Ferill 459. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 459 . mál.


Ed.

881. Frumvarp til laga



um breyting á þjóðminjalögum, nr. 88/1989.

Frá menntamálanefnd.



1. gr.

    Í stað orðanna „deildarstjóri fornleifadeildar“ í síðasta málslið 2. mgr. 3. gr. laganna og „deildarstjóra fornleifadeildar“ í síðasta málslið 5. mgr. sömu greinar komi (í viðeigandi beygingarföllum): fornminjavörður.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verði á 5. gr. laganna:
     3. málsl. 3. mgr. orðist svo: Auk þess fornleifasvið sem skipta má í deildir eins og þurfa þykir og lýtur stjórn fornleifanefndar, sbr. 3. gr.
     Í stað orðanna „Deildarstjóri fornleifadeildar og fornleifaverðir“ í upphafi 4. málsl. 3. mgr. komi: Fornminjavörður og fornleifafræðingar.

3. gr.

    Í stað orðanna „Fornleifadeild lætur, eftir föngum,“ í upphafi 1. mgr. 17. gr. laganna komi: Fornminjavörður lætur.

4. gr.

    Í stað orðsins „Fornleifadeild“ í upphafi síðari málsliðar 19. gr. laganna komi: Fornminjavörður.

5. gr.

    4. málsl. 22. gr. laganna orðist svo: Rannsóknir útlendinga skulu vera undir yfirumsjón fornminjavarðar og fornleifafræðings viðkomandi svæðis.

6. gr.

    Í stað orðanna „Fornleifadeild eða“ í upphafi 23. gr. laganna komi: Fornminjavörður og.

Greinargerð.


    Frumvarpið er flutt að ósk formanns þjóðminjaráðs. Því fylgdi svohljóðandi greinargerð:
    „Með breytingum þeim, sem hér er lagt til að gerðar verði á þjóðminjalögum, er miðað við að í stað starfsheitisins „deildarstjóri fornleifadeildar“ komi hið forna starfsheiti fornminjavörður og sé hann ráðinn til fimm ára í senn. Starfssvið hans er hið sama og deildarstjóra fornleifadeildar í núgildandi lögum. Starfsemi fornminjavörslu er afar viðamikil og ljóst að eðlilegra er að tala um fornleifasvið Þjóðminjasafns en fornleifadeild sem geti, er fram líða stundir, skipst í deildir. Einnig tekur starfssvið fornminjavarðar til landsins í heild samkvæmt frumvarpinu. Þá er áfram lagt til að ráðið sé til starfsins tímabundið. Ekki er efnislega um aðrar breytingar að ræða í frumvarpi þessu.“
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma við frumvarp þetta.