Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 31 . mál.


31. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36 5. maí 1986.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



1. gr.


    Í 1. mgr. 6. gr. komi á eftir „innlánsdeildir samvinnufélaga“: útibú erlendra hlutafélagsbanka.

2. gr.


    18. gr. laganna orðist svo:
     Seðlabankinn ákveður að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar hvernig verðgildi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum skuli ákveðið. Heimilt er að ákveða að gengi krónunnar miðist við einn erlendan gjaldmiðil, samsettan gjaldmiðil, eins og ECU eða SDR, eða meðaltal gjaldmiðla, ýmist með eða án fráviksmarka. Seðlabankanum er heimilt með kaupum og sölu á erlendum gjaldeyri eða öðrum aðgerðum, sem hann telur nauðsynlegar, að hlutast til um að gengi krónunnar sé innan þeirra marka sem ákveðin kunna að verða.
     Seðlabankinn skal einu sinni á dag skrá gengi sem hann er reiðubúinn til þess að eiga viðskipti á og skal sú skráning teljast hið opinbera gengi þess dags. Það skal notað í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin.
     Þegar sérstaklega stendur á er Seðlabankanum heimilt að fella niður gengisskráningu skv. 2. mgr.
     Seðlabankanum er heimilt að setja nánari reglur um gengisskráningu og viðskipti á gjaldeyrismarkaði.

3. gr.


