Ferill 531. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 531 . mál.


903. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972, og lögum um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923.

Frá allsherjarnefnd.



I. KAFLI


Um breytingu á lögum um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972.


1. gr.


    31. gr. laganna orðast svo:
     Nú eru hjón sammála um að leita skilnaðar að borði og sæng og ber þá að veita þeim leyfi til slíks skilnaðar.

2. gr.


    32. gr. laganna orðast svo:
     Maki, sem telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap, á rétt á skilnaði að borði og sæng.

3. gr.


    34. gr. laganna orðast svo:
     Nú eru hjón á einu máli um að leita lögskilnaðar og er hann þá kræfur er liðnir eru sex mánuðir frá því að leyfi var gefið út til skilnaðar að borði og sæng eða dómur gekk, sbr. þó 33. gr.
     Hvor maki um sig á rétt á lögskilnaði eftir að eitt ár er liðið frá því að leyfi var veitt til skilnaðar að borði og sæng eða dómur gekk, sbr. þó 33. gr.

4. gr.


    35. gr. laganna orðast svo:
     Nú hafa hjón slitið samvistir vegna ósamlyndis og getur þá hvort þeirra krafist lögskilnaðar þegar samvistaslit hafa staðið í tvö ár hið skemmsta.

5. gr.


    36. gr. laganna fellur brott.

6. gr.


    43. gr. laganna orðast svo:
     Leyfi til skilnaðar að borði og sæng skv. 31. gr. og lögskilnaðar skv. 1. mgr. 34. gr. veita sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra.
     Skilnaðar samkvæmt öðrum ákvæðum má leita hjá sýslumönnum ef hjón eru sammála um það, en ella hjá dómstólum.
     Nú synjar sýslumaður um leyfi til skilnaðar og getur aðili þá skotið synjuninni til dómsmálaráðuneytis, sbr. 80. gr. Synjun er ekki því til fyrirstöðu að skilnaðar sé leitað fyrir dómstólum.

7. gr.


    45. gr. laganna orðast svo:
     Áður en skilnaður að borði og sæng eða lögskilnaður er veittur skal sýslumaður eða dómari reyna að koma á samkomulagi milli hjóna um skipan forsjár fyrir börnum, um framfærslueyri og aðra skilnaðarskilmála. Hjón skulu staðfesta samkomulag um þessi efni fyrir sýslumanni eða dómara.
     Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef óskað er lögskilnaðar á grundvelli skilnaðar að borði og sæng, sbr. 34. gr., með óbreyttum skilnaðarskilmálum.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti setur nánari reglur um umleitun skv. 1. mgr.

8. gr.


    47. gr. laganna orðast svo:
     Forsjá barns og framfærslueyri með því skal skipa við skilnað að borði og sæng og við lögskilnað í samræmi við ákvæði barnalaga, enn fremur framfærslueyri með maka. Áður en skilnaður er veittur skal annað tveggja vera samkomulag milli hjóna um fjárskipti eða opinber skipti hafin vegna fjárslita.
     Ágreiningur foreldra um forsjá og framfærslueyri kemur ekki í veg fyrir að skilnaður verði veittur að kröfu aðila.

9. gr.


    48. gr. laganna fellur brott.

10. gr.


    Í 1. og 2. málsl. 1. mgr. 50. gr. laganna fellur niður orðið „dómsmálaráðuneyti“, en í stað þess kemur: sýslumaður.

11. gr.


    Í 1. mgr. 52. gr. laganna fellur niður orðið „ráðuneytis“, en í stað þess kemur: sýslumanns.

12. gr.


    53. gr. laganna fellur brott.

13. gr.


    Í 2. málsl. 60. gr. laganna fellur niður orðið „dómsmálaráðuneyti“, en í þess stað kemur: sýslumaður.


14. gr.


     Í stað 61.–81. gr. laganna (VII. kafli: Um réttarfar í hjúskaparmálum o.fl.) koma tíu nýjar greinar er orðast svo:

    a. (61. gr.)
    Hjúskaparmál samkvæmt þessum kafla eru eftirfarandi dómsmál:
    Mál sem höfðuð eru til ógildingar hjúskap.
    Mál sem höfðuð eru til hjónaskilnaðar.
    Mál til úrlausnar um hvort hjúskapur sé gildur eða ekki gildur.
    Mál til úrlausnar um hvort réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng séu fallin niður.

    b. (62. gr.)
     Hjúskaparmál má höfða hér á landi í eftirfarandi tilvikum:
    Ef stefndi er búsettur hér á landi.
    Ef stefnandi er hér búsettur og hefur verið það sl. tvö ár eða búið hér áður svo langan tíma.
    Ef stefnandi er íslenskur ríkisborgari og leitt er í ljós að hann geti ekki vegna ríkisfangs síns höfðað mál í því landi sem hann er búsettur í.
    Ef bæði eru íslenskir ríkisborgarar og stefndi lýsir eigi andstöðu sinni gegn því að málið sæti úrlausn dómstóls hér á landi.
    Ef lögskilnaðar er krafist á grundvelli undanfarandi skilnaðar að borði og sæng enda hafi leyfi verið veitt eða dómur gengið hér á landi.
    Mál til ógildingar hjúskap má höfða hér á landi ef hjónavígslan hefur farið fram hér.
    Ákvæði milliríkjasamninga, sem Ísland er aðili að, skulu þó ganga framar ákvæðum þessarar greinar.

