Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 434 . mál.


692. Frumvarp til laga



um forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum.

(Lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92.)



1. gr.


    Tilgangur forfallaþjónustu í sveitum er að veita starfandi bændum og mökum þeirra, svo og fastráðnum starfsmönnum bænda, aðstoð við nauðsynleg bús- og heimilisstörf þegar veikindi, slys eða önnur forföll ber að höndum.

2. gr.


    Kostnaður vegna forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum greiðist af tekjum af búnaðarmálasjóðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 41 15. maí 1990.

3. gr.


    Allir bændur og makar þeirra eiga rétt á aðstoð í veikinda- og slysatilfellum, svo og bústjórar og aðrir fastráðnir starfsmenn á búum. Þegar um fastráðna starfsmenn er að ræða skal miða við að ráðning hafi staðið sex mánuði eða lengur.
     Réttur hvers einstaklings miðast við vinnuframlag hans við landbúnaðarstörf. Eitt ársverk samkvæmt skilgreiningu Stéttarsambands bænda gefur rétt á hámarksþjónustu fyrir bónda og maka hans. Sama gildir fyrir einhleypan mann.
     Ef um er að ræða blandaðan rekstur skal meta vinnuframlag viðkomandi aðila við landbúnað til ársverka eftir reglum sem Stéttarsamband bænda setur.
     Þeir sem vinna minna en sem nemur einu ársverki við landbúnaðarstörf eiga rétt til forfallaþjónustu í samræmi við vinnuframlag sitt.
     Þeir sem hafa allt framfæri sitt af landbúnaði skulu þó ætíð njóta fullrar þjónustu nema sá aðili er sinnir forföllum hafi sannanlega tækifæri til að ná fullum daglaunum með vinnu annars staðar.

4. gr.


    Búnaðarsamböndunum er heimilt að starfrækja forfalla- og afleysingaþjónustu eftir lögum þessum hvert á sínu svæði.
     Stjórn forfallaþjónustunnar ákveður fjölda afleysingamanna (stöðugilda) fyrir hvert búnaðarsambandssvæði. Dagleg umsjón og skipulag starfsins innan hvers svæðis skal vera undir stjórn viðkomandi búnaðarsambands.
     Kostnaður búnaðarsambandanna við stjórnun og skipulagningu á þjónustunni greiðist af tekjum forfallaþjónustunnar.

5. gr.


    Stjórn forfallaþjónustunnar skal skipuð þremur mönnum og skal einn tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, einn af Stéttarsambandi bænda og einn tilnefndur af búnaðar- samböndunum sameiginlega.

6. gr.


    Föst mánaðarlaun skulu miðast við 40 stunda vinnuviku.
     Afleysingamenn skulu hafa endurgjaldslaust fæði og húsnæði hjá viðkomandi búi á starfstíma sínum þar. Einnig greiðir það ferðakostnað og yfirvinnu sem samið er um.
     Heimilt er að framlengja dvöl afleysingamanns á búi þegar tilskilinni þjónustu er lokið ef hans er ekki þörf annars staðar, enda greiðir þá viðkomandi bóndi laun afleysingamannsins.
     Þó skal ávallt leggja áherslu á aðstoð í bráðum veikinda- og slysatilfellum svo að svigrúm gefist til að gera aðrar ráðstafanir.

7. gr.


    Afleysingamenn skulu hafa alhliða starfsreynslu við bústörf. Koma skal á námskeiðum við búnaðarskóla sem þjálfa fólk til afleysingastarfa.

8. gr.


    Stjórn forfallaþjónustunnar er heimilt að taka upp samvinnu um skipulag og ráðningu starfsmanna við almenna afleysingaþjónustu sem rekin er á vegum samtaka bænda eða hóps bænda.
     Heimilt er stjórn forfallaþjónustunnar að ákveða að sameiginlegur kostnaður við skipulag og stjórnun í slíku samstarfi sé greiddur af rekstrarfé forfallaþjónustunnar.

9. gr.


    Þegar forföll ber að höndum og óskað er aðstoðar skal tilkynna það til viðkomandi búnaðarsambands. Skal þá liggja fyrir læknisvottorð um að viðkomandi sé óvinnufær.

