Ferill 266. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 266 . mál.


408. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um eftirlit með sveitarstjórnum.

    Hvernig er hagað eftirliti því sem ráðuneytinu er falið að hafa með sveitarstjórnum skv. 118. gr. sveitarstjórnarlaga?
    Í 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að rétti sveitarfélaga til að ráða sjálf málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skuli skipað með lögum og í 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um þennan sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga en þar segir m.a. að sveitarfélög stýri sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð. Á grundvelli 76. gr. stjórnarskrárinnar er félagsmálaráðuneytinu falið í 1. mgr. 118. gr. sveitarstjórnarlaga að hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum. Þetta eftirlit félagsmálaráðuneytisins er m.a. fólgið í úrskurðarvaldi í ágreiningsmálum sem upp koma við framkvæmd sveitarstjórnarmála, sbr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga, staðfestingu á samþykktum sveitarfélaga um stjórn og fundarsköp, sbr. 7. og 49. gr. sömu laga, eftirliti með fjárhagsstöðu/afkomu sveitarfélaga á grundvelli ársreikninga þeirra, sbr. 88. gr. sömu laga, svo og fjármálum almennt þegar sveitarfélag kemst í alvarlega fjárþröng, sbr. 90. gr. sömu laga. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið má vera ljóst að löggjafinn ætlast ekki til að félagsmálaráðuneytið hafi afskipti af einstökum málefnum sveitarfélaga nema til þess gefist sérstakt tilefni. Í þessu sambandi má nefna sem dæmi að kæra berist ráðuneytinu þess efnis að sveitarstjórn hafi ekki farið löglega að við ákvörðunartöku á sveitarstjórnarfundi eða að sveitarstjórn óski staðfestingar á samþykkt sinni um stjórn og fundarsköp.

    Eru einhverjar þær skyldur sem lagðar eru á sveitarstjórnir samkvæmt sveitarstjórnarlögum eða með öðrum löglegum fyrirmælum undanþegnar eftirlitshlutverki ráðuneytisins og ef svo er hvaða skyldur eru það og hvers vegna?
    Eins og þegar hefur komið fram er meginreglan skv. 76. gr. stjórnarskrárinnar sú að sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð en jafnframt er gert ráð fyrir að stjórnsýsla sveitarfélaganna sé innan almenns lagaramma og að ríkisvaldið hafi eftirlit með henni. Samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, fer félagsmálaráðuneytið með þetta eftirlit, sbr. og 1. mgr. 2. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986. Í samræmi við stjórnarskrárákvæðið hefur löggjafinn ákveðið hvaða málefni skuli heyra undir sveitarfélög. Sú regla verður leidd af stjórnarskrárákvæðinu að sveitarstjórnir skuli sjálfar taka ákvarðanir um þau málefni sem þeim eru falin í lögum og að ríkisvaldið geti ekki hróflað við efni slíkra ákvarðana nema til þess sé skýr lagaheimild. Gildir þetta jafnt um þau verkefni sem sveitarfélögum eru falin samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem og þau verkefni sem sveitarfélögum eru falin samkvæmt öðrum lögum.
    Um skyldur sveitarfélaga er að finna fyrirmæli í fjölda laga og heyra þau lög undir valdsvið hinna ýmsu ráðuneyta. Í þeim tilvikum er litið svo á að eftirlitshlutverkið sé fyrst og fremst í höndum hlutaðeigandi ráðuneytis. Virði sveitarstjórn hins vegar að vettugi fyrirmæli frá ráðuneyti um að sinna tilteknum lagaskyldum gæti komið til kasta félagsmálaráðuneytisins, verði eftir því leitað, á grundvelli 118. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar.

