Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 120 . mál.


250. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Árna R. Árnasonar um byggingu félagslegra íbúða.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig skiptast úthlutanir til byggingar félagslegra íbúða frá 1980 eftir árum, sveitarfélögum og landshlutum og eftir fjölda fjölskyldna í sveitarfélagi sem rétt teljast eiga til úthlutunar?

1. Úthlutun lána til félagslegra íbúða.
    Óskað er eftir upplýsingum um úthlutun lána til félagslegra íbúða skipt eftir árum, sveitarfélögum og landshlutum. Meðfylgjandi er yfirlit um skiptingu úthlutunar lána til byggingar eða kaupa á félagslegum íbúðum tímabilið 1980–1991 skipt eftir landshlutum. Sundurliðun eftir sveitarfélögum liggur ekki fyrir en hún er viðurhlutamikil og þarf lengri tíma til úrvinnslu.

Framkvæmdalán til byggingar/kaupa á félagslegum íbúðum á árunum 1980–1991.








Repró











    Samkvæmt ofanskráðu hefur verið úthlutað alls 4.437 framkvæmdalánum frá árinu 1980. Á árunum 1988 og 1989 og til júní 1990 voru lán til byggingar almennra kaupleiguíbúða veitt úr Byggingarsjóði ríkisins en eftir það úr Byggingarsjóði verkamanna. Undir heitinu „Óstaðsett“ er um að ræða framkvæmdalán en ekki er vitað þegar úthlutun fer fram hvar á landinu lánin verða notuð. Á þetta einkum við framkvæmdalán til handa Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp.

2. Upplýsingar um fjölda fjölskyldna sem eiga rétt á úthlutun.
    Samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 70/1990, er réttur einstaklinga til félagslegra íbúða bundinn við þá sem uppfylla skilyrði 80. gr. laganna. Meginskilyrði fyrir rétti einstaklinga til félagslegra íbúða eru bundin ákveðnum tekju- og eignamörkum. Tekjumörkin eru miðuð við meðaltekjur síðustu þrjú árin áður en úthlutun fer fram en eignamörk miðast við að viðkomandi eigi íbúð eða samsvarandi eign í öðru formi. Engar upplýsingar eru fyrirliggjandi um fjölda fjölskyldna sem uppfylla þessi skilyrði og vandséð að hægt sé að afla slíkra upplýsinga öðruvísi en með mjög viðamiklum rannsóknum á skattframtölum landsmanna.
    Samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun er það verkefni húsnæðisnefnda í hverju sveitarfélagi að gera áætlun fyrir sveitarfélagið um þörf á félagslegu húsnæði.