Ferill 548. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 548 . mál.


908. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Vilhjálmur Egilsson.



I. KAFLI


Breyting á lögum nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum.


1. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
     Á eftir 31. gr. laganna (laga nr. 75/1981) kemur ný grein er verður 31. gr. A með fyrirsögninni Niðurfærsla eigna, svohljóðandi:
     Stofnkostnað við kaup á framleiðslurétti í landbúnaði má færa niður með jöfnum fjárhæðum á fimm árum.
     Eftirtaldar eignir er heimilt að færa niður á því ári sem þær myndast:
    Stofnkostnað, svo sem kostnað við skráningu fyrirtækis og öflun atvinnurekstrarleyfa.
    Kostnað við tilraunavinnslu, markaðsleit, rannsóknir og öflun einkaleyfis og vörumerkja.
     Niðurfærsla samkvæmt grein þessari er heimil til frádráttar í fyrsta skipti á því ári þegar eignanna er aflað eða lagt er í kostnað þeirra vegna. Við sölu eigna skv. a- og b-liðum 2. mgr. telst söluverð þeirra að fullu til tekna á söluári að frádregnum þeim hluta sem ekki hefur verið færður niður. Um söluhagnað framleiðsluréttar í landbúnaði, sbr. 1. mgr., fer eftir 14. gr.

2. gr.


    Ákvæði 1. gr. gilda um álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1994 vegna tekna á árinu 1993 og eigna í lok þess árs. Þó skal skattaðila heimilt að miða gildistöku við álagningu á árinu 1993 vegna tekna á árinu 1992 enda geri hann þá ekki kröfur á hendur ríkissjóði vegna hugsanlegrar íþyngjandi afturvirkni ákvæða 1. gr.

II. KAFLI


Breyting á lögum nr. 36/1991.


3. gr.


    B-liður ákvæðis til bráðabirgða í 7. gr. laganna orðast svo:
     Við sölu til ríkissjóðs á fullvirðisrétti í sauðfjár- og mjólkurframleiðslu á tímabilinu 1. maí 1991 til 31. desember 1993 skal skattaðila þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 14. gr. heimilt að telja sem söluhagnað 20% söluverðs í stað söluhagnaðar skv. 2. mgr. þessarar greinar.
     Skattaðilar skv. 1. mgr., sem hafa leigt fullvirðisrétt sinn Framleiðnisjóði landbúnaðarins eða orðið að sæta niðurskurði á sauðfé samkvæmt opinberum fyrirmælum, skulu undanþegnir skilyrði 3. málsl. 4. mgr. 14. gr. um aðalstarf.

4. gr.


