Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 239 . mál.


274. Frumvarp til laga


um breytingu á samkeppnislögum, nr. 8 25. febrúar 1993.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)


1. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skipar fimm menn í samkeppnisráð og jafnmarga til vara. Skulu þeir hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum. Ráðherra skipar formann og varaformann ráðsins. Samkeppnisráð setur sér reglur um málsmeðferð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir 2. mgr. 6. gr. lýkur skipunartíma starfandi samkeppnisráðs við gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Þann 25. febrúar 1993 voru samþykkt ný lög, samkeppnislög, nr. 8/1993, sem leystu af hólmi lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, nr. 56/1978.
    Í áliti frá 30. ágúst 1993 (mál nr. 806/1993) komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að þrír af fimm aðalmönnum samkeppnisráðs uppfylltu ekki það almenna hæfisskilyrði til setu í samkeppnisráði að vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem samkeppnislögin taka til. Í álitinu beindi umboðsmaður því til viðskiptaráðherra að taka það til athugunar hvort leggja bæri til við Alþingi að endurskoða orðalag þessarar hæfisreglu. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til á 1. mgr. 6. gr. hefur viðskiptaráðherra ákveðið að verða við þessum tilmælum.
    Í tilvitnuðu áliti umboðsmanns Alþingis segir m.a.:
    „Almennar hæfisreglur, sem settar eru til að draga úr líkum á hagsmunaárekstrum, geta verið mjög áhrifaríkar og stuðlað að auknu réttaröryggi. Hins vegar verður að gæta þess að sú hætta getur fylgt mjög ströngum hæfisskilyrðum að þeir sem mesta þekkingu og reynslu hafa á hlutaðeigandi sviði verði útilokaðir frá því að gegna opinberu starfi.“
    Ljóst þykir að hið stranga hæfisskilyrði 1. mgr. 6. gr. útilokar fjölmarga hæfa og reynslumikla menn frá setu í samkeppnisráði. Því er lagt til að orðalagið „að vera óháður fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til“ falli niður.
    Hvað varðar þá sem ráðherra skipar í samkeppnisráð eru tilgreindir þeir kostir sem þeir verða að hafa til að bera, þ.e. sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum. Með þessu er átt við alhliða þekkingu á grundvelli menntunar eða reynslu. Gert er ráð fyrir að þeir ráði yfir fjölbreyttri þekkingu á ýmsum sviðum atvinnulífsins, m.a. á sviði lögfræði, hagfræði, fjármála og neytendamála. Að sjálfsögðu er þess ekki krafist að hver og einn uppfylli öll þessi skilyrði.
    Samkvæmt þeim breytingum sem hér eru lagðar til eru almennar hæfiskröfur samkeppnisráðsmanna gerðar mun skýrari án þess þó að hæfisskilyrðin séu það ströng að þau útiloki menn með reynslu og þekkingu á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins.
    Áréttað skal að hér er eingöngu fjallað um almennt hæfi manna til setu í samkeppnisráði. Ekki verða því breytingar á öðrum ákvæðum laganna um almennt hæfi, svo sem 2. mgr. 9. gr. þar sem almenn hæfisskilyrði fyrir setu í áfrýjunarnefnd samkeppnismála koma fram, né heldur ákvæðum um sérstakt hæfi.
    Í 2. mgr. 50. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, og í 3. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er fjallað um sérstakt hæfi, þ.e. hæfi til meðferðar einstaks máls og kunna ráðsmenn í einstökum tilvikum að vera vanhæfir á grundvelli þessara ákvæða.
    Lagt er til að tekið verði upp það nýmæli í lokamálslið 1. mgr. 6. gr. að samkepnisráð setji sér reglur um málsmeðferð. Þó verður að gera ráð fyrir ákveðnum umþóttunartíma í þessu sambandi á meðan venjur skapast í afgreiðslu mála fyrir ráðinu. Verður að telja aukið réttaröryggi felast í ákvæði sem þessu enda afar mikilvægt fyrir einstaklinga eða lögaðila sem samkeppnisráð fjallar um að fyrir liggi reglur um málsmeðferð. Með tilliti til sjálfstæðis samkeppnisráðs, sem fer ásamt Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd með daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til, þykir eðlilegt að samkeppnisráðið sjálft setji sér málsmeðferðarreglurnar.