífeyrisréttindum sem nýta má til greiðslu hærri ellilífeyris en ella væri unnt.
    Ekkert hefur komið fram enn þá í starfi fyrrgreindrar milliþinganefndar er bendir til breyttrar afstöðu í þessum efnum.

Svör heilbrigðisráðherra.
    2.     Í drögum að frumvarpi, er heilbrigðisráðherra hyggst leggja fram á Alþingi, er gert ráð fyrir að hjón njóti sama réttar og tveir einstaklingar gagnvart grunnlífeyri. Í frumvarpinu er stigið lítið skref í þá átt að draga úr því ósamræmi sem verið hefur á milli hjóna og einstaklinga með því að hækka viðmiðunartölur hjóna úr 140% í 150%.
    3.     Í almannatryggingafrumvarpi er gert ráð fyrir að slysatryggingar færist út úr almannatryggingakerfi yfir til vátryggingafélaga.

Svar fjármálaráðherra.
    4.     Spurt er um framkvæmd tillagna um 100% millifærslu ónýtts persónuafsláttar milli hjóna með börn undir 2 3 ára eða að 7 ára aldri og enn fremur í þeim tilvikum þegar heimavinnandi aðili annast sjúka eða aldraða á heimili sínu.
    Samkvæmt lauslegu mati mundi 100% millifærsla á ónýttum persónuafslætti milli hjóna og sambýlisfólks í stað 80% kosta ríkissjóð um 500 m.kr. á ársgrundvelli. Þetta eru einu upplýsingarnar sem nú þegar liggja fyrir um áætlaðan kostnað af breyttri millifærslu milli hjóna. Ljóst er að það tæki nokkurn tíma og umtalsverða fjármuni að afla nauðsynlegra upplýsinga til að unnt sé að meta þann kostnað, sem af hlytist, eigi umrædd breyting að einskorðast við hjón og sambýlisfólk með börn á tilteknum aldri. Þá er útilokað að fá upplýsingar um síðari þáttinn, þ.e. hversu margir sjá um umönnun sjúkra og aldraðra á heimilum sínum.
    Á hinn bóginn má benda á tvennt. Annað er að í dag eru barnabætur hjóna með börnum undir 7 ára aldri hærri en með börnum yfir þeim mörkum. Þannig fá hjón með tvö börn undir 7 ára aldri 80% hærri barnabætur en hjón sem eiga tvö börn, bæði eldri en 7 ára. Fyrri fjölskyldan fær að jafnaði 10.350 kr. á mánuði í barnabætur en sú síðari 5.750 kr.
    Hitt atriðið er að í 66. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt er kveðið á um rétt manna til að sækja um lækkun á tekjuskattsstofni þegar viðkomandi hefur foreldra eða aðra vandamenn sannanlega á framfæri sínu.

Svar félagsmálaráðherra.
    5.     Félagsmálaráðuneytið ritaði bréf til Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna og fjármálaráðuneytis. Þar var því beint til aðila vinnumarkaðarins að lífaldur fái aukið vægi við starfsaldursmat. Einnig benti félagsmálaráðuneytið á að það teldi nauðsynlegt að heimilisstörf verði meira metin til starfsreynslu.