    Ákvæði 3. gr. öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt í því skyni að breyta til fyrra horfs ákvæðum laga nr. 111/1992 þar sem kveðið er á um að ýmis stofnkostnaður sé einungis gjaldfæranlegur á fimm árum. Áður var þessi stofnkostnaður gjaldfæranlegur á því ári sem til hans stofnaðist.
    Enn fremur er í frumvarpinu lagt til að þau nýmæli, sem upp voru tekin í lögum nr. 111/1992 um gjaldfærslu stofnkostnaðar vegna kaupa á framleiðslurétti í landbúnaði, geti gilt um viðskipti á árinu 1992. Jafnframt er lagt til að framlengt verði bráðabirgðaákvæði nr. 36/1991 sem gildir um þvingaða sölu á framleiðslurétti í sauðfjárrækt til ríkissjóðs þannig að það nái ótvírætt til þeirrar þvinguðu sölu á fullvirðisrétti sem kom til eftir 31. ágúst 1992, auk þess sem þetta ákvæði taki til þvingaðrar sölu til ríkissjóðs á fullvirðisrétti í mjólkurframleiðslu.
    Í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar á frumvarpi til laga um breytingar í skattamálum, sem síðar varð að lögum nr. 111/1992, var gerð tillaga um breytingar á ákvæði um skattalega meðferð stofnkostnaðar án þess að það væri ásetningur nefndarinnar. Því er eðlilegt að þessu verði aftur breytt til fyrra horfs.
    Í umræðum í nefndinni um hið sama frumvarp kom einnig fram vilji til að taka af skarið um skattalega réttarstöðu viðskipta með framleiðslurétt í landbúnaði og því lagði nefndin til þær breytingar sem síðan voru samþykktar um það efni í 4. gr. laga nr. 111/1992. Í framhaldi af samþykkt laganna hafa komið fram óskir frá fulltrúum bænda um að þetta ákvæði geti átt við um viðskipti á árinu 1992 og var tillaga þar um m.a. samþykkt á nýloknu búnaðarþingi.
    Að vísu má benda á að þessi aðferð geti hugsanlega orðið íþyngjandi afturvirkt þar sem deilumál um skattalega meðferð viðskipta með fullvirðisrétt í landbúnaði hafa verið fyrir dómstólum. Þar er tekist á um hvort fara skuli með stofnkostnað vegna kaupa á fullvirðisrétti eins og kaup á landi og þau séu þá ekki gjaldfæranleg eða hvort þessi kostnaður eigi að vera gjaldfæranlegur á kaupári. Ríkisskattstjóri hefur haldið fram fyrra sjónarmiðinu en ríkisskattanefnd hélt fram hinu síðara. Ef sjónarmið ríkisskattanefndar verður ofan á fyrir dómstólum mundi fimm ára reglan, sem samþykkt var í lögum nr. 111/1992, verða íþyngjandi afturvirkt. Þrátt fyrir þennan möguleika hefur búnaðarþing tekið þá afstöðu að bændur ættu að geta notað fimm ára regluna í viðskiptum á árinu 1992. Í frumvarpinu er því opnað á fimm ára regluna vegna viðskipta á árinu 1992, enda séu þá ekki síðar gerðar kröfur á hendur ríkissjóði reynist niðurstaða dómstóla leiða til þess að þetta ákvæði frumvarpsins verði óhagstæðara fyrir viðkomandi skattaðila.
    Við gerð búvörusamningsins árið 1991 og afgreiðslu laga nr. 36/1991 var samþykkt ívilnandi meðferð á tekjum af þvingaðri sölu á framleiðslurétti í sauðfjárframleiðslu til ríkissjóðs. Þetta ákvæði náði fyrst og fremst til niðurfærslu og sölu framleiðsluréttar haustið 1991. Síðan liggur fyrir að sams konar þvinguð niðurfærsla kom til haustið 1992 bæði í sauðfjárframleiðslu og mjólkurframleiðslu. Eðlilegt er að skattaleg ívilnun vegna þvingaðrar sölu á framleiðslurétti til ríkissjóðs gildi áfram og nái bæði til framleiðslu sauðfjár og mjólkur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er fjallað um niðurfærslu stofnkostnaðar vegna kaupa á framleiðslurétti í landbúnaði í viðskiptum milli aðila. Þetta er samhljóða ákvæði gildandi laga. Í 2. mgr. er kveðið á um breytingu til fyrra horfs á afskrift stofnkostnaðar vegna markaðsleitar, tilraunavinnslu, skráningar fyrirtækis o.s.frv.
    3. mgr. þessarar greinar er efnislega samhljóða ákvæðum gildandi laga.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er fjallað um gildistöku laganna. Þar kemur m.a. fram að skattaðili, sem nýtir sér fimm ára regluna, afsalar sér rétti til að gera kröfu á hendur ríkissjóði ef niðurstaða dómstóla gerir þetta ákvæði íþyngjandi.

Um 3. gr.


    Grein þessi er samhljóða gildandi lögum að öðru leyti en því að gildistíminn er annar og ákvæðið tekur bæði til framleiðslu sauðfjár og mjólkur en ekki einungis til sauðfjár.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.