Ferill 298. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 298 . mál.


430. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99 8. september 1993.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    72. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir önnur ákvæði laga þessara veitir landbúnaðarráðherra heimild til innflutnings á landbúnaðarvörum í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
    Nú heimilar ráðherra innflutning landbúnaðarvara og er honum þá heimilt að leggja á þann innflutning verðjöfnunargjöld til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara í samræmi við 3. mgr.
    Ráðherra ákveður með reglugerð á hvaða landbúnaðarvörur, þar með taldar unnar vörur sem innihalda landbúnaðarhráefni, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, skuli leggja verðjöfnunargjöld við innflutning. Verðjöfnun á unnum vörum miðast við þátt landbúnaðarhráefna í verði þeirra. Ráðherra ákveður upphæð gjaldanna. Sér til ráðuneytis skal ráðherra skipa nefnd þriggja manna, einn án tilnefningar, annan tilnefndan af fjármálaráðherra og hinn þriðja tilnefndan af viðskiptaráðherra. Nefndin skal afla upplýsinga um verð sem álagning gjaldanna miðist við en jafnframt tryggja nauðsynlegt samráð milli ráðuneyta þannig að þess sé gætt að samanlögð álagning innflutningsgjalda sé innan þeirra marka sem skilgreind eru í lögum eða milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Náist ekki samkomulag í nefndinni skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda.

2. gr.


    73. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að endurgreiða verðjöfnunargjöld við útflutning á vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni. Ráðherra ákveður með reglugerð þær vörur sem verðjöfnun tekur til og hver endurgreiðslan skuli vera.
    Sama nefnd og um ræðir í 3. mgr. 72. gr. skal vera ráðherra til ráðuneytis um ákvörðun verðjöfnunar við útflutning.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í tengslum við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert og varða m.a. verslun með landbúnaðarafurðir. Þar eð ekki liggur endanlega fyrir hvaða lagabreytingar eru nauðsynlegar til að geta uppfyllt þær skuldbindingar sem felast í væntanlegum GATT-samningi var ákveðið að frekari endurskoðun á innflutningsákvæðum búvörulaganna eigi sér stað á árinu 1994 með hliðsjón af þeim samningi.
    Í 1. gr. frumvarpsins segir að landbúnaðarráðherra veiti heimild til innflutnings í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum. Þetta ákvæði er nýmæli og er fyrst og fremst tekið mið af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en er jafnframt nauðsynlegt til að unnt sé að uppfylla fríverslunarsamninga sem búið er að gera eða unnið er að.
    Landbúnaðarráðherra fær jafnframt heimild til að leggja verðjöfnunargjöld á innfluttar búvörur, unnar sem óunnar. Hann skal þó við ákvörðun gjaldanna hafa sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna skipaða fulltrúum fjármálaráðherra, landbúnaðarráðherra og viðskiptaráðherra. Þá er ákvæði um að ráðherra skuli bera ágreiningsefni upp í ríkisstjórninni áður en ákvörðun er tekin um upphæð gjaldanna.
    Í 2. gr. frumvarpsins er veitt heimild til að endurgreiða verðjöfnunargjöld við útflutning á vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni eins og gert er ráð fyrir í bókun 3 með EES-samningnum.