    Í 19. gr. komi á eftir „sparisjóðir“: útibú erlendra hlutafélagsbanka.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tvennum tilgangi. Annars vegar til að unnt sé að breyta núgildandi fyrirkomulagi á gengisskráningu krónunnar þannig að gengi hennar ráðist í auknum mæli af framboði og eftirspurn á gjaldeyrismarkaði. Hins vegar til að laga lög um Seðlabanka Íslands að lögum um fjárfestingu erlendra aðila, nr. 34 25. mars 1991. Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. þeirra laga er erlendum hlutafélagsbönkum, sem skráðir eru erlendis og eiga þar varnarþing, heimilt að starfrækja rekstur útibúa hér á landi að fengnu leyfi viðskiptaráðherra frá 1. janúar 1992 að telja.
     Einn af hornsteinum efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og meginatriði í stefnu hennar í gengismálum, sem kynnt var 3. október 1991, er stöðugt gengi. Tenging íslensku krónunnar við ECU er hins vegar ekki talin tímabær að sinni. Til að skapa nauðsynlegar forsendur fyrir því á fjármagns- og gjaldeyrismarkaði að unnt sé að tengja gengi krónunnar við ECU með trúverðugum hætti þurfa að koma til veigamiklar skipulagsbreytingar. Þar er um að ræða nauðsyn þess að rýmka reglur um skilaskyldu á erlendum gjaldeyri til að unnt sé að byrja að þróa gjaldeyrismarkað, styrkja stjórntæki Seðlabankans í peningamálum og afla lagaheimilda til að gengi krónunnar geti ráðist af framboði og eftirspurn á markaði. Jafnframt þessu er mikilvægt að aflétta enn frekar hömlum á gjaldeyrisviðskiptum þannig að þau verði óheft innan nokkurra missira.
     Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi á gengisskráningu krónunnar reiknar Seðlabanki Íslands út og auglýsir bæði kaup- og sölugengi krónunnar á hverjum morgni og það stendur óbreytt til næsta morguns. Bankinn er skuldbundinn til að kaupa og selja erlendan gjaldeyri á hinu auglýsta gengi í þeim mæli sem óskað er. Markaðsöfl hafa hins vegar ekki bein áhrif á daglegt gengi krónunnar eins og annars staðar í iðnríkjunum.
     Í nágrannaríkjum okkar ræðst daglegt gengi gjaldmiðla innan tilgreindra marka af framboði og eftirspurn á gjaldeyrismarkaði en ekki einhliða ákvörðun seðlabanka eins og hér á landi. Þannig hefur það verið í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð um alllangt skeið. Gengisstöðugleiki í þessum ríkjum hefur því falist í því að seðlabankar ríkjanna hafa með kaupum og sölu á gjaldeyrismarkaði og öðrum aðgerðum í peningamálum, eins og vaxtabreytingum, leitast við að halda gengi gjaldmiðla sinna innan þeirra viðmiðunarmarka sem ákveðin hafa verið. Tenging norsku krónunnar, sænsku krónunnar og finnska marksins við ECU þýðir að viðmiðuninni er breytt úr safni gjaldmiðla, þar sem Bandaríkjadollar vó þyngst, í safn þeirra gjaldmiðla sem mynda ECU. Bandaríkjadollar hefur því ekki lengur bein áhrif á daglegt gengi þessara Norðurlandagjaldmiðla. Í ríkjunum þremur er gert ráð fyrir að gengi gjaldmiðlanna geti sveiflast nokkuð eftir aðstæðum þótt þeir séu tengdir ECU. Í Noregi eru sveiflumörkin 2,25% til hvorrar áttar frá gengi krónunnar gagnvart ECU eins og það var þegar tengingin við ECU var ákveðin. Í Svíþjóð eru sveiflumörkin 1,5% og 3% í Finnlandi. Efnahagsstefna stjórnvalda og aðgerðir seðlabankanna í peninga- og gjaldeyrismálum miðast því við að halda genginu innan þessara marka.
     Í evrópska myntkerfinu ræðst gengi gjaldmiðla af framboði og eftirspurn á gjaldeyrismarkaði en stjórnvöld og seðlabankar eru skuldbundin til að halda gengi þeirra innan ákveðinna marka. Meginreglan er að gengi gjaldmiðlanna megi sveiflast um 2,25% til hvorrar áttar gagnvart hverjum öðrum en einnig er miðað við 6% í báðar áttir fyrir breskt pund og spánskan peseta. Víðari fráviksmörkin giltu einnig fyrir ítalska líru til 1990.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í upphafi 6. gr. eru taldar upp þær stofnanir og þau félög sem teljast til innlánsstofnana samkvæmt lögunum. Til að taka af öll tvímæli um að lögin í heild sinni taki til útibúa erlendra hlutafélagsbanka þykir rétt að taka það skýrt fram á þessum stað. Er þetta í samræmi við það meginsjónarmið að aðstaða hinna erlendu úibúa skuli í hvívetna vera hin sama og innlendra hlutafélagsbanka. Einnig þykir rétt að geta þess sérstaklega að ákvæði IV. kafla laga um Seðlabanka Íslands um bankaeftirlit eiga enn fremur við um útibú erlendra banka eftir því sem við getur átt.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að í stað þess að Seðlabankinn ákveði að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar verðgildi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum eins og nú gildir ákveði hann að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar hvernig gengið skuli ákveðið, þ.e. hvaða gengisfyrirkomulag skuli notað hér á landi. Hér er því um mun meiri sveigjanleika að ræða en nú er. Innan þessa ákvæðis getur bæði rúmast núgildandi gengisfyrirkomulag og það fyrirkomulag sem beitt er annars staðar á Norðurlöndum.
     Ákvæði 2. mgr. er nauðsynlegt í þeim tilvikum þegar daglegt gengi krónunnar er ekki ákveðið einhliða af Seðlabankanum eins og nú er. Nauðsynlegt vegna ýmissa viðskiptasamninga og dómsmála að Seðlabankinn skrái einu sinni á dag gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum. Um yrði að ræða það gengi sem hann auglýsir að hann sé reiðubúinn að eiga viðskipti á.
     Í 3. mgr. er öryggisákvæði sem heimilar Seðlabankanum að fella niður gengisskráningu sína þegar sérstaklega stendur á. Sambærilegt ákvæði er í núgildandi lögum.

Um 3. gr.


    Lagt er til að útibú erlendra hlutafélagsbanka sitji við sama borð og íslenskir viðskiptabankar og sparisjóðir varðandi rétt til að versla með erlendan gjaldeyri.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.