    c. (63. gr.)
     Mál skal höfða á heimilisvarnarþingi stefnda. Ef stefndi á ekki heimilisvarnarþing hér á landi skal mál höfða þar sem stefnandi á heimilisvarnarþing. Aðilar geta samið um annað varnarþing en að framan greinir.
     Nú er eigi til að dreifa varnarþingi skv. 1. mgr. og skal þá höfða mál fyrir dómstóli er dóms- og kirkjumálaráðuneytið kveður á um.

    d. (64. gr.)
     Annað hjóna og það eitt getur höfðað hjúskaparmál, sbr. þó 2. mgr. 24. gr.

    e. (65. gr.)
     Hjúskaparmál sæta meðferð einkamála nema um frávik sé mælt í lögum.
     Ef hvorki er vitað um heimilisfang né dvalarstað stefnda er dómara heimilt að skipa honum málsvara. Sama á við þegar stefndi er búsettur eða dvelst erlendis og ekki tekst að birta honum stefnu eða hvorki hann né umboðsmaður hans sækir þing við þingfestingu máls og sérstakar ástæður mæla að öðru leyti með því að honum verði skipaður málsvari. Málsvari skal hafa samráð við umbjóðanda sinn ef unnt er. Dómari ákveður þóknun til málsvara sem greiðist úr ríkissjóði. Dómari getur kveðið á um að stefndi skuli endurgreiða ríkissjóði kostnað vegna málsvara að öllu eða nokkru leyti ef rök mæla með því.
     Dómari gætir óhjákvæmilegra lagaskilyrða við úrlausn hjúskaparmáls.
     Hjúskap verður ekki slitið með dómsátt.

    f. (66. gr.)
     Dómþing í hjúskaparmálum skulu háð fyrir luktum dyrum nema dómari kveði öðruvísi á með samþykki málsaðila.

    g. (67. gr.)
    Eigi má án leyfis dómara birta almenningi á nokkurn hátt annað af því sem gerst hefur í hjúskaparmálum en dóminn. Brot gegn ákvæði þessu varðar sektum.
     Nú er dómur í slíku máli birtur, þar á meðal að tilstuðlan dómstólsins, og skal þá gæta leyndar á nöfnum og upplýsingum sem bent geti til þess hverjir séu aðilar máls.

    h. (68. gr.)
     Hjúskaparmál verður eigi höfðað eftir dauða annars hjóna.
     Nú deyr annað hjóna áður en dómur gengur í hjúskaparmáli og fellur þá málið niður. Á þetta einnig við ef máli er áfrýjað.

    i. (69. gr.)
     Nú er máli vísað frá dómi eða það fellt niður án kröfu sækjanda og getur sækjandi þá höfðað mál að nýju innan mánaðar þó að lögmæltur málshöfðunarfrestur sé þá liðinn.

    j. (70. gr.)
     Heimilt er að áfrýja einstökum þáttum dóms.
     Hvorugur málsaðili má ganga í nýtt hjónaband innan loka áfrýjunarfrests nema því aðeins að gagnaðili og dóms- og kirkjumálaráðuneyti, þegar það á aðild máls, hafi bréflega fallið frá áfrýjun.
     Endurupptaka máls er ekki heimil eftir lok áfrýjunarfrests.

15. gr.


    Á eftir VII. kafla laganna kemur nýr kafli, VIII. kafli: Um meðferð og úrlausn stjórnvalda á málum samkvæmt lögum þessum, með tíu nýjum greinum er orðast svo:

    a. (71. gr.)
    Stjórnvöld geta leyst úr málum er tengjast öðrum ríkjum í eftirfarandi tilvikum:
    Ef sá sem krafa beinist gegn er búsettur hér á landi.
    Ef aðilar eru íslenskir ríkisborgarar og sá sem krafa beinist gegn samþykkir að málið sæti úrlausn hér á landi.
    Ef lögskilnaðar er krafist á grundvelli undanfarandi skilnaðar að borði og sæng, enda hafi leyfi til skilnaðar að borði og sæng verið veitt hér á landi.
     Ákvæði milliríkjasamninga, sem Ísland er aðili að, skulu þó ganga framar ákvæðum 1. mgr.

    b. (72. gr.)
     Leysa skal úr máli í því umdæmi þar sem sá sem krafa beinist gegn er búsettur. Ef hann er ekki búsettur hér á landi skal leysa úr máli í því umdæmi þar sem krefjandi er búsettur. Hjón geta samið um annað úrlausnarumdæmi.
    Dóms- og kirkjumálaráðuneytið ákvarðar úrlausnarumdæmi ef hvorki sá sem krafa beinist gegn né krefjandi eru búsettir hér á landi eða ef annars leikur vafi á því hvar leysa skuli úr máli samkvæmt framangreindu.

    c. (73. gr.)
    Sýslumaður skal leiðbeina aðilum um réttindi þeirra og skyldur er málið varðar.

    d. (74. gr.)
     Sýslumaður leitar sátta með aðilum áður en hann leysir úr ágreiningsmáli.
     Ef aðilar máls búa eða dvelja hvor í sínu umdæmi má leita sátta þar sem hvor aðila býr eða dvelst.

