Ferill 138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 138 . mál.


159. Frumvarp til laga



um breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 73/1984.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
     Í lögum þessum merkja orðin:
     Fjarskipti: Það sem nefnt er „Télécommunication“ í alþjóðafjarskiptasamningum (nú Convention Internationale des Télécommunications, Nice 1989) og þýðir hvers konar sending og móttaka tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum með rafsegulöldum (radio) eða öðrum rafsegulkerfum eða með sjónmerkjum.
     Almennt fjarskiptanet: Innviðir fyrir almenn fjarskipti sem gera kleift að flytja merki milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða með öðrum rafsegulaðferðum.
     Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um fjarskiptanet með fjarskiptaaðferðum, öðrum en hljóðvarpi og sjónvarpi.
     Talsímaþjónusta: Þjónusta, seld almenningi, sem fólgin er í beinum rauntímaflutningi á tali um almenna sjálfvirka netið eða netin þannig að hver notandi getur notað búnað tengdan við tengipunkt á netinu til að hafa samband við annan notanda búnaðar sem tengdur er við annan tengipunkt.
     Nettengipunktur: Allar efnislegar tengingar og tækniforskriftir varðandi aðgang að þeim sem eru hluti af almenna fjarskiptanetinu og nauðsynlegar fyrir aðgang og skilvirk fjarskipti um viðkomandi net.
     Notendabúnaður: Búnaður ætlaður til að tengjast almennu fjarskiptaneti, þ.e.:
    er ætlað að vera beint tengdur við nettengipunkt almenns fjarskiptakerfis eða
    er ætlað að virka með almennu fjarskiptaneti beint eða óbeint tengdur við nettengipunkt á netinu í þeim tilgangi að senda, meðhöndla eða taka á móti upplýsingum.
Tenging getur verið með rafþræði, örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.
     Grunnþjónusta: Fjarskiptaþjónusta sem gefur kost á flutningi merkja milli þeirra staða þar sem skil eru milli nets og notanda.
     Virðisaukandi þjónusta: Fjarskiptaþjónusta þar sem bætt er við grunnþjónustu þáttum sem auka verðmæti þjónustunnar.

2. gr.


    2. gr. laganna orðast svo:
     Ríkið hefur einkarétt á að veita talsímaþjónustu á Íslandi og í íslenskri landhelgi og lofthelgi og að eiga og reka almennt fjarskiptanet. Póst- og símamálastofnunin annast framkvæmd þessa einkaréttar.
    Samgönguráðherra getur heimilað aðilum með staðfesturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins, EES, að reka ákveðna tegund fjarskiptaþjónustu, aðra en talsímaþjónustu, að uppfylltum skilyrðum sem sett verða fyrir viðkomandi þjónustu.
     Póst- og símamálastofnuninni er heimilt að selja sérhverja tegund fjarskiptaþjónustu og búnað að uppfylltum sömu skilyrðum og gilda gagnvart öðrum aðilum.
     Ráðherra getur heimilað einstökum mönnum, félögum eða stofnunum að stofna og reka fjarskiptanet, þó ekki í atvinnuskyni, er varðar þau fjarskipti sem kveðið er á um í 1. mgr.
     Samgönguráðherra setur skilyrði fyrir leyfisveitingu. Þau skulu vera hlutlæg, skýr og þannig að gætt verði jafnræðis. Rökstuðningur skal fylgja synjun leyfisumsóknar.
     Ekki þarf sérstakt leyfi til að veita virðisaukandi þjónustu sem er í samræmi við reglugerð sem samgönguráðherra setur.
     Fjarskipti, sem ekki fara um fjarskiptavirki ríkisins, þegar eingöngu er um að ræða boð eða upplýsingar innan húsakynna heimilis, fyrirtækis eða stofnunar, svo sem í sjúkrahúsum, gistihúsum, skólum eða verksmiðjum, falla sem slík ekki undir ákvæði laga þessara.

3. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
     Hver sá, sem flytur inn eða smíðar búnað er tengja á við almennt fjarskiptanet, skal fyrir fram fá yfirlýsingu Fjarskiptaeftirlits ríkisins um að hver og ein tegund eða gerð tegundar búnaðar eða hlutar hans uppfylli þær tæknikröfur sem gilda þar um.
     Þeir sem annast uppsetningu og aðra tækniþjónustu fjarskiptavirkja skulu hafa til þess tilskilin réttindi samkvæmt reglugerð er ráðherra setur.

4. gr.


    6. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra getur mælt svo fyrir að íslensk skip, loftför og önnur farartæki séu búin fjarskiptavirkjum og setur hann nánari reglugerð þar um.
     Fjarskiptaeftirlit ríkisins gefur út leyfisbréf til handa þeim aðilum sem með sérstökum lögum eða alþjóðasamþykktum hafa fengið leyfi til eða eru skyldugir til að halda uppi fjarskiptum á ákveðnum sviðum. Í leyfisbréfum skal kveðið á um tæknilega eiginleika fjarskiptavirkja í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir, svo sem um tíðni og útgeislað afl.
     Fjarskiptaeftirlit ríkisins hefur eftirlit með starfsemi þessara fjarskiptavirkja.

5. gr.


    Í stað 7.–9. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi:

    a. (7. gr.)
    Fjarskiptaeftirlit ríkisins starfar undir yfirstjórn samgönguráðherra. Fjarskiptaeftirlit ríkisins annast útgáfu leyfisbréfa, eftirlit með gerð búnaðar og lögboðuðum tækniforskriftum, úthlutun tíðna og eftirlit með skilmálum um notkun. Samgönguráðherra setur gjaldskrá fyrir þjónustu Fjarskiptaeftirlits ríkisins.

    b. (8. gr.)
    Samgönguráðherra setur, að fengnum tillögum Póst- og símamálastofnunar, gjaldskrá fyrir þjónustu sem stofnunin hefur einkarétt á.
     Við ákvörðun gjalda í samkeppnisgreinum fjarskiptaþjónustu skal taka mið af kostnaði.

    c. (9. gr.)
    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd fjarskiptamála, eftirlit með þeim og annað er þar að lýtur. Honum er heimilt að setja reglugerðir á sviði fjarskipta að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þess annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið.

6. gr.


    17. gr. laganna orðast svo:
     Í leyfisbréfum, er Fjarskiptaeftirlit ríkisins gefur út skv. 6. gr. laga þessara, skal leggja á starfsmenn fjarskiptavirkja sem leyfisbréfið hljóðar um sams konar skyldur sem á starfsmönnum fjarskiptavirkja ríkisins hvíla eftir 15. og 16. gr., enda varða brot á þeim skyldum sömu viðurlögum og brot starfsmanna fjarskiptavirkja ríkisins. Sama gildir um þá sem fá réttindi til uppsetningar og tengingar fjarskiptavirkja skv. 3. gr.

7. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Gerð frumvarpsins.
     Frumvarp þetta er samið á vegum nefndar um endurskoðun á lögum um fjarskipti, nr. 73/1984, sem samgönguráðherra skipaði 27. apríl 1992. Verkefni nefndarinnar er tvíþætt. Annars vegar vinnur hún að heildarendurskoðun laganna en hins vegar hefur hún tekið saman í þessu frumvarpi þær breytingar á fjarskiptalögum sem nauðsynlegt er að lögfesta vegna ákvæða í samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Í nefndinni eiga sæti Þórhallur Jósepsson, deildarstjóri í samgönguráðuneyti, formaður, Eyjólfur Valdimarsson verkfræðingur, Guðmundur Gunnarsson rafiðnfræðingur, Haukur Hauksson verkfræðingur, Jón Kristinn Valdimarsson tæknifræðingur, Þorvarður Jónsson verkfræðingur, Jónas Fr. Jónsson lögfræðingur og Ragnhildur Hjaltadóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneyti. Starfsmaður nefndarinnar er Bergþór Halldórsson verkfræðingur.