10. gr.


    Landbúnaðarráðuneytið setur, að fengnum tillögum stjórnar forfallaþjónustunnar, reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga.
     Þar skal nánar skilgreint hverjir hafa rétt til aðstoðar samkvæmt lögum þessum og um réttindi og skyldur afleysingamanna.

11. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 32 29. maí 1979, um forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum starfar samkvæmt lögum nr. 32 frá 29. maí 1979. Tilgangur þessa starfs er að aðstoða við nauðsynleg bús- og heimilisstörf þegar veikindi, slys eða önnur forföll ber að höndum. Starfsemi forfallaþjónustunnar hefur haft mikla þýðingu fyrir íbúa sveitanna þau ár sem hún hefur starfað og aukið mjög á félagslegt öryggi sveitafólks. Sú þjónusta, sem forfallaþjónustan veitir, verður stöðugt mikilvægari eftir því sem fólki fækkar í sveitum og erfiðara verður að treysta á aðstoð nágranna og skyldmenna ef hjálpar er þörf.
     Á þeim tíu árum, sem forfallaþjónustan hefur starfað, hefur fengist mikilvæg reynsla af stjórnun og skipulagi slíks starfs. Að þeirri reynslu fenginni og með tilliti til þeirra miklu breytinga, sem orðið hafa í landbúnaðinum á undanförnum árum, þykir ástæða til að endurskoða lagaákvæði sem forfallaþjónustan starfar eftir.
     Við endurskoðun laganna var sú leið valin að semja nýtt frumvarp í stað þess að gera tillögur um breytingar á einstökum greinum.
     Drög að frumvarpinu voru kynnt á aðalfundi Stéttarsambands bænda árið 1989 og samþykkti fundurinn eftirfarandi ályktun um málið:
    „Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1989 telur nauðsynlegt að breytingar verði gerðar á lögum og reglum um forfalla- og afleysingaþjónutu í sveitum með tilliti til fenginnar reynslu. Því mælir fundurinn með því að frumvarp það til laga um forfalla- og afleysingaþjónustu, sem kynnt hefur verið fyrir fundinum, verði lögfest hið fyrsta. Það er skilyrði fundarins fyrir gjaldtöku skv. 2. gr. frumvarpsins að framleiðendagjald til Stofnlánadeildar lækki að sama skapi.“

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er fjallað um tilgang laganna. Sú breyting er lögð til frá gildandi lögum að fastráðnir starfsmenn á bændabýlum eigi eftirleiðis rétt á aðstoð. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að gjald til að kosta starfsemi forfalla- og afleysingaþjónustunnar er tekið af allri búvöruframleiðslu í landinu.
     Í búgreinum þar sem mest er um aðkeypt vinnuafl, svo sem í garðyrkju, alifuglarækt og svínarækt, hafa möguleikar til þess að hagnýta sér þjónustuna ekki verið í samræmi við það fjármagn sem búgreinarnar leggja starfseminni til þar eð einungis bóndinn og maki hafa átt rétt á þjónustu. Nauðsynlegt er að hér verði breyting á svo bændur standi sem jafnast að vígi í þessu efni.

Um 2. gr.


    Í greininni er vísað til nýsettra laga um Búnaðarmálasjóð, en skv. 4. gr. þeirra laga er forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum tryggður ákveðinn hluti af tekjum af búnaðarmálasjóðsgjaldi sem ætlað er að standa straum af kostnaði við þjónustu þessa.

Um 3. gr.


