Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 44 . mál.


139. Nefndarálit



um frv. til l. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði var fyrst lagður á 1979 sem tímabundin tekjuöflun. Hann hefur síðan verið framlengdur árlega. Álagningarhlutfallið var í upphafi 1,4% af fasteignaverði verslunar- og skrifstofuhúsnæðis. Árið 1984 var skatturinn 1,1% af fasteignaverðinu og hélst svo til ársins 1989 en þá var hann hækkaður í 2,2%. Árið 1990 var hlutfallið lækkað í 1,5% og enn er ráðgert að viðhalda þessum tímabundna skatti með óbreyttu skatthlutfalli.
     Ljóst er að fyrirtæki í verslun og þjónustu eiga nú við mikla örðugleika að etja, ekki síst á landsbyggðinni. Þessi skattur, sem mismunar fyrirtækjum og atvinnugreinum og er þess vegna afar óréttlátur, lendir fyrst og fremst á þeim fyrirtækjum sem verst standa um þessar mundir.
     Minni hlutinn mun flytja breytingartillögu á sérstöku þingskjali þess efnis að álagningarhlutfallið verði 0,5% sem annað af tveimur skrefum til þess að leggja þennan „vonda skatt“ niður. Verði sú breytingartillaga felld leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði fellt.

Alþingi, 18. nóv. 1991.



Ingi Björn Albertsson.