    e. (75. gr.)
     Aðilum máls ber að setja fram skýrar kröfur fyrir stjórnvaldi og afla þeirra gagna sem stjórnvald telur þörf á til úrlausnar máls. Enn fremur getur stjórnvald aflað gagna að eigin frumkvæði ef þörf krefur.
     Ef sá sem kröfu gerði sinnir eigi ítrekuðum kvaðningum eða tilmælum stjórnvalds um framlagningu gagna er stjórnvaldi heimilt að synja um úrlausn.
     Nú sinnir gagnaðili máls eigi ítrekuðum kvaðningum eða tilmælum stjórnvalds um gagnaöflun og má þá veita úrlausn á grundvelli þeirra krafna og gagna sem fyrir liggja.

    f. (76. gr.)
     Aðilum máls er heimilt að kynna sér skjöl og önnur gögn sem málið varðar. Réttur þessi nær ekki til vinnuskjala sem rituð hafa verið hjá stjórnvaldi til eigin afnota í sambandi við meðferð málsins.

    g. (77. gr.)
     Aðilar skulu eiga þess kost að tjá sig um mál áður en ákvörðun er tekin og getur stjórnvald sett þeim ákveðinn frest til þess.

    h. (78. gr.)
     Úrskurður stjórnvalds skal vera skriflegur. Þar skal greina úrlausnarefni, niðurstöðu og rökstuðning fyrir henni, þar á meðal lagaatriði er niðurstaða byggist á og önnur atriði er máli skipta, þar á meðal kæruheimild og þvingunarúrræði ef því er að skipta.

    i. (79. gr.)
     Úrskurð stjórnvalds skal senda aðilum máls með ábyrgðarbréfi, hann birtur af einum stefnuvotti eða kynntur með öðrum sannanlegum hætti.

    j. (80. gr.)
     Kæra má úrlausn sýslumanns til dóms- og kirkjumálaráðuneytis innan tveggja mánaða frá dagsetningu hennar.
     Kæra frestar ekki réttaráhrifum úrlausnar nema sýslumaður ákveði annað.
     Málsaðilum, sem fengið hafa leyfi til lögskilnaðar, er ekki heimilt að ganga í hjúskap að nýju fyrr en eftir lok kærufrests nema þeir hafi fallið bréflega frá kæru.

16. gr.


    Í VIII. kafla laganna, er verður IX. kafli, kemur ný grein, 81. gr., er orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna.

II. KAFLI


Um breytingu á lögum um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923.


17. gr.


    II. kafli laganna, Um foreldravald (16. gr.), fellur brott.

18. gr.


    Á eftir 86. gr. laganna koma tvær nýjar greinar er orðast svo:

    a. (87. gr.)
    Við meðferð og úrlausn stjórnvalda á málum samkvæmt lögum þessum skal beita ákvæðum VIII. kafla laga um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972, með síðari breytingum, eftir því sem við á.

    b. (88. gr.)
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna.     

III. KAFLI


Gildistaka o.fl.


19. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1992.
     Frá sama tíma fellur úr gildi 2. tölul. 62. gr. laga nr. 92/1991, um breyting á ýmsum lögum vegna aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


     Nú var sett fram krafa um skilnað að borði og sæng eða lögskilnað samkvæmt lögum nr. 60/1972, með síðari breytingum, fyrir gildistöku laga þessara og skal þá fara um þá kröfu eftir eldri lögum. Ef bæði hjón óska þess er þó heimilt að beita reglum þessara laga.

Greinargerð.


     Frumvarp þetta felur í sér breytingar á lögum nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar, og lögum nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna. Breytingar þessar eru sumar hverjar nauðsynlegar og aðrar mjög æskilegar vegna aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði sem tekur gildi 1. júlí nk. Auk þess fela þær í sér verulegar réttarbætur að öðru leyti.
     Helstu breytingar, sem lagðar eru til í frumvarpinu, eru annars vegar við VII. kafla laga nr. 60/1972 um réttarfar í hjúskaparmálum. Hins vegar er lagt til að nýjum stjórnsýslukafla, sem verður VIII. kafli, verði bætt við lög nr. 60/1972 og að við bætist tilvísun í þann kafla í lög nr. 20/1923. Er það gert til þess að skapa samræmi við ný barnalög sem samþykkt voru 9. maí sl.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að samkomulag hjóna um skilnað nægi sem grundvöllur leyfis til skilnaðar að borði og sæng eins og er skv. 31. gr. laga nr. 60/1972. Felld eru niður önnur skilyrði 31. gr. en þau eru tilgreind í 8. gr. þessa frumvarps og eiga við um öll skilnaðarmál.

Um 2. gr.


    Þessi grein er nýmæli og felur í sér að annað hjóna getur einhliða krafist skilnaðar að borði og sæng. Greinin á sér nokkra samsvörun í núgildandi 32. gr. laga nr. 60/1972 en er til muna einfaldari og ekki er að finna í henni þau sakaratriði sem eru í 32. gr. Úrlausnaraðili hlýtur að verða að una mati maka sjálfs á því hvort hann telji sig geta haldið áfram sambúðinni, enda er utanaðkomandi torvelt að virða það mál.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um lágmarkstíma er líða verður frá því að skilnaður að borði og sæng er veittur og fram til þess að lögskilnaður er kræfur. Í ákvæðinu er greint milli þess hvort hjón séu á einu máli um að leita lögskilnaðar eða ekki. Í fyrra tilvikinu er frestur sex mánuðir, en eitt ár í hinu síðarnefnda. Í núgildandi ákvæði er fresturinn ávallt eitt ár.