    Í hvaða lögum öðrum en sveitarstjórnarlögum eru að mati ráðuneytisins lagðar skyldur á sveitarstjórnir og í hverju eru þær skyldur fólgnar?
    Í 6. gr. sveitarstjórnarlaga segir að sveitarfélögum sé skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum. Í 6. mgr. 6. gr. þeirra laga er gerð grein fyrir helstu verkefnum sveitarfélaga sem þeim eru falin samkvæmt öðrum lögum en sveitarstjórnarlögum. Upptalningin nær til 13 málaflokka og er hún þó ekki tæmandi.
    Þessir málaflokkar eru: félagsmál, atvinnumál, menntamál, húsnæðismál, skipulags- og byggingarmál, almannavarnir og öryggismál, hreinlætismál, heilsugæsla, menningarmál, íþróttir og útivera, landbúnaðarmál, byggingar og viðhald mannvirkja, og ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir almennt atvinnuleysi og bjargarskort.
    Undir félagsmál falla m.a., framfærslumál, aðstoð við aldraða og fatlaða, barnaverndarmál, varnir gegn notkun vímugjafa, rekstur dagvista fyrir börn, rekstur dvalarheimila aldraðra, rekstur heimilishjálpar. Um skyldur sveitarfélaga varðandi þennan málaflokk er fjallað í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, lögum um málefni aldraðra, nr. 82/1989, lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, lögum um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, áfengislögum, nr. 82/1969, og lögum um leikskóla, nr. 48/1991.
    Undir atvinnumál falla m.a. atvinnuleysisskráning og vinnumiðlun. Um skyldur sveitarfélaga í þeim efnum er fjallað í lögum um vinnumiðlun, nr. 18/1985.
    Undir menntamál falla m.a. bygging og rekstur skóla og tónlistarfræðsla. Um skyldur sveitarfélaga í þeim efnum er fjallað í lögum um grunnskóla, nr. 49/1991, og lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, sbr. lög nr. 87/1989.
    Undir húsnæðismál fellur m.a. bygging verkamannabústaða, bygging leiguíbúða sveitarfélaga og útrýming heilsuspillandi húsnæðis. Um skyldur sveitarfélaga í þeim efnum er fjallað í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, með síðari breytingum.
    Undir skipulags- og byggingarmál fellur m.a. gerð aðal- og svæðaskipulags, framkvæmd byggingarlaga og byggingareftirlit. Um þessar skyldur sveitarfélaga er fjallað í skipulagslögum, nr. 19/1964, og í byggingarlögum, nr. 54/1978.
    Undir almannavarnir og öryggismál falla m.a. eldvarnir og eldvarnaeftirlit, staðbundnar almannavarnir og varnir gegn slysum. Um skyldur sveitarfélaga í þessum efnum er fjallað í lögum um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992, lögum um almannavarnir, nr. 94/1962, og t.d. lögum um varnir gegn snjóflóðum, nr. 28/1985, svo og í umferðarlögum, nr. 50/1987.
    Undir hreinlætismál falla m.a. sorphreinsun og sorpeyðing, holræsalagnir og skolpeyðing, heilbrigðiseftirlit og meindýraeyðing. Um skyldur sveitarfélaga í þessum efnum er m.a. fjallað í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, og X. kafla vatnalaga, nr. 15/1923.
    Undir heilsugæslu falla heilsugæslustöðvar og sjúkrastofnanir, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990.
    Undir menningarmál fellur m.a. rekstur bókasafna og annarra safna og rekstur félagsheimila. Um skyldur sveitarfélaga í þessum efnum má finna ákvæði í lögum um almenningsbókasöfn, nr. 50/1976, þjóðminjalögum, nr. 88/1989, og lögum um félagsheimili, nr. 107/1970, með síðari breytingum.
    Undir íþróttir og útivera falla m.a. bygging og rekstur íþróttavalla og íþróttahúsa, rekstur fólkvanga og annarra útivistarsvæða. Um skyldur sveitarfélaga er m.a. fjallað í íþróttalögum, nr. 49/1956, með síðari breytingum, og lögum um náttúruvernd, nr. 47/1971, með síðari breytingum.
    Undir landbúnaðarmál fellur m.a. forðagæsla, eyðing refa, minka og vargfugls, svo og fjallskilamál. Um skyldur sveitarfélaga í þessum efnum er að finna ákvæði í lögum um búfjárhald, nr. 46/1991, lögum um eyðingu refa og minka, nr. 52/1957, með síðari breytingum, lögum um eyðingu svartbaks, nr. 50/1965, með síðari breytingum, og lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, með síðari breytingum.
    Undir bygging og viðhald mannvirkja fellur m.a. lagning gatna/gangstétta, uppbygging og rekstur veitukerfis vatnsveitu og hafnir. Um skyldur sveitarfélaga í þessum efnum er m.a. að finna ákvæði í lögum um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, og hafnalögum, nr. 69/1984.
    Undir ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir almennt atvinnuleysi og bjargarskort falla t.d. ákvæði laga um Bjargráðasjóð, nr. 51/1972.
    Eins og þessi upptalning ber með sér er ógerningur í svari við fyrirspurn á Alþingi að gera í smáatriðum grein fyrir hinum margvíslegu skyldum sveitarfélaga. Af þeim sökum er látið nægja að vísa í heild sinni til laga sem kveða á um skyldur þessar. Ástæða er til að geta þess hér að á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið gefin út lögbók sveitarstjórna 1992 þar sem safnað hefur verið saman gildandi lögum er varða sveitarfélögin almennt, en tilgangurinn með þessari útgáfu er einmitt sá að auðvelda sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga leit að þeim lögum sem þeir þurfa oftast á að halda í störfum sínum.
    Í fylgiskjali er yfirlit yfir þær nefndir sem sveitarstjórnum ber að kjósa lögum samkvæmt. Í því sambandi er rétt að geta þess að ekki hvíla ætíð sömu skyldur á bæjarstjórn annars vegar og hreppsnefnd hins vegar. Enn fremur getur það ráðist af aðstæðum í sveitarfélaginu hvort skylt er að kjósa í nefnd eða ekki, t.d. hvort framhaldsskóli er í sveitarfélaginu eða hver er fjöldi íbúa í sveitarfélagi.