2. Meginreglur er leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði og varða fjarskipti.
    Með samningi um Evrópskt efnahagssvæði, EES, hafa EFTA-ríkin, þar á meðal Ísland, fallist á að taka inn í löggjöf sína ýmsar samþykktir Evrópubandalagsins, EB, um fjarskipti. Einna mikilvægastar þeirra samþykkta eru tilskipun um samkeppni á sviði fjarskiptaþjónustu, nr. 90/388, og tilskipun um að koma á frjálsum aðgangi að fjarskiptanetum, nr. 90/387. Meginmarkmið þessara samþykkta er að veita íbúum innan EES fjölbreyttari og betri fjarskiptaþjónustu á sem hagkvæmustu verði.
     Innan Evrópubandalagsins hefur verið unnið markvisst að því að auka samkeppni á sviði fjarskipta allt frá útgáfu svokallaðrar „grænbókar“ sem framkvæmdastjórn bandalagsins stóð að á árinu 1987. Í grænbókinni er áætlun bandalagsins um þróun innri markaðar fyrir fjarskiptaþjónustu lýst og er stefnt að því að hún nái fram að ganga fyrir árslok 1992. Áætlunin tekur ekki til farsíma- og boðkerfis né heldur fjölmiðlunar, svo sem hljóðvarps og sjónvarps. Með áætluninni stefnir EB að því að bæta fjarskipti innan bandalagsins, enda er það talin forsenda fyrir samstilltri þróun atvinnulífs og samkeppnisfærum markaði í bandalaginu, bæði frá sjónarmiði þeirra sem veita þjónustu og þeirra sem njóta hennar. Áætlunin miðar að því að tækniframfarir á sviði fjarskipta komi að fullum notum innan EB.
     Með EES-samningnum ná helstu atriði framangreindrar áætlunar einnig til EFTA-ríkjanna. Frelsi á sviði fjarskiptaþjónustu mun því aukast verulega í þeim ríkjum og á svæðinu öllu. Má búast við að á allra næstu árum muni samkeppni verða innleidd á öllum sviðum fjarskiptaþjónustu nema talsímaþjónustu, farsímum, gervihnattaþjónustu, fjarritun (telex) og rekstri grunnnetsins. Áðurnefndar tilskipanir EB fela auk þess í sér að aðgangur að hinu opinbera neti og þjónustu verði samræmdur innan svæðisins. Raunar má búast við að í framtíðinni muni samkeppni verða innleidd á einhverju þeirra sviða sem tilskipanir EB ná ekki til. Þannig má benda á að þótt einkaréttur á talsímaþjónustu sé viðurkenndur innan EES má reikna með breytingum í því efni, m.a. með tilkomu samnetsins, ISDN (Integrated Services Digital Network), þar sem ekki verður skilið á milli talsíma- og gagnaflutnings. Þá má gera ráð fyrir að væntanleg löggjöf EB muni auka frelsi á sviði farsíma- og gervihnattaþjónustu. Nokkur ríki hafa reyndar nú þegar heimilað fleiri en einum aðila að reka stafrænt farsímakerfi, GSM, t.d. Þýskaland, Bretland, Frakkland, Noregur, Svíþjóð og Finnland. Í sem stystu máli leiðir af ákvæðum EES-samningsins að meginreglur á sviði fjarskiptamála innan svæðisins verði eftirfarandi:

2.1. Rekstur grunnnetsins.
     Viðurkenndur er áframhaldandi einkaréttur símastjórna á uppbyggingu og rekstri grunnnetsins. Ef aðildarríki kýs að hafa annan hátt á ber því engu að síður að tryggja að netið uppfylli kröfur sem gerðar eru til þess með tilliti til almannahags, t.d. að því er varðar heildstæði fjarskiptanetsins, rekstraröryggi og fjarskiptaleynd.

2.2. Grunnþjónusta.
     Einkaréttur símastjórna er viðurkenndur á talsímaþjónustu. Stafar þetta öðru fremur af fjárhagslegum ástæðum. Símastjórnum er yfirleitt ætlað að setja upp og reka almennt net, þ.e. net sem nær um landið allt og hver þjónustuaðili eða notandi, sem þess óskar, fær aðgang að innan hæfilegs tíma. Fjármagn til þróunar netsins kemur að mestu frá rekstri talsímaþjónustunnar. Samkeppni á því sviði gæti stofnað fjárhagsgrundvelli rekstraraðila grunnnetsins í hættu. Þá koma hér til álita sjónarmið er tengjast almannaöryggi þar sem talsímaþjónustan gegnir lykilhlutverki.