    Greinin fjallar um rétt einstakra aðila til þjónustu. Lögð er til sú grundvallarbreyting að réttur hvers einstaklings miðist við vinnuframlag hans í stað þess að miða við hlutfall tekna af landbúnaði af heildartekjum.
     Hlutverk forfallaþjónustunnar er að útvega starfskraft til þess að leysa af hendi þau verkefni er sá sem forfallast hefur annast við búreksturinn og/eða heimilisstörf. Því er eðlilegt að meta þörfina fyrir aðstoð (rétt viðkomandi einstaklings) út frá umfangi þeirrar vinnu sem hann að jafnaði leysir af hendi við landbúnað. Búrekstur einstakra bænda er mjög mismunandi að umfangi og er því sú vinna, sem þörf er fyrir vegna forfalla, að sama skapi breytileg.
     Samkvæmt gildandi verðlagsgrundvelli í sauðfjárframleiðslu telst umhirða 235 kinda bús eitt ársverk. Hliðstæð tala fyrir kúabú er 12,2 kýr ásamt geldneytum. Fjöldi búa er minni en sem nemur einu ársverki þrátt fyrir að búreksturinn sé í mörgum tilfellum aðaltekjuöflun eða jafnvel eina tekjuöflun viðkomandi bónda. Því verður að telja eðlilegra, miðað við tilgang forfallaþjónustunnar, að meta þörfina fyrir þjónustu út frá vinnuframlagi fremur en hlutfalli tekna. Hafa verður þó í huga að í ýmsum tilfellum kann að reynast örðugt vegna strjálbýlis að útvega afleysingamann til starfa hluta úr degi. Því er í greininni gert ráð fyrir að þeir sem hafa framfæri sitt að fullu af landbúnaði njóti ætíð fullrar þjónustu enda þótt því fylgi það að vinnutími afleysingamannsins nýtist ekki að fullu.

Um 4. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða ákvæðum sem er að finna í 2. gr. núgildandi laga.
     Gert er ráð fyrir að stjórn forfallaþjónustunnar ákveði fjölda afleysingamanna (stöðugilda) fyrir hvert búnaðarsambandssvæði en skipulag starfsins og daglegur rekstur verði í höndum og á ábyrgð viðkomandi búnaðarsambands.
     Felld eru niður ákvæði um kjör afleysingamanna þar sem tæpast getur talist eðlilegt að slík atriði séu lögbundin. Einnig eru felld niður ákvæði um fjölda daga á ári sem bóndi eða maki hans geti notið þjónustu. Eðlilegra virðist að slíkt sé ákveðið af stjórn forfallaþjónustunnar eða með reglugerð með tilliti til þeirra fjármuna sem til ráðstöfunar eru og annarra aðstæðna.

Um 5. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum fer Búnaðarfélag Íslands með yfirstjórn forfalla- og afleysingaþjónustunnar í umboði landbúnaðarráðherra. Í greininni er lögð til sú breyting að sérstök stjórn skipuð tveimur fulltrúum hagsmunaaðila, Stéttarsambands bænda og búnaðarsambandanna, og einum tilnefndum af Búnaðarfélagi Íslands fari með stjórn þessara mála.

Um 6. gr.


    Greinin fjallar um vinnutíma og starfsskilyrði afleysingamanna og er hliðstæð ákvæðum 3. gr. gildandi laga.

Um 7. gr.


    Hér er kveðið á um að gerðar skuli lágmarkskröfur um starfsreynslu afleysingamanna, svo og um námskeiðahald fyrir þá.

Um 8. gr.


    Í greininni felst það nýmæli að forfallaþjónustunni er heimilt að taka upp samvinnu um skipulag og ráðningu starfsmanna við almenna afleysingaþjónustu sem rekin er á vegum samtaka bænda eða hóps bænda.
     Samkvæmt verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða er bændum reiknað orlofsfé og er það innifalið í því verði sem þeir fá greitt fyrir afurðir sínar. Bændur verða því sjálfir að greiða fyrir afleysingar vegna orlofs. Ekki hefur enn verið komið upp skipulögðu afleysingakerfi vegna slíkrar þjónustu en á nokkrum stöðum á landinu hefur verið komið upp svokölluðum afleysingahringum og hópar bænda (8–10) ráðið til sín afleysingamann. Með ákvæðum greinarinnar er forfallaþjónustunni heimilað að taka þátt í slíku samstarfi þar sem hentugt þykir.

Um 9. gr.


    Greinin er hliðstæð ákvæðum 4. gr. gildandi laga.

Um 10. gr.


    Greinin er hliðstæð ákvæðum 7. gr. gildandi laga.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.



Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga


um forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum.


    Frumvarpið felur í sér engin útgjöld fyrir ríkissjóð þar sem allur kostnaður við framkvæmd þess greiðist af tekjum af búnaðarmálasjóðsgjaldi samkvæmt lögum nr. 41/1990.