Ferill 495. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 495 . mál.


1196. Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Finns Ingólfssonar um sambýli fyrir geðfatlaða.

     Hvað líður uppbyggingu sambýla fyrir geðfatlaða?
    Eins og kunnugt er tóku ný lög um málefni fatlaðra gildi 1. september 1992. Í lögunum eru tekin af tvímæli um rétt geðfatlaðra til þjónustu en eldri lög þóttu ekki tryggja þennan rétt með afgerandi hætti. Jafnframt er kveðið á um sérstakt átak í uppbyggingu þjónustu í þágu geðfatlaðra, sbr. ákvæði um Framkvæmdasjóð fatlaðra í lögunum.
    Frá gildistöku hinna nýju laga hafa svæðisskrifstofur í málefnum fatlaðra sérstaklega látið málefni geðfatlaðra til sín taka. Fyrst í stað hefur vinna á þeirra vegum yfirleitt beinst að því að afla gagna um þjónustuþörf geðfatlaðra á svæðunum jafnframt því sem skrifstofurnar hafa undirbúið það sérstaklega að veita þessum hópi fatlaðra þjónustu með því að afla sér nauðsynlegrar fræðslu og þekkingar.
    Sérstaklega er spurt um uppbyggingu sambýla fyrir geðfatlaða. Sambýli eru samkvæmt lögum um málefni fatlaðra einn valkostur í búsetuúrræðum þeirra. Nú eru starfrækt tvö sambýli fyrir geðfatlaða samkvæmt lögunum, annað á Akureyri en hitt í Reykjavík. Ljóst er að þörf er á að fjölga sambýlum. Hins vegar er ekki síður þörf fyrir annars konar búsetuúrræði fyrir geðfatlaða og er þá einkum átt við félagslegar íbúðir með nauðsynlegri stoðþjónustu (heimaþjónustu og liðveislu). Ný viðhorf í málefnum fatlaðra hafa einkum falist í áherslu á síðastnefnda atriðið svo sem sjá má í hinum nýju lögum, sbr. ákvæði laganna um húsnæðismál og Framkvæmdasjóð. Af þeim ástæðum hefur af hálfu félagsmálaráðuneytisins verið lögð megináhersla á að kanna hvort ekki sé unnt að ná mestum árangri með sérstöku átaki í uppbyggingu félagslegra íbúða fyrir geðfatlaða ásamt stoðþjónustu. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að taka höndum saman við sveitarfélög við framkvæmdina þar sem þeim er skylt að veita geðfötluðum heimaþjónustu auk þess sem þau eru stærstu framkvæmdaraðilar að byggingu félagslegra íbúða. Í þessu skyni ritaði félagsmálaráðherra borgarstjóranum í Reykjavík bréf 23. nóvember sl. og óskaði eftir samstarfi við Reykjavíkurborg „til þess að bæta úr óöryggi geðfatlaðra viðvíkjandi búsetu þeirra“ eins og segir í bréfinu.
    Á fundi með borgarstjóranum í Reykjavík í upphafi þessa árs var ákveðið að fela aðstoðarmanni félagsmálaráðherra ásamt félagsmálastjóranum í Reykjavík að vinna að framhaldi þessa máls. Hafa þeir átt samstarf við svæðisskrifstofu Reykjavíkur í málefnum fatlaðra, landlæknisembættið og Geðhjálp um framkvæmd málsins. Jafnframt hafa átt sér stað viðræður við geðlækna um málið. Þetta undirbúningsstarf er nú á lokastigi. Um er að ræða hugmyndir um að keyptar verði 15–20 íbúðir fyrir geðfatlaða fyrir 25–30 einstaklinga og að Reykjavíkurborg annist heimaþjónustu en frekari liðveisla yrði veitt af svæðisskrifstofu Reykjavíkur. Veitt yrði fjármagn úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til kaupa á íbúðunum samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, en íbúðirnar yrðu að öðru leyti fjármagnaðar úr Byggingarsjóði verkamanna samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun. Rétt er að taka fram að stjórn Framkvæmdasjóðs fatlaðra hefur yfir að ráða fjárupphæð til að fjármagna fyrirhuguð íbúðakaup þegar ákvarðanir liggja fyrir.
    Samkvæmt framansögðu hefur verið ákveðið að leggja mesta áherslu á það búsetuform sem álitið er að henti geðfötluðum best og komi best til móts við þarfir þeirra með hliðsjón af núverandi aðstæðum. Engu að síður verður leitast við að koma á fót fleiri sambýlum fyrir geðfatlaða eftir því sem fé fæst til á fjárlögum.