Um 4. gr.


    Greinin er hliðstæð 35. gr. laga nr. 60/1972, en fresturinn er styttur úr þremur árum í tvö ár.

Um 5. gr.


    Ákvæði 36. gr. laga nr. 60/1972 þykir óþarft, sbr. þá breytingu sem lögð er til við 35. gr. hér að framan.

Um 6. gr.


    Í þessari grein eru fyrirmæli um hverjir leysi úr kröfu um skilnað að borði og sæng og lögskilnað. Ákvæðið byggir á þeirri grunnreglu að í flestum tilvikum eigi að vera unnt að leita skilnaðar hvort sem er hjá dómstólum eða stjórnvöldum. Með ákvæðinu er þó stofnað til allmikilla breytinga á úrlausnarvaldi stjórnvalda. Er úrlausnarvald sýslumanna aukið til muna, en gert er ráð fyrir að dómsmálaráðuneytið verði málskotsstig um úrlausnir sýslumanns.
    Sýslumenn og þeir einir veita leyfi til skilnaðar að borði og sæng skv. 1. gr. frumvarpsins, svo og til lögskilnaðar skv. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins, þ.e. þegar hjón eru sammála um að leita skilnaðar. Hér er af eðlisástæðum ekki gert ráð fyrir málskoti til dómsmálaráðuneytis og ekki þykja rök til þess að dómstóll fjalli um mál þegar svona stendur á.
    Skilnaðar að borði og sæng og lögskilnaðar samkvæmt öðrum ákvæðum en hér að framan greinir má leita hjá sýslumönnum ef hjón eru sammála um það, en endranær leysir dómstóll úr kröfu aðila um skilnað.
    Synjun sýslumanns á úrlausn skv. 2. mgr. greinarinnar getur aðili skotið til ráðuneytis innan tveggja mánaða, sbr. j-lið 15. gr. frumvarpsins. Synjun sýslumanns gæti einkum átt sér stað þegar hann teldi vandkvæði á sönnunarfærslu. Þótt dómsmálaráðuneytið felli synjun sýslumanns úr gildi gefur það ekki út skilnaðarleyfi heldur leggur fyrir sýslumann að taka málið til nýrrar meðferðar.
    Synjun stjórnvalds um útgáfu leyfis er ekki því til fyrirstöðu að unnt sé að leggja skilnaðarkröfu fyrir dómstóla. Þetta ákvæði á bæði við um skilnað að borði og sæng og lögskilnað.
     Víða um lönd er úrlausn skilnaðarmála hjá dómstólum einum. Ekki hafa þótt rök til þess að fara þá leið þegar hjón eru sammála um skilnað eða um að leita hans hjá stjórnvaldi. Er á það að líta að stjórnvaldsleiðin er að jafnaði greiðfærari og ódýrari fyrir aðila, auk þess sem hún styðst við langa hefð hér á landi. Ekki verður séð að þessi skipan sé andstæð þjóðréttarsamningum er Ísland hefur bundist frekar en t.d. norska tilhögunin.
     Í nýsamþykktum barnalögum er sýslumönnum ætlaður aukinn hlutur í úrlausnum sifjaréttarmála. Er vafalaust hagræði að því fyrir fólk er býr utan höfuðborgarsvæðisins að geta leitað til sýslumanns með þessi mál. Auk þess sem það horfir til réttaröryggis að hægt sé að skjóta málum til ráðuneytis. Á það sama við um skilnaðarmál. Þekking sýslumanna á högum fólks í umdæmi þeirra getur hér komið að liði.

Um 7. gr.


    Umleitun um skilnaðarkjör fyrir sýslumanni eða dómara gegnir verulegu hlutverki. Í fyrsta lagi því hlutverki að reyna að koma á samkomulagi milli hjóna um skilnaðarkjör þar sem það er ekki fyrir hendi, en einnig til að staðreyna að raunverulegt samkomulag sé milli hjóna um þau og til að athuga hvort hallað sé á ósanngjarnan hátt á annað hjóna með slíku samkomulagi eða a.m.k. að vekja athygli á því ef slíku er til að dreifa. Ekki sýnist þörf á slíkri umleitun ef hún hefur verið framkvæmd við skilnað að borði og sæng og er kveðið á um að sú skipan skuli einnig gilda eftir lögskilnað, sbr. 2. mgr.
     Á því er byggt að lögmaður geti komið fyrir sýslumann eða dómara og undirritað þau skjöl sem hér er um að ræða fyrir hönd hjóna, enda hafi hann sérstakt umboð til þess.
     Athygli er vakin á því að skv. 107. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 91/1991, er hægt að vísa sáttaumleitunum í dómsmáli til sýslumanns og ætti það einnig við í hjúskaparmálum sem rekin eru fyrir dómi.
     Samningur hjóna um skilnaðarkjör verður ekki endanlega skuldbindandi fyrr en hann hefur verið staðfestur fyrir sýslumanni eða dómara, sbr. hrd. 1987, bls. 724.

Um 8. gr.