2.3. Önnur fjarskiptaþjónusta.
     Samkeppni verður innleidd á öll önnur svið fjarskiptaþjónustu en talsímaþjónustu, fjarrita, farsíma, boðkerfi og gervihnattaþjónustu. Þess má geta að í EES-samingnum er viðurkennt að Íslendingar geti sett það skilyrði fyrir ákveðinni þjónustu að aðili veiti þá þjónustu sína um allt land eða á takmarkaðra landsvæði.

2.4. Aðgangur að grunnnetinu.
     Þeim sem veita fjarskiptaþjónustu verður tryggður greiður og jafn aðgangur að grunnnetinu. Ekki má mismuna aðilum innan EES eftir þjóðerni. Þessu marki verður m.a. náð með því að mynda svokallaðan „opinn aðgang“ að netum fyrir öll aðildarríki með samræmingu á sviði tækni, notkunar og gjaldtöku. Samræmingin leiðir m.a. til gagnkvæmra viðurkenninga á prófunum og samþykktum fyrir notendabúnað og sameiginlegra staðla fyrir fjarskiptaþjónustu.

2.5. Notendabúnaður.
     Notendabúnaður er gefinn frjáls og er háður tegundaprófunum. Jarðstöðvar til móttöku á sjónvarpsefni um gervitungl munu síðar væntanlega lúta sömu reglum og notendabúnaður.

2.6. Aðskilnaður eftirlits og rekstrar.
     Mikilvægt ákvæði þessa samkomulags á sviði fjarskipta mælir fyrir um aðskilnað fjarskiptaeftirlits, t.d. leyfisveitingar, eftirlit með tegundaprófunum og úthlutun tíðna, og rekstrar símastjórna. Slíkt eftirlit verður falið annarri stofnun eða óháðum aðila. Símastjórnum verður heimilað að taka þátt í samkeppni á þeim sviðum fjarskiptaþjónustu sem verða gefin frjáls.

2.7. Stöðlun.
     Samhliða þessum breytingum hefur m.a. á vegum EB, Staðlastofnunar Evrópu og Evrópusamtaka símastjórna verið unnið að gerð staðla fyrir fjarskipti og upplýsingatækni, enda er samræming á þessu sviði nauðsynleg til að tryggja opinn markað sem lýtur lögmálum frjálsrar samkeppni.

2.8. Farsímar.
     Auk framangreinds eru nokkrar samþykktir EES-samningsins sem koma til með að hafa töluverð áhrif á fjarskiptaþjónustu í framtíðinni. Má þar sérstaklega nefna opnun á nýjum stafrænum farsíma á 900 MHz tíðnisviðinu, svokallað GSM-kerfi. Með því er stefnt að því að hafa sömu gerð farsíma á öllu svæðinu. Hér á landi er nú rekið svokallað NMT-kerfi, en væntanlega verður hið nýja kerfi einnig tekið í notkun hér eins og reyndar er verið að gera annars staðar á Norðurlöndum.
3.    Meginefni frumvarpsins.
    
