Ferill 489. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 489 . mál.


997. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 49/1974, um Lífeyrissjóð sjómanna, sbr. lög nr. 10/1978, nr. 15/1980, nr. 48/1981 og nr. 78/1985.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Á allra síðustu dögum þingsins fékk nefndin til umfjöllunar breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna. Breytingartillögurnar eru komnar frá stjórn sjóðsins vegna þeirrar slæmu stöðu sem sjóðurinn stendur frammi fyrir. Breytingarnar eru margar og má þar nefna að verið er að bæta stöðu sambýliskvenna sjómanna, en sjóslys sl. vetrar leiddu í ljós að úrbóta var þörf. Veigamestu breytingarnar fela þó í sér að örorkulífeyrir til sjóðfélaga og lífeyrir til barna þeirra verður skertur verulega. Að sjálfsögðu fá þessir hópar áfram bætur úr tryggingakerfinu, en það breytir ekki því að í allmörgum tilfellum verður um verulega skerðingu að ræða. Af hálfu sjóðsins er um neyðarúrræði að ræða þar sem útstreymi úr sjóðnum er meira en þær greiðslur sem til hans renna. Sú breyting, sem hér er verið að gera, dugir þó hvergi nærri til að bæta stöðuna, enda eru fleiri aðgerðir til umræðu.
     Það er mjög brýnt að taka stöðu lífeyrissjóðanna í landinu til rækilegrar athugunar, enda ljóst að margir þeirra munu standa frammi fyrir miklum erfiðleikum á næstu árum, auk þess sem réttindi fólks eru afar misjöfn. Málefni Lífeyrissjóðs sjómanna þarfnast sérstakrar endurskoðunar, enda hefur hann um margt sérstöðu. Sjóslys og vinnuslys eru því miður allt of algeng hér við land sem veldur því að miklar bætur eru greiddar úr lífeyrissjóðum sjómanna. Þá má nefna að sjómenn geta hafið töku lífeyris 60 ára að aldri. Það þarf að kanna í samráði við andstandendur sjóðsins hvort ekki eigi að afnema lögin um sjóðinn þannig að hann falli undir þann lagaramma sem gildir um flesta lífeyrissjóði landsins. Þannig væri það fyrst og fremst á valdi sjóðstjórnar og eigenda sjóðsins að ráða stefnunni í stað þess að þurfa að leita til Alþingis á tímum mikilla breytinga og vanda sem blasir við sjóðnum.
     Þær breytingar, sem frumvarpið um Lífeyrissjóð sjómanna gerir ráð fyrir, snerta afar viðkvæm mál þar sem um afkomu fjölda einstaklinga og fjölskyldna er að ræða. Á þessum vetri hafa sjómenn orðið fyrir verulegum áföllum, annars vegar vegna aflasamdráttar, hins vegar vegna margfaldra árása ríkisstjórnarinnar á kjör þeirra. Samdráttur í tekjum sjómanna gerir Lífeyrissjóði sjómanna að sjálfsögðu erfiðara að standa við skuldbindingar sínar. Undirrituð draga ekki í efa að sjóðstjórn þarf að grípa til aðgerða, en þar sem málið hefur fengið afar litla umfjöllun í nefnd og ekki hefur gefist ráðrúm til að ræða við samtök sjómanna eða þá sem málið snertir treysta undirritaðir nefndarmenn sér ekki til að bera ábyrgð á afgreiðslu þessa máls og munu því sitja hjá við afgreiðslu þess.

Alþingi, 16. maí 1992.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Steingrímur J. Sigfússon.


frsm.