Fylgiskjal.


Sveitarstjórn er skylt að kjósa í eftirtaldar nefndir:
     Byggðarráð. Þrír, fimm aðalfulltrúar í sveitarstjórn, sem aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 55. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 49/1990.
     Skoðunarmenn. Tveir aðalmenn og jafnmargir til vara, skv. 84. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.
     Kjörstjórn(ir) við alþingiskosningar. Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara, skv. 10. gr. laga nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis. (Bæjarstjórn.)
        (Hverfiskjörstjórnir jafnmargar og kjörstaðir eru: Þrír aðalmenn í hverja og jafnmargir varamenn). (Bæjarstjórn.)
        (Undirkjörstjórnir jafnmargar og kjördeildir eru: Þrír aðalmenn í hverja og jafnmargir varamenn). (Bæjarstjórn.)
         Undirkjörstjórn við alþingiskosningar. Tveir aðalmenn (hreppstjóri sjálfkjörinn formaður) og þrír til vara skv. 10. gr. laga nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis. (Hreppsnefnd.)



    Almannavarnanefnd. Einn, tveir aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 8. gr. laga nr. 94/1962, um almannavarnir, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1985. (Miðast við íbúafjölda.)
     Áfengisvarnanefnd (sé verkefni hennar ekki falið félagsmálanefnd/ráði). Tveir, sex aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 30. gr. áfengislaga, nr. 82/1969.
     Barnaverndarnefnd (sé verkefni hennar ekki falið félagsmálanefnd/ráði). Þrír, fimm (sjö) aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 6. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966.
     Byggingarnefnd. Þrír, fimm (sjö) aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 6. gr. byggingarlaga, nr. 54/1978.
     Félagsmálanefnd/ráð. Þrír (fimm, sjö) aðalmenn og jafnmargir til vara, skv. 5. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.
        (Heimilt er að fela félagsmálanefnd/ráði verkefni barnaverndarnefndar samkvæmt lögum nr. 53/1966, sbr. og 32. gr. laga nr. 40/1991, verkefni áfengisvarnarnefndar skv. lögum nr. 82/1969, sbr. og 50. gr. laga nr. 40/1991, verkefni leikskólanefndar skv. lögum nr. 48/1991, sbr. og 33. gr. laga nr. 40/1991, verkefni húsaleigunefndar skv. lögum nr. 44/1979, sbr. og 49. gr. laga nr. 40/1991. Sjá einnig ákvæði 7. gr., 55. gr. og 56. gr. laga nr. 40/1991.)
     Gróðurverndarnefnd (sé verkefni hennar ekki falið umhverfismálaráði). Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 19. gr. laga um landgræðslu, nr. 17/1965, sbr. 28. gr. laga nr. 108/1988. (Bæjarstjórn.)
     Hafnarstjórn. Þrír, fimm aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 9. gr. hafnalaga, nr. 69/1984.
     Heilbrigðisnefnd. (Kosning fulltrúa í nefndina fer skv. 6. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.)
     Húsaleigunefnd (sé verkefni hennar ekki falið félagsmálanefnd/ráði). Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 76. gr. laga nr. 44/1979, um húsaleigusamninga. (Bæjarstjórn.)
     Jafnréttisnefnd.  . . .  aðalmenn og jafnmargir til vara samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991. (Miðast við íbúafjölda.)
     Kjörstjórnir við sveitarstjórnarkosningar. Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara í kjörstjórn (yfirkjörstjórn) skv. 23. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.