Framangreindar meginreglur um fjarskiptamál innan EES gera það að verkum að nauðsynlegt er að breyta lögum nr. 73/1984, um fjarskipti. Samkvæmt gildandi lögum fer Póst- og símamálastofnunin með víðtækan einkarétt ríkisins á fjarskiptum og eru undanþáguheimildir fáar. Einkaréttur ríkisins nær þó ekki til notendabúnaðar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að einkaréttur ríkisins verði þrengdur verulega og nái framvegis eingöngu til talsímaþjónustu og til að eiga og reka almennt fjarskiptanet. Önnur þjónusta á sviði fjarskipta verður háð leyfum samgönguráðherra þar sem skilyrði verða að vera hlutlæg, skýr og þannig að gætt sé jafnræðis. Póst- og símamálastofnuninni er heimilt að veita þá þjónustu en verður að uppfylla sömu skilyrði og aðrir. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir heimild samgönguráðherra til að setja reglugerð um virðisaukandi þjónustu er tengist hinu almenna fjarskiptaneti og þurfa veitendur slíkrar þjónustu ekki að sækja um sérstakt leyfi enda uppfylli þeir ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt reglum um frjálsan aðgang að fjarskiptanetum innan EES má ekki mismuna fyrirtækjum eftir þjóðerni heldur verður að tryggja jafnræði þeirra að því er snertir aðgang að fjarskiptaþjónustu. Öll skilyrði verða því að hvíla á hlutlægum, almennum og skýrum grundvelli þar sem tryggt er að ekki sé verið að takmarka samkeppni eða misnota yfirburðastöðu fjarskiptafyrirtækis á tilteknum markaði.
     Ákvæði EES-samningsins taka ekki til ákveðinna fjarskipta, en eins og áður var rakið er þar um að ræða fjarrita, farsíma, boðkerfi og gervihnattaþjónustu. Þá ná samþykktir EB ekki til fjölmiðlunar, þ.e. flutnings hljóð- og sjónvarpsefnis í fjarskiptanetum. Ríkjum innan EES er þá í sjálfsvald sett hvort þau viðhalda einkaleyfi er tekur til þeirra þjónustusviða. Í Danmörku var farin sú leið að heimila veitingu einkaleyfa á þessum sviðum, en þó þannig að samgönguráðherra landsins er jafnframt heimilað að opna fyrir samkeppni enda hafi sérstök lög verið sett er heimili samkeppni á viðkomandi sviði. Þessi varnagli er sleginn í samræmi við líkur á því að áfram verði haldið á braut aukins frelsis og samkeppni í fjarskiptaþjónustu innan EB. Í þessu frumvarpi er hins vegar farin sú leið að láta einkarétt ríkisins einvörðungu ná til talsímaþjónustu og hins almenna fjarskiptanets. Framkvæmdin verður þá einfaldari og auðveldara að bregðast við auknum kröfum um samkeppni. Einkaréttur ríkisins verður skýr og vel afmarkaður á þeim sviðum þar sem líklegt er að einkaréttur ríkisins verði um alllangt skeið viðurkenndur innan EES. Á hinn bóginn verður Póst- og símamálastofnun heimilt að veita sérhverja tegund fjarskiptaþjónustu að uppfylltum sömu skilyrðum og gilda gagnvart öðrum aðilum. Einkaréttur Póst- og símamálastofnunar á framangreindri grunnþjónustu ætti og að nægja til að tryggja fjárhagslegan grundvöll stofnunarinnar þannig að hún geti á hverjum tíma boðið upp á öruggt fjarskiptanet sem er undirstaða samkeppni á öðrum sviðum fjarskipta.
     Samkvæmt gildandi lögum um fjarskipti fer Póst- og símamálastofnun bæði með eftirlitshlutverk er varðar fjarskipti og atvinnurekstur. Slík samþætting felur í sér margvíslegar hættur á hagsmunaárekstrum og misnotkun. Með tilkomu EES-samningsins verður nauðsynlegt að greina þarna á milli og því er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að ný stofnun, Fjarskiptaeftirlit ríkisins, taki við hinu opinbera eftirlitshlutverki sem Póst- og símamálastofnun hefur gegnt fram til þessa. Fjarskiptaeftirlit ríkisins verður sjálfstæð stofnun undir yfirumsjón samgönguráðherra. Reyndar hafa fyrstu skrefin þegar verið stigin í þessa átt með því að sjálfstæði eftirlitsins hefur verið aukið með skipun sérstakrar stjórnar fjarskiptaeftirlits þar sem eiga sæti, auk fulltrúa Póst- og símamálastofnunar, fulltrúar samgönguráðuneytis og notenda þjónustunnar. Frumvarpið felur í sér að Fjarskiptaeftirlit ríkisins annist útgáfu leyfisbréfa, hafi með höndum eftirlit með gerð búnaðar og lögboðuðum tækniforskriftum, úthluti tíðnum og annist önnur slík mál.
     Frumvarpið felur þannig í sér að breytingar verði gerðar á þeim ramma sem stjórnvöld hafa sett starfsemi á sviði fjarskiptaþjónustu til samræmis við breytta tíma. Markmiðið er að stuðla að fjölbreyttari fjarskiptaþjónustu á sem lægstu verði en tryggja um leið öryggi þjónustunnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein eru orðskýringar. Fjarskipti eru skýrð með sama hætti og í eldri lögum en aðrar skýringar eru flestar samhljóða skýringum í samþykktum Evrópubandalagsins um fjarskipti, þ.e. í þessu tilviki tilskipun um samkeppni á sviði fjarskiptaþjónustu, nr. 90/388, og tilskipun um að koma á frjálsum aðgangi að fjarskiptanetum, nr. 90/387.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að einkaréttur ríkisins á annarri fjarskiptaþjónustu en talsímaþjónustu annars vegar og stofnun og rekstri almenns fjarskiptanets hins vegar verði afnuminn. Gert er ráð fyrir að settar verði reglugerðir fyrir sérhverja tegund þjónustu sem ráðherra veitir heimild fyrir. Í þessum reglugerðum geta auk tæknilegra skilyrða t.d. verið ákvæði um að þjónustuaðili veiti þjónustu sína á afmörkuðu svæði og eins gæti verið um að ræða takmörkun á fjölda þeirra sem fá rekstrarleyfi á viðkomandi svæði. Einnig gæti verið þar um að ræða skilyrði um að tiltekin þjónusta nái til landsins alls. Gert er ráð fyrir að sett verði reglugerð um virðisaukandi þjónustu en að skilmálum hennar uppfylltum þurfi ekki sérstakt rekstrarleyfi. Síðasta málsgreinin er 2. mgr. 1. gr. í núverandi lögum óbreytt.

