Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 69 . mál.


Nd.

895. Nefndarálit



um frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Frá minni hl. félagsmálanefndar.



    Frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hefur nú verið til umfjöllunar á þremur þingum. Margt horfði til bóta í því frumvarpi sem upphaflega var lagt fyrir 111. löggjafarþingið, en í meðförum þingsins hefur frumvarpið tekið miklum breytingum sem flestar eru til hins verra. Ljóst er að ekki mun nást samstaða um málið nema í þeirri útþynntu mynd sem það er nú komið í. Meðal þess sem var í upphaflegu frumvarpi, en hefur nú verið fellt út í meðförum þingsins, eru ákvæði um öfuga sönnunarbyrði í málum er varða meinta mismunun vegna kynferðis við ráðningar í störf þar sem atvinnurekanda var gert að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði ráði þegar ráðið er í stöður á vinnumarkaði.
    Skipan kærunefndar er ekki með þeim hætti er minni hl. nefndarinnar vildi helst sjá og ákvæði um jafnréttisráðgjafa eru ekki svipur hjá sjón miðað við það sem var í upphaflega frumvarpinu.
    Minni hl. nefndarinnar styður breytingartillögu meiri hl. um skipan kærunefndar sem illskárri kost en þá skipan nefndarinnar sem samþykkt var eftir umræður í efri deild.
    Minni hl. nefndarinnar vill þrátt fyrir þessa alvarlegu ágalla á frumvarpinu, eins og það lítur út eftir umfjöllun þriggja þinga, mæla með samþykkt þess vegna þeirra atriða sem horfa til bóta. Er þá átt við það litla sem eftir er af efnisatriðum hins upphaflega frumvarps og til framfara má teljast, svo sem skýrara verksvið jafnréttisnefnda. 10. gr. frumvarpsins um menntun er mjög til bóta og auk þess má nefna mikilvægt ákvæði um jafnréttisþing sem bættist við frumvarpið í meðförum þingsins. Það er von minni hl. nefndarinnar að jafnréttisþing verði vettvangur lifandi umræðna um stöðu kvenna í samfélaginu og uppspretta nýrra hugmynda í baráttunni fyrir bættum hag kvenna og þar með allra þjóðfélagsþegna.

Alþingi, 12. mars 1991.



Anna Ólafsdóttir Björnsson.