        (Hverfiskjörstjórn. Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara. Hverfiskjörstjórnir geta verið jafnmargar og kjörstaðir.) (Bæjarstjórn.)
        (Undirkjörstjórn. Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara. Undirkjörstjórnir skulu vera jafnmargar og kjördeildir í bæ/kaupstað. Heimilt að kjósa síðar.) (Bæjarstjórn.)
     Leikskólanefnd (sé verkefni hennar ekki falið félagsmálanefnd/ráði) . . .  aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 5. gr. laga nr. 48/1991, um leikskóla.
     Náttúruverndarnefnd (sé verkefni hennar ekki falið umhverfismálaráði). Þrír (fimm eða sjö) aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 3. gr. náttúruverndarlaga, nr. 47/1971, sbr. 62. gr. laga nr. 108/1988. (Bæjarstjórn.)
     Skólanefnd grunnskóla.  . . .  aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 19. gr. laga nr. 49/1991, um grunnskóla.
     Skólanefnd framhaldsskóla. Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 7. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla, sbr. 4. gr. laga nr. 72/1989. (Tilnefning.)
     Skólanefnd tónlistarskóla (hafi skólanefnd grunnskóla ekki verið falið verkefni hennar)  . . .  aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 2. gr. laga nr. 75/1985, um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla.
     Stjórn sparisjóðs. Einn, tveir, þrír (fimm) aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 21. gr. laga nr. 87/1985, um sparisjóði, sbr. 2. gr. laga nr. 34/1989.
     Stjórn bókasafns.  . . .   aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 7. gr. laga nr. 50/1976, um almenningsbókasöfn, og reglugerð nr. 138/1978.
     Stjórn heilsugæslustöðvar. Einn, tveir eða þrír aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 21. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990. (Tilnefning.)
     Stjórn sjúkrahúss. Einn, tveir eða þrír aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 30. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu. (Tilnefning.)
     Stjórn veitustofnana /stjórn hitaveitu /stjórn rafveitu /stjórn vatnsveitu.  . . .  aðalmenn og jafnmargir til vara samkvæmt orkulögum, nr. 58/1967, lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, og reglugerðum settum á grundvelli þessara laga.
     Húsnæðisnefnd. Þrír, fjórir aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 56. gr. laga nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, sbr. lög nr. 70/1990 og reglugerð nr. 46/1991. (Miðast við íbúafjölda.)
     Stjórnarnefnd vinnumiðlunar. Þrír (fimm) aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 9. gr. laga nr. 18/1985, um vinnumiðlun.
     Umferðarnefnd.  . . .  aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 2. mgr. 116. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. (Miðast við íbúafjölda.)
     Einn búfjáreftirlitsmaður eða fleiri og jafnmargir til vara skv. 9. gr. laga nr. 46/1991 um búfjárhald.
     Fulltrúaráð Brunabótafélags Íslands. Einn aðalmaður og annar til vara skv. 5. gr. laga nr. 9/1955, um Brunabótafélag Íslands, sbr. 12. og 13. gr. laga nr. 108/1988. (Bæjarstjórn.)
     Öldrunarnefnd. Þrír, fimm aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 5. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra.
     Einn úttektarmaður og tveir til vara skv. 39. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976. (Tilnefning.)