Um 3. gr.


    Þessi grein fjallar um notendabúnað. Efnislegar breytingar eru þær frá núverandi lögum að fellt er niður ákvæði um að Póst- og símamálastofnuninni sé skylt að hafa til sölu allan almennan notendabúnað. Einnig er fellt niður ákvæði um skyldur innflytjenda til að hafa varahluti og viðhaldsþjónustu fyrir seldan búnað. Ákvæði í gildandi lögum um málskot vegna synjunar á innflutningsleyfum fyrir notendabúnað er fellt niður þar sem hér eftir verður viðurkenning búnaðar í verkahring Fjarskiptaeftirlits ríkisins en ekki Póst- og símamálastofnunar.

Um 4. gr.


    Breyting á 6. gr. er einungis fólgin í því að Fjarskiptaeftirlit ríkisins tekur við þeirri útgáfu leyfisbréfa og því eftirliti sem Póst- og símamálastofnun hefur nú með höndum. Gert er ráð fyrir að Fjarskiptaeftirlit ríkisins taki til starfa þegar við gildistöku þessara laga.

Um 5. gr.


    Breytingar á 7. gr. fela í sér að sjálfstæð stofnun, Fjarskiptaeftirlit ríkisins, verði sett á stofn og taki við tilteknum verkefnum af Póst- og símamálastofnun. Í 8. gr. er fjallað um gjaldskrá en ákvæði um gjaldskrá fyrir þjónustu, sem Póst- og símamálastofnun hefur einkarétt á, er óbreytt. Nýtt ákvæði bætist við og varðar gjaldskrá fyrir samkeppnisþjónustu. Í 9. gr. er lagt til að lögfest verði heimild fyrir samgönguráðherra til þess að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd fjarskiptamála, svo og þær samþykktir og gerðir er tengjast EES-samningnum og varða fjarskipti. Lagt er til að það ákvæði, sem nú er í 8. gr. um heimild til breytinga og endurbóta á fjarskiptavirkjum ríkisins, falli niður þar sem óþarft er að taka slíkt fram í lögum. Á sama hátt er ekki talin þörf á því að hafa í lögunum heimildarákvæði til að leyfa undanþágu frá afnotagjaldi fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.

Um 6. gr.


    Í 17. gr. laganna breytist Póst- og símamálastofnun í Fjarskiptaeftirlit ríkisins í samræmi við fyrri breytingar.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.