    Hér segir um atriði sem skipa þarf við skilnað, þ.e. um forsjá barna, framfærslu og fjárskipti.
     Ákvæði 2. mgr. er mikilvægt. Langan tíma getur tekið að leysa úr deilu foreldra um forsjá barna. Ekki þykir ástæða til að fresta úrlausn um skilnaðarkröfu þótt foreldrar deili um forsjá. Ákvæðið byggist að sjálfsögðu á því að ágreiningur um forsjá sé til meðferðar hjá lögmæltum yfirvöldum í samræmi við ákvæði barnalaga. Sama á við þegar foreldrar deila um framfærslueyri.
     Gert er ráð fyrir að sérstök krafa verði að koma fram hjá öðrum aðila eða báðum um að skilnaður verði veittur áður en leyst verði úr ágreiningi um forsjá eða framfærslueyri.

Um 9. og 12. gr.


    Efni þessara greina er nú í barnalögum.

Um 10., 11. og 13. gr.


    Breytingarnar, sem hér eru lagðar til, eru vegna væntanlegs aðskilnaðar dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

Um 14. gr.


     Hér er lögð til breyting á VII. kafla laga nr. 60/1972 í heild sinni. Gert er ráð fyrir að meðferð þessara mála lúti í öllum meginatriðum almennri meðferð einkamála samkvæmt lögum nr. 91/1991 með nokkrum frávikum sem greind eru í kaflanum.
     Í hjúskaparmálum þarf oft að taka á fleiri atriðum en skilnaðarkröfunni sjálfri. Eitt og sama dómsmálið getur verið höfðað með kröfu um skilnað, vegna ágreinings um forsjá barna og vegna skyldu til greiðslu lífeyris með maka. Er unnt að sækja þessa þrjá þætti í sama dómsmálinu, en vegna séreðlis hvers þeirra gilda nokkuð ólík réttarfarsleg sjónarmið um þá, einkum hvað varðar forræði aðila á máli. Verður að meta þetta á grundvelli efnislegra lagareglna á þessu sviði.
     Varðandi forsjárþáttinn þarf að taka tillit til hagsmuna þriðja aðila, þ.e. barnsins sem þarfnast sérstakrar verndar. Með tilliti til hagsmuna þess er talið nauðsynlegt að skerða forræði aðila á máli frá því sem tíðkast almennt í einkamálaréttarfari. Í VIII. kafla barnalaga eru sérákvæði um réttarfar í dómsmálum um forsjá barna. Í 3. mgr. 56. gr. þeirra laga er gert ráð fyrir að reglur hjúskaparlaga um lögsögu og varnarþing gildi sé krafa um forsjá þáttur í hjúskaparmáli, en sérákvæði barnalaga eigi að öðru leyti við um forsjárþáttinn. Þetta á t.d. við um 62. gr. þeirra þar sem segir að dómari sé ekki bundinn af málsástæðum og kröfum aðila, en hliðstætt ákvæði er ekki í þessu frumvarpi.
     Við úrlausn um skilnaðarkröfuna sjálfa gilda nokkuð önnur sjónarmið en við úrlausn um forsjá barna. Þá er um tvo jafnsetta einstaklinga að ræða og því eðlilegt að aðilar hafi ríkara forræði á máli. Hins vegar koma hér til þau þjóðfélagslegu sjónarmið að styrkja eigi hjónabandið og ófrávíkjanlegar lagareglur um skilnaði sem settar hafa verið í því skyni, svo sem ákvæðin um lágmarksfrest frá því að skilnaður að borði og sæng er veittur og uns lögskilnaður er kræfur, sbr. 3 gr. frumvarpsins, eða um tímalengd samvistaslita, sbr. 4. gr. frumvarpsins; einnig reglur þar sem skilnaðarforsendum er lýst með ákveðnu efnisinntaki, sbr. 39. gr. laga nr. 60/1972 um hjúskaparbrot og 40. gr. laganna um líkamsárás. Í þessum tilvikum verður að ganga úr skugga um að lagaskilyrðum sé fullnægt og skerða verður forræði aðila á máli með hliðsjón af því. Hér dugir ekki að stefndi samþykki skilnaðarkröfu stefnanda sem reist er t.d. á skemmri samvistaslitum en tveimur árum eða á líkamsárás sem ekki er jafnalvarleg og lýst er í 40. gr. Af þessum ástæðum hefur verið talin þörf á nokkrum sérákvæðum um meðferð þessara mála, sbr. e-lið 14. gr. frumvarpsins. Frávikin eru þó færri en um forsjármál samkvæmt barnalögum. Rétt er að benda á það að stefndi í hjúskaparmáli getur auðvitað sett fram gagnkröfu og krafist skilnaðar á öðrum grundvelli en stefnandi, t.d. skilnaðar að borði og sæng í stað lögskilnaðar vegna hjúskaparbrots.
     Þau sjónarmið, sem rakin hafa verið hér að ofan um skilnaðarkröfuna og forsjárþáttinn í hjúskaparmáli, eiga ekki við um eigna- og framfærslumál hjóna. Við meðferð þessara þátta eru ekki sömu rök til að skerða forræði aðila og frávik frá almennri meðferð einkamála verða færri. Verður að líta svo á að aðilar geti gert sátt um þessi mál, sbr. 7. gr. frumvarpsins. Ber ekki að túlka 4. mgr. e-liðar 14. gr. frumvarpsins svo að ekki sé heimilt að gera sátt um slíka afmarkaða þætti sem ófrávíkjanlegar lagareglur gilda ekki um.
     Um hjúskaparmál gilda sömu sjónarmið og um forsjármál varðandi nauðsyn þess að dómþing séu lokuð og gætt sé nafnleyndar við birtingu dóms, sbr. f- og g-liði í 14. gr. frumvarpsins.

Um a. (61. gr.)


     Greinin er efnislega samhljóða 61. gr. laga nr. 60/1972 nema 4. tölul. sem er nýmæli þar sem mælt er fyrir um að komi til dómsmáls um hvort réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng séu fallin niður fari um það mál sem hjúskaparmál.

Um b. (62. gr.)


     Lögsögureglur samkvæmt þessu ákvæði eru mótaðar með hliðsjón af dönskum og norskum lögum. Þær fela í sér nokkra rýmkun á reglum 66. gr. laga nr. 60/1972. Lagt er til í 2. mgr. að mál til ógildingar hjúskap megi höfða hér á landi ef hjónavígsla hefur farið hér fram.
     Lögsögureglur greinarinnar eru í samræmi við lögsögureglur 1. mgr. 56. gr. barnalaga að svo miklu leyti sem þessi tvenns konar mál eru sambærileg af eðlisástæðum. Í 1. mgr. 56. gr. barnalaga segir að þegar krafa um forsjá barns sé þáttur í hjúskaparmáli gildi þær reglur um lögsögu og varnarþing sem greinir í lögum um hjúskaparmál.

Um c. (63. gr.)


     Greininni er ætlað að koma í stað 67. gr. laga nr. 60/1972 um varnarþing, sjá til samanburðar 57. gr. barnalaga, svo og 3. mgr. 56. gr. sömu laga er greinir í umsögn um b-lið hér að framan. Aðilar geta samið um varnarþing, sbr. og 3. tölul. 42. gr. laga nr. 91/1991.

Um d. (64. gr.)


     Þetta ákvæði er í samræmi við gildandi lög.
    Um ákvæðið vísast til 65. gr. laga nr. 60/1972.
     Í frumvarpinu er ekki ákvæði hliðstætt 68. gr. laga nr. 60/1972 um að dómsmálaráðuneytið geti látið fresta málssókn til ógildingar tvíkvænishjúskap, sérstaklega ef ætla megi að fyrra hjúskap verði bráðlega slitið. Var ekki talin þörf á slíku ákvæði. Þessi mál sæta ekki lengur meðferð opinberra mála og ráðuneytið getur tekið ákvörðun um frestun enda þótt lagaákvæði kveði ekki á um það.

Um e. (65. gr.)


     Í 1. mgr. er sú meginregla að hjúskaparmál sæti meðferð einkamála, sbr. lög nr. 91/1991. Er það í samræmi við 3. mgr. 68. gr. laga nr. 60/1972.
     Í 2. og 4. mgr. þessarar greinar frumvarpsins og greinunum þar á eftir er síðan mælt fyrir um nokkur frávik frá meginreglu 1. mgr.
     Í 2. mgr. er lagt til að dómara sé heimilt að skipa stefnda málsvara þegar svo stendur á að hvorki er vitað um heimilisfang né dvalarstað stefnda. Enn fremur þegar stefndi er búsettur eða dvelst erlendis og ekki tekst að birta honum stefnu eða hvorki hann né umboðsmaður hans sækja þing við þingfestingu máls og sérstakar ástæður mæla að öðru leyti með því. Brýna nauðsyn getur borið til þessa úrræðis sem ætlað er m.a. að tryggja að mál, sem höfða má hér á landi skv. a-lið 14. gr. frumvarpsins, geti sætt meðferð hér og að skilnaðardómar, sem kveðnir eru upp hér á landi gegn mönnum sem eru búsettir erlendis, verði viðurkenndir utan Íslands. Þetta er þrengri regla en ákvæði 70. gr. laga nr. 60/1972. Málsvari skal tala máli hins stefnda og gæta hagsmuna hans, en hefur ekki heimild til að skuldbinda hann fyrir dómi. Ekki er þess krafist að málsvari skuli vera lögmaður, kæmi t.d. til greina að ættingi eða vinur hins stefnda yrði skipaður málsvari. Eðlilegt er að líta svo á að málsvari verði að fullnægja almennum hæfisskilyrðum lögræðislaga, sbr. 29. gr. laga nr. 68/1984. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna málsvara greiðist í fyrstu úr ríkissjóði, en dómari geti kveðið á um að stefndi skuli endurgreiða ríkissjóði hann að öllu eða nokkru leyti.
    Eins og vikið var að í almennum athugasemdum við þennan kafla takmarka ófrávíkjanlegar lagareglur forræði aðila á hjúskaparmáli. Ákvæði 3. mgr. áréttar þetta og vísar til þess að við úrlausn skilnaðarmála beri dómara „ex officio“ að gæta þess að ófrávíkjanlegum lagareglum sé fullnægt. Þannig eiga aðilar ekki að geta vikið sér undan ófrávíkjanlegum lagareglum, t.d. fengið lögskilnað með því að játa á sig hjúskaparbrot sem ekki hefur verið framið.
     Í 4. mgr. segir að hjúskap verði ekki slitið með dómsátt aðila. Þessi regla er í samræmi við danska, norska og sænska lagaframkvæmd. Hún helgast af þeim opinberu hagsmunum og einkahagsmunum sem eru af því að niðurstaða byggist á réttum forsendum og þeim víðtæku réttaráhrifum sem skilnaður hefur í för með sér. Hefur verið talið nauðsynlegt að lyktir máls séu með formlegri hætti en dómsátt. Hér þarf einnig að hafa í huga gildi íslenskra skilnaðardóma gagnvart rétti annarra ríkja. Ákvæðið girðir ekki fyrir að dómari staðfesti samkomulag aðila um einstaka þætti sem snerta hvorki ófrávíkjanlegar lagareglur né hagsmuni barns, sbr. hér að ofan.

Um f. (66. gr.)


     Dómsmál þessi eru mjög persónuleg og viðkvæm og þykir réttmætt að kveða svo á að þinghöld skuli fara fram fyrir luktum dyrum nema dómari kveði öðruvísi á með samþykki aðila, sbr. 1. mgr. 76. gr. laga nr. 60/1972 og 63. gr. barnalaga.

Um g. (67. gr.)


    Í ákvæðinu er kveðið á um nafnleynd vegna þessara mála, bæði að því er varðar frásögn um það er gerist í slíkum málum, nema dómari leyfi, og svo þegar dómur er birtur, þar á meðal gefinn út að tilhlutan dóms svo sem er um dómasöfn Hæstaréttar. Stafa þessi ákvæði af því hve persónuleg og viðkvæm þessi mál eru að jafnaði, sbr. hér 2. mgr. 76. gr. laga nr. 60/1972 og 64. gr. barnalaga.

Um h. (68. gr.)


     Þetta ákvæði varðar andlát málsaðila og áhrif þess á höfðun eða áfrýjun hjúskaparmáls.
     Ákvæði 1. mgr. má leiða af ákvæði d-liðar 14. gr. frumvarpsins.
     2. mgr. kveður svo á að mál falli niður ef annað hjóna andast áður en dómur gengur í máli sem höfðað hefur verið. Á þetta einnig við um áfrýjun. Héraðsdómur verður því ekki endurskoðaður í æðra rétti. Við málalok í héraði verður að sitja.

Um i. (69. gr.)


     Aðalgildi þessarar greinar er að kveðið er svo á að unnt sé að höfða mál að nýju innan mánaðar frá því að máli er vísað frá dómi eða fellt niður án kröfu sækjanda þótt málshöfðunarfrestir séu liðnir. Þess eru allmörg dæmi í lögum nr. 60/1972 að settir séu tímafrestir til málshöfðunar, sbr. t.d. 3. mgr. 39. gr. og 2. mgr. 40. gr.

Um j. (70. gr.)


     Í 1. mgr. segir að heimilt sé að áfrýja einstökum þáttum dómsmáls. Dómurinn kveður t.d. á um lögskilnað aðila, forsjá barna þeirra og skyldur til greiðslu lífeyris með maka. Vera má að báðir aðilar uni úrlausn dómara um lögskilnað, en annað eða bæði vilja áfrýja þættinum um forsjá og jafnvel skyldu til greiðslu lífeyris. Er lagt til að tekið sé af skarið um að slíkt sé heimilt. Réttaráhrif þeirra þátta, sem ekki er áfrýjað, haldast óbreytt. Sérreglur eru í lögum um málskot í sambandi við málskostnað og tekur ákvæðið ekki til þess þáttar.
     Í 2. mgr. segir að hvorugur málsaðili megi ganga í hjúskap innan loka áfrýjunarfrests nema aðilar, þar á meðal dóms- og kirkjumálaráðuneytið þegar það á aðild máls, hafi fallið bréflega frá áfrýjun. Ákvæðið er sama efnis og 3. mgr. 78. gr. laga nr. 60/1972.
     Um áfrýjunarleika dómsathafnar er vakin athygli á 13. gr. laga nr. 44/1981 varðandi úrskurð um að horfinn maður skuli talinn látinn.
     Í 3. mgr. segir að endurupptaka máls sé ekki heimil eftir lok áfrýjunarfrests. Af því leiðir að ákvæði einkamálalaga um endurupptöku eiga ekki við um þessi mál eftir lok áfrýjunarfrests. Stafar þetta ákvæði af hinum víðtæku réttaráhrifum dóms í hjúskaparmáli. Ef mál er dæmt að nýju eftir það tímamark sem nefnt er í greininni mundi það leiða til mikilla raunhæfra erfiðleika þar sem aðilar hafa treyst dómsniðurstöðunni og hagað sér samkvæmt því, t.d. gifst að nýju og hagað margvíslegum fjármálaráðstöfunum með hliðsjón af þeim málalokum. Þykir þetta sjónarmið svo mikilvægt að önnur hljóti að þoka.

Um 15. gr.


     Greinin kveður á um nýjan kafla þar sem eru ákvæði um meðferð og úrlausn stjórnvalda á málum samkvæmt lögunum. Hér er lagt til að lögfestar verði reglur sem mótast hafa í lagaframkvæmd, einkum við meðferð dómsmálaráðuneytisins á hjúskaparmálum. Horfir slík lögskráning til réttaröryggis. Er hennar og sérstök þörf nú þegar margvíslegar úrlausnir flytjast frá dómsmálaráðuneyti til sýslumanna. Tekið skal fram að reglur þessar gilda einnig um meðferð mála hjá dómsmálaráðuneyti þegar mál koma til kasta þess. Við mótun ákvæða þessa kafla hefur verið höfð hliðsjón af frumvörpum til stjórnsýslulaga, almennum viðhorfum í stjórnsýslurétti og sifjarétti og álitsgerðum umboðsmanns Alþingis.
     Ákvæði þessa kafla eru í megindráttum eftir því sem við getur átt, sama eða svipaðs efnis og ákvæði IX. kafla barnalaga. Þykir mega vísa til greinargerðar um þann kafla og einstakra greina hans. Verður hér aðeins getið fáeinna atriða.

Um a. (71. gr.)


     Lögsögureglurnar eru nokkru þrengri en hliðstæðar reglur b-liðar hér að framan um lögsögu dómstóla. Verður hér að fara að með nokkurri gát. Meðal annars er þess að gæta að víða erlendis eru skilnaðarmál og ágreiningsmál, er tengjast þeim, alfarið háð úrlausn dómstóla.

Um b. (72. gr.)


     Þetta ákvæði svarar til ákvæða c-liðar hér að framan um varnarþing í dómsmálum.

Um c. (73. gr.)


     Greinin er sama efnis og 67. gr. barnalaga og varðar leiðbeiningarskyldu sýslumanna.

Um d. (74. gr.)


     Þessi grein varðar sáttaumleitun sýslumanns og er í megindráttum sama efnis og 1. mgr. 68. gr. barnalaga, sbr. og 7. gr. þessa frumvarps.

Um e. (75. gr.)


     Greinin fjallar um kröfur aðila og gagnaöflun og er sama efnis og 69. gr. barnalaga.

Um f. (76. gr.)


     Greinin fjallar um rétt aðila til að kynna sér gögn máls. Er hún sama efnis og 1. mgr. 70. gr. barnalaga. 2. mgr. þeirrar greinar er ekki í þessu ákvæði, en þar er heimilað að takmarka aðgang að gögnum vegna hagsmuna barns. Hér horfir mál öðruvísi við.

Um g. (77. gr.)


     Greinin er hliðstæð 71. gr. barnalaga og varðar rétt aðila til að tjá sig um mál.

Um h. (78. gr.)


     Greinin mælir fyrir um úrskurð stjórnvalds sem skal m.a. vera skriflegur og geyma lýsingu á úrlausnarefni, niðurstöðu og rökstuðning fyrir henni, greiningu á kæruheimild og þvingunarúrræði ef því er að skipta. Ákvæðið er sama efnis og 72. gr. barnalaga og er vísað um rökstuðning fyrir ákvæðinu til athugasemda um þá grein. Horfa þeir hættir, sem greinin kveður á um, til réttaröryggis og verða nauðsynleg undirstaða að mati aðila á því hvort úrlausn verði skotið til æðra stjórnvalds. Benda ber á að afgreiðslur mála samkvæmt þessu frumvarpi eru oft og einatt ekki í formi úrskurða, heldur t.d. leyfisbréfa sem nokkuð önnur sjónarmið eiga við um. Í sambandi við leyfisbréf reynir helst á úrskurði ef synjað er um útgáfu leyfis.

Um i. (79. gr.)


     Greinin er hliðstæð 73. gr. barnalaga og varðar tilkynningu um úrskurð.

Um j. (80. gr.)


     Greinin fjallar um stjórnsýslukæru, sbr. 74. gr. barnalaga. Tekur ákvæðið til allra úrlausna sýslumanna á þessu sviði. Stundum er þess getið í frumvarpinu um einstaka úrlausnir að þær séu kæranlegar, en frá því má ekki gagnálykta svo að úrlausnir séu því aðeins kæranlegar að þessa sé getið í lögunum. Kærufrestur er tveir mánuðir miðað við dagsetningu úrlausnar. Kæra frestar ekki réttaráhrifum úrlausnar nema sýslumaður ákveði annað af sjálfsdáðum eða að kröfu aðila. Að því er leyfi til skilnaðar varðar þykja rök standa til þess að kæra fresti réttaráhrifunum þannig að maki geti ekki gengið í hjúskap að nýju að svo stöddu. Ef aðilar hafa lýst því bréflega að þeir muni ekki kæra stendur þetta ákvæði þó ekki í vegi fyrir því að til hjúskapar verði stofnað. Endranær verður að þreyja uns tveggja mánaða fresti lýkur, þ.e. allt til þess að sýnt er hvort úrlausn verði kærð.

Um 16. gr.


    Hér er kveðið á um heimild ráðherra til setningar reglugerða.

Um 17. gr.


    Efni þessarar greinar er nú í barnalögum.

Um 18. gr.


    Hér er lagt til að tilvísunargrein í VIII. kafla um meðferð og úrlausn stjórnvalda, sbr. II. kafla frumvarpsins, bætist við lög nr. 20/1923. Greininni er ætlað að hafa sama gildi og breytingunni sem lögð er til í II. kafla frumvarpsins.
     Enn fremur er lagt til að við bætist heimild ráðherra til setningar reglugerða.

Um 19. gr.


    Gildistaka er miðuð við 1. júlí 1992 en þá taka gildi lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.